Hlýjustu ágústmánuðir

Ágúst árið 2003 (meðalhiti 9 lengst starfandi veðurstöðva: 12,20) var ekki aðeins hlýjasti ágústmánuður sem mælst hefur á landinu í heild  heldur hlýjasti mánuður allra mánaða ársins síðan mælingar hófust. Hann er jafnframt hlýjasti ágúst sem komið hefur alls staðar nema víða á svæðinu frá Eyjafirði til Seyðisfjarðar. Auk þess var hann hlýjasti mánuður sem yfirleitt hefur mælst á veðurstöðvum á svæðinu frá Borgarfirði norður og austur um til Skagafjarðar nema sums staðar á Vestfjörðum og hann var líka allra mánaða hlýjastur í Vestmannaeyjum og í Mýrdal. Meðalhitinn var 3,5 stig fyrir ofan meðallagið 1961-1990 á Mývatnssvæðinu og í A-Húnavatnssýslu en 2-3 stig annars staðar. Í Vík í Mýrdal var meðalhitinn 13,2 stig og sama á Írafossi en þetta voru hlýjustu staðirnir. Á landsvísu voru allir dagar mánaðarins yfir meðallagi og líka í Reykjavík. Þar hefur aldrei mælst meiri meðalhiti í ágúst síðan mælingar urðu sæmilega áreiðanlegar. Meðaltal lágmarkshita var 10,4 stig og hefur aldrei verið hærra. Á Vatnsskarðshólum í Mýrdal varð þetta meðaltal 10,8 stig. Það sýnir hlýindin að fyrstu 6 dagana og síðustu 9 dagana, auk nokkurra annarra daga, fór hitinn aldrei niður fyrir 10 stig allan sólarhringinn í borginni.

Eins og að líkum lætur var sunnanátt algengust  en þó ekki af drungalegasta tagi. Sólskin mátti heita í meðallagi í Reykjavík en örlítið yfir því  á Akureyri. Sólríkast var hins vegar við Mývatn og á miðhálendinu. Úrkoma var víðast hvar í minna lagi en náði þó meðallagi á Reykjanesi, við Mývatn, á Hornafirði og stöku öðrum stöðum. Hiti var yfirleitt í hærra lagi allan mánuðinn en þó komu engar raunverulegar hitabylgjur. Mesti hiti sem mældist á landinu var ekki óskaplega mikill miðað við hvað mánuðurinn var hlýr, 24,6 stig á mönnuðu stöðinni á Raufarhöfn og þeirri sjálfvirku á Húsavík þ. 9. Að morgni þessa sama dags mældist mest sólarhringsúrkoma í mánuðinum, 58,3 mm á Snæbýli í Skaftártungu. Í Reykjavík komst hitinn í 20,0 stig þ. 1. Í Álftaverinu mældist mesti hiti sem þá hafði mælst þar í ágúst frá 1959, 23,6 stig þ. 25. Þennan dag var meðalhitinn á Kirkjubæjarklaustri 17,2 stig sem er með því mesta sem gerist á Íslandi svo seint á sumri. Þrátt fyrir hlýindin mældust næturfrost á sex stöðvum í byggð í mánuðinum.

Á fylgiskjali má sjá 20 hlýjustu ágústmánuði á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað: Reykjavík, Stykkishólmi, Ísafirði/Bolungarvík, Akureyri, Grímsey, Teigarhorni, Fagurhólsmýri, Vestmannaeyjum og Hreppunum. Þar sést meðalhiti hverrar stöðvar, meðaltal þeirra allra og úrkoma sem þar mældist og loks fjöldi sólskinsstunda í Reykjavík og á Akureyri. Verður því ekki fjölyrt um þessi atriði í lesmálinu fyrir hverja stöð heldur vikið að almennum atriðum. Þarna vekur athygli að sex mánuðir frá árunum 1931-1939 eru meðal 16 hlýjustu og  3 mánuðir eftir 2001 eru meðan þeirra 8 hlýjustu.  En fyrst er hér einföld hitatafla fyrir 7 hlýjustu ágústmánuði.

                        2003    2004    1880    1939    1947    1931    1945    1961-90

Reykjavík        12,8     12,6     12,4     11,9     11,1     11,5     11,6     10,2

Stykkish.          12,4     12,0     12,0     11,8     11,1     11,6     11,1     9,6

Ísafj/Bolv.        11,9     11,9                 10,8     12,0     11,3     11,8     8,7

Akureyri          12,8     12,1                 12,7     13,2     12,0     11,2     10,0

Grímsey           11,2     10,6     10,8     10,9     10,5     9,5       9,3       7,8

Teigarhorn       11,6     10,7     10,4     10,3     10,8     9,5       9,7       8,8

Fagurhólsm.     12,4     11,8                 11,2     11,0     11,0     11,0     10,0

Stórhöfði         12,1     11,8     11,7     11,0     10,6     11,5     9,7      9,6      

Hæll                 12,7     12,4     12,2     11,9     10,6     11,5     10,8     10,1

Meðaltal           12,2    11,8     11,7     11,4     11,2     11,0     10,8     9,4

Næst hlýjasti ágúst var svo árið eftir, 2004 (11,77). Það sem mestu olli um það var fádæma hitabylgja sem gerði dagana 9.-14. Þá kom hitamet í Reykjavík, 24,8 stig þ. 11. sem slegið var í júlí síðastliðnum. Meðalhitinn í Reykjavík þennan dag var 20,1 og er það í eina skiptið síðan mælingar hófust að sólarhringsmeðaltalið þar nær 20 stigum. Fjóra daga í röð fór hitinn í Reykjavík og víðar á vesturlandi í 20 stig eða meira og er það met. Á sjálfvirka mælinum á Egilsstaðaflugvelli  fór hitinn í 29,2 stig þ. 11. en daginn áður í 29,1 í Skaftafelli í Öræfum en hlýjast á mannaðri stöð varð 28,5 stig á Hjarðarlandi þ. 10. Nánar verður sagt frá þessari hitabylgju í öðrum bloggpistli. Meðaltal hámarkshita á Staðarhóli í Aðaldal var 18,5 stig og 18,4 á Torfum í Eyjafirði og gerist varla hærra á Íslandi en þess ber að gæta að þessar tölur fást þegar skipt er milli sólarhringa kl. 18 sem þýðir að mikil hlýindi á þeim tíma einn daginn er  skráður sem hámarkshiti næsta dag þó miklu kaldari sé. Úrkoman var rétt undir meðallagi á öllu landinu en þó yfir því á suðausturlandi. Óvenjulega sólríkt var og á Akureyri var þetta sólríkasti ágúst sem þar hefur mælst, 209 klukkustundir, en sólríkara varð þó í Reykjavík, 248 stundir og þar var þetta fjórði sólríkasti ágúst. Seinni helmingur mánaðarins var talsvert svalari en fyrri hlutinn og ekkert sérstakur, en fyrri hlutinn var svo hlýr að hann tryggði mánuðinum silfrið meðal ágústmánaða.

Bronsið hlýtur hins vegar sá sögufrægi ágúst 1880 (11,67) sem var hluti af undrasumrinu mikla 1880, langhlýjasta sumri á Íslandi frá því mælingar hófust og þar til fór verulega að hlýna á tuttugustu öld. Þetta var hægviðrasamur ágústmánuður og úrkoma ekki langt frá núverandi meðallagi.  Mánuðurinn skartar svo hlýjasta mánuði sem nokkru sinni hefur mælst á íslenskri veðurstöð, 13,97 stigum á Valþjófsstað. Ef sá hiti yrði hér settur í stað Akureyrar, sem mældi ekki þetta ár, myndi þessi ágúst verða sá næst hlýjasti. Þetta minnir reyndar á að röð hlýjustu   mánaðana er ekki einhlít. Á seinni áratugum eru veðurstöðvar til dæmis miklu fleiri en þær 9 sem hér er miðað við og yrði innbyrðis röð mánaðana eitthvað öðruvísi marga síðustu áratugina ef fleiri veðurstöðvar væru undir heldur en þessar  9 sem lengst hafa starfað.      

Hér er ágúst 1939 (11,39) sá  fjórði  í röðinni og hann var hluti af hlýjasta sumri (júní-sept.) sem stöðvarnar 9 hafa mælt. Hann var hins vegar sá úrkomusamasti sem mælst hefur í Reykjavík, 164,8 mm. Á Hólum í Hornafirði hefur heldur aldrei rignt meira í ágúst, 242,1 mm og í Grímsnesinu var úrkoman líka með allra mesta móti. Það var sem sagt  mjög úrkomusamt sunnanlands- og vestan, en á norður og austurlandi voru góðir þurrkar og ágæt heyskapartíð. Þrátt fyrir þetta voru sólskinsstundir 5 klukkustundum fleiri í Reykjavík en á Akureyri. Það rigndi líka talsvert fyrir norðan suma daga en stórrigningar gerði á suðurlandi á síðasta þriðjungi mánaðarins. Og reyndar víðar! Á Horni í Hornvík mældist sólarhringsúrkoman 106 mm að morgni þ. 25. sem þá var næst mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hafði á landinu í ágúst. Tiltölulega hlýjast varð næst síðasta og síðasta daginn en þá komst hitinn í Reykjavík í 21,4 stig sem var mesti hiti sem  mældist þar í ágúst alla tuttugustu öldina og fram til 2004. Þennan dag var víða um og yfir 20 stiga hiti á suðvesturlandi. Sterkari hitabylgju gerði þó fyrir norðan og austan dagana 2.-4. en þá komst hitinn í 27,1 stig á Sandi í Aðaldal og 27,0 á Hallormsstað.   

Ágúst 1947 (11,20) var víða hlýjasti ágúst sem mælst hefur á svæðinu frá Eyjafirði til Seyðisfjarðar en þó ekki við Mývatn og á Hólsfjöllum. Fyrir norðan og austan ver enda talin einmuna tíð. Á Akureyri hefur aldrei orðið jafn hlýtt í ágúst, 13,2 stig og sömu sögu er að segja um Sand í Aðaldal og síðast en ekki síst Húsavík þar sem meðalhitinn var 13,9 stig sem er mesti meðalhiti á nokkurri veðurstöð á landinu í nokkrum mánuði fyrir utan Valþjófsstað í ágúst 1880. Meðaltal lágmarkshita á Akureyri var 10,0 stig og aldrei verið jafn mikill í ágúst og minnsti hiti mánaðarins var þar 6,1 stig næst síðasta daginn. Þetta var mikill rigningarmánuður á suðurlandi og vesturlandi en tiltölulega var þó votast á sunnanverðum Vestfjörðum. Úrkomumagnið var að vísu víða minna en 1939 en úrkomudagar aftur á móti fleiri og í Reykjavík hafa þeir aldrei verið fleiri í ágúst, 27. Þetta var einnig sólarminnsti ágúst í Reykjavík sem þá hafði verið mældur en það met var slegið 1983. Hann lá í sunnan og suðvestanáttum svo að segja allan mánuðinn og fremur var vindasamt miðað við árstíma. Hitinn gerði aldrei neinar rósir sunnanlands en á norður og austurlandi voru miklir hitar fyrir og um þ. 25. Komst hitinn í 27,2 stig á Sandi og 25,0 á Hallormsstað þ. 22.

Í ágúst 1931 (11,04) var tíð talin mjög góð og hagstæð til lands og sjávar, hlýtt lengst af og góðir þurrkar. Á Kirkjubæjarklaustri var þetta annar hlýjasti ágúst sem þar hefur mælst, 12,3 stig (hlýjast 13,0, 2003)  enda var vindurinn oft vestanstæður. Mánuðurinn var líka vel sólríkur, bæði fyrir sunnan og norðan, og hann var líka mjög þurr, einkum á austurlandi. Úrkomudagar voru næstum því alls staðar færri en 15 og víða undir 10. Á Akureyri rigndi einn dag. Dagana 11.-16. var talið óslitið góðviðri og  hitabylgja var þ. 12.-14. með 24-26 stiga hita víða. Á Hlíð í Hrunamannahreppi mældist hitinn 26.0 þ. 14. og var það mesti hiti sem mældist í ágúst á suðurlandsundirlendi allt fram í ágúst 2004. Þessi mánuður er einn af hinum vanmetnu góðviðrismánuðum að sumri til sem komu á síðustu öld.

Árið 1945 (10,83) naut ágúst sín einkar vel inn til landsins fyrir norðan og austan eins og júlí þetta ár og var þar tiltölulega hlýjast. Þetta er hlýjasti ágúst sem mælst hefur á Hólsfjöllum og hlýrri en 2003. Á suður-og vesturlandi var hins vegar úrkomusamt, einkum á suðausturlandi. Þurrast var á austurlandi. Fádæma rigningar voru á suðurlandi dagana 12.-14. með allt að 78 mm sólarhringsúrkomu þ. 12. á Ljósafossi. Olli þetta flóði í ám og flæddu Varmá í Ölfusi og Norðurá í Borgarfirði yfir bakka sína. Í Reykjavík var næstum því jafn sólarlítið og 1947 og er þetta þar sjötti sólarminnsti ágúst, en fyrir norðan var sæmilega sólríkt og meira sólskin en 1947.     

Ágúst 2006 (10,79)  er í 8. sæti yfir hlýjustu ágústmánuði þó hann sé einkennilega karakterlaus. Sólskin var nærri meðallagi og úrkoman í Reykjavík en hún var heldur meiri en í meðallagi á Akureyri. 

1932 (10,64) Á suður- og vesturlandi gengu rigningar í þessum ágúst. Það rigndi líka mikið norðanlands nema vestan til en þurrara var á austurlandi. Tíðin var þó alls staðar hlý og hægviðrasöm. Hiti var óvenjulega jafn um land allt.

Árið 1899 (10,64) var votviðrasamt víðast hvar og versnaði er á leið. En það var hlýtt svo mánuðurinn krækir í tíunda sæti yfir hlýjustu ágústmánuði. Á Eyrarbakka var úrkoman 218 mm sem er með mesta móti.  

Hér koma næstu tíu hlýjustu ágústmánuðir : Nr. 11 1978 (10,58); Nr. 12 1953 (10,58); Nr. 13 1933 (10,53); Nr. 14 1950 (10,53); Nr. 15 1934 (10,49); Nr. 16 1936 (10,47); Nr. 17 1948 (10,46); nr. 18 1969 (10,46); Nr. 19 1999 (10,42); nr. 20 1991 (10,40). Sjá nánar á hinu ógurlega og dularfulla fylgiskjali! 

Nú verður vikið að nokkrum sérstökum atriðum í sumum þessara mánaða.

Í hægviðrasömum ágúst  árið 1933 gerði eigi að síður sunnan stórviðri vestanlands þ. 27.  með mikilli úrkomu. Þá fórst bátur með fimm mönnum á leiðinni frá Hrísey til Ísafjarðar.  Sumarið 1933 er hið hlýjasta sem komið hefur á norðurlandi og þess var getið í ágúst að þá hafi ýmsar fannir horfið úr fjöllum sem ekki höfðu áður horfið í manna minnum.

Ágúst árið 1950 var alræmdur rigningarmánuður á austurlandi. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma á Dalatanga (frá 1938), 407 mm. Á Seyðisfirði biðu sex manns bana af völdum skriðufalla þ. 19. Á suður- og vesturlandi var þetta óvenjulega hlýr mánuður. Í Reykjavík var hann sá 4. hlýjasti frá 1866, á eftir 2003, 2004 og 1880.  

Úrkomusamasti ágúst á landinu í heild var aftur á móti árið 1969. Einnig mældist þá mesta úrkoma í mánuðinum á veðurstöð, 552,6 mm á Kvískerjum í Öræfum. Þá mældist og mesti hiti sem kom í Reykjavík á svölu sumrunum 1961-1975, 19,9, stig þ. 5.   

Í ágúst 1978 gerðust þau stórtíðindi að á Barkarstöðum í Miðfirði, einhverjum sumarkaldasta stað landsins sem ekki er á útskögum, mældist mesti hiti mánaðarins á landinu, 25,7 stig þ. 2. Ef þetta er þá ekki röng mæling!

Í ágúst 1991 féll 18 mm úrkoma Reykjavík milli klukkan 21.30 og 22.30 þ. 16. og varð miljónatjón af völdum vatnselgs. Þessi annars ágæti mánuður var svo auðvitað beint framhald af hinum legendary júlí 1991.

Fyrir 1873 komu nokkrir hlýir ágústmánuðir sem vert er að gefa gætur. Árið 1870 mældist meðalhitinn í Reykjavík 11,9 stig en 11,1 á Stykkishólmi en aðeins var þá athugað á þessum tveimur stöðum. Og 1872 var meðalhitinn á þessum stöðum 11,3 og 11,2 stig.

Meðalhitinn í Stykkishólmi árið 1856 var 11,1 stig og 11,0 árið eftir en aðeins var þessi ár mælt í Stykkishólmi og líka voru 11,0 stig í ágúst 1846, fyrsta ágústmánuðinum sem þar var mældur.

Í Reykjavík voru einhvers konar  mælingar frá 1820 til 1853. Þær hefur  mikið þurft að endurmeta og eru ekki eins trúverðugar og síðari mælingar. Athyglin beinist þó einkum að þremur mánuðum. Ágúst árið 1829 kemur út með þrettán og hálft stig. Þó þessi tala sé ónákvæm og mjög líklega fremur of há en hitt er víst af ýmsum heimildum að mikið góðæri ríkti á landinu þetta ár. "Grasvöxtur varð góður um sumarið og nýting eins og hún getur best orðið", segir Árbók Reykjavíkur. Árið 1838 var svo meðalhitinn 13 stig í ágúst og Brandstaðaannáll segir: "Í ágúst besta veðurátt og oft sterkir hitar, þó ei breiskjur til lengdar og aldrei rigningar til skemmda." Þorvaldur Thoroddsen skrifar svo um sumarið 1838 í Árferði á Íslandi í þúsund ár: "Sumarið var svo fagurt og blítt, að fáir mundu annað eins, og kom það að kalla jafnt yfir alt land. Var löngum hægviðri og hitar, stundum dumbingur og smáleiðingar, en þó oftar bjart og heiðskírt, einkum sunnanlands." Árið 1842 var ágúst í Reykjavík talinn 12,7 stig. Og loks er svo ágúst 1847 í Reykjavík með 12,3 stig, en þá var byrjað að mæla í Stykkishólmi og var mánuðurinn þar 11.9 stig.

Það var ekki alltaf kalt á Íslandi í gamla daga!

Og þá er orðið ljóst hvaða mánuðir eru þeir hlýjustu á Íslandi eftir 1873 á stöðvunum níu. Þeir eru  þessir:

Ágúst 2003, 12,20

Júlí 1933, 11,92

Ágúst 2004, 11,77

Júlí 1880, 11,74

Ágúst 1880, 11,67

Júlí 1991, 11,53

Júlí 1894, 11,45

Ágúst 1939,11,39

Júlí 1917, 11,38

Júlí 1908, 11,31

Júlí 1936, 11,25

Júlí 1929, 11,24

Ágúst 1947, 11,20

Júlí 1927, 11,15

Júlí 1934, 11,15

Júlí 1926, 11,12

Júlí 2004,11,09

Júlí 1945, 11,08

Júlí 1941, 11,05

Júlí 1939, 11,02

Þetta eru 20 mánuðir og sá 21. er síðasti júlí. Ekki er enn búið að gera hann endanlega upp en ég gæti trúað, eftir þeim meðalhitatölum sem þegar hafa birst, að hann sé kannski á svipuðu róli og júlí 1917 en  hugsanlega þó hlýrri.  Hægt er að lesa um alla þessa mánuði í þessari bloggfærslu eða í Hlýjustu júlímánuðum á Íslandi.

Já, góðir hálsar, ef þið finnið ekki veðursins vísdóm hjá Nimbusi á Allra veðra von þá er hann einfaldlega hvergi að finna! Wink

Heimildir: Morgunblaðið 19. ágúst 1991.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

ágúst er náttúrulega merkilegur mánuður og öll þessi veðurspeki sannar það

halkatla, 22.8.2008 kl. 09:10

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Takk fyrir þennan fróðleik.

Aðeins of langt fyrir mitt lestrarþol samt.

Jón Halldór Guðmundsson, 22.8.2008 kl. 10:30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband