Óskalisti um sjálfvirkar veðurstöðvar

Það eru komnar æði margar sjálfvirkar veðurstöðvar. En þær mættu  vera miklu fleiri.

Hér set ég saman óskalista um veðurstöðvar sem ég myndi setja upp ef ég ætti peninga eins og arabískur olíufursti. Það sem ég miða við er að ekki séu veðurstöðvar á þeim stöðum sem ég vel og hinar og þessar veðurfarslegar ástæður sem ég nenni ekki að rekja, en framar öllu ræður sérviska mín og nördaháttur. Ég tek fram að ég hef sjálfur komið á langflesta þessa staði og virkilega pælt í þeim.

Við Nesstofu á Seltjarnarnesi. 

Þak Landsímahússins. Þar athugaði Veðurstofan á árunum 1931-1945.

Laugardalur, aðeins vestan við grasagarðinn, á grasflötunum við brýrnar.

Fossvogsdalur.

Hólmur við Rauðhóla. Þar var athugað  í allmörg ár eftir 1960 og reyndist þetta vera einhver mesti kuldapollur á landinu.

Reykir í Mosfellssveit.

Laxnes í Mosfellsdal.

Meðalfell í Kjós. Þar var áður úrkomustöð.

Akranes. Þar var athugað nokkur ár en nú er þar sjálfvirk stöð Siglingamálastofnunar á bryggjunni en ég vil fá mína stöð í grennd við grunnskólann.

Vatnaskógur þar sem börnin læra guðsorðið og vera góð börn og hlýðin.

Lundur í Lundareykjadal.

Reykholt.

Hreðavatn. Þar var ég með fjölskyldu minni í sumarbústað góðviðrissumarið 1957.

Hraunholt í Hnappadal. Þar bjó föðurgrein móðurættar minnar í nokkra ættliði. Gæti trúað að þarna sé mikil útgeislun.

Hjarðarfell á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem nú er úrkomustöð.

Hamraendar í Mið-Dölum þar sem voru athuganir um áratugaskeið.

Bjarkarlundur. Þar er blómlegt.

Gufudalur. Ég hef ekstra freudískan áhuga fyrir þessum dal og veðurfari hans en Freud sá alltaf eitthvað kynferðislegt í djúpum dölum og löngum fjörðum!

Skálmarfjörður í Barðastrandarsýslu. Samkvæmt hitaspám í Belgingi virðast hitar á sumrin ná sér þar betur á strik en víðast hvar annars staðar á svæðinu. 

Vatnsfjörður, við brúna, en ekki í Flókalundi. Við enda dalsins er vatn í aðeins 8 metra hæð og þar inn af er sléttur völlur en þröngur og fjöll til beggja handa. Þarna er áreiðanlega margt skrýtið að gerast í veðrinu og ég vil fá aðra stöð þar! Sem sagt: Tvær stöðvar í hinum ómótstæðilega Vatnsfirði. 

Mjólkárvirkjun þar sem nú er úrkomustöð.

Þórustaðir í Önundarfirði eða grennd. Þarna var lengi athugað.

Suðureyri þar sem líka var lengi athugað.

Botn í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi. Æsilegur staður!

Langidalur inn af Ísafjarðardjúpi þar sem brúin er yfir, lengst inni í þessum afskekkta og heillandi dal,  þar sem áreiðanlega er frábært en þó kaldranalegt veðurfar.

Einhver góður staður í Jökulfjörðum, helst þó einhvers staðar austan við Hesteyri þar sem athugað var í nokkur ár, kannski í Veiðileysufirði.

Reykjarfjörður á Ströndum, á bænum fyrir botni fjarðarins, kannski alveg eins í Djúpuvík.

Gilstaðir í Selárdal. Þar er smávegis kjarr og þetta er álitlegur dalur.

Víðidalstunga þar sem athugað var í stuttan tíma á mestu velmektardögum Framsóknarflokksins.

Bólstaðarhlíð.

Stokkhólmi í Skagafirði. Þarna er marflatt og í aðeins nokkra metra hæð yfir sjó. Frábært! Hvað eru menn að æða yfir 100 m hæð með veðurstöðvar þarna eins t.d. á Nautabúi.  

Fljótin, fyrir sunnan vatnið. Á Hraunum fyrir norðan vatnið var athugað all-lengi í kringum 1930.

Urðir í Svarfaðardal.

Bægisá í Hörgárdal. Þar í grennd dukknaði djákninn.

Vel á minnst. Endilega stöð á Myrká. Þar sést víst aldrei til sólar fyrir fjöllum. En hvað með hafgoluna? 

Grenivík.

Nes í Fnjóskadal. Þessi staður er í um 60 metra hæð en veðurstöðvarnar í þessum dal liggja ægilega hátt.

Ljósavatn. Þar er sagt að alltaf sé logn þó rok sé allt um kring.

Sandhaugar í Bárðardal. Frábær dalur en Mýri, þar sem er mönnuð veðurstöð, er svo langt inni í dalnum.

Einarsstaðir í Reykjadal eða jafnvel Laugar. Hvað gerist þar þegar Staðarhóll er að brillera? 

Skútustaðir við Mývatn.

Ásbyrgi. Þar er sjálfvirk stöð, utan við byrgið,  en ég vil fá mína inni í byrginu sjálfu en þar verður kannski hlýrra en annars staðar á landinu við vissar veðuraðstæður.

Kópasker.

Svalbarð í Þistilfirði.

Hof í Vopnafirði en þar voru athuganir í nokkur ár og varð æði heitt í suðvestanáttinni á sumrin.

Fossvellir í Jökuldal. 

Dratthalastaðir á Úthéraði. Á þeim slóðum voru athuganir mjög lengi og eru reyndar enn á Svínafelli í grenndinni.

Borgarfjörður eystri. Hvað  gerist þar í asahláku í suðvestanátt?

Skriðuklaustur í Fljótsdal. Á næsta bæ, Valþjófsstað, er skráður mesti meðalhiti nokkurs mánaðar á Íslandi, í ágúst 1880, fjórtán glæsistig. Í nokkur ár voru mannaðar veðurathuganir á Skriðuklaustri.   

Breiðdalur, kannski á Ásunnarstöðum eða í nágrenni.

Berufjörður, bærinn við botn Berufjarðar. Þar kom ég einu sinni í sól og sunnanvindi. Þar var logn og blíða en bölvað rok skömmu seinna á Djúpavogi þó þar væri líka sól. 

Hof í Álftafirði. 

Stafafell í Lóni en þar er úrkomustöð.

Hoffell, lengst inni i Hornafirði. Einn af þessum stöðum sem ég hef djúpstæðan freudískan áhuga að vita hvernig viðrar.

Hali í Suðursveit. Þar koma ógurleg voðaveður, segir Þórbergur.   

Hrífunes í Skaftártungu eða einhver bær þar í nánd. 

Skammadalshóll í Mýrdal.

Skarðshlíð undir Eyjafjöllum.

Akurhóll á Rangárvöllum hvar voru einu sinni athuganir.

Skarð á Landi eða kannski frekar Fellsmúli.

Flúðir þar sem sveitarfélagið tímir ekki borga undir veðurstöð þó hún hafi komið til tals.

Laugarvatn. Það er aðeins í kringum 60 metra hæð svona langt inni í landi. Hvað gera hitabylgjunar þar? 

Selfoss. Má svo sem fylgja með af því að þar búa svo margir. 

Höskuldarvellir inni á miðju Reykjanesi.

Þá eru aðeins óbyggðirnar eftir. Þar er Askja efst á blaði en líka Sprengisandur, sem næst miðju landsins. Og svo framvegis. Og svo framvegis

Þetta er sem sagt óskalistinn um sjálfvirkar veðurstöðvar. Marga slíka hef ég sett saman gegnum árin og alloft hafa svo sumar óskirnar ræst síðar meir.

Ætli ég sé annars ekki mesti nörd á landinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þú gleymir alveg Vesturgötu í Reykjavík.

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.9.2008 kl. 00:31

2 Smámynd: Beturvitringur

Hei, hvar er kattarræksnið? Léstu lýtalækni fjarlægja hann úr andlitinu á þér? (Hef engan áhuga á veðri, hí hí)

Beturvitringur, 17.9.2008 kl. 02:42

3 Smámynd: Frosti Heimisson

Það væri líka gaman að fá Einarsnesið aftur í gang.  Sú stöð er búin að vera biluð síðan fyrir stríð hugsa ég (a.m.k. Kalda stríðið).

Frosti Heimisson, 17.9.2008 kl. 09:56

4 Smámynd: Anna Runólfsdóttir

Hjá mér er sól þegar rignir í grennd, logn í roki og yfirleitt oft svolítið norðlenskt veður þrátt fyrir að vera á miðju Suðurlandi.

Það var stöð í Tindfjöllum til skamms tíma í sérstakri rannsókn, stundum er rekin stöð í Básum en það er upp og ofan og þar sem Sámsstaðir eru í Úthlíðinni þá er veðrið allt öðruvísi þar.

Svo það vantar stöð á Fljótsdal í Fljótshlíð, sko.

Anna Runólfsdóttir, 17.9.2008 kl. 11:12

5 identicon

Sammála þér með Hólm við Rauðhóla því ég bý nánast þar, bara nokkra metra frá.
Á veturna verður svakalega kalt þar og tölur eins og -16 gráður ekki óalgengar. Frostið þá í Reykjavík er kannski -6 en -16 á Hólm.
Einnig er alltaf rok þar því það er alveg opið fyrir suðaustan áttinni.

Eitt enn: Ég vildi sjá einhvern mæli sem athugaði skýjafar.
Munurinn milli austur og vesturhluta Reykjavíkur er svakalega mikill. Oft stoppar skýjaröndinn rétt vestan við Bláfjöllin og er þá sól nánast í allri Reykjavík en ekki allra austast þar sem ég bý.

Rabbi (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 11:28

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hann Mali er sko ekkert ræksni. Hann er flottasti köttur í heimi!

Nú er komin sjálfvirk veðurstöð á Básum en satt segirðu Anna og ég gleymdi því hreinlega: Sjálfvirka stöð á næsta bæ við þig, Barkarstöðum í Fljótshlíð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.9.2008 kl. 12:04

7 Smámynd: Beturvitringur

Vissi að ég fengi svar frá þér með því að uppnefna það sem þér er kærast. En kettir eru hið besta fólk og bestu skinn. Aðalvinur minn er einmitt af þessu kyni. Fyrirgefðu og takk.

Beturvitringur, 17.9.2008 kl. 12:55

8 identicon

Ja hérna - hefur veðurdellukallinn farið í pílagrímsferðir á alla þessa staði!

Malína (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 14:12

9 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Líst afar vel á þessar óskaveðurstöðvar. Það vantar sárlega stöð hingað á Skagann, veðrið hér er alls ekki eins og í Reykjavík.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 17.9.2008 kl. 20:00

10 identicon

Varðandi spurninguna í lokin: Eftir að hafa lesið þennan lista er ég ekki lengur í vafa! Og vissulega einhver sá skemmtilegasti líka! P.s.: Skelfingar vandræði eru þetta að þurfa alltaf að leysa stærðfræðiþrautir til að koma inn athugasemdum við bloggfærslur ...

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 21:18

11 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Mér finnst vanta á listann veðurstöð á Skúlagötuna í Reykjavík.

Svava frá Strandbergi , 17.9.2008 kl. 22:01

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svo er það sjálfvirka veðurstöð Vegagerðarinnar í Garðabæ sem nýlega er búið að leggja niður.

Ágúst H Bjarnason, 18.9.2008 kl. 08:16

13 identicon

Sú stöð tilheyrði reyndar Garðabæ þó Vegagerðin fengi að birta gögnin. Hún var tekin niður vegna framkvæmda við gatnamót Vífilsstaðavegar/Reykjanesbrautar og eru ýmsir sem sakna hennar mjög. Mér finnst einmitt fleiri veðurstöðvar á vestanverðu höfuðborgarsvæðinu (Garðabæ/Hafnarfirði).

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 13:59

14 identicon

"Mér finnst einmitt VANTA fleiri..." átti að standa í síðustu málsgreininni.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 14:02

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst það eiginlega lýsandi um lítinn áhuga sveitarfélaga á veðurstöðvum í sínu umdæmi að ekki sé hirt um að setja þær upp aftur ef verður að færa þær vegna framkvæmda. Ég sakna auðvitað þessarar stöðvar. Ég gleymdi líka að nefna stöð í Hafnarfirði.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.9.2008 kl. 15:29

16 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvernig er hægt að hafa freudískan áhuga á Gufudal... eða bara hvaða dal sem er?

Annars hljómar þessi listi mjög áhugaverður og legg til að bætt verði við nokkrum mælum sem mæla brennisteinsvetnismengun í og við höfuðborgarsvæðið, í kringum jarðgufuvirkjanir eins og Hellisheiðar- og Reykjanesvirkjun, sem og í Hveragerði.

En það er önnur saga.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.9.2008 kl. 17:41

17 identicon

Hlynur Þór segir:  "P.s.: Skelfingar vandræði eru þetta að þurfa alltaf að leysa stærðfræðiþrautir til að koma inn athugasemdum við bloggfærslur ..."

Stærðfræðiþrautirnar eru ekkert mál og bara peanuts í samanburði við það að þurfa alltaf að staðfesta athugasemdirnar sínar í tölvupóstinum áður en þær birtast hérna.  Ég hef t.d. nokkrum sinnum lent í því að geta ekki athugasemdast hérna vegna þess að tölvupósturinn minn hefur legið niðri af einhverjum ástæðum, oftast vegna einhverrar tæknibilunar hjá hýsingaraðila netfangsins.   Það sökkar.  Þetta er eingöngu stillingaratriði hjá hverjum og einum Moggabloggara; smá athugasemd til þín Sigurður!  

Þau eru orðin allnokkur ódauðlegu gullkornin frá mér sem hafa glatast og aldrei meikað það inn á þessa síðu útaf þessu fjárans millileiðarveseni í gegnum tölvupóstinn.   Nöldur.

Malína (IP-tala skráð) 18.9.2008 kl. 19:25

18 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jú, Lára, Freud vildi meina að langir mjóir firðir og djúpir dimmir dalir táknuðu eitthvað verulega dónalegt í hugum fólks. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.9.2008 kl. 19:45

19 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Einmitt það, já. Nú skil ég... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.9.2008 kl. 20:16

20 identicon

Hvaða kenndir vekja þá Torfur í Eyjafirði?

gambri (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 13:52

21 identicon

Hvar væri þessi heimur án nörda? Hinar Freudísku pælingar eru afar áhugaverðar. Af hverju voru Rassgatshólar afnumdir? Hvað með Upptyppinga? Þú nefnir að stundum sé heitt á Staðarhóli. Ætli fleiri hólar séu heitir?

Skellur (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 17:47

22 identicon

Malína (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 18:14

23 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gambri: Thanatos, dauðahvötin sem Freud taldi vera!

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.9.2008 kl. 18:31

24 identicon

Af því að Torfur eru í djúpum dal inn af löngum firði, þá átti ég von á pínu erótískara minni....

En ykkur Freud má nú skilja á ýmsa vegu

gambri (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 20:58

25 identicon

Dónaskapurinn hérna ríður ekki við einteyming!

Malína (IP-tala skráð) 19.9.2008 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband