Kaldasti dagur ársins

Þetta er kaldasti dagur ársins enn sem komið er. Landsmeðalhitinn verður líklega sá lægsti á árinu. Frostið fór í 24,3 stig í nótt í Veiðivatnahrauni og er það lægsti hiti sem mælst hefur enn á árinu. Á Grímsstöðum fór frostið í  18,8 stig sem er mesta frost ársins á mannaðri veðurstöð. Ekki er þó hægt að segja að það sé ýkja mikið á þeim stað. Kuldapollurinn hans Trausta hefur verið að sleikja landið. 

Í dag er sólargangur í Reykjavík orðinn meiri en tólf stundir en jafndægur eru á þriðjudag.

Á fasbókarsíðum voru menn að tala um vorveður fyrir nokkrum dögum. En dagurinn í dag sýnir einstaklega vel hve óvarlegt er að treysta því að vorið komi í mars þó hlýir dagar komi og það margir í röð.

En í suðaustur Evrópu, nema Grikklandi og Tyrklandi, er ekki vorið heldur sumarið komið, að minnsta kosti í heimsókn, og teygir sig  alveg inn i Pólland, Tékkland og sunnanvert Þýskaland. Í Belgrad í Serbíu var 25 stiga hiti nú á hádegi.

Í Ameríku hefur verið mjög hlýtt undanfarið og rétt eins og hér, þegar langvinn hlýindi koma síðla vetrar, óttast menn að gróður kunni að fara illa ef vorhret skellur á. Í New York getur 10-12 stiga frost alveg komið á þessum árstíma ef virkilega liggur illa á kuldabola.  

Kuldinn hér mun ekki standa lengi. Það hlýnar strax á morgun. Enn er hitinn á landinu yfir meðallagi og góðar líkur eru á að hann haldi því til mánaðarloka. Hann nær þó aldrei febrúar enda var hann mjög afbrigðilega hlýr.

Nú bíður maður bara eftir þvi að snjórinn fari og komi ekki aftur fyrr en næsta vetur og helst aldrei.


 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birnuson

Helzt aldrei! Halilúja!

Birnuson, 20.3.2012 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband