Janúarhitamet í Reykjavík

Árið er varla byrjað þegar hitametin taka að falla. Í dag mældist hámarkshitinn í Reykjavík 10,7 stig sem er það mesta sem þar hefur mælst í janúar. Gamla metið var 10,6 stig frá þeim fimmta árið 2002. Hitinn var 9,5 stig á athugunartíma kl. 15 og 9,6 stig kl. 18.  Þetta eru mælingar á gamla góða kvikasilfursmælinum. Sjálfvirka stöðin fór í 10,1 stig en búveðurstöðin í 9,9 og Reykjavíkurflugvöllur í 10,4 stig. Kannski á hitinn enn eftir að stíga.

Hvergi annars staðar veit ég til að sett hafi verið hitamet á stöð sem lengi hefur athugað. Mestur hiti sem mældist á landinu var annars 13,4 stig á vegagerðarstöðinni Stafá, skammt vestan við Haganesvík, og á Hvanneyri 12,2. Á Torfum í Eyjafirði mældist hitinn 12,0 stig á kvikasilfrinu en 12,5 á sjálfvirku stöðinni.  

Á Brúarjökli í 845 metra hæð hefur hitinn farið í 8,7 stig í dag. Mjög hlýtt loft er yfir landinu. Þykktin er vel á við hásumardag. Skilyrði í háloftunum voru fyrir um 18-19 stiga hita í Reykjavík en á norðausturlandi um 24 stiga hita. En það er önnur saga hvort þeir möguleikar nýtist við jörð í raun og veru um hávetur og ekki er nú sólinni fyrir að fara.

En við megum vel við hitametið í höfuðstaðnum una.

Samt eru margir að býsnast yfir veðrinu þar á fasbók! Það er nú bara eitthvað að því fólki.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég sá 11 gráður á mælinum í bílnum í dag, við rætur Esjunnar - á leið á Kjalarnes. Það var þó nokkur vindur og rigning, en ekkert mál að vera úti, enda mjög hlýtt.

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.1.2013 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband