Óþokkar eru þetta!

Ísbjörninn fær ekki að vera í friði. Í morgun flaug flugvél lágflug yfir hann. Það kom styggð að honum. Samt er flug bannað þarna.

Þvílíkir óþokkar eru þetta!

Annars kemur fátt á óvart ef menn hafa lesið blogg manna um ísbjörninn. Björninn er vel vaktaður og auðvitað verður gripið í taumana ef hann fer að gerast hættulegur mönnum áður en svæfingameistarinn mætir á staðinn. Þrátt fyrir þetta má lesa mörg blogg þar sem menn vilja óðir og uppvægir drepa björninn - að því er virðist af drápfýsn einni saman - og hæðast að yfirvöldum og öðrum sem vilja freista þess að reyna að bjarga birninum. Kalla þá alls kyns lítilsvirðandi nöfnum.

Hvers konar hugarfar er þetta eiginlega? 

Já, og svo var kominn tólf stiga hiti strax kl. 9 í morgun í Reykjavík í sól og norðanátt. Þetta ætlar að verða góður þjóðhátíðardagur - það er að segja ef hann kemst ekki á spjöld sögunnar fyrir það að þá var annar ísbjörn felldur á hálfum mánuði.  

Ég er  annars að hlusta á útvarpið frá serimóníunni á Austurvelli. Það voru lesin upp nöfnin á hverri silkihúfunni upp af annarri; forsetinn og frú, ráðherrar og frúr því auðvitað eru ráðherrar aldrei einhleypir og því um síður hommar eða lesbíur, borgarstjóri, biskupinn og ég veit ekki hver. Má ekki stilla þessu partýi fína fólksins í hóf og hafa með einhverja fulltrúa sauðsvarts almúgans?  Er hann nú ekki þjóðin eftir allt saman? 

Og vel að merkja: Hvers vegna í ósköpunum er ríki sem rekið er á veraldlegum forsendum að flagga æðsta yfirmanni trúflokks í fremstu röð? Hvern fjandann er biskupinn yfir Íslandi að gera þarna?

Dagskráin hófst náttúrlega á því að formaður "þjóðhátíðarnefndar" flutti ótrúlega flatt og lágkúrulegt ávarp sem líka var fullt af mærðarlegri þjóðrembu. Hann nefndi til dæmis Jón Sigurðsson og Ingólf Arnarson sem var nú bara billeg þjóðsaga fremur en landnámsmaður.

Síðan söng karlakór þjóðsönginn svo hörmulega að einum afdönkuðum tónlistargagnrýnanda rann kalt vatn milli skins og hörunds og er hann þó ýmsu vanur. 

Well, forsætisráðherra er nú að flytja "hátíðarræðu" í þessum skrifuðu og þjóðhollu bloggorðum mínum og er þegar búinn að nefna tvisvar þennan Jón Sigurðsson sem þjóðin hefur aldrei þolað í raun og veru  enda virðist hann hafa verið einhver leiðinlegasti Íslendingur allra tíma.  Já, og nú fer hann að mæra Bjarna Benediktsson, dónann sem ruddist inn í einkalíf nokkurra Íslendinga til að hlera símana þeirra.

Mín tillaga er sú að þessi auma serímónía á Austurvelli á 17. júní verði þegar í stað lögð niður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Til hamingju með daginn! Ég er líka að hugsa: hvar er víkingasveitin? Væri ekki ágætt fyrir hana að æfa sig í að skjóta niður flugvélarnar sem koma of nálægt ísbirninum -því hvað eru það annað en hryðjuverkamenn sem stjórna þeim?

María Kristjánsdóttir, 17.6.2008 kl. 11:20

2 identicon

Já það er ótrúlegt, að Geir Haarde skuli nefna nafn Bjarna Benediktssonar í ræðu núna á þessum þjóðhátíðardegi.  Honum rennur þó sennilega blóðið til skyldunnar og reynir með þessu að draga dulu yfir hlut Bjarna í augum fólks eftir að komst upp um hann liggjandi á hleri hjá nokkrum blásaklausum vinnufélögum sínum og ýmsum heiðvirðum og dagfarsprúðum alþýðumönnum eins og t.d undirrituðum.  Þetta mun Geir þó ekki takast. Til þess liggur sú ástæða, að sök Bjarna í hlerunarmálunum er of augljós.

Verra er þó, að þrásköllun ríkisins gagnvart því að biðjast afsökunar á pólitískum hlerunum fyrri tíma verkar á fólk eins og þögult samþykki gagnvart slíku ofríki og viðurkenning á því að i einhverjum tilfellum séu slíkar innrásir í pólitískum tilgangi inn í einkalíf fólks bæði eðlilegar og nauðsynlegar.

Það leggst lítið fyrir kempurnar Geir og Ingibjörgu. 

Baldur Pálsson (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband