Stöðvum mannsmorðin

Síðustu vikur höfum við lesið í fjölmiðlum sjúkrasögur um tvo menn sem læknar vangreindu árum saman og fundu ekkert að þeim. Seint um síðir kom hið sanna í ljós. Báðir voru þeir með krabbamein. Annar er enn á lífi en hin lést í blóma lífsins. 

Úr því við höfum tvær sögur á stuttum tíma um menn sem voru vangreindir árum  saman, hvað eru þeir þá margir í raun? Hvað hafa margir dáið af þessum sökum síðustu tíu ár til að mynda? Er ekki kominn tími til að setja á stofn rannsóknarnefnd sjúkdómsgreininga sem rannsakar þau mál sem upp koma þegar sjúklingar eru vangreindir árum saman og láta jafnvel lífið að lokum?

Nei, annars, hvernig læt ég! Við vitum öll að í okkar litla samtryggingarkerfi væri aldrei hægt að manna slíka nefnd af hlutlausum aðilum.

Landlæknir afsakar svona mistök alltaf með því hve þau séu fá miðað við allan fjöldann sem hefur samskipti við lækna á hverju ári. Ætli hann segi það við þá sem misst hafa ástvini sína? Hann talar líka um það að margir sjúkdómar leyni mjög á sér. En eru læknar ekki læknar sem eiga að kunna sitt fag?

Það liggur reyndar í augum uppi að læknar sem stunda sjúklinga með alvarlega meinsemd, en finna  samt aldrei neitt að þeim, eru ekki starfi sínu vaxnir. Það er líka augljóst að þeir læknar sem stunda tiltekinn sjúkling eru ekki margir, ekki hundrað eða margir tugir, ekki neitt  andlitslaust kerfi, þar koma einungis fáeinir einstaklingar til greina í hverju tilfelli fyrir sig. Og bera þeir virkilega enga ábyrgð þegar sjúklingar þeirra deyja eftir áralanga gangslausa ''meðferð'', sjúklingar sem hægt hefði verið að bjarga ef vit hefði verið í læknismeðferðinni? 

Þeir læknar, sem við sögu koma, þurfa aldrei að axla neins konar ábyrgð.  'Mistök'' af því tagi sem fjölmiðlar hafa undanfarið verið að rekja um vangreiningu sjúkdóma setja ekki einu sinni minnsta blett á feril þeirra. Nöfn þeirra koma aldrei fram. Þeir halda bara áfram að ''lækna'' eins og ekkert  hafi í skorist. (Þegar ég var unglingur dó ung náfrænka mín vegna vangreiningar ungs læknis sem aldrei þurfti að horfast í augu við gerðir sínar og er nú gamall  og virtur sérfræðingur. En lítið barn varð móðurlaust). Ég hef oft orðið undrandi þegar fólk segir ljótar læknasögur og mynd sjúklinganna og nafn kemur fram eða þeirra einnig sem lifa eftir þá sjúklinga sem dóu, en aldrei, ekki í  eitt  einasta skipti, kemur fram nafn læknanna sem báru ábyrg á dauða sjúklingsins með andvaraleysi eða hreinlega vondri læknislist. Við þurfum ekkert að blekkja okkur með því að taka gilda útúrsnúninga Landlæknis þegar hann reynir að gera sem minnst úr svona atvikum með sjálfvirku kerfismali.

Yrði það talið atvinnurógur ef nafn læknanna kæmu fram?  Eflaust. Það er einmitt í skjóli þessa  hættulega viðhorfs, sem allir virðast gangast inn á af hræðslu, að svona atburðir þrífast í samfélögunum. Fyrir nokkru var sýnd mynd í sjónvarpinu um nokkra erlenda lækna sem fóru eins og engisprettur um Evrópu og skildu eftir sig sviðna jörð, dauða og þjáningar, á þeim sjúklingum sem þeir stunduðu. Ekkert var hægt að gera til að stöðva þá og fulltrúi heilbrigðiskerfisins, með andlit og viðhorf eins og Landlæknir Íslands, var hreinlega ósvífinn og taktlaus í samstöðu sinni í myndinni með læknunum. 

Ég legg eindregið til að þeir sem segja sögur af læknamistökum hafi það sem  reglu að nefna nöfn lækna sem gera ''mistök''  er valda sjúklingum dauða eða alvarlegum örkumlum og fjölmiðlar standi með þeim í því að gera það.

Það verður að stöðva þessi mannsmorð! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband