Síðsumar

Hitinn í Reykjavík á menningarnótt var næstum því nákvæmlega í meðallagi. Næturhitinn var nokkru lægri en dagshitinn aðeins hærri en meðaltalið segir til um fyrir 20. ágúst. Það er meðaltal margra ára og ekki er oft sem einstaka dagur fellur nákvæmlega að meðaltalinu. Það var sólríkt í gær, sólin skein í 12,2  klukkustundir. Það var sólskinið sem olli því að mönnum fannst mikil veðurblíða.

En nokkurn veginn svona eru heiðarlegir og hversdagslegtr dagar í borginni á þessum árstíma.

Haustlegt?

Ekki til í dæminu. Það nýjasta í veðurfarsmálum á netsíðum er þó það að menn eru farnir að finna lyktina af haustinu. 

Já, það er víst meiri stækjan.

Í mínum huga er enn sumar. Það er síðsumar. En það hugtak er lítið notað í seinni tíð enda heimta menn að tala um haust strax og verslunarmannahelgin er liðin.

Að mínu viti fer ekki að hausta fyrr en hámarkshiti dagsins er svona nokkurn veginn að staðaldri undir tíu stigum. Það gerist yfirleitt svona upp úr miðjum september. Stundum haustar þó  fyrr en stundum seinna. Einstaka sinnum haustar verulega snemma  í veðrinu, jafnvel þegar ágúst er ekki búinn.  En þegar allt er nokkurn vegin eðlilegt  og sómasamlegt tel ég vera síðsumar frá því um miðjan ágúst eða aðeins fyrr og fram undir miðjan september. Október finnst mér fyrst og fremst vera mánuður haustins.

Meðalhitinn í Reykjavík í þeim ágúst sem er að líða er enn meira en heilt stig yfir meðallagi og sólin er alveg um það bil að ná meðaltali alls mánaðarins en úrkoman á langt í land. Á Akureyri hefur sigið á ógæfuhliðina og hitinn þar er fallinn meira en hálft stig undir meðallagið og úrkoman komin yfir helminginn af meðallagi alls mánaðarins. Mánuðurinn er að hita undir meðallagi frá Hornströndum og austur og suður um til sunnanverðra austfjarða. Annars staðar er hitinn yfir meðallagi en þó mismikið. Kaldast er á norðausturhorninu.

En ágúst er ekki liðinn. Og haustið er ekki komið þó það sé kannski handan við hornið eins og hamingjan.

Njótum síðsumarsins meðan það enn þá varir.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig langaði óstjórnlega að gefa þér og Mala þessa skemmtilegu hreyfimynd

DoctorE (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 23:04

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Við Mali þökkum kærlega fyrir myndina en hún hreyfist því miður ekki!

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2011 kl. 23:22

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jú, hún hreyfist löturhægt!

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2011 kl. 23:24

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú hreyfist hún almennilega og Mali er skíthræddur!

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2011 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband