Hvenær byrjar haustið?

Undanfarið hafa ýmsir bloggarar skrifað að nú sé haust í lofti og einn sagði að það sé algeng skoðun Íslendinga að sumarið sé búið og haustið komið þegar verslunarmannahelgin er liðin. Og þetta er alveg rétt hjá honum. Ótrúlega margir virðast vera þessarar skoðunar og það kemur fram ár eftir ár ef ekki er beinlínis hitabylgja eftir verslunarmannahelgina eins og var reyndar árið 2004 þegar flest hitamet á landinu voru slegin.

Þetta gæti samt ekki verið meira fjær lagi. Það er ekki komið haust um miðjan ágúst. Síðustu daga hefur raunar kólnað nokkuð frá því sem verið hefur en þó ekki meira en svo að álika og meira þó hefði hæglega getað gerst hvenær sem var í júlí.  Það lýsir því best hve Ísland er kalt land að ekki megi koma almennileg norðanátt um hásumar svo hitinn fyrir norðan komist ekki upp í tíu stig á hlýjsta tíma sólarhringsins. Veðrið núna er vægt kuldakast og bráðum hlýnar á ný.

Það er vitanlega mismunandi hve snemma haustar að og líka hversu sumarið kemur snemma. Þar getur verið mikill munur á milli ára. Kuldaköst eru algeng á sumrin en oft hlýnar eftir þau jafnvel þó síðsumar sé en stundum verður sumarið vissulega endsleppt. 

Sannleikurinn er þó sá að meðalhitinn um miðjan ágúst er hærri en  fyrstu vikuna í júlí og hærri en nokkurn dag í júní. Þessi árstími, um miðjan ágúst,  er mjög nærri hlýjasta tíma ársins. Dagsbirtan er hins vegar skemmri en í júlí og júní auðvitað og sólarhæðin lægri. En það er ekki aðalatriðið hvað sumarhitann varðar. Fátt er eins ljúft og hlýir síðsumarsdagar með rómantísku rökkri. "Það var í ágúst að áliðnum slætti og nærri aldimmt á kvöldunum þeim", sagði gæinn rétt áður en hann tók blítt í höndina á henni Kötu í kvæðinu fræga og það var ekki veðrinu að kenna að hann fór á bömmer þegar hann sá að hún var með einfaldan giftingarhring!  

Það er kannski einmitt upplifunin af myrkrinu sem veldur þessari tilfinningu fólks að það sé farið að hausta strax eftir verslunarmannahelgina.  Hvenær vill fólk þá meina að sé sumar eiginlega? Bara í júlí?

Í skjalinu sem fylgir hér með færslunni er hægt að sjá útjafnaðan meðalhita fyrir hvern dag í Reykjavík frá maí til september eins og hann reyndist árin 1961-1990. Síðustu tíu sumur eða svo hafa yfirleitt verið talsvert hlýrri en oftast var á þessum árum en munurinn milli daga er væntanlega eitthvað svipaður.

Á töflunni sést svo ekki verður um villst að ekki er farið að hausta um miðjan ágúst. Þessar tölur og útjöfnunin eru komnar frá Veðurstofunni. Það verður að útjafna tölurnar (ekki útvatna!) af því að veðrátta á Íslandi er svo breytileg að annars yrðu tölurnar eins og skörðóttur hundskjaftur ef þær væru settar upp í línurit jafnvel þó heil þrjátíu ár séu höfð undir.  

Það held ég nú! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Jú, þetta er allt búið.

gerður rósa gunnarsdóttir, 18.8.2007 kl. 10:40

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Aumingja Míó! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.8.2007 kl. 10:50

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

'Blítt ég tók í hönd á Kötu
horfði í augun djúp og blá.
Gengum síðan burt af götu
geymdi okkur náttmyrkrið þa.'

  

Svava frá Strandbergi , 18.8.2007 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband