Gamlar minningar

Íþróttablað Morgunblaðsins segir frá því í dag að nú sé hálf öld liðin frá því að Hilmar Þorbjörnsson setti íslandsmet í 100 metra hlaupi sem enn stendur. Þetta gerðist á gamla Melavellinum í Reykjavík. Það vill svo til að ég var á vellinum þennan dag og man vel eftir undrun áhorfenda þegar metið var tilkynnt í hátalarakerfinu. Þetta mun vera eitthvert elsta íslandsmet sem enn stendur.

Ég var líka á Laugardalsvellinum þegar Vilhjálmur Einarsson setti íslandsmet í þrístökki, 7. ágúst 1960 og stökk 16.70 metra. Það hefði verið jöfnun á heimsmeti ef pólverjinn Jósef Schmidt hefði ekki nokkrum dögum áður stokkið fyrstur manna yfir 17 metra. Met Vilhjálms stendur enn sem íslandsmet.

Ég er hreinlega alls staðar þar sem hlutirnir gerast á vettvangi íþróttanna! Ég leyni sem sagt heilmikið á mér. 

Loks vil ég taka það fram af gefnu tilefni þennan síðsumarsdag að ég hef hreinustu andstyggð á hvers kyns menningu. Ef ég ætti pístólu myndi ég spenna upp á henni gikkinn við það eitt að heyra orðið nefnt.

Hvort sem það yrði nú að nóttu eða degi.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Þú værir kannski til í að láta vita, næst þegar þú ætlar að mæta á íþróttaviðburð

Finnur Hrafn Jónsson, 18.8.2007 kl. 21:09

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Menn voru miklu betri fyrir fimmtíu árum en í dag og 1000 ára met Gunnars á Hlíðarenda standa reyndar enn. Menn kunna bara ekki að mæla í álnum og gera sér ekki grein fyrir því að Gunnar er handhafi minnsta kosti átta Íslandsmeta, sem vart verða slegin úr þessu.

Í dag verða menn heldur ekki meistarar án þess að hella í sig hálfu apóteki eða fá frí í vinnunni.

Hvernig var veðrið á Melavellinum þann 7. ágúst 1960? Voru menn enn að tala um SÍS skandalinn?

Hvað varðar menningu, (ojbara og ullabjakk). Nú fer fólk út á nóttinni til að fá menningu, upplýsta með ljóskösturum sem fyrrverandi þjóðminjavörður Dana kallaði réttilega "luderbelysning". Á daginn ríkir eintóm ómenning. Það er ekki nema von að menn geti ekki stokkið almennilega lengur.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 18.8.2007 kl. 23:50

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessir menn Hilmar, Vilhjálmur, að ekki sé talað um þessa enn eldri á "gullöldinni", Huseby, Torfi og allir þeir og svo Friðrik Ólafsson í skákinni voru miklu meiri afreksmenn í íþróttum en þessir vesalingar á okkar dögum, ekki einu sinni miðað við aðstæður heldur beinlínis miðað við heimsafrek.  Veðrið var náttúrlega frábært 7. ágúst 1960 eins og allan þann mánuð, heiðskírt og 17 stiga hiti mest.  Nú er líka alltaf gott veður en afrekin láta á sér standa. Hvar er nú feðranna frægð...

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.8.2007 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband