Dýradagurinn mikli

Í gær fór ég með Mala minn í geldingu og pestarsprautu nr. 2 hjá Dagfinni dýralækni. Ég fór með hann að morgni og skildi hann eftir mjálmandi og vælandi. Ég náði svo í hann síðdegis og var hann þá vægast sagt framlágur og lítill í sér. Hann skjögraði á fótunum og þegar hann ætlaði að stökkva upp á eitthvað dreif hann ekki hálfa leið og  þóttist svo á eftir bara eitthvað vera að huga að feldinum sínum til að draga athyglina frá aumingjaskapnum. Ég þurfti líka að halda á honum allan daginn og hann elti mig volandi um húsið ef ég sleppti hendinni af honum. Tvisvar kastaði hann upp. Og hann var nú ekki meiri bógur en svo að hann var skíthræddur við æluna úr sjálfum sér, setti hreinlega upp fádæma aumkunarverða kryppu.  

Það olli mér þungum áhyggjum að hann, sjálfur Malinn, malaði ekki neitt allan daginn eftir að hann kom heim úr geldingunni. Hann stóð sem sagt engan veginn undir nafni.

Og skyldi kettinum ekki leiðast að láta steingelda sig.  

En í morgun hefur Mali engan bilbug látið á sér finna. Hann er þegar búinn að velta um nokkrum blómapottum og eyðileggja mörg blöð úr prentaranum mínum en það er hans uppáhalds hryðjuverk. Svo er hann að rífa og tæta allt annað líka sem hann nær í. 

Og svo malar hann og malar eins og honum sé borgað fyrir það með rækjum og túnfiski.

Í gær leit ég við hjá kunningja mínum en tíkin hans var að gjóta tveimur hvolpum. Þeir eru blindir og út úr heiminum og ekki sjón að sjá þá. En mamma þeirra var eins og drottning, stolt, vitur og yfirveguð. Hún og Mali eru orðnir ágætir vinir. 

Dagurinn í gær var sem sagt dýradagurinn mikli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Aumingja Mali. Hvernig gastu gert honum þetta?

María Kristjánsdóttir, 25.10.2007 kl. 12:41

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég á læðu, er að fara með hana í sprautu no.2 í dag. Veit ekki hvað ég geri í kynlífsmálum hennar, hún hittir náttl. aldrei aðrar kisur svo ég verð að bera þetta undir lækninn. Ég skrifaðu smá um kisu mína á síðunni minni í gær, kisur eru yndislegar. Kær kveðja frá Bóthildi minni til Mala.

Ásdís Sigurðardóttir, 25.10.2007 kl. 13:11

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Segi það nú María. Mér finnst ég líka vera dr. Göbbels. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2007 kl. 14:14

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Kisur eru alveg eins og börnin manns, nema að einu leyti maður lætur ekki gelda börnin sín.

Svava frá Strandbergi , 25.10.2007 kl. 15:49

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En ég var nú samt að láta gelda aumingja Mala!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2007 kl. 16:17

6 identicon

Aumingja litli Mali þinn.  Þetta er bara nokkuð sem verður að gera.  Ég á tvo fressketti, sem gengu í gegnum þessa aðgerð.  Og heimilisköttur minn til tuttugu ára var einnig geltur þegar hann var kettlingur.  Þeir verða heimakærari og rólegri þegar þeir eru ekki alltaf að hugsa um dömur.  Kettir eru frábær dýr.     Og hundar líka! Kveðja.

Auður (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 18:09

7 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Fressið er þá svona Unic.

Karlmenn verða líka þægilegri í umgengni og hlýða betur ef þeir fara í svona aðgerð.  http://www.urbandictionary.com/define.php?term=unic 

En þessi máti hefur verið lagður af. Segi ekki meira.

Ólafur Þórðarson, 26.10.2007 kl. 00:23

8 Smámynd: halkatla

þetta hefur verið yndislegur dagur

gott að Mali var hress á eftir

halkatla, 27.10.2007 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband