11.7.2011 | 17:49
Hlýjustu júlímánuðir
Jæja, þá erum við komin að helsta sumarmánuðinum, sjálfum júlí. Í tilefni af því að landsmenn eru nú orðnir æði sumarþyrstir verður hér fjallað um fleiri liðna glæsimánunuði en venjan er í þessum pistlum. Nú reynir sko á fyrir alla sanna veðurfana enda nær lengdin á pistlinum nýjum og áður óþekktum hæðum eða lengdum öllu heldur!
Engir júlímánuðir á nítjándu öld koma til álita sem verulega hlýir nema 1880, 1889 og 1894. Röð tíu allra hlýjustu mánuðina er annars þessi: 1933, 1880, 1991, 1894, 2008, 1917, 1908, 2010, 1936, 1929, 1934, 1927.
Nú verður farið í alla þessa mánuði og fleiri þó. Þeir eru svona margir vegna þess að um hásumarmánuði er að ræða og margir þeirra eru merkilegir fyrir eitthvað þó þeir komist ekki í röð þeirra allra hlýjustu. Meðalhiti stöðvanna níu, sem miðað er við, var 9,73 stig 1961-1990 og fremst við hvert ár er gefinn meðalhiti þess mánaðar sem um ræðir fyrir allar þessar stöðvar eins og venjan er í þessum pistlum. Í fylgiskjalinu má hins vegar sjá hita, úrkomu og sólskin í töfluformi fyrir allar þessar stöðvar og einnig fyrir Dratthalastaði á Úthéraði og Eyrarbakka og eru þessi atriði því lítt tíunduð hér í lesmálinu fremur en vanalega. Vegna þess hve mánuðirnir eru margir og litlu eða engu munar á sumum eru notaðir tveir aukastafir í heildarmeðalhita mánaðanna (fyrir allar stöðvarnar) en ekki má taka þetta alltof hátíðlega.
Nr. 1, 1933 (11,92) Þetta er hlýjasti júlí yfir allt landið og einnig út af fyrir sig víða á svæðinu frá Ísafjarðardjúpi og austur og suður um alveg að Hornafirði. Akureyri telst meðal annara til þessara staða, Skriðuland í Skagafirði, Húsavík (meðalhiti 13,3 stig) og Hólar í Hornafirði. Veður voru hægviðrasöm. Ágætir þurrkar og góð heyskapartíð var norðanlands og austan en vestanlands og sunnan var fremur votviðrasamt en þó komu nokkrir þurrkdagar. Suðvestanátt var algengasta vindáttin. Sól var talsverð fyrir norðan miðað við meðallag en nokkuð undir því fyrir sunnan. Á Akureyri var meðaltal lágmarkshita 10,4 stig sem er einsdæmi á þeim stað. Sama lágmarkstala var á Eyrarbakka sem ekki er jafn sérstakt. Hæsti lágmarkshiti á veðurstöð mældist einnig á Akureyri, 7,8 stig sem er óvenjulega hátt sem lágmarkshiti alls júlímánaðar þar. Hitinn fyrir norðan var jafn og hár en samt voru enginn stórkostleg hlýindi. Mesti hiti á Akureyri var aðeins 20 stig en hitinn var þar að jafnaði 16 stig að hámarki. Enn hlýrra um hádaginn var inn til landsins, hátt upp í 18 stig til jafnaðar á Grímsstöðum (hámarksmeðaltöl þar eru samt kannski ívið of há vegna mæliaðstæðna) en þar var þetta næst hlýjasti júlí.
Fyrstu fimm dagana var suðvestanátt og rigningar vestanlands en góðviðri fyrir austan. Brá síðan til austanáttar í aðra fimm daga með dumbungsveðri sunnan og austanlands. Sums staðar rigndi æði mikið, til dæmis 53,5 mm í Vík í Mýrdal að morgni þess 4. og 48 mm í uppsveitum suðurlands en um 15 mm í Reykjavík. Mjög hlýtt var þessa daga víða um land. Hitinn fór 25,9 stig þ. 7. á Grímsstöðum á Fjöllum og 23,5 á Hvanneyri. Sunnanlands var líka hlýtt þennan dag, 22,8 stig á Hlíð í Hrunammannahreppi og 20,2 í Vík í Mýrdal þar sem tuttugu stiga hiti er sjaldgæfur. Daginn áður fór hitinn í 24,7 stig á Höfn í Bakkafirði en 23,0 á Húsavík þann 9. Norðaustanátt var næstu vikuna þó oft væri tvíátta á suðurlandi en samt var þar góðviðri. Lægð var komin norðaustur um Færeyjar. Mikið rigndi frá henni sums staðar austanlands. Að morgni hins 11. mældist úrkoman 49 mm í Fagradal, en þá var blíða sunnanlands og síðar um daginn fór hitinn í Reykjavík í 19,4 stig en tuttugu á Eyrarbakka, 18 í Vestmannaeyjum en 21,5 stig á Kirkjubæjarklaustri. Eftir þetta kólnaði nokkuð norðanlands og þ. 15. fór hitinn í 1,0 stig á Kollsá í Hrútafirði og var það minnsti hiti sem mældist á landinu í byggð en á Jökulhálsi við Snæfellsjökul fór hitinn í 0,5 stig. Dagana 17.-24. var óþurrkasamt, einkum sunnanlands. Lægð kom vestan yfir Grænlandshaf og síðan voru lægðir yfir landinu eða í grennd við það og var vindátt breytileg. Hlýtt var norðaustanlands og hitinn fór í 22,4 stig í Fagradal í Vopnafirði þ. 19. Frá þeim 25. var aftur norðanátt og voru þá oftast góðir þurrkar á landinu og hlýtt.
Úrkoman var lítillega undir meðallagi. Hún var kringum meðallag á suðurlandi en fyrir norðan og austan var hún fremur lítil nema kringum Vopnafjörð og úrkomudagar á norðausturlandi voru yfirleitt færri en tíu.
Óperan Arabella eftir Richard Strauss var frumflutt fyrsta dag mánaðarins i Dresden. Balbó flugmálaráðherra Ítalíu og sannur fasisti kom til landsins þ. 5. Koma hans varð kveikjan að frægri smásögu eftir Halldór Laxness Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík.
Meðalhiti þennan hlýjasta júlí sem mælst hefur yfir landið sést á kortinu.
Nr. 2, 1880 (11,80). "Þá var hin mesta árgæzka og blíðviðri um allt land, svo menn mundu ekki jafngott ár ...Tún voru orðin algræn löngu fyrir sumarmál og vorið var hið blíðasta og fegursta. Sumarið var heitt og þurrt og þurkuðust sums staðar hagar svo, að nær því varð vatnslaust með öllu. Útengjar spruttu ágætlega, nema sízt mýrar, sem þornuðu upp í hitunum, en þar, sem voru foraðsflóar, varð hið bezta gras. Nýting á heyjum var hin bezta til höfuðdags, og mátti svo segja, að hverju strái mætti raka þurru af ljánum í garð." Svo segir í Árferði á Íslandi í þúsund ár eftir Þorvald Thoroddsen.
Meðalhitinn sést á kortinu. Mjög fáar veðurathuganarstöðvar voru komnar á fót á þessu ári, aðeins í Reykjavík, Hafnarfirði (hér sleppt), Stykkishólmi, Skagaströnd, Grímsey, Valþjófsstað, Teigarhorni, Papey, Hrepphólum, Vestmannaeyjum og Eyrarbakka. Þessi júlí var sá hlýjasti sem mælst hefur bæði í Stykkishólmi, þar sem athugað hefur verið í júlí frá 1846, og í Vestmannaeyjum þar sem athuganir hófust 1878. Í Hreppunum er þetta fjórði hlýjasti júlí. Á Akureyri voru engar athuganir en hins vegar á Valþjófsstað á Fljótsdalshéraði. Hiti fylgist talsvert að á þessum tveimur stöðum á sumrin, ekki síst í mjög afbrigðilega hlýjum mánuðum. Meðalhitinn á Valþjófsstað þennan mánuð er reiknaður 13,7 sem er það hæsta sem nokkur stöð hefur fengið í júlí ásamt Írafossi árið 1991. Ef hitinn á Valþjófsstað yrði settur í stað Akureyrar mundi þetta verða hlýjasti júlí sem mælst hefur eftir mínu kerfi. En við skipum honum í annað sæti. Það vekur athygli í þessum mánuði hve hlýindin voru jafndreifð eftir landshlutum og til sjávar og sveita. Á Eyrabakka var meðalhitinn t.d. 13,0 stig en 13,2 á Hrepphólum í Hreppunum. Mér finnst mjög líklegt að meðalhitinn hafi náð 13 stigum á Akureyri en kannski verið ívið lægri þó en á Valþjófsstað. Á Skagaströnd var meðalhitinn 10,9 stig sem er talsvert minna en hæst hefur mælst seinna á Blönduósi, 11,8 stig 1945. Hitinn var einnig mjög jafn milli daga í þessum mánuði og milli dags og nætur. Sem dæmi um það má nefna að hámarkshiti mánaðarins í Stykkishómi var 16,9 stig en lágmarkið 5,9. Meðaltal hámarkshita í Reykjavík var 15,0 stig en aldrei fór hitinn þar hærra en í 16,8 stig, þann 7. og 9., en var lang flesta daga 15-16 stig. Hiti fór þar ekki niður fyrir tíu stig allan sólarhringinn í 22 daga sem er æði óvenjulegt og var alltaf yfir tíu stigum dagana 6.-28. nema tvær nætur. Mesti hiti á landinu mældist 24,5 stig á Valþjófsstað en það var eini staðurinn þar sem hámarksmælingar voru gerðar á sæmilega hámarkshitavænum stað. Þarna mældist líka minnsti hiti mánaðarins 1,8 stig. Einna svalast að tiltölu var við sjóinn á austfjörðum en á Teigarhorni var meðalhtinn aðeins 0,6 stig yfir meðallaginu 1961-1990. Þar var sólin lítið á ferli eftir meðaltali skýjahulu að dæma. Í Stykkishólmi var hins vegar oft léttskýjað fyrsta þriðjung mánaðarins en síðan meira skýjað þangað til síðustu dagana að aftur birti til. Ekkert raunverulegt kuldakast kom þó ívíð kaldara hafi verið allra síðustu dagana í hægri norðaustanátt og björtu veðri vestanlands. Sagt er að hitnn kl. 9 í Stykkishólmi sé nokkuð góður mælikvarði á meðalhitann á öllu landinu. Þennan mánuð var hann mestur 15,8 stig þ. 11. og 15,0 stig þ. 14. og var yfir 14 stigum þ. 10., 19. og 23. Þegar morgunhiti er svona hár við strendur má til sveita búast við tuttugu stiga hita eða meria. Aðeins einn dag var morgunhitinn í Stykkishólmi undir tíu stigum, 9,4 stig þ. 29. En það stóð nú ekki lengi því hlýindin héldu svo áfram í ágúst og voru þá jafnvel enn meiri en í júlí. Einna hlýjast var í öðrum þriðjungi mánaðarins. Að kvöldi þess 14. komst hitinn á Teigarhorni í 21,5 stig í vestanátt en þá var hlýtt um allt land og voru þeir 14.-15. líklega einna hlýustu dagarnir ásamt 21.-22. en þá var sunnanátt og lítilsháttar rigning á suður og vesturlandi. Úrkoma var svo lítil á þeim örfáu stöðum þar sem hún var mæld að þetta er ef til vill næst þurrasti júlí sem mælst hefur að meðaltali ef miðað er við samanlagða úrkomu Teigrahorns og Stykkishólms en á þeim stöðvum hefur úrkoman til samans aðeins verið minni í júlí 1888. Úrkomudagar voru einungis 7 í Stykkishólmi, 4 á Teigarhorni og 2 í Grímsey. Í Stykkishólmi er þetta 15. þurrasti júlí frá 1857 en sá fimmti á Teigarhorni frá 1873. Kortið sýnir áætlað frávik500 hPa flatarins á norðurhveli og er hann langt yfir meðalagi á stóru svæði yfir Íslandi og þar vestan við.Jónas Jóanssen lýsti svo veðrinu í þessum mánuði í Þjóðólfi 26. ágúst 1880:
Eins og í undanfarandi mánuði hefir veðuráttan þennan mánuð verið einstaklega blíð og stilt. Fyrstu 5 daga mánaðarins var veður bjart og logn, að eins nokkur úrkoma hinn 4., 6. og 7. var norðankaldi en úr því optast logn til hins 14. að hann gekk til suðurs, en þó lygn með nokkrum sudda í 2 daga, svo aptur bjart veður og stilt með lítilli úrkomu við og við á landsunnan, þangað til 25. að hann gekk til norðurs, optast hægur og bjartasta veður (hvass 29. á norðan).
Eftir þennan júlí kom næst hlýjasti ágúst sem mælst hefur og hann var sá hlýjasti alveg fram í ágúst 2003. En næsti vetur varð sá kaldasti sem dæmi eru um. Veðráttan á Íslandi var því stórkostlega afbrigðileg á þessum árum.
Nr. 3, 1991 (11,63) Þetta er hlýjasti júlí sem núlifandi Íslendingar hafa lifað nema þeir elstu. Hann er kannski merkilegastur fyrir það hve hlýtt var á suður- og suðvesturlandi. Þetta er annar af tveimur júlímánuðum sem nær 13 stigum í Reykjavk og er sá hlýjasti sem þar hefur mælst, ásamt 2010. Á sunnanverðu Snæfellsnesi hefur aldrei mælst eins hlýr júlí. Hiti fór aldrei undir meðallag allan mánuðinn á landsvísu og í flestum landshlutum. En í um vikutíma frá þeim 19. var hitinn þó lítillega undir meðallagi á norður og austurlandi. Mikla hitabylgju, eina þá mestu sem komið hefur, gerði snemma í mánuðinum og stóð hún í 9 daga, 1.-9. en á suðurlandi gerði litla aukabylgju dagana 11.- 13. Hitinn fór í 29 stig þ. 2. á Kirkjubæjarklaustri, sem er þar júlímet, en sólarhringsmeðaltal var 20,8 stig á staðnum. Þennan dag fór hitinn á Norðurhjáleigu í Álftaveri í 27,6 stig sem er þar ársmet. Á Egilsstöðum mældust í 28,0 stig þ. 4, en en sólarhringsmeðaltalið var 22,3 stig en næsta dag fór hitinn í 28,8 stig, sem er þar ársmet en sóalrhringsmeðaltalið var 21,4 stig. Meðan þessu fór fram var vindur hægur og vestlægur, bjart inn til landsins en þokuloft við strendur. Hæð var fyrir austan land (sjá mynd ) en grunnar lægðir fóru norðaustur um Grænlandssund. Þessa hlýju daga, 3.-5., voru sett hitamet á ýmsum öðrum stöðvum á norður og austurlandi, t.d. 28,9 á Kollaleiru í Reyðarfirði, 28,2 stig á Vopnafirði og Dratthalastöðum á Úthéraði, 27,6 á Birkihlíð í Skriðdal og Strandöfn í Vopnafirði. Dagshitamet að meðalhita komu á Akureyri 3.-5. og var meðalhitinn yfir tuttugu stigum tvo seinni dagana, 20,6 stig þ. 5. og hefur aðeins 31. júlí 1980 verið hlýrri að meðalhita í júlí, 20,8 stig, og 24. júlí 1955, 20,9 stig. Eftir þann 6. var hitinn mestur annars staðar en í Skaftafellssýslum og norðausturlandi og var mikill víða um land en þó nokkru lægri en þessar háu tölu sem nefndar hafa verið. Yfir landinu var hæðarhryggur en lægðir voru suður undan. Suður og vesturland naut sín nú einkar vel. Í Reykjavík fór hitinn í 20 stig fjóra daga í mánuðinum sem var met fram í ágúst 2004. Hitinn þar fór í 20,0 þann 7. og 22,0 daginn eftir, 23,7 stig þann 9. en svo ekki fyrr en síðasta daginn, 20,7 stig. Dagana 6.-8. voru dagshitamet sett að meðalhita ó borginni. Á Korpu og í Heiðmörk fór hitinn í 25 stig þ. 8. Nokkur allsherjar hitamet voru sett kringum þ. 7. Á Nautabúi mældust 26,2 stig þann dag, 27,4 stig í Lerkihlíð í Vaglaskógi, 26,8 á Mýri í Bárðardal og 27,0 á Brú á Jökuldal (þ. 8) en júlímet kom á Staðarhóli í Aðaldal, 26,3 stig. Líklegt er þó að meiri hiti hafi verið á þessum stöðvum t.d. í hitabylgjunni miklu í júlí 1911 og jafnvel einstaka öðrum hitabylgjum en þessar síðast töldu stöðvar eiga minna en hálfrar aldar mælingasögu. Mjög hlýtt var einnig þessa daga á suður og vesturlandi, 23-26 stig, þó ekki hafi þar verið sett hitamet sem enn standa. Þrumuveðurs varð vart í Reykjavík og Keflavík þ. 7. og daginn eftir á nokkrum stöðvum á suðurlandsundirlendi. Nokkra aðra daga er getið um þrumur á stöku stað. Þessi júlí var jú eins konar eftirherma af útlendum hitamánuði! Og var þetta allt eins og hver annar lottóvinningur!
Úrkoma var víðast hvar lítil og hvergi til neinna vandræða þar sem hún var þó meiri en í meðalagi. Fremur var sólríkt, ekki síst inn til landsins á norðausturlandi og á hálendinu. Síðasta dag mánaðarins gerði aðra hitabylgju um land allt sem stóð í tvo daga. Þennan dag fór hitinn í 19,6 stig í Stykkishólmi sem þrátt fyrir frægð sína fyrir langa mælingasögu er einvher ónæmasta veðurstöð landsins fyrir hitabylgjum. Meðalhiti mánaðarins á Írafossi var 13,7 stig sem er mesti meðalhiti í júlí sem vitað er um á Íslandi. Á Hjarðarlandi var meðalhitinn 13,5 stig, 13,3 á Görðum á sunnanverðu Snæfellsnei, 13,1 á Hellu og Sámsstöðum, 13,0 á Kirkjubæjarklaustri (næst hlýjasti júlí), 13,0 í Reykjahlíð við Mývatn (sá hlýjasti með 1984) en 13,4 á Birkihlíð í Skriðdal. Síðasta talan er mjög eftirtektarverð og mun vera meira en þremur stigum yfir meðallagi. Til allrar óhamingju voru engar mælingar gerðar á Hallormsstað en alveg má búast við að þar hafi meðalhitinn verið um 14 stig. Aldrei hefur orðið hlýrra á Hveravöllum í júlí eða nokkrum öðrum mánuði, 10,5 stig. Þar uppi komst hitinn fimm daga í 20 stig eða meira, mest 22,7 stig þ. 7. sem er mesti hiti sem þar mældist meðan stöðin var mönnuð.
Austlægar áttir voru ríkjandi og gætti oft hlýrra loftstrauma frá Evrópu í þessum mánuði, sjá kortið sem sýnir frávik á hæð 850 hPa flatarins í um 1400 m hæð. Meðaltal lágmarkshita er sá hæsti sem um getur í Reykjavík, 10,8 stig en 11,0 á Görðum á Snæfellsnesi sem er Íslandsmet. fyrir lágmarkshita veðurstöðva. Kaldast í mánuðinum varð -0,2 á Grímsstöðum þ. 22.
Kvikmynd Friðriks Þórs Óskarssonar Börn náttúrunnar var frumsýnd í Stjörnubíói síðasta dag mánaðarins, einum af hinum ofurhlýju dögum í höfðstðanum. Hún var síðar tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Nr. 4, 1894 (11,51) Mikil hitabylgja kom fyrstu dagana. Þá mældist mesti hiti í júlí í Reykjavík allt til ársins 1976, 23,8 stig þ. 2. og 20.7 stig þ. 1. og í Stykkishólmi fór hitinn í 22,9 stig þ. 2. og 22,1 daginn eftir. Í Möðrudal fór hitinn í 28,8 stig sem var þá mesti hiti sem mælst hafði á landinu og stóð það met til 1911. Reyndar eru hámarkstölur á þessum árum frá Möðrudal ekki alveg trúverðugar, eru í hæsta lagi miðað við það sem mælt hefur verið þar í nútímaskýlum á mjög hlýjum dögum. Á Akureyri fór hitinn í 24,9 stig. Bjart var yfir landinu þessa heitu daga. Þennan júlí verður að teljast mesta hitabylgjumánuðinn á landinu á síðustu áratugum 19. aldar. "Á Norðurlandi og Austurlandi var öndvegistíð allt sumarið en aftur á móti fremur votviðrasamt á suður- og vesturlandi. Á Vestfjörðum var óþurrkasamt fram í miðjan mánuð en um miðjan mánuð breyttist til þurrviðra. Meðan á túnaslætti stóð voru ofurlitlar vætur í Eyjafirði en síðan gerði hagstæða þurrka sem héldust til mánaðarloka. Heyskapur var þó misjafn. Á suðurlandi gekk erfiðlega að ná inn heyjum vegna votviðranna og skemmdust þau víða, aftur var nýting heyja heldur betri á Vesturlandi, en á Norðurlandi og Austfjörðum heyaflinn mikill og góður; þar var grasspretta í betra lagi og nýting hin bezta." Þetta segir í Árferði á Íslandi í þúsund ár. Þrátt fyrir úrkomuna syðra var síðasta vika mánaðarins þurr og úrkoman var heldur aldrei alveg stöðug framan af mánuðinum. Inn á milli komu á úrkomusvæðunum þurrir og jafnvel nokkuð bjartir dagar. Úrkomudagar voru nú heldur ekki fleiri en 14 í Reykjavík, 13 í Stykkishólmi og 18 í Vestmannaeyjaum sem er svipað og venjulega, en reyndar 21 á Eyrarbakka sem er í meira lagi. Og alltaf var hlýtt. Minnsti hiti mældist 3,9 stig á Stórinúpi. Það er hæsta landslágmark í nokkrum júlí en þess ber að gæta að stöðvar voru fáar en sú kuldavænasta, Möðrudalur, var samt í gangi. Lágmarkshiti fór ekki undir tíu stig í Reykjavík síðustu vikuna og áfram fyrstu átta dagana í ágúst. Er þetta með lengstu slíkum tímabilum þar.Svo segir Jónassen um tíðarfarið í nokkrum Ísafoldarblöðum:
Fyrri vikuna var optast austanátt með talsverðri úrkomu; hinn 2. júlí var hjer óminnilegur hiti; aðfaranótt h. 9. miklar skruggur; síðari vikuna hefir þornað upp og ýmist verið logn eða útnorðankuldi og nú síðustu dagana útsunnanvari með sudda. Í morgun (14.) austanvari, dimmur í lopti. (14. júlí) - Hefir verið hægur með nokkurri úrkomu optast logn; var vart við jarðskjálfta kl. rúml. 7. e. m. hinn 17. (einn vægur kippur). (21. júlí) - Undanfarna tíð megnasti óþurkur af suðri, þar til birti upp h. 27. og gerði hæga útrænu. Í dag (28.) fegursta sólskin, útræna. (28. júlí) - Logn hefir verið alla undanfarna viku og þokumugga optast nær, hafi kaldað ofurlitla ögn hefir það verið úr vestri. ... (4. ágúst)
Nr. 5, 2008 (11,39) Í Stykkishólmi var þessi góðviðrasami júlí sá þriðji hlýjasti, eftir 1933 og 1880. Á Hæli náði meðalhitinn 13 stigum í fyrsta sinn síðan 1944 en aðeins sá júlímánuður og júlí 1939, 1894 og 1880 hafa þar verið hlýrri. Í Reykjavík voru allir daga nema sá 14. yfir dagsmeðallagi en þar er þetta sjöundi hlýjasti júlí frá 1867. Einkanlega var hlýtt síðustu tíu dagana á landinu. Kom þá einhver mesta hitabylgja sem gengið hefur yfir. Í Reykjavík fór hitinn í 22,5 stig eða meira fjórum sinnum frá þeim 25. til 1. ágúst og er slíkt algjört einsdæmi í mælingasögu borgarinnar. Fór hitinn í 22,5 stig þ. 25. og aftur 29. Fyrsta ágúst varð hann 23,6 stig. Og þann 30. júlí mældist svo mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík, 25,7 stig á kvikasilfursmæli, en 26,4 stig mældust á sjálfvirku stöðinni og 26,2 á Reykjavíkurflugvelli. Kortið sýnir veðrið kl. 15 á suðvesturlandi og stækkar ef smellt er tvisvar á það eins og öll önnur kort í þessum pistlum. Sólin skein allan daginn. Þykktin yfir Keflavík fór þennan dag í um 5600 m sem er æði háttt en því meiri sem hún er því hitavænlegra verður. Hér í fylgiskjali má lesa um þykktarhugtakið í veðurfræði. Yfir landinu og austan við það teygði sig háloftahæð. Á Korpu fór hitinn í 27,2 stig, 27,5 í Geldinganesi, 27,1 á Hólmsheiði, 28,4 stig á Skrauthólum á Kjalarnesi og 26,9 á Sandskeiði. Frá og með hinum 19. fór hitinn í tuttugu stig eða meira einvhers staðar á landinu. Meðaltal daglegs hámarkshita yfir landið í öllum mánuðinum var 22,0 stig. Á Þingvöllum mældust 27, 1 stig þ. 29. og 29,7 stig þ. 30. Það er mesti hiti sem mælst hefur á staðlaðri sjálfvirkri veðurstöð á landinu. Hitinn var yfir 29 stigum i nokkrar klukkustundir. En auðvitað eru það vonbrigði að hann skyldi aldrei ná 30 stigum! Það sýnir reyndar kannski best hve Ísland er sumarsvalt land að 30 stiga hiti hefur aldrei mælst þar í nútíma hitamælaskýli á mannaðri stöð. Hitamet voru víða slegin í þessum mánuði. Mestur hiti á mannaðri stöð var 28,8 stig á Hjarðarlandi. Önnur ársmet voru í Vestmannaeyjum 21,6 og Hólum í Dýrafirði 26,0 stig (frá 1983); Bláfeldi á sunnanverðu Snæfellsnesi, 24,5 (1998) og Ásgarði í Dölum 25,5, stig (1993). Júlímet voru sett á Hæli (1929) 27,1 stig; Vík í Mýrdal (1926) 23,1; Vatnsskarðshólum (1951) 23,7 og Eyrarbakka (1924) 27,5 stig. Í Vestmannaeyjabæ mældist hitinn 23,4 stig og 25,3 í Bíldudal. Meðalhitinn í Reykjavík var 17,5 stig þ. 30. en sló þó ekki út metdaginn í meðalhita í júlí sem var sama dag árið 1980, 18,0 stig. Hins vegar var dagshitamet í meðalhita þ. 29. í borginni þegar meðalhitinn var 16,6 stig. Úrkoma var í rösku meðallagi yfir landið. Sólríkt var fremur á landinu og ekki hefur mælst meiri sól í júlí við Mývatn, 257 klst. en mælingasagan er þar reyndar ekkilöng. Þurrt var víða vestanlands. Í Stykkishólmi er þetta 9. þurrasti júlí og sá þurrasti síðan 1974.
Nr. 6, 1917 (11,38). Í mánuðinum mældist mesti loftþrýstingur sem mælst hefur á Íslandi í júlí, 1036,6 hPa, að kvöldi hins þriðja í Stykkishólmi. Þrýstingur alls mánaðarins var einnig óvenjulega mikill. Fyrstu vikuna eða rúmlega það voru mikil bjartviðri víða en stundum þoka við strendur. Varla kom dropi úr lofti. Hlýtt var en þó mældist minnsti hiti mánaðarins 0,3 stig á Grímsstöðum þ. 2. Vindur varð síðan vestlægari eða suðvestlægari. Hitinn fór mest í 25,1 á Möðruvöllum í Hörgárdal þ. 21. og sennilega sama dag í 26,3 á Akureyri og í Grímsey voru þá 21,8 stig. Nokkuð óþurrkasamt var síðasta þriðjunginn á suður-og vesturlandi en heildarúrkomumagn varð þó sjaldan mikið. Sérlega þurrt var fyrir norðan og á austfjörðum þennan mánuð og einnig var lítil úrkoma á vesturlandi og jafnvel einnig í Vestmannaeyjum. Hlýindi voru ríkjandi. Í Vestmannaeyjakaupstað fór hitinn aðeins einu sinni niður fyrir tíu stig alveg frá þeim 13. og til 4. ágúst. og næst síðasta júlídaginn fór hitinn þar í tuttugu stig en 19 í Reykjavík. Tveir síðustu dagarnir voru einna hlýjustu dagarnir. Sólskinstundir á Vífilsstöðum voru 163 sem er í tæpu núverandi meðallagi. Úrkomudagar voru þar fáir, aðeins 8 og úrkomumagnið var 46,3 mm sem er í tæpu meðallagi. Hæðasvæði var austan við landið í mánuðinum og inn á austurland en fyrir sunnan Grænland var þrýstingur lægri eins og sést á kortnu.
Fyrri heimsstyrjöldin var í algleymingi og æðisgengir bardagar voru í Belgíu.
Nr. 7, 1908 (11,31) Hitinn var sérlega jafn um allt land, 12 stig svo á Vestfjörðum sem á Blönduósi. Tiltölulega svalast var á austurlandi og í Vestmannaeyjum. Þurrt var fram yfir miðjan mánuð og virðist víða hafa verið sólríkt. Loftþrýstingur var hár í fyrstu og mikil hlýindi dagana 2.-5. og fór hitinn svo víða yfir tuttugu stig að nær eindæmi má telja og er þetta því einhver útbreiddasta hitabylgja sem dæmi er um. Tuttugu stiga hita eða meira er getið í Stykkishólmi, Holti í Önundarfirði, Ísafirði, Blönduósi, Grímsey, Akureyri, Grímsstöðum, Seyðisfirði, Teigarhorni, Fagurhósmýri og Vestmanneyjaum, en þó ekki í Reykjavík þar sem hitinn fór mest í 19,1 stig þ. 4. Sá dagur var hlýjasti dagurinn og fór hitinn þá í 26,6 stig á Gilsbakka í Hvítársíðu. Alveg áreiðanlega hefur hitinn komist þessa daga vel yfiir tuttugu stig á suðausturlandi og suðurlandsundirlendi þó þar hafi engar hámarksmælingar verið gerðar. Kortið sýnir háloftahæðina sem kom með hitabylgjuna. Seinni hluti mánaðarins var nokkuð votviðrasamur en úrkomumagn í heild var samt alls staðar vel undir meðallagi. Kaldast varð í þessum mánuði 1,0 stig á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði. Á Akureyri fór hitinn aldrei lægra en í 8,7 stig og er það hæsti lágmarkshiti sem þar er skráður í nokkrum mánuði.
Fyrsta dag mánaðarins eignaðist Reykjavík sinn fyrsta borgarstjóra sem var Páll Einarsson. Daginn áður féll reyndar loftsteinninn frægi í Tunguska í Síberíu með miklum hamförum.
Nr. 8, 2010 (11,29) Sérlega hlýr mánuður á suðvesturlandi. Kortið sýnir frávik þykktar frá meðallagi. Þetta er hlýjasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík ásamt júli 1991. Hiti var furðu jafn allan mánuðinn í borginni. Mestur varð hann 21,2 stig þ. 17. og var það eini dagurinn sem hitinnn náði tuttugu stigum. Þá var glaðasólskin eins og alla dagana 15.-19. en þá daga fór hiti vel yfir tuttugu stig víða á suðurlandi. Ekkert dagshitamet var þó sett í Reykjavík þrátt fyrir hlýindin, hvorki í meðalhita né hármarkshita. Hins vegar var meðaltal lágmarkshita eins og ég reikna það afar hátt, 10,2 stig, en hámarkshita 16,2 stig. Síðustu níu dagana fór hitinn aldrei lægra en í 10,2 stig. Á Eyrarbakka er þetta hlýjasti júlí frá 1880, 13,4 stig. Í Vestmannaeyjum er þetta hins vegar næst hlýjasti júli en sá fimmti hlýjasti í Stykkishólmi. Fyrir norðan var kalt framan af en hlýnaði svo mjög. Alls staðar á landinu varð hitinn vel fyrir meðallagi. Óvenju djúpar lægðir voru suður af landinu þ. 1. og aftur þ 6. og 8. og ollu þær hvassviðri. Allmikið þrumuveður kom á suðurlandi kringum þann 20. Mestur hiti mældist í Bjarnarflag í Mývatnssveit 24,6 stig þ. 25. en á mannaðri stöð 23,2 stig á Hæli þ. 18. Hiti fór í 20 stig eða meira einhvers staðar á landinu á sjálfvirkri stöð dagana 17. júlí til 1. ágúst og er það met hvað samfelldan dagafjölda varðar. Meðaltal dagslegs hámarkshita var 20,5 stig.
Mjög þurrt var vestan til á landinu. Á Lambavarni á Rauðasandi hefur aldrei mælst minni úrkoma i júlí (frá 1938) 6,3 mm og heldur ekki á Hjarðarfelli á sunnanverðu Snæfellsnesi (frá 1971). Í Stykkishólmi er þetta 14. þurrasti júlí (frá 1857). Á austurlandi var fremur úrkomusamt, sérstaklega dagana 1.-8. Á sumum stöðvum með ekki langa mælingasögu hefur aldrei mælst eins mikil úrkoma í júlí. Mesti kuldi á landinu mældist -1,0 stig á Gagnheiði í 749 m hæð þ. 21. en mesti kuldi á láglendi mældist -0,1 stig á Þingvöllum þ. 12. og 13. en á mannaðri veðurstöð 0,7 stig á Grímsstöðum þ. 19.
Herjólfur fór að sigla frá Landeyjarhöfn þ. 21. og átti það æfintýri eftir að ganga vægast sagt ólánlega.
Nr. 9, 1936 (11,25) Þetta var lúxusmánuður á suður- og vesturlandi og vestan til á norðurlandi. Þar var mikil sól og mikill hiti. Mánuðurinn var reyndar ágætur um allt land en nokkuð votviðrasamur við norðausturströndina. Á Suðureyri við Súgandafjörð er þetta hlýjasti júlí meðan mælt var (1922-1989), 12,2 stig, og hlýrri en 1933 og 1939. Það var líka ágætlega sólríkt bæði fyrir sunnan og norðan. Í Reykjavík er þetta tíundi sólríkasti júlí. Hiti fór ótrúlega marga daga í tuttugu stig eða meira fyrri helming mánaðarins. Fyrstu vikuna var suðaustan átt og rigningarsamt en hlýindi ríktu, sérstaklega dagana 4.-9. Á Grímsstöðum komst hitinn í 25,5 stig þ. 3. og 21,9 á Akureyri en daginn áður fór hitinn í 22,2 stig á Grímsstöðum og daginn þar á eftir í 21,9 í Reykjavík og 19,7 á Suðureyri. Hlýtt var á suðausturlandi þ. 28. þegar hitinn komst í 21,5 stig á Kirkjubæjarklaustri og 21,0 í Vík í Mýrdal. Daginn eftir fór Reykjavíkurhitinn í 21,9 stig. Norðaustanátt mátti heita einráð alveg frá þeim 8. til hins 20. Var þá yfirleitt mjög þurrt og sólríkt á suðurlandi og vesturlandi en nokkur úrkoma austanlands. En þetta var ekki köld norðaustanátt. Kortið sýnir stöðu veðrakerfanna að meðallagi við jörð. Hitinn á Teigarhorni varð 23,8 stig strax þann 8. og 19,5 í Stykkishólmi en næsta dag komst hitinn á Stórhöfða í Vestmananeyjum í 18,5 stig sem er ekki á hverjum degi. Hlýindi voru þann dag og næstu daga einnig á suðurlandsundirlendi. Fór hitinn í 20,5 stig á Sámsstöðum þ. 10. og 22,4 stig á Hæli þ. 12. Hlýindin náðu líka til suðausturlands en á Fagurhólsmýri mældust 21,6 stig þ. 12. og daginn eftir 21,1 stig á Hólum í Hornafirði. Hvergi mældist frost í þessum mánuði en minnstur hiti varð 0,1 stig þ. 21. á Skriðulandi í Kolbeinsdal í Skagafirði. Norðlægu áttirnar voru lítilllega rofnar þ. 24. með hægviðri en norðlægar og norðvestlægar áttir snéru svo aftur og þ. 28. komst hitinn á Kirkjubæjarklaustri í 21,5 stig en 21,0 í Vík í Mýrdal. Þann dag var bjart víðast hvar. Þessar tölur, sem hér hafa veirð tilgreindar, eiga bara við um hámarkshita mánaðarins á hverri stöð (eins og flestar hámarkshitatölur hér í pistlunum frá því 1920 til 1948) en tuttugu stiga hiti eða meira hefur líklega verið víða á landinu marga þessa daga. Síðustu dagana snérist hins vegar til sunnanáttar og rigninga.
Úrkoman í heild í mánuðinum var samt minni en helmngur af meðalúrkomu og náði hvergi meðallagi en var þó nærri því sums staðar við norðausturströndina. Úrkoma var einstaklega lítil á norðvestanverðu landinu. Á Hesteyri í Jökulfjörðum mældist hún aðeins 1,0 mm og er það minnsta úrkoma á veðurstöð í júlí frá 1888 þegar úrkoman mældist 0,7 mm á Teigarhorni. Í Stykkishólmi hefur mælst minni úrkoma í 8 júlímánuðum. Á Eyrarbakka er þetta fjórði þurrasti júlí. Úrkomudagar voru víðast hvar færri en tíu alveg frá suðurlandsundurlendi vestur, norður og austur um allt til Húsavíkur. Á austurlandi voru úrkomudagar hins vegar tólf til nítján.
Þann 19. hófst hið grimmilega borgarsstríð á Spáni með umsátri um Madrid.
Nr. 10, 1929 (11,24) Þetta var óvenjulega sólríkur mánuður. Á Akureyri er hann sólríkasti júlí sem þar hefur mælst. Eigi að síðu voru sólskinsstundirnar enn fleiri í Reykjavík en þar er þetta sjöundi sólríkasti júlí. Það var líka hlýtt, þurrt og stillt veður á landinu. Úrkoman var mjög lítil og úrkomudagar víðast hvar færri en tíu inn til landsins en nokkru fleiri við ströndina en hvergi fleiri en 16 sem ekki er nú alveg hversdagslegt. Aldrei hefur úrkoman verið minni í júlí á Akureyri, aðeins 7 mm og var reyndar hvergi minni á landinu. Mánuðurinn kemst að mínu viti inn á topp tíu lista yfir þurrustu júlímánuði. Norðvestlæg átt var óvenjulega algeng enda var meðalhitinn hæstur á suðausturlandi, 12,8 stig á Kirkjubæjarklaustri. Fyrstu fjóra dagana var reyndar svöl norðanátt og varð vart við snjókomu norðaustanlands þó ekki festi snjóinn. Hitinn féll niður í -0,3 stig þ. 3. á Grímsstöðum. Frá þeim fjórða til mánaðarloka mátti hins vegar heita stöðugt blíðviðri á landinu. Miklir hitar voru viðloðandi alveg frá þeim 17. þegar hitinn fór í 25,5 stig á Teigarhorni og 24,0 á Stóranúpi í Hreppum, til hins 28. Á þessum tíma komst hitinn m.a. í 25,1 stig þ. 22. á Grímsstöðum og 23,4 á Akureyri sama dag en 22,9 á Hvanneyri þ. 18. og 25,5 stig á Hraunum í Fljótum þ. 25. og daginn eftir í 22,3 í Stykkishólmi sem sannarlega er sjaldgæfur hiti á þeim bænum. Miklar þrumur voru þ. 18. á suðausturlandi, allt frá Berufirði til Fagurhólsmýrar og voru þær í fjórar stundir í Hornafirði, kl. 12-16. Nokkur hafís var á Húnaflóa eins og verið hafði fyrr um vorið og sumarið og varð ísinn landfastur þ. 20. við Gjögur. Farþegaskipið Nova rakst á hafísjaka á flóanum þ. 25. og skemmdist nokkuð, en komst þó hjálparlaust til hafnar.
Mikill jarðskjálfi fannst í Reykjavík þ. 23. Skjálftinn reið yfir kl. 17:43 að íslenskum miðtíma og fannst á öllu suðurlandi, allt frá Skeiðarársandi, um allt vesturland og sums staðar á vestanverðu norðurlandi og allt austur á Siglufjörð. Langsterkastur varð hann þó við innanverðan Faxaflóa og í sveitunum þar upp af. Í Reykjavík komu sprungur í loft og steinveggi sem hlaðnir voru úr grágrýti en steinsteypuveggir högguðust minna. Myndir duttu af veggjum og hlutir af hillum. Áhrif skjálftans voru meiri í Reykjavík en í skjálftunum 1896 eða nokkurs skjálfta síðan. Sjálftinn var 6,3 stig á Richter og upptökin í Brennisteinsfjöllum eða skammt austan við þau. Daginn fyrir skjálftann var Landakotskirkja í Reykajvík vígð.
Nr. 11, 1927 (11,15) Þetta er einn af þeim júlímánuðum sem leynir á sér. Hann var hægviðrasamur og hlýr. Á suðvesturlandi var ágæt heyskapartíð og alls staðar sæmileg. Sólskin var í rífu núverandi meðallagi í Reykjavík en ekki var mælt á Akureyri. Þar var mánuðurinn hins vegar einn af þeim allra hlýjustu með meðalhita upp á 13,0 stig og hafa aðeins júlí 1933, 1955 og 1894 verið hlýrri þar. Ekki var heldur mæld úrkoma á Akureyri þennan mánuð. Í Grímsey er þetta hlýjasti júlí sem mælst hefur. Gott hjá Grímsey! Hitinn í Reykjavík komst í 20,3 stig þ. 6. Þá voru mikil hlýindi á landinu því sama dag fór hitinn í 25,7 stig á Hvanneyri og 25,7 á Eyrarbakka en daginn eftir í 26,1 stig á Grímsstöðum. Hitinn komst svo í 19,0 stig á Stórhöfða í Vestmannayjum þ. 5. sem telst mikið þar. Kaldast varð 0,4 Eiðum þ. 21. og aftur þ. 29. Úrkoman var mest norðvestantil en minnst á Fljótsdalshéraði.
Þrumuveður voru furðu algeng. Þann 10. voru þrumur á Hvanneyri, síðdegis þ. 14. á Eiðum, í Fagradal í Vopnafirði og um kvöldið á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði. Þrumur og eldingar voru svo daginn eftir í Fagradal og á Þorvaldsstöðum við Bakkafirði. Þrumuveður með eldingum og hagli gekk loks þann frá suðaustri yfir Rangárvallasýslu þann 25., um Austur-Landeyjar, Fljótshlíð, Rangárvelli og Landsveit. Og þá voru einnig þrumur í Vestmannaeykum kl. 14-18 og um svipað leyti á Kirkjubæjarklaustri.
Nr. 12, 1934 (11,15) Þó þetta hafi verið hlýr mánuður og hæviðrasamur var hann yfirleitt votviðrasamur, einkum á vesturlandi og vestantil á norðurlandi, en einnig á suðausturlandi og hröktust töður í þessum landshlutum. Skást að þessu leyti var á suðurlandi og upp í Borgarfjörð þar sem mánuðurinn má kallast fremur þurrvirðasamur. Sólin var lítið á ferli, einkum fyrir norðan. Það er sérstakt með þennan mánuð að ekki eru dæmi um hlýrri júlí í Vík í Mýrdal síðan mælingar hófust þar 1926 en norðanátt var algengust vindátta. Hitinn komst í Reykjavík í 20,1 stig þ. 8. en á suðurlandsundirlendi komst hitinn aldrei í tuttugu stig. Dagana 8.-12. voru hins vegar miklir hitar fyrir norðan en rigningar syðra í suðvestanátt. Fór hitinn allt upp í 26,8 stig á Hraunum í Fljótum þ. 12. Á Hólum í Hornafirði komst hann í 25,5 stig þ. 18. þegar vindur var að snúast til norðurs upp úr hægviðri. Þetta er mesti skráði júlíhiti á stöðinni (frá 1924) en mér finnst talan reyndar nokkuð grunsamleg. Fyrir norðan voru stórrigningar seint í mánuðinum. Á Kjörvogi við Reykjarfjörð á Ströndum mældist sólarhringsúrkoman 64,1 mm að morgni þess 27. en morguninn áður 60,1 mm í Fagradal í Vopnafirði. Var þessa daga norðan hvassviðri fyrir norðan í rigningunni og kalt og þ. 31. féll hitinn á Kjörvogi í 2,1 stig og varð hvergi lægri á landinu. Aðfaranótt hins 28. hljóp skriða á Márstaðatún í Vatnsdal og hjá Aralæk í Húnaþingi. Fleiri smáskriður féllu en gerðu lítin usla. Kornsá og Stóra-Giljá flæddu yfir bakka sína.
Brúin yfir Markarfljót var vígð þann fyrsta. Glæpaforinginn alræmdi John Dillinger var skotinn til bana í Chicago þ. 22. Dolfuss kanslari Austurríkis var myrtur af nasistum þ. 25. Og daginn eftir varð Hermann Jónasson forsætisráðherra og átti eftir að standa ærlega uppi í hárinu á þýskum nasistum sem leituðu eftir flugaðstöðu á Íslandi.
Þetta eru sem sagt 12 hlýjustu júlímánuðirnir.
En nú verður nokkura annarra júlímánaða getið fyrir það sem þeir hafa helst unnið sér til frægðar annað en vera meðal þeirra 34 hlýjustu..
Tveir annálaðir júlímánuðir fyrir góðviðri komu á suður og vesturlandi árið 1939 og 1944.
Nr. 17. 1939 (11,02). Þetta er sólríkasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík. Sólskinsstundir voru 308,3 klukkustundir eða nær tíu stundir á dag til jafnaðar. Það var líka sólríkt fyrir norðan en þetta er fjórði sólríkasti júlí á Akureyri. Í Hreppunum er þetta hins vegar hlýjasti júlí sem mælst hefur. Meðalhitinn á Hæli var 13,6 stig og er það næst mesta meðalhitatala á júlímánuði nokkurs staðar á landinu. Mánuðurinn byrjaði reyndar með snörpu norðankasti og var jörð alhvít á Grímsstöðum þ. 3. en þ. 6. fór hitinn á Reykjahlíð við Mývatn niður í -2,6 stig. Alls staðar var mánuðurinn góður eftir kastið en þó bestur á suður-og vesturlandi. Í Reykjavik var sérstaklega hlýtt dagana 23.-28. og eru það líklega einhverjir hlýjustu ef ekki hlýjustu dagar þar sem komið hafa á þeim dagsetningum síðan byrjað var að mæla. Hitabylgja var reyndar á öllu suðurlandi 24.-26. og komst hitinn í Reykjavík í 22,1 stig, 26 á suðurlandsundirlendi og á Hvanneyri en dagana 19.-20. var einnig mjög hlýtt, en þá mest fyrir norðan, og fór þá hitinn í 25,5 stig við Mývatn. Skýfall með þrumum og eldingum kom í Hveragerði í hitunum. Úrkoma var lítil, einkum á vesturlandi, aðeins 3,9 mm í Stykkishólmi og hefur aldrei verið þar minni í júlí frá 1857. Einnig var þetta þurrasti júlí á suðausturlandi, frá Hólum í Hornafirði til Víkur í Mýrdal og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Á Lambavatni á Rauðasandi, nokkurn vegin vestast á landinu, var þetta annar þurrasti júlí en sá þriðji í Vestmannaeyjum. Í heild er mánuðurinn fjóðri þurrasti júlí samkvæmt mínum reikniaðferðum.
Unnendur blíðviðra hafa lengi séð sumarið 1939 í hillingum í huganum. En Þann 17. sást Snæfellsjökull í alvöru hillingum úr 550 km fjarlægð. Nýr Dalai Lama var fundinn í Tíbet þ. 20. og er hann enn á lífi og kom til Íslands fyrir fáum árum. Tveir þýskir kafbátar komu í Reykjavíkurhöfn þ. 22. og daginn eftir kom Stauning forsætisráðherra Dana í heimsókn til Íslands og um það leyti var skáldsagan Gyðjan og uxinn eftir Kristmann Guðmundsson bönnuð í Þýskalandi.
Nr 31, 1944 (10,98) var nokkuð svipaður júlí 1939. Hann var bestur sunnanlands og vestan en samt góður um land allt. Á Þingvöllum var þetta hlýjasti júlí sem þar kom meðan mælt var 1935-1982, en líklega hefur 1991 þó verið svipaður en athuganir voru þá komnar að Heiðabæ í Þingvallasveit. Dagana 19.-21. kom einhver mesta hitabylgja á suður og vesturlandi sem dæmi eru um og komst hitinn þ. 21. í 26,7 stig í Síðumúla í Borgarfirði og 26,5 á Þingvöllum en 22,3 stig í Reykjavík. Það er merkilegt að í þessum mánuði mældist einnig mesta frost sem mælst hefur á landinu í júlí á láglendi, -4,0 stig þ. 27. í Núpsdalstungu í Miðfirði.
Emil Thoroddsen tónskáld lést hinn 7. sama dag og Rauði herinn hertók Vilníus. Lokasprettur styrjaldarinnar stóð sem hæst. Rússar endurheimtu Minsk þ. 7 en Bandamenn tóku Caen þ. 9. og þ. 20. réðust Bandaríkjamenn á Guam. Sama dag mistókst Stauffenberg að ráða Hitler af dögum.
Nr. 23, 2007, (10,83) má teljast nokkuð líkur að eðli og 1936, 1939 og 1944. Afskaplega hlýr og sólríkur á suðvesturlandi en hins vegar fremur dumbungslegur á norðausturlandi. Úrkoma var mjög lítil og er þetta sjötti þurrasti júlí út frá þeim fimm stöðvum sem hér er reiknað með. Í Reykjavík og á Eyrarbakka er þetta næst hlýjasti júlí. Þann 9. gerði óvenjulega mikið þrumuveður á suðurlandi. Hlýjast varð 22,2 á Akureyri þ. 3. en kaldast 0,2 stig í Möðrudal þ. 15. og 18.
Reykingarbann gekk í gildi þ. 1. á opinberum stöðum en þ. 7. snjóaði í Buenos Aires í Argentínu í fyrsta sinn í hundrað ár.
Nr 23, 1960, (10,83) Þessi júlí var eiginlega annars flokks eftirlíking af ofantöldum mánuðum. Hann var sólríkur og ansi hlýr á suðvesturlandi en jafnaðist að því leyti þó engan veginn á við 1936, 1939 og 1944, en var hlýjasti júlí í áratugi í þessum landshluta eftir 1960 og oft til hans vitnað á þeim sumarsvölu áratugum sem fóru í hönd eftir það ár. Fyrir norðan og austan var þungbúið og úrkomusamt og er þetta þriðji úrkomusamasti júlí á Akureyri, eftir 1932 og 1943. Og þetta var allra sólarminnsti júlí sem mældist á Hallormsstað, 75 klst (1953-1989). Í Reykjavík er þetta aftur á móti fimmti sólríkasti júlí en sá þriðji þegar hann kom. En á Fagurhólsmýri hefur aldrei mælst önnur eins úrkoma í júli, 338 mm.
Kongó fékk sjálfstæði en þar braust fljótlega út langvinn styrjöld. Fyrsta kona í heimi varð forsætisráðherra, Bandaranaike á Ceylon sem nú heitir Sri Lanka.
Nr. 33, 1953 (10,60) er sérstakur fyrir það að hann er hlýjasti júlí sem mældist á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Þar var meðalhitinn 13,1, ásamt júlí 1991. Góðviðri var um allt land. Mesti hiti á landinu var þó furðu lágur, 21,9 stig við rafstöðina í Andakíl þ. 9 en næstu nótt fór frostið í 0,7 stig í Möðrudal.
Þann 17. var gerður vopnahléssamningur í Kóreu þar sem stríð hafði geisað er kostaði þrjár miljónir lífið.
Nr. 15, 1945 (11,08), er merkastur fyrir það að hann er sá hlýjasti sem komið hefur á suðausturlandi. Á Kirkjubæjarklaustri var meðalhitinn 13,1 stig og 12,4 á Fagurhólsmýri og mánuðurinn er sá næst hlýjasti á Hólum í Hornafirði, 12,1 stig. Á Blönduósi hefur aldrei mælst eins hlýr júlí, 11,8 stig. Sums staðar annars staðar inn til landsins var þetta tiltölulega einnig sérlega hlýr mánuður. Hlýjast varð 26,7 stig á Teigarhorni þ. 30. en 25,2 stig á Hallormsstað þ. 17.
Stríðinu var enn ekki lokíð í Asíu og þ. 16. gerðu Bandaríkjamenn fyrstu tilraunir með kjarnokrusprengju og daginn eftir hófst ráðstefna Bandamanna í Potsdam.
Nr. 16, 1941 (11,05) er einhver úrkomuasamsti júlí sem mælst hefur. Á Teigarhorni við Berufjörð er hann næst úrkomusamasti júlí sem þar hefur mælst (mest 281,3 mm 1994). Hlýjast varð 25,0 stig á Hallormsstað þ. 21. en kaldast -0,4 í Núpsdalstunga, þ. 5.
Bandaríkjamenn tóku að sér hervernd Íslands þ. 7. og áttu eftir að vera ansi lengi að vernda.
Nr. 20, 2009 (10,94) Undarlegur mánuður. Í Reykjavík hafa aðeins fjórir júlímánuðir verið hlýrri, 2010, 1991 og 2007 en 1936 var jafn hlýr. Lengi leit út fyrir að mánuðurinn mundi setja mánaðar hitamet í höfuðstaðnum. Þegar 22 dagar voru liðnir af honum var meðalhitinn 13,5 stig. En þ. 23. skall á hastarlegt kuldakast sem stóð í fjóra daga og dró meðalhitann niður. Snjóaði þá í fjöll norðanlands en næturfrost komu syðra. En síðustu dagana var aftur hlýtt. Á landsvísu var þetta kast ekkert óskaplega vont miðað við ýmis önnur kuldaköst í júlí en á nokkrum stöðum á suðurlandsundirlendi mældist þó meiri kuldi en dæmi er um í júlí. Á Eyrarbakka fór hitinn í 0,5 stig þ. 25. og nóttina áður fór hann niður í 0,0 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum. Á sjálfvirku stöðinni á Hellu voru tvær frostnætur, minnst -1,6 stig þ. 24. Í Þykkvabæ mældist líka frost og fóru kartöflugrös þar mjög illa. Mjög þurt var í mánuðinum. Í Reykjavík hefur aðeins mælst minni úrkoma í júlí 1888 (8,1 mm). Þurrkamet voru víða sett. Hlýjast varð 25,6 stig þ. 1. á Torfum en sama dag mældust 26,3 stig þar á sjálfvirku stöðinni. Kaldast varð-2,7 stig á Brú í Jökuldal þ. 24. en á mannaðri stöð -1,0 stig á Torfum þ. 26. Hiti fór hvergi í 20 stig síðustu 10 daga mánaðarins, eftir kuldakastið.
Næstu fjórir mánuður sem hér verða taldir eiga það sameiginlegt að hafa verið afskaplega hlýir fyrir norðan og austan en að sama skapi votviðrasamir og rysjóttir á suður-og vesturlandi.
Nr. 13, 1926 (11,1). Þetta var mikll rigningarmánuður á suður-og vesturlandi og úrkomusamt var um allt land nema á norður- og austurlandi. Bæði í Reykjavík og Stykkishólmi er þetta úrkomusamasti júlí sem mældur hefur verið síðan Veðurstofan tók til starfa 1920. Í Reykjavík hafa aldrei verið fleiri úrkomudagar í júlí, 28. Mjög sólarlítið var í bænum en heldur skárra á Akureyri. Það er merkilegt við þennan mánuð að hann er hlýjasti júlí á ýmsum útnesjum fyrir norðan og austan, t.d. á Teigarhorni. Dagana 2.-7. voru miklir hitar fyrir norðan allt upp í 28,2 stig á Húsavik þ. 2. sem er mesti hiti sem þar hefur mælst. Eins og vænta má var heyskapartíð afleit víðast hvar á landinu nema á norður og austurlandi þar sem hún var þokkaleg. Mikið þrumuveður gekk yfir á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 7. og brotnuðu þá sjö símastaurar vegna eldinga.
Nr. 34, 1955 (10,59). Sumarið 1955 var alræmt á suðurlandi fyrir úrkomu og var lengi hið arkatýpíska rigningarsumar í hugum fólks þar um slóðir en er nú tekinn að fyrnast nokkuð. Þetta er fjórði sólarminnsti júlí í Reykajvík. Sunnan og suðvestan var alsráðandi og sýnir kortið suðvestanstrenginn í háloftunum. Þessi júlí var enda sá úrkomusamasti sem komið hefur á Eyrarbakka, 228,0 mm, og í Vestmannaeyjum. Einnig á Andakílsárvirkjun í Borgarfirði frá 1950, 175 mm og sunnanverðu Snæfellsnesi. Í Kvígindisdal mældist aldrei meiri úrkoma í júlí 1928-2004, 292 mm og á Lambavatni frá 1922, 183 mm. Á suður-og vesturlandi var sem sagt með afbrigðum óþurrkasamt og náðist ekkert hey í hlöður nema vothey, en á norðausturlandi- og austfjörðum gekk heyskapur að óskum. Óþurrkarnir náðu hins vegar að nokkru leyti til vestanverðs norðurlands. Eftir mínum kannski ófullnægjandi en samt skýru reikniaðferðum (sjá Skýrignar) er þetta úrkomusamasti júlí síðan mælingar hófust. Á Akureyri er þetta næst hlýjasti júlí sem mælst hefur og víða á öllu svæðinu frá norðvesturlandi til austfjarða en á Úthéraði og á Hallormsstað er þetta hins vegar hlýjasti júlímánuðurinn. Einnig á Húsavík og í Aðaldal. Hitinn á Skriðuklaustri var skráður 13,6 stig sem er næst mesti meðalhiti í júlí á landinu á eftir júlí 1991 á Írafossi þar sem meðalhitinn var 13,7 stig. Mjög hlýtt var þ. 24. fyrir norðan og austan og komst hitinn þá í 27,3 stig í Fagradal í Vopnafirði. En að sólarhringsmeðaltali var hitinn þennan dag sá mesti nokkurn dag ársins á Akureyri frá 1949, 20, 9 stig. Eftir þennan mánuð hafa ekki komið 13 stiga mánuðir á Akureyri.
Í þessu rigningarsama mánuði skaust fyrsta rokklagið upp í efsta sæti vinsældalistans í Bandaríkjunum, Rock around the Clock með Bill Haley. Eisenhower forseti Bandaríkjanna kom við á Keflavíkurflugvelli þ. 16. og þ. 18. var Disneyland opnað. Magnús Ásgeirsson skáld lést hinn 30.
Nr. 27, 1984 (10,79). Júlí þessi var einnig mikill rigningarmánuður syðra eftir þ. 11. en aftur á móti hlýr og góður á norður og austurlandi. Í Reykjavík er þetta áttundi sólarminnsti júli. Fyrir norðan hafði ekki komið eins hlýr júlí síðan 1955. Aldrei hefur mælst hlýrri júlí í Reykjahlíð við Mývatn en þar hófust mælingar 1937 og þetta er næst hlýjasti júlí á Hallormsstað. Hlýjast varð 26,3 stig á Vopnafirði þ. 18. Hafísa varð vart á norðanverðum Vestfjörðum, í utanverðum Húnaflóa allt að Gjögurtá og austan Eyjafjarðar. Á Sámmstöðum í Fljótshlíð hefur aldrei mælst minna sólskin í júlí, 49,7 klst (frá 1964).
Ragnar Jónsson í Smára dó hinn 12. en ólympíuleikarnir hófust þann 28. í Los Angeles.
Nr. 21, 1976 (10,87) Þessi mánuður er minnisstæðastur fyrir mikla hitabylgju sem gerði dagana 9. og 10. Fyrri daginn komst hitinn í Reykjavík í 24,3 stig sem þá var mesti hiti sem þar hafði mælst í nútímaskýli. Mestur varð hitinn á landinu hins vegar 26,8 stig á Akureyri þ. 9. Eftir hitana brá fljótlega til rigninga á suðurlandi og var þetta þar mikið rigningasumar.
Nr. 28, 1919 (10,80) Vestan- eða suðvestanáttamánuður mikil enda mældist þá hlýjasti júlí sem komið hefur á Seyðisfirði frá 1907, 13,5 stig. Nokkrir afar hlýir dagar komu í mánuðinum og á Möðruvöllum í Hörgárdal voru 9 dagar sem hitinn náði 20 stigum eða meira. Þar var mánuðurinn reyndar votviðrasamasti júlí sem þar mældist árin 1914-1925, 71,7 mm. Á Seyðisfirði var 26 stiga hiti einn morguninn kl. 6 en því miður voru engar hámarksmælingar á staðnum. Á mestöllum Húnaflóa var talsverður hafís. Í höfuðstaðnum er mánuðurinn sá níundi í röðinni að sólarleysi.
Hið ólánsama Weimarlýðveldi var stofnað í Þýskalandi síðasta daginn.
Nr. 35, 1913 (10,50) Þessi mánuður er aðeins sá 35. hlýjasti á veðurstöðvunum níu. Hann er hins vegar ódauðlegur fyrir það að enginn júlí í höfuðborginni hefiur verið eins nískur á sólarblíðu sína, aðeins 66 klukkustundir. Þórbergur var eitthvað að væflast í höfuðstaðnum, skólaus og svangur, en það var reyndar ekki fyrr en næsta sumar sem hann var næstum því dauður úr hungri. Hann hafði ráðið sig í að mála hús en þá þornaði aldrei á steini svo tekjurnar urðu engar. Sumarið 1914 var líka mikið rignargarsumar.
Sumrin fóru að hlýna nokkuð á Íslandi á tíunda áratug 20. aldar eftir langan tíma með svölum sumrum. Komu þá nokkrir fremur hlýir mánuðir en eftir að 21. öldin gekk í garð fór að hlýna verulega. Hafa síðan verið yfirleitt góð og hlý sumur, ekki síst sunnanlands og vestan. Þrír hlýir júlímánuðir í röð, nr. 17, 2003 (10,99), nr. 14, 2004 (11,09) og nr. 15, 2005 (11,01) eru til vitnis um breytta veðurtíma, en þó verður að segjast að sumarhlýindin sem nú eru jafnast ekki alveg á við það besta sem var frá miðjum þriðja áratugnum fram í miðjan fimmta áratuginn.
1990 Nr. 23 (10,81) Óvenjulega þurrt var um miðbik norðurlands og er þetta næst þurrasti júlí á Akureyri. Úrkoma var hins vegar mikil sunnanlands, einkum síðari hluta mánaðarins, og er þetta næst úrkomusamasti júlí í Vestmannaeyjum. Á Kvískerjum var úrkoman 472,1 mm en aðeins 7,7 mm á Ísafirði. Mikið úrfelli var á suðausturlandi þ. 24. og næstu nótt og á Vagnsstöðum í Suðurveit mældist sólarhringsúrkoman 111,2 mm að morgni þ. 25. og 106,5 mm á Kvískerjum. Mjög hlýtt var þ. 14. þegar hitinn fór í 26,1 stig á Vopnafirði. Í Reykjavík fór hitinn í 20,4 stig þ. 27. en tuttugu stiga hiti er ekki alltof algengur í Reykjavik.
1994 Nr. 21 (10,9) Þetta er úrkomusamasti júlí sem mælst hefur á Teigarhorni frá 1873, 281,3 mm. Enn meiri var þó úrkoman á Kvískerjum, 484,3 mm og þar var sólarhringsúrkoman 185,0 m þ. 30. sem er mesta sólarhringsúrkoma í júlí á landinu. Sama dag mældust 177,5 mm í Skaftafelli og 146,1 mm á Vagnsstöðum í Suðursveit. Á Egilsstöðum var mánaðarúrkoman aðeins 7,6 mm. Þetta var annars suðaustanáttamánuður og var fremur dumbungslegt víða en þó sólríkt við Mývatn. Þar mældist mesti hiti mánaðarins, 26,4 stig þ. 6.
Í þessum mánuði hófst þjóðarmorðið ægilega í Ruanda.
2000 Nr. 28 (10,7) Þurr og sólríkur mánuður um allt land og víða var talinn einmuna blíða. Óvenjulega þurrt var norðan lands og austan. Í Neskaupstað var úrkoman aðeins 2,6 mm. Á Teigarhorni er þetta áttundi þurrasti júlí. Mjög votviðrasamt var hins vegar syðst á landinu, 439,7 mm á Skógum undir Eyjafjöllum þar sem sólarhringsúrkoman mældist 184,7 mm að morgni þ. 22. sem er aðeins 0,3 mm frá Íslandsmetinu 1994. Mjög hlýtt var um þetta leyti og hitinn fór í 24,8 stig þ. 24. á Torfum í Eyjafirði.
Enginn annar en Paul McCartney kom til landsins og einnig Haraldur Noregskóngur og hans drottning.
2003 Nr 19 (10,99) Hlýr en afar vætusamur og fremur sólarlítill mánuður. Hann er ekki síst eftirtektarverður fyrir það að í kjölfar hans fór hlýjasti ágúst sem mælst hefur og reyndar hlýjasti mánuður sem mælst hefur á landinu yfirleitt. Hitabylgju gerði dagana 17.-19. og var hún mest á suðurlandsundirlendi. Komst hitinn í 26,2 stig á Írafossi þ. 18. og 26,0 á Jaðri og víða í 25 stig á suðurlandi þennan dag og þann næsta. Þann 18. gerði mikið skúraveður með þrumum og eldingum við Landmannahelli. Úrfelli mun hafa verið gríðarlegt og féllu margar skriður úr fjöllum sem skildi eftir sig ljót sár.
2004 Nr, 14 (10,9) Fremur sólríkur mánuður alls staðar og þurr fyrir norðan. Á Sauðanesvita var úrkoman aðeins 2,9 mm. Þann 5. var feiknarlegt staðbundið úrfelli með þrumuveðri á Galtalæk og nágrenni í Hrunamannahreppi. Féllu aurskriður við bæinn Sólheima og ollu nokkrum skemmdum á gróðri. Á Staðarhóli í Aðaldal mældist mesti hitinn á mannaðri stöð, 25,2 stig þ. 9 - og einnig mest kuldinn -2,1 stig þ. 4.
Stórleikarinn Marlon Brando lést fyrsta daginn.
2005 Nr. 18 (11,0) Votviðrasamur mánuður. Seinni hluta mánaðarins kom langur góðviðriskafli sunanlands og vestan. Dagana 19.-27. fór hitinn yfir 17 stig alla dagana nema einn í Reykjavík en þó aldrei hærra en í 19,4 stig og flesta þessa daga var sólríkt. Miklu hlýrra varð þó innsveitum eins og venjulega. Komst hitinn í 24 stig á Þingvöllum þ. 22. en 25,9 stig á Búrfelli þ. 23. og 25,6 á Kálfhóli og nokkrum öðrum stöðvum yfir 25 stig, svipað næsta dag, en svo nokkru minna nokkra daga þar á eftir en þó vel fyrir tuttugu stig.
Þann 14. lést Hlynur Sigtryggsson fyrrverandi Veðurstofustjóri og fór útför hans fram nokkru seinna í óminnilegri veðurblíðu.
Ef litið er til júlímánaða fyrir 1867 allt til aldamótanna verður fyrstur á vegi júlí 1808. Þá var athugað í grennd við Akureyri og eftir þeim virðist mánuðurinn hafa verið hlýindamánuður fyrir norðan á borð við júli 1955. Reyndar hófst þessi júlí á hryssingslegri norðanátt en hlýindin hófst þann 4. þegar hitinn flaug upp í 24 stig um miðjan dag. Samkvæmt mælingunum var tuttugu stiga hiti eða meira lesinn á mæli fimm daga og mestur 25,8 stig um miðjan dag þ. 22. og þá voru 19 stig um morguninn og kvöldið. Að kvöldi hins 8. var lesinn minnsti hitinn, 3,4 stig. Undir lok mánaðarins kólnaði og voru kuldar lengst af í ágúst eins og flesta mánuði á þessum árum. Árið 1855 er júli á Akureyri talinn vera hvorki meira né minna en 13,8 stig eftir mælingum sem gerðar voru í nánd við Siglufjörð. Í Stykkishólmi var hitinn þá 11,5 stig en ekki var athugað í Reykjavik. Eftir athugunum Jóns Þorsteinsssonar í Reykjavik skera júlímánuðirnir þar árin 1829 og 1838 sig úr. Sá fyrri með 13,5 stig en sá síðari með 13,0 stig. Júlí 1824 og 1828 eru báðir með 12,8 stig. Allar þessar tölur eru ónákvæmnar og líklega fremur ofætlaðar en hitt. Í júli 1842 var meðalhitinn í Reykjavík 12,7 stig en 11,7 í Stykkishólmi.
Í fylgiskjalinu, sem allir bíða með öndina í hálsinu eftir að kynna sér, má sjá hita og úrkomu allra 35 hlýjustu júlímánuðina (já, ansi margir) á þeim stöðum sem lengst hafa athugað og auk þess sólskinsstundir í Reykjavík og á Akureyri.
Það má líka sjá hlýjustu mánuði eftir landshlutum, suður-vesturland og norður-austurland. Í fyrri flokknum eru Reykjavík, Hæll, Eyrarbakki og Vestmannaeyjar, en í þeim seinni Akureyri, Grímsey, veðurstöðvar á Úthérað og Teigarhorn. Geta þá þolinmóðir og óbugaðir lesendur spreytt sig á að finna hlýjustu mánuðina í þessum landshlutum út af fyrir sig. Meðaltal úrkomu er líka haft með að gamni þó mælingar á henni séu stundum stopular fyrir þessa staði.
Komist einhver í gegnum allan þennan vísdóm alveg klakklaust er honum sannarlega ekki alls varnað í veðurdellu sinni!
Seinna fylgiskjalið sýnir veður í Reykajvík í júlí 1880, 1939, 1991 og 2010 og Akureyri 1955 og svo hámarkshita hvers dags 1991 og 2008.
Þjóðviljinn 20. júlí 1894, Stefnir 19. júli 1894.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkar: Bloggar, Veðurfar | Breytt 8.12.2011 kl. 18:09 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Sveinn Skorri Höskuldsson kallaði bækur Þorsteins Thorarensen um aldamótasöguna (1900) fílasagnfræði. Þetta voru stórfróðlegar og skemmtilegar bækur. Ekki ætla ég að kalla þessi tröllauknu skrif þín um ýmsa júlímánuði fílaveðurfræði en vil hins vegar þakka þér fyrir stórfróðlega og skemmtilega samantekt. Það sannast á þessu, að hver og einn getur litið á veðrið undir sínu persónulega sjónarhorni og það orðið innblástur til margvíslegrar upprifjunar og sköpunar.
Sigurbjörn Sveinsson, 15.7.2011 kl. 08:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.