29.6.2012 | 14:02
Sólarminnstu júnímánuðir
Vitaskuld er minni ljómi yfir mjög sólarsnauðum sumarmánuðum en afar sólríkum. Þess vegna verður umfjöllunin um sólarlitla júnímánuði öllu fátæklegri en pistillinn um þá sólríku.
Sumrin 1913 og 1914 voru alræmd rigningarsumur á suðurlandi. Sólinni var þá ekki fyrir að fara. Seinna sumarið var reyndar sumarið sem Þórbergur réði sig til að mála hús að utan en þar sem aldrei þornaði á steini var ekkert hægt að mála og hann fékk því ekkert kaup munaði minnstu að ofvitinn dæi úr hungri. Ef við teljum Vífilsstaði til Reykjavíkur, en þar hófust sólskinsmælingar árið 1911, er júní 1914 sá sólarminnsti sem mælst hefur í höfuðborginni með aðeins 61 sólskinsstund en meðaltalið 1961-1990 er 161 stund. Engar úrkomumælingar voru þá í Reykjavík en hins vegar á Vífilsstöðum. Þar var úrkomumagnið ekkert sérstaklega mikið en fáir þurrir dagar. Í Vestmannaeyjakaupstað mældist aftur á móti meiri úrkoma en þar mældist á árunum 1881-1921 en eftir það var veðurstöðin flutt til Stórhöfða. Hrakleg og svöl tíð var talin á vestanverðu landinu en fyrir norðan var besta tíð og alveg þokkalega hlýtt. Í heild var hitinn á landinu kringum hálft stig undir meðallaginu 1961-1990 sem við þekkjum best og ekki svo sem að góðu en hér er alltaf miðað við þetta meðaltal hvað hita varðar. Úrkoman var í rúmu meðallagi á landinu miðað við þær örfáu stöðvar sem lengst hafa athugað árin 1931-2000. Þetta var annars ekkert venjulegur mánuður í heiminum. Fyrri heimstyrjöldin hófst í mánaðarlokin.
Júní 1913 er sá fimmti sólarminnsti í Reykjavík með 104 sólarstundir. Hann var reyndar þurrari en 1914, en samt talinn rigningarsamur syðra en skárri fyrir norðan en alls staðar var hann í svalara lagi og aðeins kaldari en 1914. En úrkoman var undir meðallagi.
Fjórði sólarminnsti júní í borginni er 1925, 95 stundir. Úrkomusamt var á suðurlandi og hiti ekki langt frá meðallagi en vel hlýtt fyrr norðan og þar með telst mánuðurinn meira en eitt stig yfir meðalaginu á landinu í heild.
Árið eftir, 1926, mældist svo áttundi sólarminnsti júní á Akureyri, 130 klukkustundir. Í Reykjavík skein sólin reyndar tíu stundum skemur þó úrkoma væri lítil en þar sem mælingasagan er nokkru lengri í Reykjavík en á Akureyri kemst mánuðurinn þar ekki á topp tíu listann yfir sólarminnstu júnímánuði en er reyndar í ellefta sæti. Mætti kannski leika sér að því að kalla þetta sólarnauðasta júní sem mælst hefur á Íslandi! Miklar rigningar voru austanlands og á Teigarhorni var þetta úrkomusamasti júní sem komið hafði frá 1874, 213,5 mm en það met var þó slegið árið 2003, 234 mm.
Á miðju hlýindaskeiðinu á fyrra hluta tuttugustu aldar, 1938, mældist svo sólarminnsti júní á Akureyri, 94 klukkustundir en meðaltalið er 177 stundir 1961-1990. Fádæma úrkoma var þennan mánuð á ýmsum útskögum fyrir norðan. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma í júní í Grímsey, á Raufarhöfn, nyrst á Tröllaskaga, á Ströndum og í Bolungarvík. Reyndar ekki heldur á Lambavatni á Rauðasandi þar sem þetta var fyrsti júní sem úrkoman var mæld. Í Reykjavík var fremur sólríkt. Svalt var alls staðar og leiðindatíð.
Júní 1946 var sá fimmti sólarminnsti á Akureyri með 120 stundir en fremur sólríkt var á suðurlandi. Þetta var kaldur mánuður, um hálft stig undir meðallaginu á landinu eins og júní 1938. Alræmt kuldakast gerði snemma í mánuðinum með snjó sums staðar á láglendi fyrir norðan.
Enn kaldari júní í heild, 1952, var svo sá tíundi sólarminnsti á Akureyri með 130 klukkustundir en hann er sá fimmti sólríkasti í Reykjavík, Hans er að illu getið í pistlinum um sólríkustu júnímánuði. Hann reynist vera tíu kaldasti júní á landinu frá 1866 og sá tíundi þurrasti. Metavænn júní! En á verri veg!
Kringum 1960 komu nokkrir mjög sólarlitlir júnímánuðir í Reykjavík.
Níundi sólarminnsti júní þar var 1958, 119 stundir, en þá var fremur sólríkt á Akureyri. Úrkoman á landinu var aðeins um helmingur af meðallaginu en hitinn var í kringum meðallag.
Áttundi sólarminnsti var 1960 með 116 stundir og þá var lítil sól einnig fyrir norðan. Úrkoman var um einn fjórða fram fyrir meðallagið á landsvísu.
Þrátt fyrir þessa slöppu sumarbyrjun áttu sumrin 1958 og 1960 er upp var staðið eftir að verða eftirminnileg sólskinssumur í Reykjavík og á suðurlandi og teljast þar enn með betri sumrum fyrir sól og hita.
Júní 1962 var svo í Reykjavík sá tíundi sólarminnsti með 119 stundir og ekki var mikið skárra fyrir norðan. Úrkoman á landinu var líka mikil.
Júní 1969 tel ég þann þriðja úrkomusamasta á landinu. Og hann er sá sjötti sólarminnsti í Reykjavík með 106 stundir. Við suðurströndina var þetta einn af tveimur eða þremur úrkomusömustu mánuðum í júní og í Stykkishólmi er þetta sjötti úrkomusamasti júní, allar götur frá 1857 með 80 mm en metið er frá 1889, 105 mm. Fremur sólríkt var fyrir norðan. En í hönd fór svo eitthvert hið mesta rigningarsumar í öllum landshlutum.
Næsti júní á undan, 1968, var aftur á móti næst sólarminnsti júní sem mælst hefur á Akureyri með 102 sólarstundir. Þetta var á miðjum hafísárunum.
Skammt var svo á Akureyri í þriðja sólarminsta júní, 1972, með 111 stundir. Þetta er einnig úrkomumesti júní á Akureyri, 117,2 mm. Á Fljótsdalshéraði, í Æðey og sums staðar í Þingeyjarsýslum hefur heldur aldrei mælst eins mikil júníúrkoma. Ég tel þetta raunar tíunda úrkomusamasta júni á landinu en það er ekki sérlega nákvæmt tal en gefur þó bendingu.
Níundi sólarminnsti júní á Akureyri var svo ekki langt undan, 139 stundir, árið 1975. Þetta var afar kaldur mánuður og er reyndar sá fimmti kaldasti júní á landinu að mínu tali frá 1866.
Árið 1983 kom sjötti sólarminnsti júní á Akureyri með 121 stund. Ég tel hann einnig sjötta úkomumesta júní á landinu. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma í Vestmanneyjum í júní eða rigningarbælinu Vík í Mýrdal og aðeins einu sinni á Eyrarbakka, 1887, í dálítið sundurslitinni en samt langri mælingasögu. Metúrkoma var einnig á Hæli í Hreppum, Mýrum í Álftaveri, Brekku í Norðurárdal og jafnvel Hólum í Hjaltadal og Vopnafirði. Þessar stöðvar mældu allar nokkuð lengi en mælingarsagan var þó mislöng og ekki alltaf samhliða. Í mánuði þessum mældist svo minnsta lofvægi sem mælst hefur á landinu í júní, 957,5 hPa í Vestmanneyjum að morgni þess ellefta. Sumarið átti eftir að reynast eitthvert það sólarminnsta og allra kaldasta á suður og vesturlandi en var þokkalegt fyrir norðan eftir að júní sleppti.
Þriðji sólarsnauðasti júní í Reykjavík var 1986 með 88 stundir. Aldrei mældist minni sól í júní á Hveravöllum, 106 stundir. Ekki var heldur minni sól í nokkrum júní á Reykhólum, 78 klst og Reykjum í Ölfusi þar sem sólarstundirnar voru aðeins 62 en ekki var sérlega lengi athugað á þessum stöðum. Á Akureyri var vel sólríkt og hlýtt en svalt syðra í ríkjandi sunnan og suðvestanátt.
Annar sólarminnsti júní í höfuðborginni kom svo árið 1988. Þá skein sólin í 72 stundir. Fyrir norðan var heilmikil sól, 224 klst á Akureyri. Þar var líka vel hlýtt en svalt syðra eins og 1986. Hitinn þann 26. fór i 28,6 stig á Vopnafirði. Eitthvert mesta vestanveður í júní kom þann 18. Þá stórsá á gróðri suðvestanlands svo hann jafnaði sig aldrei allt sumarið. Veðurhæð komst í 9-11 vindstig á 22 veðurstöðvum.
Árin 1994-1996 koma öll við sögu sólskinsleysis í júní.
Á Akureyri var júní 1994 sá fjórði sólarminnsti með 120 stundir. Þetta var úrsvalur mánuður en ekki úrkomusamur. Hann státar hins vegar af einu merkismeti: Meðalloftvægi í Stykkishólmi hefur aldrei orðið lægra í júní alveg frá 1846, 1001,9 hPa.
Árið eftir, 1995, kom sjöundi sólarminnsti júní í höfuðborginni með 110 stundir. Svalt var vestanlands en veruleg hlýindi á austur og suðausturlandi.
Loks var júní 1996 sá sjöundi sólarminnsti á Akureyri með 129 stundir. Þetta var annars meðalmánuður að hita og úrkomu.
Eftir þetta ár hefur enginn júnímánuður skandalíserað með topp tíu sólarleysi, hvorki fyrir sunnan né fyrir norðan.
Að maður skuli svo nenna að standa í þessu í góðviðrislegum júnímánuði sem þegar er kominn upp í fimmta sæti í Reykjavík fyrir sólríkustu júnímánuði og er enn á leið upp metorastigann! Afhverju er maður ekki úti úí góða veðrinu! En þetta er víst það sem kallað er veðurdella og er víst ekki besta dellan!
Fylgiskjalið fyrir júní fylgir hér með.
Meginflokkur: Mánaðarvöktun veðurs | Aukaflokkar: Bloggar, Veðurfar | Breytt 19.4.2013 kl. 18:08 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Takk fyrir fróðlega grein. Það mættu fleiri ausa yfir okkur amlóðana visku, ótilneyddir.
Takk fyrir, enn og aftur.
Halldór Egill Guðnason, 30.6.2012 kl. 03:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.