16.5.2011 | 17:47
Köldustu júnímánuðir
1882 (5,8) Þetta er talinn kaldasti júní á öllu landinu, 2,3 stig undir meðallaginu 1961-1990. Hann var þó fyrst og fremst kaldur fyrir norðan, en líka við Breiðafjörð og á Ströndum. Á þessu svæði var hann kaldasti júní sem þekkist, en á svæðinu frá sunnanveðrum austfjörðum til suðvesturlands var hann ekki alveg sá kaldasti. Kuldinn fyrir norðan við sjónn var með hreinum ólíkindum. Í Grímsey var hitinn eitt til tvö stig um hádaginn fyrstu fimm dagana en næstu fimm daga um eða undir frostmarki og frost var kvölds og morgna alveg fram í miðjan mánuð og stundum snjóaði. Eftir miðjan mánuð komu fjórir skammlausir dagar og var hitinn jafnvel tólf stig í eyjunni þ. 19. kl. 14. Í Stykkishólmi voru næturfrost öðru hvoru fram í miðjan mánuð og snjóaði jafnvel stöku sinnum. Þann 10. var þar eins stigs hiti kl. 14 og hámarkshiti 2,2 stig. Ofurlítið hlýnaði þar líka um tíma eftir miðjan mánuð eins og í Grímsey. Tíu til þrettán stiga hámarkshiti var í Hólminum dagana 18. til 20. En von bráðar kom aftur mikið kuldakast og var jörð öll alhvít á norðurlandi á Jónsmessu. Ekki bætti úr skák að júníkuldarnir fyrir norðan héldu áfram í júlí og ágúst sem einnig slógu öll kuldamet norðanlands og á þetta sumar þar sér enga hliðstæðu. Sérstaklega var kalt við sjóinn. Aftur á móti var tiltölulega mildara inn til landsins og á Grímsstöðum á Fjöllum var þetta ekki kaldasti júní, meðalhitinn var 5,1 stig. (Þetta var reyndar eini júní sem mældur var á staðnum á 19. öldinni). Frá þeim 25. var þokkalega hlýtt á suður og vesturlandi til mánaðarloka en svalviðri voru oftast fyrir norðan og austan. Úrkoma var fremur lítil á suður og vesturlandi í þessum mánuði en úrkomusamt fyrir norðan og austan. Hitinn komst mest í 20,9 stig á Grímsstöðum. Kaldast varð -5,7 á Siglufirði.
Mikill hafís var við landið. Hann lá frá Straumnesi og svo austur um og allt að Breiðamerkursandi. Sérstaklega var ísinn mikill við Austfirði en hann var lausari í sér fyrir norðan. Seint í mánuðinum losnaði ísinn frá Austur-Skaftafellssýslu og rak svo smátt og smátt vestur og suður. Þessi mikli hafís hefur haft sitt að segja um kuldann fyrir norðan en á suðurlandi var miklu mildara og mismunur milli landshluta óvenjuega mikill. Þann 20. febrúar 1883 lýsti Norðanfari á Akureyri svo veðurfarinu í júní 1882.
Jún 1.-2. norðan hægur með þokulopti. 3. kyrrt og loptbert. 4.-11. norðan, opt austlægur, þjetthvass með þokulopti. 12. sunnan gola lítil og heiðríkt. 13. norðan hægur og heiðríkt. 14.- 15. norðan hægur og þokufullt. 16. -19. sunnan hægur, skýjað. 20. austan þjetthvass; þykkt lopt. 21. Norðaustan hvass með krapaskúrum. 22. til 28. norðan hægur með þokulopti; stundum skúrir. 29. kyrrt og skýjað. 30. sunnan hægur, skýjað. 3. daga af mánuðinum var frost, en 27 daga hiti. Mest frost að kvöldi hins 11. 2° C. Mestur hiti um hádegi hinn 30. 18° C.
Meðalhiti þessa mánaðar:
1885 (6,1) Ekki var kalt fyrsta daginn. Þá fór hitinn í Reykjavík í 10,6 stig. En næsta dag skall á hvöss norðanátt með feikilegum kulda. Þann sjötta mældist mesta frost sem mælst hefur í Reykjavík í júní, -2,4 stig (-2,0° þ. 5,) en næturfrost voru þar allar nætur frá þeim þriðja til sjötta. Hámarksihiti var aðeins fimm til sjö stig dagana 2.-9. Frost voru mikil um nær allt land þessa daga, t.d. -3,3 stig í Hreppunum og mest -5,2 á Raufarhöfn sem er kuldamet þar í júní. Frostdagar urðu sjö í mánuðinum á Eyrarbakka og í Hreppunum. Á síðar talda staðnum og í Vestmannaeyjum er þetta kaldasti júní sem mælst hefur. Ekki var mælt á þessum stöðum árin 1851 og 1867 þegar kaldast varð í Reykjavík en í Stykkishólmi var 1882 auðvitað kaldastur júnímánaða. Víða snjóaði og það jafnvel í Reykjavík þó ekki hafi snjóinn þar fest. Nokkrir hlýir dagar komu um miðjan mánuð og fór hitinn í 21 á Teigarhorni þ. 15. en svo kólnaði aftur. Síðustu vikuna voru þó suðlægar áttir með rigningu sunnanlands en fremur svölu veðri þar en fyrir austan var hlýtt og komst hitinn í 22,9 stig á Teigarhorni þ. 27. Í Reykjavík varð aldrei hlýrra en 12,5 stig og hefur mesti júníhiti þar aðeins einu sinni verið lægri, 12,2 stig, árið áður. Þrátt fyrir kuldann var ekki teljandi hafís við landið og tálmaði hann ekki siglingum. Í hafinu fyrir norðaustan land var einnig lítill ís. Kuldanæðingar héldu áfram alveg fram í júlí. Í mánaðarlok var enn allvíða ekki leyst snjó af túnum á austurlandi og frost og snjóar öðru hvoru og eins í Þingeyjarsýslum. Á vesturlandi kól tún jafnóðum af af þeim leysti. Kortið sýnir hæð 850 hPa flatarins í mánuðinum. Jónassen lýsti veðrinu í höfuðstaðnum í Ísafoldarblöðum:
Eptir að norðanáttin hætti 30. f. m. hefir stilling verið á veðri með hlýindum og síðustu dagana með hægri lognrigningu af suðri (31.1.). Í dag 2. er hann aptur genginn til norðurs, bálhvass til djúpanna, hægri hjer innfjarðar. (3. júní) - Þessa vikuna hetir haldizt sama norðanáttin með sífelldum kulda og náttfrosti; aðfaranóttina h. 8. gjörði hjer alhvítt seinni part nætur og haglhryðjur voru um morguninn; Esjan var alhvít, rjett eins og um hávetur. Í dag bjart sólskinsveður, logn hjer, norðan til djúpanna. Loptþyngdarmælir stendur hátt. (10.júní) - Um kveldið hinn 9. gekk veður til landsunnanáttar (Sa) og hefir verið við sömu átt þessa viku, optast hvass og með mikilli úrkomu dag og nótt, einkum var úrhellisrigning kveldið 13. Við og við hefir hann gengið í vestur-útnorður (Sv) með haglhryðjum; kalsi hefir verið mikill í loptinu. í dag Landsunnan (Sa) hvass með regni. (17.júní). - Alla vikuna hefir hann verið við norðanátt, optast hægur og bjartur, 21. gekk hann til landssuðurs (Sa) með regni; aðfaranótt h. 22. snjóaði í Esjuna og var hjer hvass fyrri part dags á vestan útnorðan, logn að kveldi. Í dag 23, norðvesan, hvass, dimmur; ýrði regn úr lopti stutta stund fyrri part dags. (24. júni) - Umliðna viku hefir optast verið við sunnan átt mqð talsverðri úrkomu en hægð á veðri, suddarigning. Í dag hægur á sunnan með sudda, dimmur mjög í morgun. (1. júlí).
1892 (6,2) Þetta er annar kaldasti júní í Grímsey og þriðji kaldasti á Akureyri en sá allra kaldasti á Teigarhorni við Berufjörð. Hafís hafði verið mikill um vorið, ekki síst við austfirði og fór hann ekki af Berufirði fyrr en 8. júní, nokkru síðar af Eskifirði en ekki fyrr en þ. 24. af Seyðisfirði. Kuldarnir voru miklir, mestir -3,8 stig í Grímsey þ. 1. og sama frost mældist einhvern daginn á Raufarhöfn. Varla hlánaði í Grímsey fyrstu fimm dagana og sums staðar snjóaði. Síðan snérist til suðaustanáttar og hlýnaði nokkuð en austan eða norðaustanátt varð á ný aftur algengust með kuldum fyrir norðan en björtu veðri og sæmilega hlýju fyrir sunnan. Svo ótrúlegt sem það hljómar voru frostdagar 22 í Grímsey og 19 á Raufarhöfn, 12 á Borðeyri og 9 á Teigarhorni. Hlýjast varð 19,2 stig á Akureyri. Merkilegt nokk fraus ekki á Akureyri en næstum því alls staðar annars staðar. Úrkoma var lítil nema á austfjörðum þar sem hún var nokkur í byrjun og enda mánaðarins en annars var þar alveg þurrt meginhluta mánaðarðarins. Á undan þessum mánuði fór sjöundi kaldasti maí. Kortið er af meðallagi 500 hPa flatarins. Svona var veðurlagið í Reykjavík í lýsingu Jónassens í nokkrum blöðum Ísafoldar:
Hefir verið á norðan en hægur undanfarna daga, lítið eitt hlýrri í gær og í dag. (4.júní) - Hinn 4. var hjer úrtæna, fagurt veður; logn. og dimmur með regnskúrum h. 5. Hvass á austan fyrir hádegi h. 6. gekk svo til landsuðurs með regnskúrum og h. 7. í suður, dimmur og vætulegur. Í dag (8) rjett logn, dimmur af suðri. Hlýindi nokkur síðustu dagana. (8. júní). - Hinn 8. var hjer bjart og fagurt veður h. 9. þoku-suddi fram undir hádegi er birti upp; suðvestankuldi, bjart veður fyrri part dags h .10. dimmur síðari partinn með úða. Í dag (11.) bjart veður; hvass á norðan í morgun. (11. júní). - Undanfarua daga hægð á veðri, kom væta úr lopti h. 14. og var þá suddarigning allan daginn af suðvestri. Í dag (15.) hægur á suðvestan. (15.júní) - Hægt og stillt veður undanfarna daga með talsverðum hlýindum og loptþyngdamælir hefur varla haggazt. (18. júni) - Sama hægð á veðri, opt rjett logn, sje gola, kemur hún úr vestri; í dag (22.) hægur á sunnan, sudda-rigning í nótt. (22.júní ) - Vestan, hægur, dimmur h. 22. bjartur á vestan h.23. og einnig hinn 24. og 25. (25. júní) - Ekki komu meiri veðurlýsingar í blaðinu um júní.
Hér verður að minnast á júní 1896 sem er sá ellefti kaldasti (7,0) en þá mældist sólarhringsúrkoman þ. 13. á Teigarhorni 108,1 mm sem þá var mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hafði á landinu og gerði mánuðinn þar að sjötta úrkomumesta júní (frá 1873).
1907 (6,3) Þetta er kaldasti júní á 20. öld. Aldrei hefur mælst kaldari júní á Úthéraði, þar sem mælt hefur verið frá 1898, 4,3 stig (meðallag 1961-1990 er 7,8) og ekki á Seyðisfirði frá 1907, 5,5, stig (meðalhiti 7,9). Á Teigarhorni er þetta þriðji kaldasti júni. Ekki var kuldinn í Grímsey þó alveg jafn napur og í köldustu júnímánuðum nítjándu aldar. Þar var að minnsta kosti aldrei frost kl. 14 síðdegis eftir íslenskum miðtíma þó næturfrost hafi verið hverja nótt til hins 11. Kaldast á landinu varð -6,1 stig á Stóranúpi í Hreppum en hlýjast 18,0 á Grímsstöðum á Fjöllum. Austlægar eða norðaustlægar áttir voru ríkjandi og mjög var þurrviðrasamt nema við suðurströndina. Aðeins fjórir úrkomudagar voru í Stykkishólmi þar sem þetta er fimmti úrkomuminnsti júní. Úrkomudagar voru þrír á Teigarhorni en 14 í Vestmannaeyjum. Kortið af 500 hPa fletinum í mánuðinum er ekki beint hlýlegt.
1975 (6,5) Kaldasti júní á síðari áratugum. Svo mikill var kuldinn í upphafi mánaðarins að fyrstu þrjá dagana var sólarhringsmeðalhitinn á Hallormsstað undir frostmarki! Á Akureyri var meðalhitinn þ. annan -0,6 stig og á hádegi var eins stigs frost. Daginn eftir var tveggja stiga frost á hádegi á Raufarhöfn. Í Reykjavík var meðalhitinn dagana 2.-4. dagshitamet í kulda að meðaltali. Hæð var yfir Grænlandi og norðaustanátt. Á norður-og austurlandi var nokkur snjókoma eða éljagangur en bjartviðri sunnanlands. Sólskin var mjög mikið í Reykjavík fyrstu sex dagana. Eigi að síður náði hitinn þar þann tíma aldrei tíu stigum fyrr en þ. 6. og þrjár nætur var næturfrost, mest -0,6 stig. Á Hólmi við Reykjavík fór frostið í -2,5 stig þ. 2. Á Þingvöllum voru sex frostnætur. Frost mældist á öllum stöðvum nema í Vestmannaeyjum, í Mýrdal og vestast á Reykjanesskaga. Kaldast varð -8,8 stig í Sandbúðum á Sprengisandi þ. 1. en í byggð -6,5 stig á Grímsstöðum þ. 4. Snjó festi á stöku stað í byggð fyrir norðan og austan og auk þess á hálendinu. Til dæmis var snjódýptin á Dalatanga 5 cm þ. 1. Hiti komst hvergi í tíu stig fyrstu fimm dagana á landinu og er það sannarlega sjaldgæft þegar komið er fram í júní.
Eftir þetta mikla kuldakast hlýnaði talsvert í nokkra daga með suðvestlægri átt og fór hitinn í 21 stig í Vopnafirði þ. 10. Þann tólfta kólnaði á ný en þó ekkert í líkingu við fyrstu vikuna en kuldatíð var þó alveg til hins 21. Ekki var mikil úrkoma en sólarlítið. Loks hlýnaði hinn 21. með sunnanátt sem hélst að mestu til mánaðarloka. Þann 27. komst hitinn í 20-21 sums staðar. Sólarlítið var í Reykjavík eftir fyrstu vikuna en um miðjan mánuð komu nokkrir svalir sólskinsdagar á vesturlandi en fáir eftir það. Einn og einn sólskinsdagur á stangli var annars staðar á landinu í mánuðinum en nokkrir komu síðustu dagana á norðausturlandi. Á sunnan og vestanverðu landinu voru rigningar talsverðar síðustu tíu dagana eða svo eftir að fór að hlýna. Úrkomudagar voru óvenju margir í flestum landshlutum og úrkomumagn var yfirleitt í meira lagi, einkum á suður-og vesturlandi. Vindar milli norðurs og suðvesturs og algengastir eins og kortið gefur til kynna.
Met lágmarkshiti í júní mældist mjög víða. Nefna má -3,9 stig á Hornbjargsviti þ. 1. og -3,0 á Gjögri og -4,8 á Hólum í Hjaltadal sama dag; -6,5 á Grímsstöðum þ. 4. og -3,5 sama dag, -0,8 í Vík í Mýrdal þ. 2. og -2,4 á Sámsstöðum og -3,0 á Eyrarbakka þann sama dag.
Í þessum kalda mánuði kom Svíakóngur í heimsókn þ. 10. og millilandaferjan Smyrill lagðist í fyrsta sinn að bryggju á Seyðisfirði. Í frægum fótboltaleik sigruðu Íslendingar A-Þjóðverja 2:1 á Laugardagsvellinum þ. 5. Meðan leikurinn fór fram var hitinn 4-5 stig og hefur það kannski haft sitt að segja um úrslitin! Sumarhitinn á þessum árum sunnanlands var hreinlega annar heimur en sá sem við höfum vanist síðasta áratug.
Meðalhiti þessa kaldasta júnímánaðar í minni núlifandi manna:
Í júní 1978 var óstöðug vestlæg átt ríkjandi og var mánuðrinn enn kaldari í Reykjavík en 1975, meðalhiti 7,8 stig, sá kaldasti þar síðan 1922, en fyrir norðan og austan var júní 1978 miklu mildari en 1975. Þetta er því ekki einn af köldustu júnímánuðum á landsvísu. Hámarkshiti í höfuðborginni var aðeins 13,2 stig sem er í lægsta lagi.
1886 (6,6) HafÍsinn var ekki alveg farinn fyrr en vika var af mánuðinum sem telst sá sjötti kaldasti. Víða á vötnum nyrðra var enn lagnaðarís í mánaðarbyrjun. Jörð var mjög kalin um margar sveitir. Frost og fjúk voru á norður og vesturlandi allan mánuðinn þó úr þeim drægi er líða tók á hann. Úrkoma var mikil, sérstaklega í fyrri helmingi mánaðarins. Í Vestmanneyjum voru 24 úrkomudagar. Mikil rigning var á austfjörðum kringum þ. 10. og síðustu dagana í Vestmannaeyjum en þá snjóaði í Grímsey eins og gert hafði þar annað slagið og hélt áfram fram í miðjan mánuð. Veður var oft umhleypingasamt og rysjótt. Loftþrýstingur var lágur yfir landinu eins og sést á kortinu sem sýnir hæð 850 hPa flatarins. Eina hlýndagusu gerði dagana 15.-20. en þó aðeins á austurlandi en þá var hryssingsleg suðvestanátt í höfuðstaðnum. Fór hitinn mest í 22,5 stig á Teigarhorni og yfir tuttugu stig þar í fjóra daga. Ekki gætti hitanna verulega fyrir norðan því á Akureyri fór hitinn aldrei hærra en í 19 stig. Kaldast í mánuðinum var -3,1 á Borðeyri. Jónassen fjallaði um veðrið í nokkrum tölublöðum Ísafoldar:
Í dag 1. júní er hægur vestan kaldi, bjart veður. (2. júní) - Þessa vikuna hefir optast verið við sunnanátt og rignt mikið með köflum; aðfaranótt h. 7. snjóaði þó efst í Esjuna (útsynningur í lopti). Siðustu dagana hefir hlýnað mikið í veðri og jörð tekið miklum framförum. Hinn 7.og 8. hægur landsynningur, allbjartur. (9. júní) - Fyrri part vikunnar var hjer sunnan- og austanátt með talsverðri rigninug ; 12. gekk hann i utanátt og hefir nú síðustu dagana verið á norðan. Í dag (15.) bjart norðanveður, hvass til djúpanna og hvass hjer eptir hádegi. (16. júní) - Alla vikuna hefir verið sunnanátt (ýmist suðaustan eða suðvestan), og hefir framan af vikunni rignt mikið með köflum, einkum sunnud. 20.; hafi tekið fyrir sól, hefir einlægur kalsi verið í lopti; síðustu dagana hefir verið útsynningur með brimhroða til sjávarins og ónotalegum kalsa. Í dag 22. hægur sunnan-útsunnan (sv) með brimhroða til sjávarins, dimmur upp yfir og kaldur, með skúrum. (23. júní) - Framan af vikunni var hægt norðanveður, bjartur en kaldur á hverri nóttu; sfðustu dagana hefir verið logn og í gær gekk hann til S með dimmviðri og ákafl. mikilli rigningu aðfaranótt h. 29. Í dag 29. dimmur á sunnan með rigningarskúrum. (30. júní).
1867 (6,6) Næst kaldasti júní í Reykjavík er sagður vera árið 1867 þegar meðalhitinn var talinn 6,4 stig en 7,6 í Stykkishólmi. Dálítið er samt erfitt að trúa því að svona mikilu kaldara hafi verið í Reykjavík heldur en í Stykkishólmi og er þetta eina dæmið um slíkt í júní en þetta ár voru mælingarnar í Reykjavík víst ekki sérstaklega góðar. Aðeins var mælt í Reykjavík og Stykkishólmi. Hafíshroði var að flækjast fram í júní á Húnaflóa, Skagafirði og Eyjafirði, síðast þann 22. inni á Eyjafjirði. Kaldar norðlægar eða norðaustlægar áttir voru fram undir miðjan mánuð með engri úrkomu í Stykkishólmi en eftir það sunnanátt með sæmilegum hlýindum og talsverðri rigningu.
Á áttunda tug nítjándu aldar komu þrír mjög kaldir júnímánuðir í röð frá 1875-1877 en samkvæmt mælingum á þeim veðurstöðvum sem þá og síðar voru í gangi, nær þó aðeins einn þeirra, 1877, að vera einn af hinum tíu köldustu.
1877 (6,8) Mánuðurinn hófst með afskaplega kaldri norðanátt. Hiti var um og undir frostmarki í Grímsey um hádaginn fyrstu átta dagana. Stundum snjóaði. Kaldast á landinu varð einmitt í Grímsey, ð12,2 stig í Grímsey þann fyrsta. Frostdagar voru 7 í eyjunni. Þessa daga var fremur bjart yfir vestanlands þó kalt væri. Frá þeim ellefta hlýnaði talsvert með suðlægum og síðar vestlægum og austlægum áttum. Komst hámarkshiti þá í Stykkishólmi flesta daga upp í tíu stig eða meira til mánaðarloka og síðustu fjórir dagarnir voru vel hlýir. Eftir sæmileg hlýindi í viku í Grímsey frá þ. 11. varð þar hálf kalt það sem eftir var mánaðar en nokkru skárra var á Teigarhorni. Á þeim sjö stöðvum sem mældu hámarkshita varð hann mestur 16,0 stig á Teigarhorni þ. 18 og einnig 16,0 í Hafnarfirði einhvern tíma í mánuðinum. Seinni helming mánaðarins var oft fremur bjart yfir á vesturlandi. Hafíshroði hafði verið fyrir norðurlandi um vorið en rak frá landi í byrjun júní. Úrkoma var kringum meðallag í Stykkishómi en lítil á Teigarhorni og þar voru úrkomudagar aðeins fimm. Ofsaveður gerði þ. 12. fyrir sunnan og vestan.
1973 (6,9) Júní þessi var sá fyrsti af þremur afar köldum júnímánuðum, ekki síst á suður og vesturlandi, sem komu, auk þessa mánaðar, árin 1975 og 1978. Þeir voru þó á margan hátt ólíkir. Norðanátt var yfirgnæfandi í þessum mánuði, norðægar og vestlægar áttir 1975 en vestlægar 1978. Þegar þessi mánuður kom var hann á suðurlandi víða sá kaldasti síðan 1922 (og einnig á landinu í heild fyrir utan 1952) en fyrir norðan var kaldara í júní 1952 og svipað 1946. Frægt kuldakast kom þann 10. um hvítasunnuna og hefur það verið kallað hvítasunnuhretið". Hitinn fyrir norðan á hádegi var eitt til tvö stig dagana 11.-12. Mest frost sem mælt hefur verið á Íslandi í júní mældist þ. 11. í Nýjabæ á hálendinu sunnan Eyjafjarðardals, -10,5 stig. Daginn áður mældist mesta frost sem mælst hefur í byggð í júní, -7,7 á Vöglum í Fnjóskadal. Frost mældist nær því alls staðar. Nokkur kuldamet fyrir júní voru sett, svo sem -1,9 stig á Dalatanga þ. 1., -3,7 á Hvanneyri og -6,9 á Hveravöllum þ. 11. en -6,3 stig á Staðarhóli, -6,0 á Brú á Jökuldal, -4,5 á Egilsstöðum og -4,5 stig á Hallormsstað þ. 10. Það sýnir kuldana þessa daga að hiti náði hvergi á landinu tíu stigum daganna 10.-12. um hádaginn þegar þessi næturfrost voru. Snjókoma var allvíða og jafnvel sunnanlands þó þar festi ekki snjóinn. Jörð varð aftur á móti alhvít á Sauðárkróki, Reyðará og Dalatanga. En auðvitað sáu sumir þennan vorkulda fyrir! Meðalhitinn í Reykjavík þ. 11. var aðeins 3,8 stig og hámarkið 6,8 stig og var þó mikið sólskin. Upp úr miðjum mánuði hlýnaði með sunnanátt og komst hitinn í 20,0 stig á Akureyri þ. 16. en hvergi annars staðar náði hitinn tuttugu stigum í þessum mánuði. Þolanlega hlýtt var svo til mánaðarloka en stundum úrkomusamt og rysjótt veður. Kortið sýnir frávik á þykktinni í þessum mánuði en því kaldara verður því minni sem hún er.
Nixon forseti Bandaríkjanna og Pompidou forseti Frakklands funduðu í Reykjavík í byrjun mánaðarins í glampandi sól en miklum kulda. Heimaeyjargosinu lauk þ. 26.
1952 (7,0) Þetta er kaldasti júní sem mælst hefur Grímsstöðum á Fjöllum frá upphafi mælinga 1907, 2,5 stig, og kaldari en hinn kaldi júní 1907 og miklu kaldari en 1882! Á Raufarhöfn var þetta einnig kaldasti júni sem þar hefur mælst 1885-1898 og frá 1921, 3,2 stig. Fyrstu vikuna var nánast vetrarveður. Él voru fyrir norðan og jafnvel einnig sunnanlands. Að morgni hins annars var snjódýpt 2 cm á Stórhöfða. Er það eina dæmið um snjó á jörðu að morgni á suðurlandi í júní frá stofnun Veðurstofunar 1920. Frostið fór niður í -5,9 stig í Möðrudal þ. 2. Kuldamet fyrir júní voru sett á Hólum í Hornafirði (frá 1924) -1,5 stig þ. 2. og Fagurhólsmýri -0,6 þ. 3. (1903-1912 og frá 1935). Snjó festi fyrir norðan og var hann 24 cm á Grímsstöðum mest alla fyrstu vikuna. Hitinn fór ekki í tíu stig í Reykjavík fyrr en þ. 9. þrátt fyrir það að margir daganna hafi verið afar sólríkir. Skammvinna sunnanátt með hlýrra veðri gerði þ. 8. en dagana 12. til 22. var stöðug norðanátt með dimmviðri á norðurlandi og stundum snjókomu. Bjart var þá á suður og vesturlandi og fór hitinn þar sums staðar í 17-18 stig en mest 19,5 í Síðumúla þ. 22. (Glaðasólskin var í Reykjavík 17. júní og 15 stiga hiti og liggur við að bloggarinn muni eftir stemningunni!). Eftir það var nokkur lægðagagnur með rigningu víða en þokkalegum hita en loks var aftur norðanátt síðustu dagana og bjart syðra en dimmviðri og kuldi nyrðra. Í heild var þetta ekta norðanáttamánaður með lægðum milli Íslands og Noregs en hæð yfir Grænlandi og kortið sýnir stöðu mála í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð. Sunnanlands var mikið sólskin í þessum mánuði eins og verða vill við þessar aðstæður. Í Reykjavík er þetta fimmti sólríkasti júní. Sums staðar á suðurlandsundurlendi komst hitinn í þessari miklu sól næstum því upp í meðallagið 1931-1960. Á Sámsstöðum var meðalhitinn t.d. 9,9 stig og þar hefur ekki mælst þurrari júní, 12,2 mm. Úrkoman í Grindavik var aðeins 6,9 mm. Gróðri fór lítið fram vegna kulda og þurrka. Á norðausturlandi voru hagar varla orðnir grænir í lok mánaðarins.
Síðasta daginn var Ásgeir Ásgeirsson kosinn forseti Íslands.
Í Reykjavík var kaldasti júní síðan einhvers konar mælingar þar hófust árið 1851 þegar meðalhitinn var talin 6,3 stig en var 5,9 í Stykkishólmi, sá næst kaldasti þar. En á Akureyri var hitinn þá 6,2 sem er nær tveimur stigum mildara en 1882. Úrkoman í Reykjavík var 28 mm. Í Stykkishólmi fór hitinn ekki yfir tíu stig fyrr en þann 28. Ljóst er að Þetta er einhver allra kaldasti júní.
Snemma á nítjándu öld eru til nokkrar athuganir frá ýmsum stöðum á landinu sem hafa verið áætlaðar yfir til Stykkishólms. Eftir þeim virðist sem júnímánuðir árin 1811 og 1817 hafi verið nokkru mildari en júní 1882. Mælingarnar voru á Akureyri eða við Eyjafjörð árið 1811 og voru gerðar að morgni, um miðjan dag og að kveldi. Fyrstu sex dagana var óskaplega kalt. Um morguninn þ. 5. var frostið -6,5 stig sem slær nú allt út allan júníkulda sem mælst hefur á Akureyri frá 1882 þegar danska veðurstofan hóf þar athuganir. Um miðjan dag þ. 2. var frostið -0,3 stig og -1,9 stig þ. 6. Þetta eru kannski ótrúlegar tölur en í ljósi júní 1975 eru þær alls ekki svo vitlausar. Hægur vindur var af norðri eða norðaustri og getið um hríð og þoku. Um miðjan mánuð var hitinn orðinn þokkalegur en hlýindi voru síðustu vikuna. Þann 28. var hitinn tuttugu stig um miðjan dag en 17 að morgni. Meðalhitinn hefur verið reiknaður 5,9 stig fyrir Akureyri þennan mánuð, sami hiti og 1952 en hafa verður í huga hvað þetta eru gamlar mælingar og öðru vísi en nú á dögum. En kaldur hefur þessi júní sannarlega verið.
Fyrra fylgiskjali er hið venjulega með tölum yfir veðurstöðvarnar í hverjum þeim mánuði sem fjallað er um en hitt sýnir ástand mála í Reykjavik og Akureyri í júní 1885, 1952 og 1975.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkar: Veðurfar, Bloggar | Breytt 8.12.2011 kl. 00:22 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.