Votviðrasamur september á suður-og vesturlandi

Nú er ljóst að þessi september er sá annar úrkomumesti sem mælst hefur í Reykjavík. Metið er frá 1887, 176,0 mm, en nú reikna ég úrkomuna 173,6 mm.

Víða á suður-og vesturlandi er ljóst að þetta er úrkomusamasti september síðan mælingar hófust. Hér verða nefnd nokkur dæmi um stöðvar sem settu met og innan sviga er árið þegar mælingar á þeim hófust.

Fyrst er þá Stykkishólmur (1856) þar sem metið frá 1933 var glæsilega slegið. Þar fauk líka sólarhringsúrkomumetið. En auk þess Andakílsárvirkjun (1950) þar sem úrkoman núna var hátt upp í helmingi meiri en hún hefur áður verið, 1959; Stafholtsey (kringum 1990), Ásgarður í Dölum (1992), Mjólkárvirkjun (1960), Hólar í Dýrafirði (1982), Hæll í Hreppum (1927). Annars staðar en á suðurlandi, vestan við Mýrdal,  og upp á sunnanverða Vestfirði, er langt í frá að úrkoman í þessum mánuði sé eitthvað sérstök, nema á Kvískerjum í Öræfum, úrkomusamasta stað landsins. Mér kæmi ekki á óvart þó þessi  mánuður hafi þar sett Íslandsmet í úrkomu í september, en ekki hafa síðustu daga komið þaðan fréttir inn á netið nema frá sjálfvirku úrkomustöðinni.  

Ekki þori ég fyrir mitt litla líf að nefna tölur því þær hef ég kannski sumar ekki alveg hundraðprósent réttar, en ég þori að hengja mig upp á þessi met. Nú, ef þau eru ekki rétt, þá hengi ég mig bara - og þó fyrr hefði verið!

Meðalhitinn í Reykjavík er í kringum 9,4 stig sem eru talsverð vonbrigði því hann var 10,1 stig þ. 24. Sólskinsstundir eru eitthvað nærri 100 sem er hvorki mikið né lítið. Mánuðurinn er annars hlýr um allt land og líklega víðast hvar tiltölulega hlýrri annars staðar en í Reykjavík og jafnvel í hreinum tölum.  Á austurlandi kemur mánuðurinn mjög vel út, held ég.    

Sumar á Íslandi er talið vera frá júní til september. Ekki er hægt að segja annað en þetta ágæta sumar endi alveg hörmulega. Nú er hálfgert vetrarveður fyrir norðan og í morgun var alhvít jörð og snjódýpt 1 cm á Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og jörð talin flekkótt af snjó á nokkrum stöðum á norðausturlandi. Þetta er fyrsti haustsnjórinn.  Hiti núna er langt undir meðallagi og vel getur verið að fara að snjóa í Reykjavík næstu daga. Eitthvað álíka hefur auðvitað gerst áður en þetta er alveg jafn andstyggilegt fyrir því. Október hefur oft verið ljúfur síðustu árin og stundum verið sumarveður.

Nú  leggst það í mig að verði óárán hin mesta í vetur og muni hann Lurkur kallaður verða eður Hreggviður!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sorrý, að ég spurði!  Þetta var ekki meint sem nein vandlæting.  Það er óþarfi að æsa sig upp í háa C-ið.... 

Malína (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 16:35

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það hafa komið vandlætingar yfir mínu veðurbloggi og bara þó nokkuð oft, því er ég að ýja að.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.9.2008 kl. 16:43

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mér finnst veðurbloggið þitt frábært og les alltaf allt, líka Einar Sveinbjörns og Emil Hannes. Veðurfræði er áhugaverð og skemmtileg.

EN ég blogga ekki sjálf um veðrið. Hef engar forsendur til þess.

Er ég þá ekki vitsmunavera? 

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.9.2008 kl. 20:47

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Og ég sem kom ekki blessuðum haustlaukunum ofan í moldina í dag. Sé ekki heldur að ég hafi tima til þess næstu daga og þú segir að það fari kannski bráðum að snjóa í Reykjavík.

Svava frá Strandbergi , 30.9.2008 kl. 23:35

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ertu viss um Sigurður að þetta sem þú kallar vandlætingar séu það alltaf í raun? Það er nefnilega ekki víst að þeir sem fá athugasemdir skynji alltaf það sem liggur að baki, stundum getur jafnvel bara verið um saklausa smástríðni að ræða í fullri vinsemd.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.9.2008 kl. 23:41

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Kannski er vandlæting ekki rétta orðið en menn hafa stundum sagt nokkuð yfirlætislega að veðrið sé ekki áhugavert.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.9.2008 kl. 23:52

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég skil ekki hvernig nokkrum Íslendingi getur fundist veðrið EKKI vera áhugavert. Veðrið hefur stjórnað þessari þjóð á svo margan hátt í gegnum aldirnar - og gerir enn þótt í minna mæli sé kannski og áherslur hafi breyst.

Svo eru hinir órannsakanlegu vegir veðursins svo fjári spennandi.

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.10.2008 kl. 00:07

8 identicon

Emil  

Malína (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 00:40

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held að ég kunni ágætlega að þekkja stríðni þegar hún birtist í lífinu en get kannski feilað stundum, en ekki svona yfirleitt. Aðfinnslur um veðurfærslur mínar eru oftast ekki nein stríðni. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.10.2008 kl. 13:10

10 identicon

Æj Æj, er ég núna orðin vonda og grimma konan?!

Það hefur aldrei verið meiningin hjá mér að ráðast eitthvað sérstaklega á veðurfærslurnar þínar.  Eigum við ekki að segja að þær hafi bara verið "innocent bistander".  Athugasemdir mínar á þessar færslur hafa aðeins verið aumleg tilraun hjá mér til að kommúnikera við þig - ég gerði það bara á svona fíflalegan hátt.  Ég er því miður ekki betri að mér í mannlegum samskiptum en þetta - enda aldrei verið mín sterka hlið.

Þar hefurðu það, herra Nimbus!  Ég vona að við séum ekki orðnir óvinir.

Malína (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 16:57

11 identicon

Leiðrétting:  "Innocent by-stander"   Þetta var ekki meint sem nein árás á veðurfærslurnar!

Malína (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 17:16

12 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sæll Sigurður Þór !

Fín samantekt að vanda. 

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 2.10.2008 kl. 13:12

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hafðu ekki áhyggjur Malína! Þetta er allt í lagi!

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.10.2008 kl. 17:47

14 Smámynd: Hafdís Lilja Pétursdóttir

Veðrið er yndislegt, njótum þess.

Hafdís Lilja Pétursdóttir, 3.10.2008 kl. 08:13

15 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

heyrðu Siggi minn. ég bara verð að spyrja þig....

...nú á þessum tímum bölmóðs og volæðis....hvernig getur þú bara hugsað um veðrið?

Brjánn Guðjónsson, 6.10.2008 kl. 23:17

16 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Sæll bróðir góður. Ég vona nú alltaf að þú farir að blogga aftur um annað en veðrið. þó ekki hafi ég neitt út á veðrið að setja. Þú ert bara svo andsk... skemmtilegur og góður penni að það er synd að missa alveg af pistlunum þínum.

Tító, Gosi og ég biðjum að heilsa Mala.

Svava frá Strandbergi , 7.10.2008 kl. 00:58

17 Smámynd: Stríða

Hvar er Mali? Ég sakna hans

Stríða, 8.10.2008 kl. 02:07

18 identicon

Ég verð nú bara að viðurkenna að ég bíð eftir því í ofvæni að þú Sigurður bloggmeistari ávarpir þjóð þína á þessari ögurstundu....

Jón Bragi (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 19:58

19 identicon

Jón Bragi, Nimbusinn er að útbúa nýja veðurfærslu fyrir okkur hin til að nöldra yfir...

Malína (IP-tala skráð) 11.10.2008 kl. 02:11

20 identicon

Halló Sigurður!

Nú er verið að lýsa Þórbergi sem geðveikum á bloggi Hörpu Hreinsdóttur.

Hvað skal gera?

Jón Bragi (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 22:14

21 identicon

Ég sakna Nimbusar og Mala!

Malína (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 21:33

22 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Halló!Halló!

María Kristjánsdóttir, 18.10.2008 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband