Lag og ljóð

Fyrir skömmu voru tónleikar sem báru yfirskriftina Lag og ljóð. Þar voru meðal annarra laga flutt lög Sigvalda Kaldalóns við ljóð eftir Höllu Eyjólfsdóttur. Þekktustu lög tónskáldsins við ljóð Höllu eru Ég lít í anda liðna tíð og Svanurinn minn syngur en besta lagið er kannski Máninn.

Við þetta tækifæri flutti Elín Gunnlaugsdóttir erindi um lög og ljóð almennt.

Því miður heyrði ég ekkert af þessu. Hins vegar las ég eitthvað í blöðunum  eða heyrði í útvarpi þar sem þetta var sett upp einhvern vegin þannig að lög Sigvalda og ljóð Höllu væru jafngild og vinsældir þeirra og áhrifamáttur hvíldu einmitt á því.

Þetta er samt alls ekki rétt.

Mig langar til að ræða hér samspil lags og ljóðs dálítið þó ekki leggist ég djúpt. Fyrst og fremst vil ég vekja athygli á því að það eru ósköp einfaldlega hinar grípandi og fallegu laglínur  í lögum Sigvalda við ljóð Höllu sem   eingöngu valda vinsældum laganna og þeim sess sem þau hafa í huga þjóðarinnar. Lagið Ég lít í anda liðna tíð var reyndar samið sem lag án orða en textanum, sem óneitanlega fer vel við lagið, var bætt við seinna.

Það eru lög Sigvalda Kaldalóns sem beinlínis valda því að Halla Eyjólfsdóttir er ekki löngu gleymt ljóðskáld. En vegna þess að hann samdi lög við ljóð hennar og þau eru því hluti af lagagerð hans er sjálfsagt að Höllu sé sómi sýndur.

Það er býsna algengt að ljóð sem aldrei hefðu lifað á eigin gæðum v erða ódauðleg gegnum tónlist. Það er tónlistin, ekki ljóðin, sem því veldur. Oftar en ekki standa ljóðin langt að baki lögunum sem listaverk.

Satt að segja eru lög hinna miklu erlendu lagatónskálda, Schuberts, Schumanns, Brahms og Strauss,  yfirleitt samin við texta sem standa þeim langt að baki. En þó ekki  alltaf. Schubert samdi lög við góðan kveðskap eftir Goethe og Schumann við ljóð eftir Heine. Í þessum lögum og  nokkrum öðrum eru lag og ljóð jafngild listaverk. Tónskáldunum tekst jafnvel stunum að bæta við eins og nýrri vídd við ljóðin með lögum sínum. En flest bestu lög heimsins eru ekki við góð ljóð. Lögin lifa þá vegna laganna en ekki vegna orðsnilldar textans. Það eru samt kannski hinar almennu hugmyndir ljóðsins sem kveikja í huga tónskáldsins, t.d. ástarsorg eða sólarlag eða vorgleði. 

Eitt frægt sönglagatónskáld samdi þó svo að segja eingöngu lög við góðan  kveðskap. Það var Hugo Wolf. Hann fylgir geðblæ og hugsun ljóðsins út í ystu æsar og lögin bera oft blæ framsagnar mælt máls eins og ljóðin séu lesin. Wolf afrekaði það að grafa eitt besta ljóðskáld Þýskalands, Eduard Mörike, úr gleymsku og hefja til viðurkenningar. Það er engin tilviljun að lög Wolfs eru af engum jafn mikils metin sem tónelsku bókmenntafólki. Aðeins í lögum hans og í fáeinum lögum Schuberts og Schumanns og einstaka öðrum lögum eftir hina og þessa eru lag og ljóð samofin og jafngild listaverk svo úr verður nýtt  listform: sönglag sem orð og tónar saman breyta í sérstakt fyrirbæri, eitthvað sem er ekki bara lag eða bara ljóð heldur raunverulegur samruni þessara tveggja listforma, tónlistar og ljóðlistar, nýtt listfyrirbrigði. En langflest lög, þar með talinn obbinn af músiklega bestu lögum heimsins, eru ekki þetta fyrirbrigði heldur bara góð tónlist.  Það er tónlistin sem hefur þau til hæða en ekki ljóðið sem sungið er, hvorki eitt og sér eða í samruna við tónlista, það er bara tónlistin. 

Þetta er meira að segja áberandi í Vetrarferðinni eftir Schubert sem oft er talin fullkomnun í þýskri sönglagagerð 19. aldar. 

Og þetta gildir jafnvel enn fremur við óperur og óratóríur en sönglög. Þar eru textarnir oft fyrir neðan allar hellur en tónlistin gerir þessi verk ómótstæðileg. Hennar vegna hlustum við á þau,  ekki textans vegna.

Á Íslandi, landi kvæðamanna og skálda, gera menn yfirleitt meira úr ljóðunum en lögunum þegar lög eru sungin við ljóð. Í útvarpsþáttum og kynningum er löngu máli  oft eytt í ljóðin en yfirleitt engu í tónlistina sem lætur ljóðin lifa.  

Og það er ekki út af því að  álitið sé að tónlistin tali sínu eigin máli sem ekki þurfi  að eyða  að orðum  heldur vegna þess að mönnum finnst texti við lag einfaldlega merkilegri en lagið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kama Sutra

Það voru færslur í þessum dúr sem gerðu þig upphaflega að mínum uppáhalds bloggara.

Kama Sutra, 25.10.2009 kl. 18:14

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég þekkti einu sinni tónlistarmann, sem taldi, að orð með tónum væru óþörf. Þau jafnvel subbuðu tónlistina út. Honum fannst mannsröddin ekki merkilegt hljóðfæri. Ekki heldur ásláttarhljóðfæri ef út það var farið. Merkilegust þótti honum þau hljóðfæri, þar sem listamaðurinn mótaði að öllu leyti tóninn með höndum sínum, munni og þind.

Þar fór fiðlan fremst meðal jafningja.

Sigurbjörn Sveinsson, 25.10.2009 kl. 20:44

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mannsröddin finnst mér merkilegasta hljóðfærið. Engar tvær eru eins. Og fyrir fá hljóðfæri hefur verið samin jafn fjölbreytt og falleg músik.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2009 kl. 22:06

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mjög áhugaverðar pælingar. Mér finnst þú samt gleyma því að menn eru afar misjafnlega músíkalskir og líka mismunandi ljóðelskir. Þar með finnst mér vera komin ný vídd í allan samanburð. Það má endalaust deila um hvort sé merkilegra ljóð eða lag í sumum tilvikum. Kannski er það ekki vegna þess að þeim þykji ljóðin merkilegri en lögin sem útvarpsmenn fjölyrða stundum meira um þau. Kannski finnst þeim bara auðveldara um þau að tala.

Sæmundur Bjarnason, 25.10.2009 kl. 22:35

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held að það sé ekki um það deilt að texti margra laga sem viðurkennd eru sem snilldarverk tónlistarlega séu ekki upp á marga fiska sem sjálfstæð ljóð. Ekki síst gildir þetta um Schubert sem oft er talinn mesti lagasmiður allra tíma. Flest ljóðin við lög hans eru ekki merkileg sem ljóð en dugðu honum samt til að gera við fín lög. Hitt er annað mál að ljóð sem er sungið hefur aðra stöðu heldur en ljóð sem er lesið. Við flest ljóð eru líka aldrei samin lög og mörg lög sem samin hafa verið við góð ljóð standa þeim að baki. Ég er bara að benda á það að þegar lög slá virkilega í gegn er það yfirleitt vegna gæða lagsins en stundum er eins og ljóð og lag geti ekki án hvers annars verið. ''Ríðum, ríðum og rekum yfir sadinn'' og ''Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn'' eru þar prýðisdæmi. Til tónlistarinar, An die Musik, er hins vegar glöggt dæmi um lag sem lifur eingöngu vegna tónlistarinnar -  og kannski nafnsins á ljóðinu!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2009 kl. 22:53

6 identicon

Þakka fyrir þennan fróðlega pistil.

Hversu mörg lög eða tónsmíðar ætlar þú að séu
rangfeðruð á Íslandi þar sem menn treystu sér ekki
eða gátu ekki staðið undir kostnaði við langvinn málaferli ?

Húsari. (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband