Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Fasismi stig af stigi

Fréttir fjölmiðla af innrás lögreglunnar og húsleit hjá hælisleitendum í Njarðvík vekja undrun mína. Þær virðast ekki vera neitt nema endurómur af yfirlýsingum lögreglunnar. Hvergi reyna fjölmiðlar að kafa undir yfirborðið. 

Hælisleitendur eru í afar viðkvæmri stöðu. Vel getur þó verið að þar séu einhverjr svartir sauðir með óhreint í pokahorninu, en í öllum fréttaflutningi hefur verið fjallað bara um "hælisleitendur" með engri aðgreiningu. Fréttirnar hafa verið þannig að þeir sem lesa þær eða heyra hljóta að fá vægast sagt neikvæða mynd af hælisleitendum.

Fréttaflutningurinn túlkar nær eingöngu sjónarmið lögreglunnar. Hann er ekki sjálfstæður fyrir fimm aura. Ég nefni sem dæmi að fyrirsagnir frétta hafa gjarnan verið að "rökstuddur grunur" hafi verið um eitthvað misjafnt. Meiningar lögreglunnar eru gerðar að óyggjandi sannleika í stað þess að líta þær gagnrýnum augum.

Með þessari aðgerð hefur lögreglan, með stuðningi yfirvalda auðvitað, opinberlega stimplað hælisleitendur almennt á Íslandi sem glæpamenn eða að minnsta kosti viðsjárvert fólk. Þessi aðgerð var fyrst og fremst gerð til að þjarma að hælisleitendum, terrorisera þá, skapa í viðkvæmum aðstæðum þeirra ótta, skelfingu og varnaleysistilfinningu. Svo er ósvífnin fullkomnuð með því að aðgerðin muni eiga eftir hraða afgreiðslu mála um hælisleitendur hjá Útlendingastofnun. Þetta hafi allt verið gert hælisleitendum til góða!

Og fjölmiðlar virðast láta þetta gott heita, éta þetta upp eftir lögreglunni og Útlendingastofnun athugasemdalaust.

Út yfir tekur þegar lögreglustjórinn á Reykjanesi, Jóhann R. Benediktsson, hneykslast á því að peningar skuli hafa fundist í fórum hælisleitenda sem séu á forræði ríkisins. Peningana gerði hann upptæka án þess að spyrja hvernig þeir væru fengnir.

Hann stal þeim.

Lögreglustjórinn er reyndar kapituli út af fyrir sig.

Hann er sífellt með kjaftinn á lofti með bullandi stóryrði. Hann  viðhafði í einhverju sakamáli stórkarlalegar yfirlýsingar í fjölmiðlum um einhvern mann og það var allt rekið ofan í hann af dómstólum. Þá hafði hann samt, þessi orðhákur, ekki manndóm til að biðjast afsökunar en það sljákkaði hins vegar verulega í honum svona rétt í bili þegar Ríkisútvarpið talaði við hann.

Það var þessi maður sem hlakkaði opinberlega yfir fangelsisdómi umkomulausra útlendinga sem reyndu að komast úr fátækt heima hjá sér með "vafasömum" hætti til vesturlanda. Eitt er að láta sig hafa það að framfylgja lögum, annað að hlakka opinberlega yfir ógæfu annarra. En það gerði lögreglustjórinn fyrir augum allrar þjóðarinnar.

Það var þjösnaskapur þessa lögreglustjóra sem fékk einhvern mann sem kom til landsins, enginn vissi í rauninni hvaðan hann kom en talið var fullvíst að hann væri múslimi, til að fremja sjálfsvíg á Keflavíkurflugvelli meðan hann beið þess að verða sendur úr landi. Aldrei kom svo fram hvað varð um líkið. Kannski var það bara brennt hér á landi en samkvæmt múslimskum hætti er lagt blátt bann við því að brenna lík. Kanski var lík þessa manns svívrt. 

Já, lögreglustjórinn á Reykjanesi kann vel til verka.

Hér er aðeins fátt eitt talið af afrekum þessa dæmalausa lögreglustjóra og nú kórónar hann þau með botnlausum fordómum í garð hælisleitenda.

Orð hans ættu að vera brottrekstrarsök. En enginn segir neitt. Yfirvöld líta til þessa gífuryrta semifasista með velþóknun og fjölmiðlar yppta einungis öxlum.

Hvað er eiginlega að fjölmiðlunum og hvað er að þjóðinni að geta þolað þetta lögreglustjóragerpi?  

Og nýjustu fréttir eru að forstjóri Útlendingastofnunar vill ólmur þrengja að hælisleitendum í framtíðinni. Það verður örugglega gert. Og lögregluaðgerðin átti að plægja jarðveginn.

Svona skapast fasisminn stig af stigi.


Mættur á svæðið!

Ég hef verið fjarri bloggheimum nokkra daga. Hvílíkur léttir!

Ekkert lát hefur þó verið á stórtíðindum í heiminum þó mín  nyti ekki við. Nú eru þeir búnir að setja dómsdagsvélina í gang svo þetta bloggrugl fer blessunarlega að taka enda í eitt skipti fyrir öll. En þetta þarf víst til.

Ég hef verið klukkaður og allt hvað þetta hefur í minni skerandi bloggþögn.

Eigi veit ek hvernig bregðast skal við því. Þessi atriði sem maður á að gefa upp eru svo vitlaus að ég er í það minnsta að hugsa um að búa til mitt eigið klukkform. Eða þegja bara þunnu hljóði.

Mjög þunnu.  

Hysterísku bloggaðdáendur mínir nær og fjær!

Ég er mættur á svæðið!

Blöggum nú og blöðrum þar til veröld öll forgengur!

 

 

 

 

 


Enn er hneykslast á þeim!

Já, nú harmar Forsætisráðuneytið að Breiðavíkurdrengirnir skuli gera uppskátt um  hugmyndir ríkisins um skaðabætur til þeirra. Þeir eiga bara að þegja þar til of seint er að mótmæla.

Með þessari tilkynningu er forsætisráðuneytið, Geir Haarde, að setja ofan í strákana. Að harma eitthvað er að setja ofan í við einhvern.

Hvað ætli slíkt hafi oft gerst áður þegar þessir drengir eiga í hlut. 

Forsætisráðuneytið ætti nú bara að skammast sín. Og auðvitað verja ráðuneytismenn sig og  vitna í sérfræðinga sem eiga að vera virtir.

En hvernig væri að virða Breiðavíkurdrengina svona einu sinni?


mbl.is Birt án samþykkis ráðuneytis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæturnar til Breiðavíkurdrengjanna

Drengirnir í Breiðavík eru slegnir yfir þeim bótum sem ríkisstjórnin ætlar að skenkja þeim. Þeir tala um að í annað sinn sé ríkisvaldið að smána þá. Sérstaklega eru þeir sárir yfir því marghliða mati sem þeir þurfa að sæta hjá einhverjum sérfræðingum um það hvað mikið þeir hafi skaðast í vistinni og hve mikið beri að veita þeim í sanngirnisbætur.

Breiðvíkurdrengirnir spyrja líka hvað verði með þá drengi sem hafa getað fótað sig vel í lífinu en það er sem betur fer til. Þeir fá þá engin skaðastig og þar af leiðandi engar bætur.

Sú hugmynd sem komið hefur fram hjá Breiðavíkursamtökunum að reikna ætti drengjunum vinnulaun miðað við þann tíma sem þeir voru í nauðungarvinnunni finnst mér snjöll og sanngjörn.

Alþingi á nú eftir að fjalla um frumvarp ríkisstjórnarinar. En ekki á ég von á að það breyti miklu. Ætli gerist ekki það versta og lágkúrulegasta að þetta verði flokkspólitískt bitbein sem drepur í raun og veru öll mál. Þá varður málið með lágum bótum bara keyrt áfram með þingmeirihluta stjórnarinnar gegn stjórnarandstöðunni. Það er annars dæmigert að lítið er fjallað um þetta mál í samanburði við hefbundna vinnudeilu ljósmæðra gegn ríkinu. Þar spara þekktir menn og konur ekki stóru  orðin með stuðning við ljósmæður. Styður einhver þeirra Breiðavíkurdrengina? Ekki fer það að minnsta kosti hátt.  

Það sárasta í þessu dæmi er það að búast má við að ýmsir Breiðavíkjurdrengir séu mjög brotnir menn og þiggi því einhverjar smánarlegar bætur án þess að mögla þó hinir sterkari einstaklingar mótmæli. 

En ekkki gerir það málstað ríkisstjórnarinnar betri.

Þarna  sjáum við hvernig lífið getur stundum tekið á sig einkennilegar myndir og hvað manngildi getur oft verið annað en yfirborðið sýnir.

Ég ber ekki saman manndóm og manngildi Breiðavíkurdrengjanna sem margir hafa sigrast á ótrúlegum þrengingum og mannleysishátt og vesaldóm ráðherranna í ríkisstjórninni. Ráðherrarnir eru þess ekki verðir að binda skóþveng aumasta Breiðavbíkurstráksins.

Þó þeir hafi stuðning valdsins og formsins og sterkra stjórnmálaflokka og fái um sig lofgerðarrrollur þegar þeir verða sestir í helgan stein eða hrökkva uppaf og jafnvel heilagramannasöguævisögur í lifanda lífi þá getur maður gubbað yfir því hvað þeir eru miklir aumingjar. 

Nú er fallegur dagur, bjartur og skír. En svona fréttir gera mann þunglyndan og dapran.


Ár liðið

Já, í dag er ár liðið frá því ég eignaðist engan annan en hann Mala. Þá  var hann þriggja mánaða. Helga systir og Eva dóttir hennar komu með hann í búri ásamt systur hans. Ætlunin var þröngva öðrum hvorum kettinum upp á mig. Ég valdi Mala sem þá hét að vísu ekki Mali. Miklar umræður fóru fram á blogginu um það hvað hann ætti að heita og margar snjallar uppástungur komu fram. En nafnið kom af sjálfu sér eftir nokkra daga. Ég hef aldrei vitað kött sem malar eins oft og eins hátt og hann Mala. Hann var því auðvitað skírður Mali og ber nafn með réttu. 

Það eru aldeilis tímamót að hann Mali sé búinn að vera hjá mér í heilt ár. PICT2372

Ég hef ekki orðið samur maður og hann ekki samur köttur. 

Ég er allur rifinn og tættur en hann er með brotna rófu eftir að hann datt ofan af svölunum á fjórðu hæð eins og heimsfrægt varð á blogginu og þó víðar væri leitað. Allir urðu rosalega sjokkeraðir! En skottið hans Mala hefur alveg jafnað sig og er lengra og listrænna en nokkru sinni fyrr.

En ég mun hins vegar aldrei bíða þess bætur hvernig hann hefur bitið mig og klórað alltaf hreint. 

Mali er orðinn eins konar lógó þessarar bloggsíðu. Án hans læsi hana ekki nokkur kjaftur nema þessir tveir sem skoða veðurfærslurnar og svo er Zoa sú þriðja sem fær alltaf hláturskast þegar hún skrollar niður þær síður. 

Án Mala væri nú lítið mal í tilverunni. 

 


Hreinn viðbjóður

Mér hefur alltaf fundist þessi busavíglslusiður vera í sjálfu sér  niðurlægjandi  og ofbeldisfull athöfn. Yngri krakkarnir eru nefnilega teknir með valdi meirihlutans. Ekki gengur að vilja ekki láta busavígja sig.

Ég hef andstygg á slíkri tegund af meirihlutaræði. Þegar aflsmunur er látinn ráða. Ekki síst vegna þess að þeir sem vilja undan víkjast eru ekki aðeins kallaðir aumingjar heldur er litið á þá sem aumingja. 

Sumir unglingar eru mjög viðkvæmir, einrænir og feimnir og þola ekki svona grófleika.

Jú, þeir eru þá bara "aumingjar" með öllu því sem fylgir slíkri stimplun en hún er einmitt tillitslausasta tegund af ónærgætni og ruddaskap sem þekkist.

Ég er á móti meirihlutaofbeldi, tillitsleysi og ónærgætni í mannlegum samskiptum. Þegar valtað er yfir einstaklinga með einhvers konar valdi og ofbeldi án þess að skeyta um einstaklinginn sjálfan.

Mest er ég hissa á að menn hafi ekki lagt af þessar viðbjóðslegu busavígslur fyrir löngu.

Þær eru hreinlega birtingarform harðneskju og ofbeldisdýrkunar undir yfirskini einhvers konar leiks og viðurkenningar. 


mbl.is Varað við busavígslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband