Mannskaðaveðrið mikla á Vestfjörðum 4. febrúar 1968

Í dag eru fjörtíu ár liðin frá einhverju mesta norðaustanveðri sem komið hefur á Vestfjörðum. Fórst þá togarinn Ross Cleveland í Ísafjarðardjúpi með allri áhöfn nema einum manni og auk þess vélbáturinn Heiðrún II frá Bolungarvík með sex manna áhöfn. Annar breskur togari, Notts County, strandaði við Snæfjallaströnd en áhöfninni var bjargað af varðskipinu Óðni. Einn maður dó af vosbúð.

Veður þetta minnti menn á hið fræga Halaveður í febrúar 1925 sem varð 68 mönnum að fjörtjóni.

Fyrst var talið að allir skipsverjar á Ross Cleveland hefðu farist á sunnudeginum. Svo var þó ekki. Einn maður bjargaðist, fyrsti stýrimaðurinn Harry Eddom. Björgun hans varð einhver mesti fjölmiðlaviðburður sem  þá hafði átt sér stað í landinu og varð fréttaefni um allan heim. Til landsins kom fjöldi breskra fjölmiðlamanna og æsiblaðið Sun borgaði far eiginkonu Eddoms til landsins og keypti einkarétt á frásögn stýrimannsins.

Hann hafði komist í björgunarbát ásamt tveimur öðrum skipsverjum þegar togaranum hvoldi vegna mikillar ísingar. Rak bátinn á land fyrir botni Seyðisfjarðar. Voru þá tveir skipsverjanna látnir. Stýrimaðurinn braust að húsi í talsverðri fjarlægð en það reyndist vera mannlaus sumarbústaður. Hafði hann ekki þrek til að brjóta upp húsið en tókst að hjara til morguns í skóli við það og næsta morgun varð drengur frá Kleyfum, bæ í næsta nágrenni, var við hann og leiddi hann til byggða. Það var ekki fyrr en á þriðjudeginum 6. febrúar. Fyrir fáum árum kom ég á blíðum sumardegi í flæðarmálið þar sem gúmbátinn rak að landi og greip mig þá einkenileg tilfinning. Hér er bresk frásögn um það þegar flak togarans fannst löngu síðar. Harry Eddom hefur ekki veitt nein viðtöl um atburðin nema við Óttar Sveinsson sem fjallaði um hann í bókinni Útkall í Djúpinu sem síðar var gefin út á ensku.  

Atangur hinna erlendu fjölmiðlamanna var slíkur að sjúkrahúsið á Ísafirði, þar sem Harry Eddom var lagður inn til aðhlynningar, mátti kallast í umsátri og lenti yfirlæknirinn beinlínis í handalögmálum við bresku fréttamennina.

Ross%20Cleveland 

Laugardaginn 3. febrúar var grunn lægð fyrir vestan land. Þá var allvíða snjókoma og hægur suðvestan vindur. Síðari hluta dagsins eyddist lægðin yfir norðvesturlandi en þá nálgaðist stormsveipur landið úr suðvestri. Hvessti þá mjög á norðaustan og norðan aðfaranótt þ. 4. Um daginn var lægðin við suðvesturland eða yfir því og kl. 6 mældist loftvægi í Reykjavík 952, 4 hPa. Olli lægðin fárviðri af norðaustan um vesturhluta landsins og var það talið með mestu veðrum sem komið hafði áratugum saman á Vestfjörðum og við Breiðafjörð. Urðu þar geysimiklir skaðar, bátar slitnuðu upp og skemmdust eða sukku, rafmagnsstaurar brotnuðu, línur féllu vegna ísingar og hvassviðris og fjárhús og skúrar fuku, járn af húsum og gluggar mélbrotnuðu. Veðrinu fylgdi mikil slydda eða snjókoma og feiknamikil ísing á norðurlandi og Vestfjörðum. Á norðanvestanverðu landinu var mikill kuldi. Þegar hvassast var mældu 43 veðurstöðvar tíu vindstig eða meira og næsta dag 29 stöðvar. Eftir það gekk veðrið niður. Á Galtarvita, í Æðey og á Hornbjargsvita voru skráð 12 vindstig eða fárviðri daginn sem togararnir fórust.

Hér má sjá Íslandskort frá hádegi 4. febrúar. Þar sést að á Gatarvita eru 11 vindstig en hvassara var þó í djúpinu. Einnig eru hér sýnd kort sem sýna loftþrýsting við jörð og hitann í kringum 5 km hæð á miðnætti 3.og 4. og 5. febrúar. Þar kemur fram litla vinalega lægðin við vesturland þ. 3 og síðan stormsveipurinn ógurlegi í öllu sínu veldi sem tókst á við geysimikla hæð yfir Grænlandi með skelfilegum afleiðingum. Loks er hér veðurkort úr Morgunblaðinu  frá veðrinu eins og það var kl. 11 (kl. 12 að núverandi tíma) 4. febrúar 1968. Þar er lægðin yfir suðvesturlandi, samskil yfir landinu og snjókomubelti yfir norðurlandi og Vestfjörðum.

Heimildir: Veðráttan og blaðafréttir.

1968-02-04_12

Rrea00119680203

Rrea00119680204

Rrea00119680204

Rrea00119680205

4.feb_68


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég man eftir þessu slysi og það sem merkilegt er í því sambandi er, að talið var að stýrimaðurinn hafi lifað kuldann af, sökum þess að hann var í íslenskum ullarnærfötum. En eins og allir vita er ullin sérlega einangrandi, blotnar lítið og andar vel.
Mig minnir að í framhaldi af þessu slysi hafi verið hafið átak í því að auglýsa ágæti íslensku ullarinnar. Meira að segja framleiddi Álafoss svokallaða Jumbó kjóla úr lopa, prjónuðum með risastórum prjónum. Ég sýndi einn slíkan kjól á stofnunarsýningu Modelsamtakanna og einnig gaf Álafoss út bæklinga með prjónauppskriftum að kjólunum.

Ég hef stundum nú seinni árin, gengið í síðum ullarbrókum þegar kalt er, en þær eru úr angóruull af kanínum,  því ég er komin með ofnæmi fyrir ull af fé. 

Svava frá Strandbergi , 4.2.2008 kl. 22:25

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Góð úttekt hjá þér, Sigurður. Það var spennandi og jafnframt hættusamt leiksvæði þar sem Notts County lá í slippnum á Ísafirði í mörg ár.

Theódór Norðkvist, 4.2.2008 kl. 23:26

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég man óljóst eftir þessu, enda ekki gömul þá, og aðallega því að þetta var í öllum fréttatímum og í minningunni fór þjóðfélagið á hvolf yfir strandinu en þó aðallega Eddom. Svo gerðist allt á Ísafirði, þaðan var mamma og ég átti mörg skyldmenni þar þá.

Skemmtileg samantekt, takk.

Lára Hanna Einarsdóttir, 5.2.2008 kl. 02:22

4 identicon

Sæll Sigurður. Báturinn hér Heiðrún II. Með honum fórust þrír feðgar, drengirnir voru 17 og 15 ára. Faðirinn var II vélstjóri á bátnum, sonurinn 17 ára var líka í áhöfn bátsins. Yngri drengurinn og maður úr áhöfn annars báts voru að aðstoða við að hemja Heiðrúnu II við brjótinn.

Báturinn sleit af sér alla spotta, þá var ekki um annað að ræða en sigla út úr höfninni og fara í var undir Grænuhlíð. Yngri drengurinn var uppi á brjótnum, en forðaði sér um borði í bátinn þegar brjóturinn fór á kaf, í því slitnaði báturinn frá. Báturinn fórst á leið yfir Djúpið. 

Aðrir úr áhöfn Heiðrúnar II voru veðurtepptir á Ísafirði. Trúlega er það ástæðan fyrir því að Heiðrún II fór ekki til Ísafjarðar um leið og hinir Bolungarvíkur bátarnir, þegar veður tók að versna.

Þeir á Heiðrúnu II voru í sambandi við varðskip sem var í djúpinu, eftir að þeir fóru frá Bolungarvík. Radarinn var frosinn fastur, loftnetið slitið og báturinn mjög ísaður. Þeir voru ekki vissir um hvar þeir voru staddir og óskuðu eftir því að varðskipið miðaði sig út.

Varðskipið heyrði dauft í þeim, taldi þá við Bjarnarnúp, en hafði ekki tíma til að aðstoða þá frekar. Voru uppteknir við að bjarga áhöfn togara sem var strandaður á Snæfjallaströnd. Um borð í togaranum var enginn í hættu, en mikill ótti greip um sigum borð, vegna eigin mistaka fórust þar einn eða tveir menn. Togaramennirnir voru ekki allir blá edrú þegar varðskipsmenn náðu í þá. Varðskipsmenn lögðu sig í mjög mikla, óþarfa hættu, sérstaklega stýrimennirnir Pálmi og Sigurjón, sem fóru á slöngubát yfir í togarann. Tjallarnir hefðu átta að drekka minna brennivín, en halda frekar hita í skipinu og bíða þess að veður lagaðist. Vindur stóð af landi þar sem togarinn var í fjörunni, nánast sléttur sjór.

Með Heiðrúnu II fórst öll áhöfnin, fjórir menn.

Árni Pálsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 08:36

5 identicon

Kom svo ekki kallinn aftur seinna sem skipstjóri í einhverju þorskastríðinu?

ella (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 10:15

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þakka þér fyrir þessa frásögn Árni. Það fórst sem sagt áhöfn Heiðrúnar, fjórir menn og tveir menn að auki, samtals sex menn.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.2.2008 kl. 10:41

7 identicon

Það er rétt hjá þér Sigurður, þeir voru sex um borð. Stýrimaður og skipstjóri af Heiðrúnu voru veðurtepptir á Ísafirði. Annar vélstjóri á Heiðrúnu II, sem var skipstjóri þessa örlagaríku ferð var vanur skipstjórnarmaður. Þeir sem voru til aðstoðar áhöfn Heiðrúnar II og fórust voru 15 ára drengurinn og vélstjóri af Guðmundi Péturs.

Jón Eggert skipstjóri á Heiðrúnu II sem var veðurtepptur á Ísafirði var síðan til margra ára skipstjóri á Guðmundi Péturs, mikill aflamaður. Jón Eggert missti síðar mann út af Guðmundi Péturs í slæmu veðri. Sjósókn við vestfirði hefur kostað miklar fórnir, sérstaklega hér áður þegar sjókuldinn var meiri. Þessir tveir hörmungar dagar liðu sjaldan úr minni Jóns Eggerts, sem nú er látinn. Alla tíð kenndi hann sér um Heiðrúnarslysið, að hafa verið staddur á Ísafirði.

Harry Eddom var skipstjóri til margra ára eftir þetta slys, meðal annars á íslandsmiðum í þorskastríðinu þegar við færðum út í 50 m. Við verðum bara að skilja það, að þetta var atvinnan hjá karlinum. Hann var ekki áberandi í þessu stríði, eða i neinum hasar við varðskipin.

Árni Pálsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 11:14

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég man þetta vel, man að ég sat við útvarpstækið og hlustaði á allt gerast, þetta var hræðilegt.  Úlfur Gunnarsson var þá yfirlæknir á sjúkrahúsinu, og strákurinn heitir Guðmann Guðmundsson frá  Kleyfum.  Hann býr ennþá í Ísafjarðarbæ.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.2.2008 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband