Guðþjónusta

Ég hlusta á guðþjónustuna í útvarpinu á hverjum sunnudegi. Ég á það jafnvel til að fara í kirkju. Síðustu sumur hef ég haft þá venju að stunda kvöldmessurnar í Laugarneskirkju hjá séra Bjarna Karlssyni.

Ég leyni sem sagt heilmikið á mér.

Ekkert hefði ég á móti því að séra Bjarni myndi jarða mig -og það sem allra fyrst. 

Í útvarpsmessunni í dag frá Dómkirkjunni hélt Karl biskup fína ræðu. Hann gaf skít í þetta ytra öryggisæði sem tröllríður nútímanum. Hann benti réttilega á það að öryggi kemur alltaf innan að í lífi einstaklingsins. 

Ekki skulum við svo rugla saman eftirliti með borgurunum og öryggi þeirra.

Ein hugsun lætur mig aldrei í friði: Er öruggt að guð elski alla menn? Getur ekki verið að honum sé í nöp við suma?

Stundum kvarta bestu menn yfir því  að guð heyri ekki bænir þeirra. Hann skeyti ekki um þá. Hvernig stendur á þessu? Oft er þá sagt við þá: Þú biður bara ekki rétt. Þú opnar ekki fyrir gæsku guðs. Og þá er þetta farið að hljóma eins og ásökum: Þú ert ekki nógu góður maður. Þú hleypir ekki guði að.

Ekkert af þessu er einfalt mál þó oft sé einmitt á því tekið með þeim einfeldnishætti sem ég var að lýsa og er í rauninni bara hugleysi til að fást við ráðgátur lífsins og trúarinnar.

Sumir hugsa þó dýpra. En samt hef ég aldrei séð svar við þessum spurningum sem mér finnst vera bæði andlega heiðarlegt og trúverðugt.

Kannski er það einmitt málið að það eru ekki til svör við öllu. Og við það verðum við að sætta okkur.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður ertu, Sigurður minn, og fyndinn: "... og það sem allra fyrst"!

Verður kannski hólpinn út á þitt góða og gefandi skopskyn ...

En í alvöru talað er þetta ágæt hugleiðing hjá þér ...

(fyrir utan að ég hefði kosið mér annan kvöldmessuprest).

En hefurðu reynt að fá aðra til að biðja fyrir þér?

Kristin trú er samfélagsleg, communal, líf hennar er til að deila með öðrum.

Það á líka við um bænina; "biðjið hver fyrir öðrum, bræður ..."

Enga veit ég reyndar betri til þess en systurnar í Karmelklaustrinu.

Þær eru með opinn síma sinn, 555-0378, hvern einasta dag ársins.

Guð gefi þér og þínum góðan dag og alla daga.

*PS. Og snjallastur fannst mér þú í svörunum á síðu Sigga Kára.

Erum við þó engan veginn sammála í ýmsum þeim málum sem þar voru rædd.

Jón Valur Jensson, 3.6.2007 kl. 13:50

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Má ég bæta við, þótt það sé fyrir utan efnið: Snjöll þessi hugmynd þín að vera með "bloggóvini nr. 1, 2, 3 ..." ! Sú fyrsta, sem ég leit þó á, Tóta pönk, fannst mér þó afar sympatísk í þessari færslu sinni: Um góðan sveitunga minn. Þetta hélt ég að ætti nú við þig, Sigurður, í stað þess að vísa henni út í yztu myrkur vegna kannski einhverra formgalla. En kannski ertu ekki allur þar sem þú ert séður, þ.e. í launfyndni þinni.

Jón Valur Jensson, 3.6.2007 kl. 14:01

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

 

Takk fyrir þetta!. En ég átti ekki við sjálfan mig í sambandi við þessar bænir. Mér sýnist þetta bara vera býsna sígilt spursmál sem ég var rétt að drepa á. Þetta bloggóvinakerfi er auðvitað bara púra grín enda er því þannig tekið af flestum, gert til að vekja athygli á nokkrum góðum bloggurum sem ekki eru á Moggablogginu með hliðsjón af saklausum væringum sem stundum eru á milli hópanna. Bloggóvinirnir ráku upp gleðióp þegar þeir fréttu af upphefðinni. Tóta pönkína er svo einn af "skárri kunningjum mínum" - alveg fyrir utan bloggið. Hún mun skilja þetta orðalag.   Ég er nú búinn að gleyma hvað ég kommenteraði á Sigga Kára og þarf nú að fara að líta á snilldina!

Mér finnst það skemmtilegast við bloggið að menn þurfa ekki alltaf að vera alvarlegir eins og í blaðagreinum og geta auðveldlega blandað saman gamni og alvöru. Reyndar finnst mér alltaf mesta gaman af athugasemdum því þá er maður í beinum tenglsum við fólk.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.6.2007 kl. 21:04

4 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Ég er aðdáandi prestanna í Laugarneskirkju og finnst afskaplega gott að koma þangað. Vona þó að ég fari ekki fljótlega í jarðarför þína frá þessum ágæta stað.

Ég er svolítið hrædd við framtíðina, sérstaklega ef of margir sem setja lit á lífið hverfa af vettvangi. Við megum ekki gera mannlífið fátækara en það er!!!

Björk Vilhelmsdóttir, 4.6.2007 kl. 11:31

5 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Allra fyrst!? Ertu orðinn snargalinn karl! Veit ekki betur en þú sért á leiðinni í frí og þér liggur ekkert á að láta pota þér ofan í holu!

Heiða B. Heiðars, 4.6.2007 kl. 15:28

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Orðsending: Yfirvofandi jarðarför minni verður frestað um óákveðinn tíma vegna fjölda áskorana. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.6.2007 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband