Einn af hlýjustu aprílmánuðum

Það er ekki hægt að segja annað en þessi einkennilegi apríl endi á  ótrúlegan hátt. Nú er heilmikill snjór í Reykjavík og þar er dagurinn kaldasti dagur mánaðarins. Meðalhiti dagsins er undir einu stigi sem er þó í sjálfu sér ekki slæmt sem kaldasti dagur heils aprílmánaðar. Á Raufarhöfn var þetta hins vegar hlýjasti dagur mánaðarins með meðalhita í kringum ellefu stig sem væri ágætur hásumardagur hvar sem er á landinu. Á Seyðisfirði var 18 stiga hámarkshiti.  

Má þetta allt furðu gegna. 

Hvernig sem menn vilja dæma þennan mánuð á höfuðborgarsvæðinu er hann eigi að síður í röð með allra hlýjustu aprílmánuðum á landinu. Og alls staðar vel yfir meðallagi. Að mínu bráðbirgðatali er hann svipaður að hita og 1955. Hann er sem sagt eitthvað í kringum sjöundi eða áttundi hlýjasti apríl. En þarna í röðinni munar litlu á mánuðum og talan fyrir þennan apríl er ekki viss. Ekki má því taka þetta of hátíðlega. Samt alltaf gaman að spá í sögulega viðburði og ég þori reyndar næstum því að hengja mig upp á það að mánuðurinn er í það minnsta meðal tíu hlýjustu aprílmánaða á landinu sem hér má lesa um.

Hann er fyrst og fremst hlýr austan og norðan til á landinu, líklega yfir 6 stig í Hornafirði og um 5,6 stig á Akureyri. Þetta virðist jafnvel vera næst hlýjasti apríl bæði á Teigarhorni og í Grímsey.

Úrkoman í Reykjavík er sú næst mesta sem mæld hefur verið í apríl en metið er 149,9 mm árið 1921. Í dag hefur verið mikil úrkoma en hún telst til 1. maí. Annars væri komið nýtt úrkomumet.

Loftþrýstingur er líklega með því allra lægsta sem mælst hefur í apríl. 

Já og var svo ekki helvítis rok alla daga?

Gaman verður að sjá lokauppgjörið fyrir þennan furðulega mánuð.  

Í fyrrmálið verður líklega alhvít jörð í Reykjavík. Það hefur ekki gerst í maí síðan árið 1993. Mest snjódýpt í borginni í maí er 17 cm frá þeim fyrsta 1987. Það væri óskemmtilegt ef það met verður slegið.  Og hvað verður þá um blessuð blómin og börnin?
 
En er annars ekki hitabylgja handað við hornið - eins og hamingjan!
 
Fylgiskjalið sýnir örfáa af leyndardómum þessa mánaðar! 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband