Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Vítisenglar og útrásarpúkar

Vítisenglarnir fengu ekki að koma til landsins. Þeir eru víst glæpamenn. Samt eru þeir frjálsir menn með enga dóma á bakinu hér á landi. Alveg eins og útrásarvíkingarnir. 

Útrásarvíkingarnir  fá samt að valsa inn og út úr landi eins og þeim sýnist. Enda frjálsir menn með enga dóma á bakinu.

En af tvennu illu finnst mér mér samt Vítisenglarnir sannkallaðir himnaríkisenglar í samanburði við helvítis útrásarvíkingapúkana. 

Það er annars eitthvað bogið við réttlætishugsun dómsmálaráðuneytisins og stjórnvalda yfirleitt.

Hvað varð um byltinguna? 


Óheilnæmir vetrardagar

Nú er svo komið að stilltustu og fegurstu vetrardagarnir í Reykjavík eru orðnir svo mengaðir að mönnum með viðkvæm lungu er  ráðlagt frá að vera úti. 

Þetta er auðvitað  öfugþróun. Og sýnir hvað mikil bílaumferð er óheilbrigð.

Fagrir vetrardagar eru sem sé ekkert fallegir lengur, bara eitraðir.

Áður en hitaveitan tók til starfa og bærinn var kynntur með kolum var oft eitraður mökkur yfir bænum dögum saman á stilltum vetrardögum. Sá ófögnuður hvarf með hitaveitunni. 

En nú er það bílinn sem vandræðum veldur og mun líklega gera það áfram um ókomin ár.


mbl.is Helstu götur rykbundnar í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver axli ábyrgð

Það sem hér kemur fram í fréttinni er einmitt mergurinn málsins í tilviki eins og þessu. Að einhver axli  persónulega ábyrgð á málinu. Ekki bara að einhver sjóður greiði bætur heldur að  þeir einstaklingar sem brugðust axli ábyrgð.

Það þarf ekkert að segja manni það að í svona málavöxtum sé um að ræða óviðráðanlegan atburð. Hann hlýtur að flokkast undir vanrækslu, hirðuleysi, gáleysi eða eitthvað álíka.

Það er mikilvægt að menn líti ekki á svona atburð eins og þegar til dæmis einhver ferst í umferðarslysi þar sem hreinlega er um slys að ræða.

Það á að gera, eðli máls vegna, meiri kröfur til starfsstétta sem hafa völd, áhrif og virðingu í þjóðfélaginu beinlínis vegna sérhæfingar sinnar heldur en til athafna einstaklinga em ekki hafa sérstöðu en undir það flokkast til dæmis flest bifreiðaslys og önnur slys. 

Dauði vegna gáleysis læknis er einfaldlega alvarlegra mál en dauði vegna gáleysis flestra annarra. Og það á að taka á slíkum málum eftir því en ekki öfugt eins tíðkast hefur. Að enginn beri ábyrgð þegar menn deyja vegna læknisverka eða skorts á þeim. Þegar heil stétt er friðhelg að því leyti nema menn séu beinlínis staðnir af til dæmis vímuefnaneyslu hlýtur það að bjóða kæruleysi heim.

Viðbrögð Landlæknis eins og þau komu fram í fréttum lofa hins vegar ekki góðu. En það er önnur saga.

 


Íslenska bókin um hlýnun jarðar

Í Mogganum í gær er rætt við Halldór Björnsson um bók bók hans, ''Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar''.

Þessa bók hef ég lesið í þaula. Ég hef mjög haft augun opin fyrir skrifum eða gagnrýni um bókina en ekkert hefur rekið á fjörur mínar. Og ég á við raunverulega rýni um kosti og galla, ekki fátæklega umsögn eða meiningarlaust hrós. Það voru mikil mistök að bókin kom út aðeins viku fyrir jól. Þetta er einmitt bók sem átti að koma út í haust og verða grimmt auglýst eða umrædd svo fólk gæfist tóm til að verða hennar vart þó ekki væri nú annað. 

Ég var sjálfur að hugsa um að blogga um bókina en stend nú í flutningum svo það hefur vafist fyrir mér. En vegna viðtalsins um bókina langar mig til að segja óskipulega nokkur orð um hana.  Og það verður bara í ófáguðum bloggstíl og ég er í ofanálag ekki tiltakanlega upplýstur borgari um nokkurt málefni hér í heimi.

Í fyrsta lagi er bókin lengi  frameftir  virkilega erfið aflestrar  og gerir óvenjulega miklar kröfur til lesenda, svo mjög að ýmsir munu nú bara gefast upp hafi þeir ekki því meiri áhuga fyrir efninu.   Þessi hluti fjallar um það hvað gróðurhúsaáhrifin í rauninni eru. Þar er að vísu verið að greina frá all-flóknum undurstöðuatriðum. En ekki er það flókið efni sem vandræðunum veldur heldur er hugsun höfundar ekki nógu kristaltær. Það kemur ekki síst fram í lesmáli er vísar til skýringarmynda. Þar getur verið erfitt að átta sig á hvað í lesmáli á við hvað í myndmálinu. Endurtekningar eru líka nokkrar til baga. Þær eru ekki áberandi en í bestu bókum endurtekur höfundur aldrei nokkra hugsun.

Saga gróðurhúsakenningarinnar er vel rakin og betur en ég hef séð í öðrum bókum. Það er líka röggsamlega greint frá því á hvaða hátt ''er að marka'' fyrirsögn líkana um hitaþróun. Þeir sem segja að ''ekkert sé að marka þetta'' hljóta að verða alveg kjaftstopp. Það kemur einnig afar vel fram hve líkanareikningar ná ekki að sýna hitaþróun (sem þegar er orðin) ef ekki væri gert ráð fyrir manngerðum gróðurhúsaáhrifum og svo einnig hvað allt fellur eins og flís við heitann rass þegar góðurhúsalofttegundum er bætt við.

Mér finnst bókin detta nokkuð niður þegar farið er að rekja það sem fjórða úttekt IPCC segir um framtíðina. Þar finnst mér vanta það sem skortir í flestar svona bækur: að gera lesanda grein fyrir orsakasamhengi. Það er kannski sagt að þessi og þessi hlýnun valdi þessum og þessum hörmungum þarna og þarna. En hvernig gerist það? Hvert er samhengið á milli tiltekinnar hlýnunar og þeirra óskapa sem af eiga að hljótast? Þetta er kannski augljóst í sumum atriðum, svo sem hækkun sjávaryfirborðs, en alls ekki í mjög mörgum öðrum atriðum.  Menn fara bara að hugsa við svona lestur: Eru þetta ekki bara órar? En þessi stíl, að telja upp ófarir af völdum vissrar hitahækkunar, án skýringa á orsaka og afleiðingasamhengi, er stíll heimsendaspámanna og mjög í tísku og er engu skárri en stíll örgustu ''efasemdarmanna''.

Þegar kaflinn um breytingarnar sem spáð er um Ísland er lesinn nokkuð kalt  og tilfinnningalaust er ekki hægt að sjá annað en það sé allt bara jákvætt en samt er stíllinn þannig að lesandanum á að finnast þetta ekki harla gott. Oft þegar maður les bækur um þetta efni, og þessa bók þar með talda, fær maður á tilfinninguna að fyrirbærið veðurfarsbreyting sé af hinum slæma hver svo sem hún er er, breyting sé eins konar samheiti fyrir hörmungar.

Kaflinn um tæknilegar lausnir og  aðrar lausnir finnst mér sérlega rýr í roðinu, dauf upptalning mestan part. Kaflinn virkar eins og höfundur hafi verið í tímaþröng og ekki getað vandað sig verulega.

Eitt er sérlega gagnlegt í bókinni. Það eru hinar miklu vísanir í góðar heimildir annars staðar og eru sumar þeirra á netinu. 

Það sem mér finnst vanta tilfinningalegast í bókina: Sögulegt ágrip af hitabreytingum frá fornu fari og kannski mest eftir ísöld. En framar öllu: Að gert sé grein fyrir gagnrýnisröddum á hlýnunarkenninguna og afleiðingar hennar á annan hátt en hafa þær hálfpartinn í flimtingum. Það er búið að finna upp skammaryrðið ''efasemdarmenn'' og það er oft notað um alla þá sem andæfa einhverju sem þeir segja sem hæst hafa sig í frammi með skelfilegar ógnir sem hnatthlýnunin eigi að bera í skauti sér.

Þó Halldór Björnsson sé tiltölulega hógvær í bókinni þá finnst mér gæta á öðrum vettvangi ótvíræðs vísindahroka og annars konar hroka í boðskap hans. Hann talar hreinlega niður til allra þeirra sem skrifa um þessi mál, ég tala nú ekki um þá sem blogga um það, nema þeir séu harðsvíraðir vísindamenn og þá jafnvel í sérstökum vísindagreinum. Þessi tónn, sem er afar vandmeðfarinn af því að það er bæði svo mikið og svo lítið til í honum, æsir menn auðvitað upp og þess vegna segi ég það sem ég hef áður sagt:  Það eru svona besservisserar sem eru helstu ástæðurnar fyrir því hvað margir ósjálfrátt og tilfinningalega snúast harkalega gegn kenningunni um hlýnun jarða og öllu heila klabbinu. Ég hef áður nokkuð bloggað um þetta atriði.

Halldór lætur reyndar eins og enginn umtalsverur ágreiningur sé um þessi mál meðal vísindamanna, það sé bara pöbullinn sem sé með vesen. En ég held að hans eigin ákafi - og sálufélaga hans - villi honum sýn. Og ég ætla að nefna eitt lítið dæmi, það er vísu aðeins lítið dæmi, en það segir samt vissa sögu um sjónarmið, einhvers konar viðhorf,  sem er líklega algengari en heitustu heimsendaspámenn vilja vera láta. Já, í mínum augum er Halldór einn af öfgamönnum loftslagsmálanna,  dálítið svipað og Guðmundur Páll Ólafsson er öfgamaður í náttúrumálunum. 

Dæmið er það að í formála getur höfundur um það að ritstjóri ritraðarinnar  sem bókin er hluti af hafi haldið uppi ''hóflegu andófi''. Þessi orð víkja ekki að máli eða  stíl bókarinnar heldur merkja þau hreint út að ritstjórinn, sem er veðurfræðingur, hafi verið ósammála ýmsu í efnistökunum í það miklum mæli að ástæða hafi verið til að nefna það. Og hvað þá með aðra vísindamenn?  En í bókinni er einmitt ekki vikið í neinni alvöru að gagnrýnisröddum nema með  hálfgerðri fyrirlitningu. Bókin gefur því ekki alveg raunsæja mynd þó það sé yfirlýst markmið höfundar heldur er skýr áróðurskeimur af henni. Samt er þetta merkisbók og grundvallarrit á íslensku sem allir ættu að lesa  

Þá hef ég sagt ofurlítið af því sem ég vildi sagt hafa í fljótheitum. En til hvers er það? Ekki er ég vísindamaður eða fræðimaður í einu né neinu og hef víst ekki hundsvit á því sem ég er að segja. Svo er ég heldur varla í réttu  liði. Hins vegar á ég ekki von á því að nokkur vísindamaður íslenskur segi eitt einasta umtalsvert gagnrýnisorð um þessa bók. Ég þekki nú allt mitt heimafólk. Ég hef það reyndar mjög sterkt á tilfinningunni að íslenskir mennta-og vísindamenn veigri sér við að halda fram skoðunum sínum í þessum málum af ótta við að missa virðingu í fræðasamfélaginu  ef  skoðanir þeirra víkja frá '' rétttrúnaðinum'' í einhverjum atriðum. Þau eru mörg slíkt atriði en ekki bara það að efast um hlýnunina sem slíka. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr hugrekki þessarar manna  og  sjálfstæði en aðeins að árétta að ég hef orðið margs vísari um mannlegt eðli með árunum. Það er nefnilega orðinn til ákveðinn kjarni menntamanna sem vill ráða umræðunni. Þeir kvarta hástöfum yfir því hvað umræðan hér sé frumstæð af því að hún sýnir ekki nógu mikla fylgispekt við þeirra hugmyndir og þeir gera miskunnarlaust lítið úr þerim sem eru annarrar skoðunar en þeir sjálfir og þeir eru eins konar ''harðlínumenn'' og menn vilja losna við  ama  frá þeim og stimplanir og þegja því fremur en að segja. (Þetta hljómar kannski soldið ekstrrím  hjá mér en ég held samt að þetta sé nokkurn veginn svona).

En ''harðlínumennirnir'' munu halda áfram að skrifa um það hvað Íslendingar séu mikil fífl í loftslagsumræðunni. Komið er út smárit um þessi mál þar sem skrifa m.a. Halldór Björnsson, Tómas Jóhannesson og Guðni Elísson. Þessir menn eru í kjarnanum sem ég nefndi  áðan. Ég hef ekki séð þetta rit en er sagt að Guðni nefni mig á nafn eða vísi til mín í sínu skrifi.

Vá!

Vel á minnst. Guðni stóð í ritdeilu mikilli  um loftslagsmálin við þann að mörgu leyti  lofsverða mann Hannes Hólmstein Gissurarson í Lebók Moggans og kom grein eftir grein. Einu sinni skrifaði ég svo grein gegn grein eftir Guðna. En þá kom engin grein frá Guðna. Ég er  heldur ekki prófessor og er óralangt frá menningarerlítunni  á Íslandi.  Það haggar samt ekki mínu góða geði og nægjusemi um lífsins gæði og ánægju með batnandi veðurfar en mér finnst allt í lagi að vera meðvitaður um það hvers konar samfélagi maður lifir í og láta það uppi á bloggsíðu þar sem allt fær að fjúka. Og þar sem er allra veðra von! Wink

 


Febrúar var seigur

Það leit ekki vel út með hitann í febrúar lengi frameftir. Meðalhitinn var -3,6  stig í Reykjavík eftir fyrstu tólf dagana en þá ríkti yfirleitt hæglát norðanátt og kuldi á landinu sem endaði með 29 stiga frosti í Svartárkoti. En síðan urðu mikil umskipti. Meðalhitinn frá þeim 13. til mánaðarloka var 2,9 stig í borginni. Hitinn fór í 9,2 stig þ. 17. og sama dag í 12,6° stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Meðalhiti alls mánaðarins var 0,1 stig í Reykjavík. Það er reyndar 0,3 stig undir því meðallagi sem nú er í gildi, árin 1961-1990. Meðalhiti þessara ára var alla mánuði ársins - nema febrúar- talsvert lægri en á hlýindaskeiðinu 1931-1960. Á þeim tíma var meðalhiti mánaðarins í Reykjavík -0,1 stig. Í Reykjavík var einn úrkomudagur í kuldakastinu en eftir að breytti um mældist úrkoma alla daga neina einn. Skammt öfgana á milli! Snjór var hvergi mikill fyrr en síðustu dagana  þegar snjódýpt rauk upp í 90cm í Neskaupsstað. 

Hvað sem þessu líður má segja að mánuðurinn hafi staðið sig vel í seinni hálfleik eftir afleita stöðu í leikhléi. Gangur hitans minnir líka á að meðalhitatala ein segir stundum ekki alla sögu um hitafar mánaða. Hér var mánuður þar sem tveir gjörólíkir kaflar voru alveg aðgreindir. Eigi að síður mega menn ekki gera of lítið úr meðaltölum eins og menn hafa oft tilhneigingu til að gera. Langoftast segja meðaltalstölur mikla sögu.

Hitinn hefur verið um eða jafnvel yfir meðallagi frá suðausturlandi til Faxaflóa, að minnsta kosti við ströndina. En á vesturlandi og Vestfjörðum var hitinn vel undir meðallagi en á norður og austurlandi var verulega kalt, jafnvel kringum tvö til þrjú stig undir meðallagi.   

Persónulega fannst mér mánuðurinn andstyggilegur meðan kuldarnir ríktu en fínn eftir það. 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband