Smávegis um veðurfar þessarar aldar - Árshiti

Fyrstu 14 ár þessarar aldar eru hlýjustu samfelld 14 ár frá upphafi mælinga á landinu  í heild og einnig á flestum einstökum veðurstöðvum en ekki alveg öllum.

Landsmeðalhiti þessara ára er um 4,4 stig og er það alveg 0,8 stigum hærra en meðalhiti síðustu 14 ára tuttugustu aldarinnar en hvorki meira né minna en 1,2 stig yfir langtíma meðallaginu 1961-1990 og meira að segja hálft stig yfir hlýja meðallaginu 1931-1960. En í þessum langtíma meðaltölum eru reyndar 30 ár á móti 14 það sem af er okkar aldar. En allur þessi samanburður segir þá sögu hve sjaldgæflega hlý 21. öldin hefur verið hingað til.

Næst hlýjustu 14 árin á landinu eru 1933-1946, um 4,1 stig og svo 1928-1941, kringum 4,0 stig.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að fyrstu 14 ár okkar aldar hafa verið gósentíð hvað hitafar snertir.

Ekkert raunverulega kalt ár hefur komið þessi 14 ár en lægsti meðalhiti var 3,9 stig árið 2005. Aðeins þrjú ár voru hlýrri en það árin 1987-2000 og fimm ár á öllu tímabilinu 1961-1990. Takið eftir því hvað að þessi siðasta setning er að segja.

Hlýjasta árið á okkar öld var í fyrra, um  5,11 stig  og 2003, um 5,05 stig, og eiga þau ár sér enga hliðstæðu í sæmilega trúverðugri mælingasögu.  

Hvað einstakar veðurstöðvar snertir og athugað hafa í lengri tíma er meðalhitinn í Reykjavík, Bolungarvík, Grímsey og á Raufarhöfn um einu stigi hlýrri á þessari öld en 14 síðustu árin á 20. öld. Í Stykkishólmi og i Vestmannaeyjum er munurinn 0,9 stig, á Fagurhólsmýri og Vatnsskarðshólum 0,8, á Teigarhorni, Akureyri, Grímsstöðum og Kirkjubæjarklaustri 0,7 stig.

Þessi hlýindi eru svo mikil og hafa staðið svo lengi að varla er þess að vænta að ekkert hik komi á þau. Og það virðist reyndar einmitt vera að gerast á árinu 2015. Ekki kemur það á óvart en það segir þó nákvæmlega ekkert um hitafar næstu ára.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Guð blessi gróðurhúsaáhrifin

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.9.2015 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband