Hvað eru margir góðir sólardagar á sumrin í Reykjavík

Af öllum þeim stöðum þar sem sólskin hefur verið mælt á landinu mælast sólskinsstundir að sumarlagi, frá júní til ágúst, flestar i Reykjavík. Einhver sól mælist flesta sumardaga, en alveg sólarlausir dagar koma þó fyrir, en oftast er samt ekki hægt að tala um einhverja sólskinsdaga. Við skulum kalla það sólardaga eða sólskinsdaga þegar sólskin mælist 10 klukkustundir eða meira. 

Hvað eru slíkir sólardagar margir í meðalsumri í borginni?

Síðustu 30 ár, 1987-2016, hafa slíkir dagar að meðaltali verið 23,3 á tímabilinu júni til ágúst. Í júní voru þeir 8,3, í júlí 8,0 og í ágúst voru þeir 7,0. Á viðmiðunartímabilinu 1961-1990, sem enn er almennur viðmiðunartími, voru dagarnir í þessum mánuðum 6,3, 7,9 og 6,6 og 20,8 yfir allt sumarið. Það var sem sagt ekki aðeins svalara á sumrin á þessum tíma en síðustu 30 ár heldur voru líka færri sólardagar og reyndar líka færri sólskinsstundir yfirleitt.

Á þessari öld, 2001-2016, voru sólardagarnir í júní 8,5 (6 í síðasta júní), júlí 8,9 og ágúst 8,4 og allt sumarið 25,8 sólskinsdagar. Það sem af er aldarinnar hafa sumur því ekki aðeins verið hlý heldur hafa þau einnig boðið upp á fleiri sólardaga en oftast áður jafn mög ár og líka sólskinsstundir. Ef við tökum síðustu 16 ár tuttugustu aldar til dæmis er munurinn sláandi miðað við okkar öld. Sólardagarnir voru þá fyrir sumarmánuðina 7.6, 7,7 og 6,1 dagar en 21,4 yfir allt sumarið. Auk þess voru þessi sumur talsvert kaldari en á okkar öld.

Það er því ekki að furða þó menn geri nú miklar kröfur til sumargæða. Við erum svo góðu vön í hálfan annan áratug hvað sumarhlýindi og sumarsól varðar.

September, sem talinn er til sumarmánaða á Veðurstofunni, er ekki inni í þessu af því að þá eru 10 klukkustunda sólardagar miklu færri en aðra sumarmánuði enda er þá sól farin að lækka svo á lofti að síðasta þriðjung mánaðarins er nóttin orðin lengri en dagurinn. En í sumum septembermánuðum koma samt góðir sólskinsdagar framan af mánuðinum en 10 klukkustunda sólardagar í öllum þeim mánuði voru aðeins 3,2 að meðaltali 1987-2016. Einstaka sinnum hafa sólríkir septembermánuðir bætt verulega við þá sólskinsdaga sem komu í júní til ágúst.

Stundum geta komið allgóðir sólardagar þó sólin nái ekki að skína í 10 klukkustundir. Mjög gott dæmi um það var síðasta sunnudag þegar sólin skein í níu og hálfa klukkustund í Reykjavík og maður upplifði sem allgóðan sólskinsdag (en í svalara lagi). En einhverja viðmiðun verður að hafa og hér er miðað 10 klukkustundir.

Mikil tilbrigði eru í fjölda slíkra sólskinsdaga milli mánaða og sumra og verður fjallað um það í næsta boggpistli.    

Og já, Ísland er ekki neitt sólskinsland!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband