Að fá ekki að deyja

Eins og kunnugt er hefur Ariel Sharon sem einu sinni var forsætisráðherra Ísraels verið í dái í marga mánuði eftir að hann fékk heilablóðfall. Hann mun aldrei komast aftur til meðvitundar. Lífi hans sem viti gædds einstaklings er lokið. Hann skynjar ekki umhverfi sitt og á enginn mannleg samskipi. Hann er lítið annað en samsafn líffæra sem halda áfram sinni vélrænu starfsemi. Hann er bara form, innantóm skel. Lifandi lík í orðsins fyllstu merkingu. Ef hann hefði lifað áður en tækni nútímans kom til sögunnar væri hann löngu dáinn. Hann fékk ekki að deyja. Hann var skorinn upp hvað eftir annað bara til að þetta sálarlausa form geti haldist lengur við lýði.

Mér finnst þetta eitthvert ljótasta dæmið sem ég þekki um böl tækninnar þegar líf og dauði eru  annars vegar. Tæknin varnar mönnum að deyja en neyðir þá til að lifa sem skugga. Þetta sýnir líka vissar ógöngur sem læknisfræðin getur ratað í þegar allt er gert til að halda líffærum líkamans í gangi þó merkingarbært líf einstaklingins sé ekki lengur fyrir hendi. Mér finnst slíkt ganga glæpi næst.

Og Sharon er ekki eini maðurinn sem svona er ástatt um og svona er farið með. En líklega geldur hann þess fremur en hitt hvað hann er þekktur og var valdamikill. Það verður að reyna að "bjarga" slíkum manni hvað sem það kostar.

Ég segi fyrir mig: Ef það á fyrir mér að liggja að verða svona lifandi lík endilega þá notið koddann til að koma mér yfir í annan heim.

Fariði samt varlega og látið ekki sjást til ykkar! Ekki vil ég að nokkur þurfi að sitja inni í mörg ár fyrir slíkt þjóðþrifaverk. En það væri algjört glæpaverk að halda í mér lífinu. 

Synd bæði gagnvart guði og mönnum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það hefur nú óvart slokknað alverg á mér eins og sagt er frá í bloggfærslunni næst á undan þessari! Eitthvað í átt við svona  "livstestamente" er víst líka í gangi hjá Landlælknisembættinu hér heima.    

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.9.2007 kl. 11:49

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sammála. Reyndar finnst mér Ariel Sharon ekki beinlínis heppilegt dæmi ef höfða skal til samúðar í einhverju tilliti.

Árni Gunnarsson, 22.9.2007 kl. 12:24

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sharon er ekki valin sem dæmi vegna samúðar eða andúðar heldur eingöngu vegna þess hve það dæmi er vel þekkt. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.9.2007 kl. 16:25

4 identicon

Eru ekki bara þínar eigin tilfinningar að þvælast fyrir þér. Ef Sharon er bara lifandi lík eins og þú orðar það og sviptur öllu vitrænu lífi þá væntanlega finnur hann ekki fyrir þessu ástandi og skiptir það hann því í raun engu máli.

Ég get vel skilið að fólki þyki þetta óhugnaleg tilhugsun en þá er það frekar út frá þeirra eigin tilfinningum að mínu mati.

Við eigum framförum í læknavísindum mikið að þakka og myndi ég alls ekki vlija hægja á þeim á nokkurn hátt.

Eddi (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 17:44

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég þekki nógu mörg dæmi um þetta vandmál til að geta sagt að hér er um vandmeðfarið mál að ræða.

Í þessum tilfellum veigruðu nánustu aðstandendur sér við að taka ákvörðun um það hvenær sú ákvörðun yrði tekin að hinum nákomna yrði ekki lengur haldið á lífi. 

Í þeim tveimur tilfellum sem ég þekki best til var maðurinn á banalegunni enn með nægri meðvitund til að skynja stutta stund á stangli tilveru sína og návist við þá sem voru við rúm hans, en var hins vegar búinn að vera lengi á þessu tilverustigi.

Auðséð var að þetta gæti ekki gengið svona endalaust. Niðurstaða aðstandendanna var sú að fela hinu reynda liði lækna og hjúkrunarfólks að meta hvenær rétt yrði að taka hinn deyjandi mann úr sambandi þannig að dauðinn kæmi yfir hann líkt og tæknin væri ekki fyrir hendi við að halda honum lifandi.

Þá hafði þessi tækni haldið honum lifandi með mismunandi mikilli meðvitund svo vikum skipti.  

Af því að ég vildi með engu móti bera ábyrgð á því hvenær þetta yrði varð varð afleiðingin sú fyrir tilviljun að dauðastund hans kom þegar ég var of fjarstaddur til að geta komist til hans í tíma og kvatt hann.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en það var afstaðið hve miklu við báðir höfðum misst af.

Aðeins tvisvar í sambúð okkar feðga höfðu verið raunveruleg tímamót. Í fyrra skiptið þegar ég fæddist. Þá stund átti hann einn í minningunni, ég gat ekki munað hana.

Hin stundin var kveðjustundin, stund sem ég gat átt í minningunni en ekki hann á þessu tilverustigi.

Eftir situr spurningin: Hefði ég sætt mig frekar við það að taka með systkinum mínum ákvörðun um það hvenær faðir minn dæi? Eða að beina því til lækna og hjúkrunarfólks að láta mig vita í tíma hvenær að þessu kæmi? 

Ég held ekki, - þetta er svo stór ákvörðun að maður getur ekki beint henni að jafn nákominni persónu á grundvelli lítillar reynslu og mats á aðstæðum.

Eftir situr samviskubit yfir því að hafa ekki hætt við allar langferðir á meðan á þessu ástandi hans stóð.

Kveðjustund með föður manns kemur nefnilega aðeins einu sinni í þessu jarðlífi.  

Ómar Ragnarsson, 22.9.2007 kl. 21:52

6 identicon

Mér finnst það mjög ósanngjarnt (veit reindar ekki hvað rétta orðið er) að ætlast til þess að fólk taki líf annarra. Þeirri ákvörðun á enginn maður að þurfa að standa frammi fyrir, það er því mjög ósanngjarnt (aftur á ég erfitt með að velja rétta orðið) að biðja fólk um slíkt. Það er aftur á móti annað mál að biðja um að líf manns sé ekki lengt á sambærilegan hátt og þú lýsir hér að ofan.

Sigga (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 23:09

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er það sem fólk er beðið að taka ákvörðun um í svona aðstæðum, hvoirt það vilji lengja líf annarra, aldrei að taka líf þeirra. Kaldhæðnina í lok færslunnar ber ekki að taka alveg alvarlega öðru vísi en sem andtúð á svona vélrænni framlengingu. Mér finnst það eiginlega syndsamleg að framlengja líf sem er í rauninni lokið. Það er líka spurning hvort læknar, sem beinlínis hafa lengt líf fólks með aðgerðum sínum geti svo að lokum velt ábyrgðinni yfir á aðstandendur. Eiga þeir ekki að bera ábyrgðina til loka? Því má velta fyrir sér. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.9.2007 kl. 00:11

8 identicon

Ok, þá er ég algjörlega sammála þér.

Sigga (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 00:14

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Takk fyrir þetta einlæga komment Ómar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.9.2007 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband