Indjánasumar

Undanfarið hafa sumir fjölmiðlar talað um indjánasumar um hlýindin sem voru fyrir fáum dögum. 

Hugtakið indjánasumar, indian summer,  á sér amerískan uppruna. Það er notað í daglegu tali um bjarta og óvenjulega hlýja daga eftir árstíma, en svölum nóttum, á hausti eftir að kuldi hefur verið fyrir með svo miklu frosti að vöxtur gróðurs hefur stöðvast, ekki bara stöku væg næturfrost. Indian summer er ekki framlenging á sumri, en sumur geta auðvitað verið misgóð, heldur hlýindakafli eftir að óumdeilanleg hausttíð hefur verið um skeið. 

Ýmis önnur lönd hafa svipuð hugtök um það þegar óvenjuleg hlýindi koma að hausti eftir að kólnað hefur. 

Vafasamt finnst mér, að ekki sé meira sagt, að kalla hlýindakaflann sem kom um daginnn á Íslandi indjánasumar. Sumarið var alls ekki liðið og enginn frost höfðu verið á landinu. Hásumarið var að vísu í kaldara lagi og mjög kalt fyrir norðan en ekki gengur að tala um  indjánasumar þó eftir kalt sumar,sem samt er sumar en ekki haust, komist hiti í eðlilegt horf eða jafnvel komi góður hlýindakafli. Á undan þessu íslenska "indjánasumri" vantaði almennilegan haustkulda til að það geti fallið undir þessa amerísku skilgreiningu á indjánasumri.  

Og alls ótækt er að nota þetta hugtak, indian summer, um sólarglætudag í Reykjavík sem ekki var neitt sérstaklega hlýr og kom ekki einu sinni í kjölfar neinna kulda, því sumarið hefur verið alveg þokkalegt á Reykjavíkursvæinu, eins og gert var með myndefni í einum fjölmiðli í gær. Ástandið sem ríkti þegar hlýjast var um daginn þegar hiti fór víða yfir 20 stig fyrir norðan og austan var alls ekki á þvi sama plani í Reykjavík. Þar var svo sannarlega ekki neitt indian summer í sama skilningi og verið er að nota hugtakið um veðrið fyrir norðan þó sólarhringsmeðaltal hita í Reykjavík hafi verið vel yfir meðallagi árstímans. 

Í sannleika sagt finnst mér ekki ganga að nota amerískt hugtak, þar sem veðurfar er allt öðru vísi en hér, alveg hrátt til að lýsa hlýindakafla að síðsumri á Íslandi. 

Hitt er annað mál að kannski eru til einhver orð og hugtök um íslenskt veðurfar sem lýsa sjaldgæfum hita og blíðviðri sem kemur eftir skítatíð að sumri (sem aðallega á þó við norður og austurland hvað þetta sumar snertir).

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Sumar á Sýrlandi væri frekar við hæfi. Ég hló að þessu indíánasumri, þegar ég heyrði það nefnt af einhverri fréttasnót í fréttum RÚV nýverið.

FORNLEIFUR, 14.9.2015 kl. 07:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband