Intrum og Landsbókasafnið

Ég hef notað bókasöfnin mjög stíft í hálfa öld. Næstum því alltaf gæti ég þess að skila bókunum langt innan þess tíma sem menn mega hafa þær. Í algjörum undantekningartilfellum getur þó dregist að maður skili bók. En alltaf verður henni samt skilað á endanum, ekki eftir nokkur ár heldur eftir svona tvo mánuði í hæsta lagi. Núna hef ég til dæmis verið með Veðurfar á Íslandi í þúsund ár eftir Þorvald Thoroddsen að láni frá Landsbókasafni. Ég hef þurft að nota hana við samningu bloggpistlanna minna um hlýjustu og köldustu mánuði. Ég hef oft skilað henni og tekið hana aftur. Nú beið ég aðeins með að skila enn einu sinni af því að ég var um það bil að ljúka skrifunum og ætlaði þá að skila bókinni endanlega.

En þetta dróst aðeins. Ég fékk áminningu um að skila bókinni frá Landsbókasafninu. Fínt að fá svona áminningar til að halda manni við efnið. Svo fékk ég ítrekun. Þar var sagt að ef ég skilaði ekki bókinni innan 14 daga yrði innheimtufyrirtækinu Intrum sigað á mig með tilheyrandi kostnaði. Það var reyndar spurning um daga hve nær bókinni yrði skilað. Landsbókasafnið sendir sem sagt eina áminningu fyrir vanskil. Síðan kemur ítrekun með hótun um að siga á lánþega bófafélagi, en í mínum augum er innheimtufélagið Intrum ekkert nema bófafélag. Það kom best í ljós þegar það herti þumlaskrúfurnar á skuldurum alveg sérstaklega þegar kreppan skall á þrátt fyrir tilmæli þjóðfélagsins um samstöðu og skilning.

Mér finnst það ekki sæmandi menningarstofnun eins og Landsbókasafni - og reyndar heldur ekki Borgarbókasafninu - að hafa samvinnu við bófafélög. 

Hér áður fyrr komu menn frá bókasöfnunum heim til fólks ef skil á bókum dróst mjög úr hömlu. Það fannst sumum að vísu óþægilegt en það var samt manneskjuleg aðferð. Að siga á lánþega bófafélagi er hins vegar ekkert nema ómanneskjulegur bófahasar. Mér finnst skilvísir lánþegar í áratugi, þó fyrir komi að þeir efni til skulda, eigi ekki  að þurfa að búa við slíkt frá þeim stofnunum sem þeim finnst einna mest vænt um af öllum stofnunum: bókasöfnum. 

Þetta hleypir bara kergju í fólk og fælir það frá bókasöfnunum. Ég segi fyrir mig að ef svo ólíklega vildi til - og það gerðist ekki nema ég væri orðinn meðvitundarlaus vegna veikinda - að Intrum yrði sigað á mig vegna vanskila yrði það ekki til að ég myndi skila. Þvert á móti myndi ég þá aldrei skila og kæra mig kollóttan um allar sektir. 

 Ætli menn eigi annars von á lögtökum eða fangavist fyrir að skila ekki bókum á Landsbókasafnið?

Að lokum vil ég minna Landsbókasafnið á að það hefur komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á vorin meðan próf standa yfir að ég hef þurft að hrökklast frá safninu, þegar ég hef ætlað að skoða gögn sem hvergi eru aðgengileg nema þar, vegna þess að öll sæti voru upptekin af háskólanemum sem voru með skólabækurnar sínar að heima og ekki að nota bókakost safnsins.

Landsbókasafnið ætti að reyna að standa undir nafni og vera bókasafn allra landsmanna, en ekki bara háskólanema, fremur en standa í því að þjarma að fólki með eins konar handrukkurum frá bófagengi eftir að einni áminningu um vanskil á bókum sleppir.    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr, heyr og amen.

Þórdís (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 11:12

2 identicon

Ég hef unnið við það að eltast við bækur fyrir bæði Borgarbókasafnið og Landsbókasafnið og ég er þvílíkt ánægður með núverandi kerfi. Þetta svínvirkar líka.

En ég vil benda á að fullt heiti safnsins sem þú talar um er Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Þetta er bókasafn Háskóla Íslands. Þetta hús var meðal annars byggt til að stúdentar við Háskóla Íslands hefðu stað til að læra á. Þar að auki borgar Háskóli Íslands háar fjárhæðir til safnsins sem fara bæði í ritakaup og að lengja opnunartíma safnsins. Þetta kemur í raun öllum safngestum til góða en ekki bara stúdentum Háskólans. Það er því fráleitt að kvarta yfir því að við stúdentar HÍ skulum nota bókasafnið okkar sem skólinn okkar borgar fyrir.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 11:17

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég veit vel að Landsbókasafnið er háskólabókasafn. En það er líka Landsbókasafn. Það er byggt fyrir alla þjóðina. Það sem ég er að benda á er einfaldlega það að mér finnst að eigi að tryggja það þegar próf standa yfir og safnið er yfirfullt af háskólaneum sem ekki eru að nota bókakost safnsins að hugsað sé út í það að halda lausum sætum fyrir þá sem ekki eru háskólanemaar en þurfa að komast í gögm sem hvergi eru til nema á safninu. Mér finnst ekki fráleitt að kvarta yfir þessu heldur alveg sjálfsagt því þetta er líka LANDSBÓKASAFN.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.12.2008 kl. 11:35

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er sem sagt ekki að kvarta yfir því að háskólanema noti safnið sem er þó ekkert frekar þeirra en mitt, ég og aðrir skattgreiðendur fjármagna Háskólann, heldur að sú notkun hrekji ekki frá aðra sem líka þurfa að nota safnið. You see!

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.12.2008 kl. 11:44

5 identicon

Í raun eru háskólastúdentar bara að nota það sem er  Háskólabókasafnið. Landsbókasafnshlutinn, þjóðbókasafn Íslands, er á fyrstu hæð og þar held ég að enginn megi vera nema að sá hinn sami sé að nota gögn þar.

Það að nota almennt lesrými safnsins hefur aldrei verið háð því að menn séu að nota gögn þess. Hins vegar má gera ráð fyrir því að flestir stúdentar HÍ sem eru þarna séu þar að hluta til allavega til þess að geta komist í gögnin þar og nota með. Maður getur kannski 90% treyst á það sem maður á sjálfur en síðan þarf maður oft að fletta líka upp í öðru efni og þess vegna kýs maður að læra á safninu.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 11:45

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er ekki sammála þessari túlkun. Án þess að þekkja til lagaákvæðanna sérstaklega þá er ekki hægt að fallast á það af kommon sens ástæðum að Landsbókaafnsheitið eigi bara við um þjóðbókasafnið. Áður en Landsbókasafnið var sameinað gamla Háskólabókasafni var hægt að fá bækur lánaðar af Landsbókasafninu, bæði heim og á lestrarsal. Þær bækur eru þarna áfram innan um bækurnar sem voru á gamla Hásólabókasafninu. Lesrýmið með bókahillunum á fimmtu hæð eru því fyrir alla en ekki bara stúdenta og þá ekki síður blaða og tímaritadeildin. Þetta finnst mér augljóst. Ég lít svo á að safnið sé á öllum deildum bæði Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Og mér finnst þessi skilningur minn skipta meira máli fyrir almenning en ég hélt ef það er almennur skilningur stúdenta að þetta safn sé þeirra eign öðrum fremur.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.12.2008 kl. 12:05

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, ég skil það svo að Þjóðdeildin, eins og hún heitir, sé einungis undirdeild í hinu almenna heiti Landsbókasafn-Háskólabókasafn. Það þýðir ekki að Þjóðdeildin ein falli undir að vera Landsbókasafn. Allar hinar deildirnar eru líka Landsbókasafn. Og mér finnst það mjög mikilvægvt að það gleymist ekki og notkun almennings á safninu sé í samræmi við þetta.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.12.2008 kl. 12:14

8 identicon

Sá hluti safnsins sem sinnir þjóðbókasafnsskyldunum er þjóðdeildin, það er bara staðreynd. Það hvernig skipulagið var áður skiptir þar engu máli.

Raunar er það mjög sérstakt að þjóðbókasöfn láni út bækur og má gera ráð fyrir að hugsanlega hefði verið tekið fyrir það með öllu ef safnið hefði ekki sameinast Háskólabókasafninu. Þjóðbókasöfn fúnkera ekki eins og almenningsbókasöfn.


Þú segir að ríkið borgi fyrir HÍ og því fyrir hlut skólans í safnið og það er alveg rétt. En það gildir líka um bókasöfn annarra háskóla, bæði ríkisháskóla og þeirra sem kallast einkareknir (þó ríkið borgi líklega örlítið minna hlutfall fyrir þau söfn). Sama gildir um bókasöfn
framhaldsskóla og grunnskóla. En ekki gengur þú inn í þau söfn og krefst þess að fá jafnan aðgang á við nemendur. Þau söfn eiga að þjóna nemendum skólana öðrum fremur, það er tilgangur þeirra.

Bókhlaðan er bókasafn stúdenta Háskóla Íslands og þeir verða að sitja fyrir ellegar ber að aðskilja söfnin tvö aftur.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 12:22

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta heitir Þjóðarbókhlaða. Það hlýtur að merkja eitthvað. Og ég er ekki viss um að skilningur þinn á þessu sé einhlýtur og endanlegur. Að eina deildin á safninu sem sé fyrir alla landsmenn sé þjóðdeildin.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.12.2008 kl. 13:03

10 identicon

Það var líka ekki það sem ég sagði.

Óli Gneisti Sóleyjarson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 13:32

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mikið var annars gaman og fróðlegt að eiga þessi orðaskipti við þig Óli Gneisti.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.12.2008 kl. 14:19

12 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Einu sinni gleymdi ég að skila bók í Borgarbókasafnið. Í mig, unglinginn, hringdi kona svo kuldaleg og leiðinleg að símtólið hrímaði. Til að hefna mín á henni ákvað ég að skila bókinni ekki fyrr en mánuði seinna, datt ekki í hug að hlýða dónalegu gribbunni. Borgaði frekar hærri sekt.

Mikið líst mér illa á þetta með að nota Intrum, kannski fyllast fangelsin af bókavanskilurum???

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 4.12.2008 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband