Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Hlýjustu maímánuðir

Blómaskeið hinna ofurhlýju maímánaða var fremur snemma á tuttugustu öld. Frá árinu 1928 til 1947 komu átta  maímánuðir þegar meðalhitinn í Reykjavík náði 8 stigum en frá 1948 eru þeir aðeins fimm og þar af einn eftir 1974. Meðalhiti í maí á stöðvunum níu var 5,2  stig árin 1961-1990.

1935 (7,8) Á nær öllu suður og vesturlandi frá Mýrdal  til Snæfellsness er þetta hlýjasti maí  sem mælst hefur, svo og á svæðinu kringum Hrútafjörð og á Fagurhólsmýri. Og þetta er einnig hlýjasti  maí á landinu öllu miðað við stöðvarnar níu sem lengst hafa athugað og hér eru lagðar til grundvallar.  

1935_5_500_an.pngLoftþrýstingur var óvenjulega mikill yfir landinu, reyndar sá næst  mesti frá upphafi mælinga.  (Kortið sýnir frávik á hæð 500 hPa fletinum). Hann var minnstur á Akureyri, 1021,1 hPa en mestur í Vestmannaeyjum, 1023,5 hPa. Þetta var hluti af  hlýrri hæð sem var suðaustur af landinu. Fyrstu tvo dagana var suðaustan og austanátt og rigndi dálítið á suður- og austurlandi. Hæg austanátt var næstu þrjá daga og var þá fremur kalt norðaustanlands og þokusamt. Dagana 6.-10. var sunnan og suðvestanátt og stundum allhvasst á suðvesturlandi með dálítilli rigningu en góðviðri og hlýndi voru annars á landinu. Hlýjastir að tiltölu í mánuðinum voru þeir 7. og  8. Hæg norðan og norðvestanátt var dagana 11.-13. og víðast hvar var þurrt og bjart veður. Hiti komst síðast talda daginn í 15 stig í Vík Mýrdal. En þann 14. skall á norðaustan hvassvirði með kuldahreti norðaustanlands. Lægð var þá á milli Íslands og Færeyja. Næstu tvo daga var hæg norðanátt og bjartvirði en fremur kalt var á norðausturlandi. Í þessu væga hreti mældist mesti kuldi mánaðarins. -5,0 stig á Grímsstöðum þ. 15.  Þann 17. var dálítil rigning vestanlands enda var þá vestanátt vegna lægðar fyrir norðan land á austurleið. Daginn eftir olli hún norðanátt með þokusúld á austurlandi en bjartvirði sunnanlands og vestan.

Dagana 19.-24. var yfirleitt hægviðri og úrkomulítið en stundum þó lítilsháttar rigning eða þoka á vestur- og norðurlandi en mikil rigning á Vestfjörðum þ. 21. Hitinn í Reykjavík fór í 16,4 stig þ. 19. Hæð var sunnan og suðvestan við landið en grunnar lægðir norðan og austan við það. Hiti fór þ.  20. í 20,1 stig á Hólum í Hornafirði og var það mesti hiti mánaðarins en þann dag fór hitinn ekki hærra en í 9,4 stig í Reykjavík. Sunnan og suðvestanátt var 25.-26. Var þá þurrt og hlýtt á austurlandi en dálítil rigning vestanlands. Síðustu fimm dagana var áttin suðaustlæg. Hægviðri var fyrir norðan og austan og sólríkt en allhvasst á suðvesturlandi en alls staðar var úrkomulaust. Hlýtt var í veðri, hámarkshiti 15-19 stig á norðausturlandi og þ. 30. mældust tuttugu stig á Hvanneyri.  Á þeirri stöð  var meðaltal hámarkshita 13,2 stig og einnig á Hæli í Hreppum. Þetta gæti alveg gengið í júlí. Í Reykjavík var meðaltal hámarkshita 12,8 stig og var hámarkshiti allra daga nema tveggja ( 14. og 20.) yfir tíu stigum og er það alveg dæmalaust. Meðaltal hámarkshita fyrir allan maí er að jafnaði ekki nema kringum tíu stig í betri sveitum en þess ber að gæta að mikil árstíðaleg hlýnun er í gangi í mánuðinum. Enginn mánuður ársins hlýnar eins mikið frá fyrsta til síðasta dags. Oftast gerist það í seinni hluta maí að hitafarið nær sumarblæ, t.d. að hámarkshiti í betri sveitum nái því að vera tíu stig að staðaldri sem helst svo fram á haust þó stundum kunni dagur og dagur að bregðast að þessu leyti.

Aldrei hafa jafn margar veðurstöðvar haft meðalhita upp á 9 stig eða meira sem í þessum mánuði.  Þær  voru sex. Sámsstaðir voru með 9,5 stig  sem er mesti  meðalhiti sem reiknaður hefur verið fyrir nokkra veðurstöð í maí, ásamt maí 1933 á Akureyri og aftur á Sámsstöðum 1946. Aðrar stöðvar sem voru með yfir 9 stig voru Hvanneyri, Kirkjubæjarklaustur og Vík í Mýrdal  (allar 9,1),  Eyrarbakki og Grindavík (9,2) og Reykjanesviti (9,1). Allt er þetta hiti sem væri júní samboðin. „Tíðarfarið var einmuna gott, því nær óslitin hlýindi og stillur, svo að gróðri fór ört fram og skepnur komu af gjöf. Sumstaðar austanlands var heldur þurrt fyrir gróðurinn í lok mánaðarins." Svo segir Veðráttan. Úrkoman var meira en helmingur undir meðallagi. Sól mátti heita nálægt meðallagi syðra en yfir því fyrir norðan. Austanátt var tíðust allra átta en veðurhæð var undir meðallagi og aldrei gerði storm. Snjólag var mjög lítið 2 %, það næst minnsta í maí, en meðaltalið 1924-2002 er 16%. Hvergi var jörð talin alhvít í mánuðinum en á nokkrum stöðum var talin flekkótt jörð í örfáa daga. Frostlaust var í Reykjavík allan mæan uðinn og við sjóinn á suðurlandi. Hæðarsvæði við jörð og í háloftunum var ríkjandi suðaustur af landinu. Mjög kalt var í Evrópu að tiltölu þennan mánuð og 1. maí snjóaði í Berlín og um miðjan mánuð víða á Englandi, jafnvel í Lundúnum.

Í góðviðrinu á Íslandi  var golf leikið þar í fyrsta sinn. Spretthlauparinn Jesse Owens gerði sér lítið fyrir og setti fimm heimsmet á sama deginum, 25. maí!  

Kortið sýnir meðalhitann í þessum maí á landinu.  

mai_1935.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

1939 (7,6) Árið 1939 er goðsögn hvað hlýindi varðar á landinu. Þá mátti heita gósentíð frá mars til október. Á norðurlandi, frá Blönduósi og Skagafirði að Melrakkasléttu, var þetta hlýjasti maí sem þar hefur mælst. Mánuðurinn sker sig úr fyrir það að aldrei hafa jafn margar veðurstöðvar verið frostlausar í maímánuði. Það var bókstaflega allt landið, til sjávar og sveita, nema nokkrar stöðvar á norðausturlandi og ein í Miðfirði. Í Reykjavík var lágmarkið það hæsta sem mælst hefur í maí, 3,1 stig. Á Stórhöfða og á Arnarstapa á sunnanverðu Snæfellsnesi fór hitinn ekki lægra en í 3,8 stig. Kaldast á landinu varð hins vegar -1,7 stig í Reykjahlíð við Mývatn þ. 3. Mánuðurinn var auðvitað talin einmuna góður til lands og sjávar. Fyrri hlutinn  var yfirleitt heldur hlýrri en seinni hlutinn miðað við meðallag. 1939_5_1000_1080357.pngSérlega hlýtt var dagana 9.-16. Var þá fyrst sunnanátt með hlýindum en síðan hægviðri. Í Reykjavík var glaðasólskin og hitinn 16,4 stig h. 9. Þann 11. var hitinn 19-20 stig á norðausturlandi. Þann dag var lítil sól á Akureyri en næstu dagar voru þar ágætir sólardagar og enn var hlýtt. Fyrir sunnan var líka stundum blíðvirði. Hitinn var til dæmis 15-18 stig á suðurlandsundirlendi þ. 15. Mesti hiti á landinu mældist þó ekki fyrr en næst síðasta daginn, 20,5 stig á  Núpsdalstungu í Miðfirði (en þetta var ein þeirra örfáu stöðva þar sem frost mældist líka í mánuðinum). Og er þetta reyndar mesti maíhiti sem mælst hefur þar í sveit. Mánuðurinn var hagstæður gróðri hvað úrkomu varðar sem hvergi var of lítil eða of mikil og í heildina kringum meðallag. Suðvestan og suðaustan voru algengustu áttir. Kortið sýnir að í mánuðinum var hæð ríkjandi ytfir Norðurlöndum en lægðasvæði fyrir sunnan Grænland. Víðast hvar var snjólaust allan mánuðinn en snjólag var þó 6%.  Á Hornbjargsvita var snjódýpt 34 cm fyrsta dag mánaðarins. Sól var fremur lítil í Reykjavík,  þar sem mánuðurinn var 9. sólarminnsti maí frá 1911, en sólríkt var fyrir norðan. Í kjölfar þessa maí kom níundi hlýjasti júní á landinu með mesta hita sem mælst hefur á landinu og sumarið í heild var það hlýjasta á suður og vesturlandi. 

Gerlach ræðismaður Þýskalands og ofstækisfullur boðberi nasismans fór aldeilis að láta til sín taka í bæjarlífinu í þessum mánuði en hann kom til landsins 30. apríl.

1946 (7,55) Sá hlýi og þurri maí 1946 kemst kannski helst á spjöld veðursögunnar fyrir það að þá mældist alls enginn úrkoma á Húsavík. Úrkoma á landinu í heild var aðeins kringum 30% af meðalúrkomunni. Alls staðar var lítil úrkoma nema í Kvikyndisdal  þar sem hún var í meira lagi en stór hluti hennar var reyndar mældur að morgni hins fyrsta og féll því að mestu leyti daginn áður. Þetta er að mínu tali (sjá skýringar) einhver þurrasti maí frá 1873. Stóðu þurrkar gróðri í sumum landshlutum fyrir þrifum. 1946_5_850.pngSól var mikil fyrir norðan en á Akureyri er þetta sjötti sólríkasti maí. Ríkjandi voru suðvestlægar og vestlægar áttir en háloftahlýindi austanað voru í gangi. Á Kirkjubæjarklaustri var einstaklega hlýtt, 9,2 stig og hlýjasti maí þar. Á staðnum mældist hámarkshiti yfir tíu stig alla daga nema þrjá og alla frá þ. 5. Þessi mánuður var reyndar hlýjasti maí sem mælst hefur  á öllu suðausturlandi, frá Hólum í Hornafirði til Klausturs. Þá var þetta og hlýjasti maí á Sámsstöðum í Fljótshlíð, 9,5 stig sem er jöfnun á Íslandsmetinu. Eins og 1939 var talsvert sólríkara á Akureyri en í Reykjavík. Meðalhitinn á Akureyri var reyndar hærri en í Reykjavík, 8,6 stig á móti 8,5. Á Húsavík var meðalhiti mánaðarins 9,1 stig. Sérlega hlýtt var síðari helming mánaðarins. Meðalhinn í Reykjavík var þann tíma nærri 10,9 stigum. Hitinn fór í 20,5 stig á Akureyri þ. 25. Frost mældist  í mánuðinum um allt land nema á fáum stöðvum á suðausturlandi. Kaldast varð -7,8 stig þ. 4. á Nautabúi í Skagafirði og þann dag var snjódýt þar 2 cm og snjór á jörð í tvo daga. Snjólag á landinu var reyndar aðeins 4%. Hvergi var umtalsverður snjór nema á Horni en þar var snjódýpt hálfur metri þ. 4. Hagi var talinn 100% á öllum stöðvum og þótti óvenjulegt. Líkt og í maí 1928 var talsverður hafís norðan við land en kom ekki að landi. En lítið olíuflutningaskip lenti í ís 25 sjómílur austur af Horni þ. 29. og laskaðist það nokkuð.

Miklar umræður voru á Íslandi um málaleitan Bandaríkjamanna um herstöðvar á landinu til 99 ára. Verið var að rétta yfir stríðsglæpamönnum nasista í Nurnberg.

1928 (7,5) Maí 1928 hefur það sér til sérstöðu, fyrir utan að vera með óvenju mikinn loftþrýsting, að vera sá hlýjasti sem mælst hefur nyrst á Vestfjörðum þó maí 1933 sé reyndar svipaður, svo og á Ströndum. (Kortið sýnir frávik hæðar 500 hPa flatarins). Á undan þessum mánuði var tíundi hlýjasti apríl. Þann fyrsta komst hitinn 15,5 stig í suðaustanátt á Suðureyri við Súgandafjörð og er svo mikill hiti þar sannarlega sjaldgæfur á hádegisdegi verkalýðsins. Og sama dag var hitinn í Reykjavík 15,1 stig og hefur aldrei mælst hærri þar fyrsta mai. 1928_5_500_an.pngFyrstu fjórir dagar mánaðarins voru reyndar þeir hlýjustu að tiltölu.  Þann  3. var  17 stig hiti í Reykjavík. Nokkuð kólnaði  dagana 4.-8. og mældist þá mesti kuldi mánaðarins, -5,8 stig þ. 5. á Grímsstöðum, en hlýnaði svo aftur næstu vikuna, en kólnaði síðan enn á ný þar til hlýnaði vel í mánaðarlokin. Hlýjast varð 20,6 stig á Húsavík næst síðasta daginn en næsta dag voru 18 stig í Grímsey sem er óvenjulegur hiti þar í maí. Mjög þurrt var víða og var úrkoman aðeins 1,3 mm á Akureyri. Í Stykkishólmi er þetta næst þurrasti  maí (frá 1857). Sólríkt var fyrir norðan og á Akureyri er þetta fimmti sólríkasti  maí (frá 1925) en í Reykjavík var sól í kringum núverandi meðallag. Mikil sólskinstíð var á Akureyri dagana 13. til 20. Snjólag var 3% á landinu og  hvergi talin alhvít jörð. En dálítill snjór var sums staðar á Vestfjörðum framan af mánuðinum og flekkótt alla daga á Hraunum í Fljótum.  Eins og 1935 var frostlaust í Reykjavík og við sjóinn á suðurlandi. Þrátt fyrir þessi hlýindi var hafís á sveimi við landið en ekki varð hann landfastur. Á undan þessum mái fór tíundi hlýjasti apríl.  

1933 (7,3)  Einmuna tíð allan mánuðinn. Þurrkar háðu þó sums staðar gróðri framan af. Þetta er hlýjasti maí á Akureyri, meðalhitinn 9,5 stig og er það íslandsmet fyrir veðurstöð í maí eins og áður hefur komið fram. Á Lambavatni á Rauðasanfi og í Kvígyndisdal í Patreksfirði og sums staðar á Vestfjörum er þetta  líka hlýjasti maí sem þar hefur mælst. Framundan var svo hlýjasti júní á landinu og besta sumar sem yfir norðurland hefur gengið. Suðaustanátt var yfirgnæfandi og mikil úrkoma var á suðausturlandi, 234 mm á Vattarnesi.  Á Akureyri var hins vegar engin mælanleg úrkoma en tvo daga var úrkoma þar „svo lítil að hún mældist ekki"! Aldrei hefur mælst eins lítil úrkoma á Akureyri í maí og ekki heldur á Grímsstöðum, 0,2 mm. Sólin lék við Akureyringa þar sem þetta er fimmti sólríkasti  maí. Tólf daga skein sólin þar í tíu klukkustundir eða meira, þar af fjóra daga í röð, 14.-17. 1933_5_500_an.pngÞví miður féllu hámarksmælingar niður í þessum mánuði á Akureyri en þ. 18. fór hitinn í 20,0 stig á Húsavík. Hámarkshiti í Reykajvík í þessum frostlausa mánuði þar fór 25 daga í tíu stig eða meira og hvern  dag frá þeim ellefta en sól var af fremur skornum skammti. Alla dagana 16.-21. var óslitið góðvirði norðanlands en  oft hvassvirði við suðurströndina og býsna úrkomusamt á suðausturlandi. Sólarhringsúrkoma mældist á stöðvum þar 37-63 mm að  morgni hins 21. Snjólag var 5% á landinu. Hvergi varð alhvít jörð nema tvo daga í Fagradal í Vopnafirði. Þar var snjódýpt 14 cm að morgni hins fyrsta og var það eftirstöðvar eftir snjóakast síðast í apríl. Eftir hlýjan fyrsta maí kom stutt og vægt kuldakast og þ. 3. mældist mesta frost mánaðarins, -4,7 stig á Grænhóli á Ströndum. Kortið sýnir frávik hæðar í 500 hPa fletinum sem er tiltölulega hæstur við norðausturland. Manni finnst ansi góðviðrislegt þar eitthvað.   

Nasistar voru komnir til valda í Þýskalandi og þeir fóru að brenna bækur á torgum í Berlín. En íslensk bókmenning blómstraði og fræðileg útgáfa Fornritafélagsins á íslenskum fornritum hóf göngu sína með Egilssögu sem Sigurður Nordal sá um.  

1936 (7,3) Þetta er hlýjasti maí á Teigarhorni, 7,3 stig ásamt maí 1961. Sunnan og suðvestanvindar voru tíðastir. Tíð var talin mjög góð en þó var fyrri hluta mánaðarins  nokkuð úrkomusamt og óstöðugt á suður og vesturlandi. Aðfaranótt hins 3. var þrumuveður í Stykkishólmi og Reykjavík og sló eldingu niður í loftskeytastöðina og ollu dálitlum skemmdum. Talsverð úrkoma var á vesturlandi um nóttina. Sunnan og suðvestanáttir, stundum hvassar á suður og vesturlandi með úrkomu, voru ríkjandi fram yfir miðjan mánuð. Kortið sýnir ástandið í um 9  km hæð. í mánuðinum. Eftir það var oft vestlæg átt og hæðir fyrir sunnan land en stundum yfir því alveg til  hins 27. 1936_5_300.pngÍ Vestanáttinni komst hitinn rétt  yfir 20 stig þ. 23. á Fagurhólsmýri og Teigarhorni. Þann 28. snérist í norðanátt og mældist þá mesti hiti mánaðarins, 21,1 stig á Hólum i Hornafirði og hefur aldrei mælst þar eins mikill hiti í maí. En með norðanáttinni kólnaði þó talsvert og voru síðustu dagarnir köldustu dagar mánaðarins. Mældist þá víða frost og mest -3,7 stig á Grímsstöðum þ. 30. Sums staðar á suður og vesturlandi fraus þó ekki, t.d. í Reykjavík. Óneitanlega var það svo nokkuð  kaldhæðnislega óvorlegt að síðasta dag mánaðarins var athugaður eini alhvíti dagurinn á veðurstöð á láglendi og var það á Kirkjubæjarklaustri af öllum stöðum og var snjódýptin 1 cm. Þennan dag var líka hvítt á Hólsfjöllum og við Mývatn. Alls staðar annars staðar nema á  Klalustri á suður og vesturlandi var þó alautt allan mánuðinn og hverfandi snjór fyrir norðan og austan.

Úrkoman var nokkuð mikil, kringum 60% yfir meðallagi og er þetta  næst úrkomusamasti maí sem hér er fjallað um. Fyrir norðan var þó fremur þurrt. Á Kirkjubæjarklaustri var úrkoman 206,2 mm rn aftur á móti aðeins 0,4 mm á Grímsstöðum og 0,9 mm á Raufarhöfn sem er þar þurrkamet í maí (frá 1933). Mjög mikið sólfar var í höfuðstaðnum síðustu fjóra  dagana í norðanáttinni en fremur svalt. Sól var annars nærri núverandi meðallagi en heldur meiri á Akureyri en í Reykjavík. Snjólag var talið 5% eins og 1933.

Hið vinsæla tónverk fyrir börn og fulloðrna, Pétur og Úlfurinn eftir Prókóféff var frumflutt í Moskvu annan dag mánaðarins. 

2008 (7,2) 2008_5_850.pngLoksins kom þetta ár verulega hlýr maímánuður sem ekki hafði þá gerst síðan 1974. Í Reykjavík er þetta þriðji hlýjasti maí. Á Hveravöllum hefur ekki mælst jafn hlýr maí, 3,7 stig, frá 1965. Úrkoman var nokkuð undir meðallagi. Sól var fremur lítil bæði fyrir norðan og sunnan. Hlýjast á mannaðari stöð varð 19,6 stig á Torfum í Eyjafirði en sama dag mældust 21,7 stig á sjálfvirka mælinum á Hallormsstað. Mest frost á mannaðri stöð mældist -4,8 stig á Grímsstöðum þ. 16. en á Þingvöllum mældist -7,0 þ. 2 á sjálfvirkan mæli en uppi á reginfjöllum mest -8,0 stig á Gagnheiði þ. 16. Góðviðrasamt var í þessum mánuði. 

1960 (7,2) Þessi maí er nú líklega frægastur í veðursögunni fyrir það að þá mældist mesti hiti í höfuðborginni sem þar hefur mælst í nútímaskýli í maí. Mánuðurinn byrjaði ágætlega en það var hinn 11. sem tók að hlýna fyrir alvöru með austlægri átt. Þennan dag mældust 19,6 stig á Hæli í Hreppum og 19 stig á Skriðuklaustri og Síðumúla í Borgarfrði. Vart varð við þrumur í Borgarfirði og Hvalfirði. Næstu tvo daga var mikið sólskin í Reykjavík. Alla dagana 12.-14. voru sett í borginni dagshitamet fyrir meðalhita og meðalhitinn þ. 14. sem var 14,9 stig, er mesti meðalhiti nokkurs maídags í Reykjavík og daginn áður voru 14,5 stig. Hámarkshitinn fór þann tólfta í 17,6 stig og daginn eftir í 19,5 stig.  Loks fór hitinn í Reykjavík hæst þann 14. og voru þá 20,6 stig. Þennan dag var þó nokkru minni sól en hlýju dagana tvo þar á undan. Hinn 12. mældist aftur á móti mesti hitinn á landinu, 20,9 stig á Egilsstöðum, en næsta dag voru 20,3 stig á rafstöðinni við Andakíl, en víða 18-19 stig á suðurlandsundirlendi. Hlýindi þessi, sem nutu sín svona einstaklega vel í höfuðborginni, eiga sinn þátt í því að þetta er næst hlýjasti maí sem þar hefur mælst. Á þessum tíma voru veðurkort birt í Morgunblaðinu og voru þau í miklu stuði dagana 14. og 15.  Allir nutu svo sannarlega veðurblíðunnar. Í þessari hitabylgju mældist á nokkrum stöðum á vesturlandi og á Vestfjörðum meiri hiti en dæmi eru um í maí, 18-19 stig,  t.d. á Lambavatni, Kvígindisdal og í Æðey. Og mánuðurinn mældist sá  næst hlýjasti á Suðureyri við Súgandafjörð, 7,7 stig (1922-1989). Eftir mestu hitabylgjuna kólnaði síðan smám saman næstu daga á landinu án þess að um kulda væri að ræða. En aðfaranótt hins 20. hvessti af austri og síðan norðri með rigningu og síðar snjókomu vegna krapprar lægðar sem fór suðaustur yfir landið. Næsta morgun   mældist á Húsavík mesta sólarhringsúrkoma þar í maí 32,3 mm (1928-1964). Stóð þetta leiðindahret í eina þrjá daga fyrir norðan en var miklu vægara á suðurlandi. Festi snjó á fáeinum stöðvum á Vestfjörðum, norðurlandi og Fljótsdalshéraði og urðu þar nokkrir fjárskaðar.  Hretið leið þó hjá og varð aftur besta veður.  Snjólag var 6% í mánuðinum. Úrkoman var fremur lítil nema á norðausturlandi. Í Gunnhildargerði á  Úthéraði var hún sú sem mesta sem þar mældist í maí þau fimmtán ár sem mælt var. Snemma í mánuðinum  var aftur á móti fádæma úrkoma syðst á landinu. Í Vík í Mýrdal mældist sólarhringsúrkoman þ. 5. sú mesta sem þar hefur mælst í maí, 77,7 mm (frá 1926) og einnig á Loftssölum við Dyrhólaey, 42,5 mm (1940-1977).  

Heilmikið var að gerast í heiminum. Allt varð vitlaust þegar Rússar skutu niður bandaríska njósnaflugvél yfir Sovétríkjunum snemma í mánuðinum og varð ekkert úr toppfundi ráðmanna Bandaríkjamanna og Rússa sem var fyrirhugaður. Þess í stað fóru menn bara í kaldastríðsgírinn! Glæpamaðurinn og rithöfundurinn Cyril Chessmann var loks tekin af lífi í gasklefanum eftir að búið var að fresta aftökunni margsinnis árum saman og varð þetta mjög frægt mál. Miklar hamfarir urðu á Kyrrahafi vegna jarðsjálfta í Chile. Ísraelsmenn skýrðu frá handtöku Adolfs Eichmanns seint í mánuðinum og í mánaðarlok lést rússneska nóbelskáldið Boris Pasternak. 

Og sólin gekk líka sinn gang og átti eftir að sýna sig óvenjulega mikið um sumarið á suðurlandi.

1941 (7,2) Ásamt maí 1974 er  þetta snjóléttasti maí síðan mælingar hófust. Snjólag var aðeins 1%. Víðast hvar var alveg autt á suður og vesturlandi, frá Papey til Bolungarvíkur. En þarna er mikilvæg undantekning. Á einum stað var einn alhvítur dagur með eins cm snjódýpt þ. 14. Og hvar þá? Jú, auðvitað á Kirkjubæjarklaustri! Á örfáum stöðvum á norðausturlandi og Ströndum var líka dálítill snjór. Úrkoman var fremur lítil, rúmlega hálf meðalúrkoma. Kringum þ. 20. var þó víða geysileg úrkoma. Þann morgun mældust 89,0 mm á Lambavatni og 80,3 mm í Kvígyndisdal sem hvort tveggja er maímet í sólarhringsúrkomu á stöðvunum. Fylgdi þessu  hvassviðri sem fór þó mjög hægt yfir. Miklar skemmdir urðu á þessum stöðum í úrkomunni. Féllu á Rauðasandi 35 stórar skriður og margar smærri og skemmdu tún, bithaga, vegi og girðingar. Matjuragarðar, brú og stíflugarður skemmdust einnig. Sunnan og suðvestanáttir voru algengastar í þessum mánuði en þrátt fyrir þetta slagveður var veðurhæð í minna lagi. Veðrátta var talin kyrrlát og hagstæð enda lítið um að vera í náunda við landið (sjá kortið). 1941_5_1000.png Úrkoma var nokkuð yfir meðallagi. Hæð var yfir landinu að mestu alveg fram í miðjan mánuð en grunn lægð fór þá suðaustur yfir landið. Fylgdi henni fyrst hlýtt loft og komst hitinn í 24,4 stig á Hallormsstað þ. 11. Það var þá mesti hiti sem mælst hafði á landinu í maí og stendur enn sem Hallormsstaðamet. Þennan dag   gerðu Þjóðverjar hörðustu loftárásir sem þá höfðu verið gerðar  Lundúni. Mjög kólnaði þegar lægðin var komin suðaustur fyrir og fór að snjóa fyrir norðan.  Mestur kuldi á landinu mældist -7,3 stig í Reykjahlíð þ. 13. og sama dag -7,0 á Núpsdalstungu í Miðfirði. Fleiri dagar urðu reyndar mjög  hlýir á Hallormsstað. Þann 10. fór hitinn þar í 21,6 stig, 20 slétt þ. 22. og loks í 22,0 stig þ. 30.  Alls staðar mældist frost í mánuðinum nema á Sámsstöðum í Fljótshlíð, Vík í Mýrdal og Vestmannaeyjum. Eftir kuldakastið dró  til suðlægra átta og síðan norðaustlægra en undir lok mánaðarins var hæð yfir landinu, hægviðri og hlýtt. Á eftir þessum mánuði kom fimmti hlýjasti júní á landinu.

Ekki varð mikið úr hátíðahöldum 1. maí í Reykjavík því breski herinn bannaði útifundi og kröfugöngur. Heimsstyrjöldin var í fullum gangi. Þjóðverjar hertóku Krít og seint í mánuðinum sökti orustuskipið Bismarck breska herskipinu Hood vestur af Reykjanesi en nokkrum dögum síðar var Bismarck sökkt. Rudolf Hess flaug til Englands. Hann átti eftir að lifa langa ævi en ansi einmanalega.  

1889 (7,2) Þetta er eini maí á seinni hluta nítjándu aldar sem kemst á blað yfir tíu hlýjustu maímánuði. Hann var hlýr alveg frá byrjun og til loka. Hvergi mældist frost á athugunarstöðvum nema í Grímsey, á Raufarhöfn, Möðrudal og Gilsbakka þar sem mældist mesti kuldi mánaðarins, -2,9 stig. Ísafold segir frá því þ. 18. að tíðarfar hafi verið alveg frábært alls staðar þar sem til hafi spurst um vorið. Gróður sé kominn óvenjulega mikill, jafnvel um úthaga og sums staðar farið að grænka á heiðum uppi. Nokkuð kólnaði síðustu vikuna nyrst á landinu og mældust þá nokkrar frostnætur á Grímsey þar sem verið hafði alveg frostlaust þangað til. Á suðurlandi var síðasta vikan aftur á móti einna hlýjust. Mánuðurinn var afar úrkomusamur, 77% umfram meðallagið okkar hér á Allra veðra von og úrkomusamasti maí sem hér er fjallað um. Úrkomudagar voru einnig mjög margir. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma á Teigarhorni í maí, 237,6 mm og að morgni þ. 6. var sólarhringsúrkoman þar 44,2 mm. Úrkomudagar voru 24 á stöðinni. Suðaustanáttin var mjög þrálát. Hlýjast varð í  þessum maí 21,1 stig á Núpufelli í Eyjafirði þ. 13. Það er til marks um hlýindi þessa mánaðar að í Reykjavík var hámarkshiti 26 daga tíu stig eða meira og hiti fór aldrei lægra en í 2,9 stig. 

Jónassen vaktaði þennan góða maí í Ísafold:  

Undanfarna daga hefur verið eindregin austanátt með blíðviðri; við og við talsvert regn úr lopti; h. 3. var hjer hvasst austanveður fram yfir miðjan dag, er hann lygndi, bjart veður með skúrum síðari part dags. Í fyrra norðan-nepja með hríð þessa dagana.(4. maí) - Undanfarna daga hefur einlægt verið austan-eða austan-landsunnanátt, opt hvass og með talsverðri úrkomu með miklum hlýindum. Úrhellisrigning aðfaranótt h. 8. Í dag 10 stiga hiti kl. 9 í morgun og bjart sólskin. (8. maí). - Undanfarna daga hefur verið hin æskilegasta sumarblíða dag sem nótt, nokkur úrkoma með sólskini þess á milli, við austur eða land-suður. (11. maí). - Undanfarna daga hefur verið staðviðri og blíðasta sumarveður; mánudagin var hjer óvenjulega hlýtt, nfl, 15 stiga hiti um hádegi. (15. maí). - Sama einmuna sumarblíðan sem að undanförnu. Í  fyrra var 3 stiga frost í nótt sem leið og hjer hvasst norðanveðr. Í hitt eð fyrra blindbylur í allan morgun (17.) og norðan-stórviðri; 1886 norðanbylur og frost; 1885 gott veður á landssunnan; 1884 norðanbál með gaddi; 1883 útsynningsgarri kaldur; 1882 var jeg ekki heima. 1881 norðan, hvass með gaddi; 1880 landsynningur og gott veður; 1879 landsunnan, gott veður; 1878 norðanbál og blindbylur; 1877 bezta veður; 1876 bezta veður; 1875 fagurt veður, nokkuð kaldur; 1874 bezta veður. (18. maí). -Sama sumarblíðan dag sem nótt, eindregin austan-landsunnan átt, með skúrum og björtu sólskini í milli (22. maí). - Svo  má heita, að logn hafi verið hina síðustu dagana og mesta sumarblíða, bjart og heiðskírt lopt; h. 23. var nokkur norðankaldi, hvass nokkuð til djúpa en bjart veður. Í morgun (25.) logn, dimma uppyfir, ýrði ögn úr lofti. (25. maí). - Þessa dagana hefir talsverð væta komið úr lopti, stundum rignt óhemju mikið nokkra stund, blíðasta sólskin á milli eins og að undanförnu. (29. maí). - Bjart og fagurt veður daglega þar til síðari part h. 31. að hann dimmdi og gekk til mikillar úrkomu alla aðfaranótt h. 1. og allan morgun þann dag. (1. júní).

Árið 1991 var afar hlýr maí fyrir norðan og austan, sá næst hlýjasti á Teigarhorni og þriðji hlýjasti á Akureyri. Í Reykjavík (og á öllu suður-og vesturlandi) var mánuðurinn ekkert sérstakur að meðalhita, 6,8 stig. Meðalhiti allra 9 stöðvanna var því ekki einn af þeim hæstu. Hann er í 16. sæti að hlýindum frá 1866. Snjólag var 5%.

Maí 1947, sá 11. hlýjasti á landinu (7,1)  er sá hlýjasti sem mælingar ná yfir á svæðinu frá Bakkafirði á norðausturhorni landsins að Dalatanga við Seyðisfjörð, svo og á Fljótsdalshéraði. Meðalhitinn á Hallormsstað var 8,2 stig og sá mesti meðan þar var mælt  (1937-1989) en 8,4 í Reykjavík og 7,8 á Akureyri. Þetta var enda rakinn sunnnáttamánuður með mikilli úrkomu sunnanlands og vestan en þurrviðri fyrir norðan og austan. Sól var þó lítil og venju fremur var þokusamt. Þá varð mesta flugslys Íslandssögunnar er flugvél Flugfélags Íslands flaug  utan í Hestfjall í Héðinsfirði og fórust 25 menn. Var talið að þoka hafi valdið slysinu.    

Á fyrrihluta 19. aldar komu nokkrir hlýrir maímánuðir. Sumir þeirra eru reyndar grunsamlega hlýir. Þannig er reiknaður meðalhiti  fyrir maí 1830 11,0 stig í Reykjavík og 1845 10,5 stig og eru þetta mjög ósennulegar tölu, en áætlaður hiti þá fyrir Stykkishólm er trúlegri. Sjá fylgiskjal.

Fylgiskjalið fyrra sýnir eins og venjulega hita, úrkomu og sólskin á stöðvunum. Seinna skjalið er með upplýsingum um maí 1935 og 1960.

Skýringar. 



Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vorið er löngu komið

Í dag var sólskin í Reykjavík og hitinn fór í 14,9 stig. Á Hellu komst hann í 17,9.

Eftir svona degi hefur maður beðið í allan vetur, sól með hlýindum en ekki kulda. Hann kemur þó í fyrra lagi. Fyrstu vikuna í maí fer hitinn í Reykjavík sjaldnast í tíu stig. Á sæmilegum dögum er hann oftast svona sex til átta stig mest. Oft eru hins vegar norðanáttakuldar með næturfrostum.

Ég sagði um daginn á blogginu að menn myndu sjá hvað vel hefði vorað þegar kæmi bjartur og hlýr dagur.

Það sannast í dag. Allt er í blóma í bænum, tré runnar, gras og blóm.

Vorið er komið!

En vorið kom ekki í dag. Það var að koma allan apríl sem hefur verið  ómaklega rægður og  níddur  meira en nokkur mánuður síðan ég fór að fylgjast með veðri.

Svona dagur eins og i dag hefði alveg getað komið í kjölfar apríl sem aldrei hefði náð neinum vordampi þó hann hefði kannski verið sólríkur og ekki hvass. Þá væri í dag sama sólskin og sama hitastig og nú gleður alla. En gróður væri enginn og ekkert sýnilegt vor.

Þökkum fyrir þennan góða apríl. Hann  vann sín vorverk rösklega. 

En ég játa að hann var ekki fyrir pempíur, vælukjóa og aumingja! 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Maí

Nú er bara að vita hvort maí verður tiltölulega eins hlýr og góður og apríl!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Einn af hlýjustu aprílmánuðum

Það er ekki hægt að segja annað en þessi einkennilegi apríl endi á  ótrúlegan hátt. Nú er heilmikill snjór í Reykjavík og þar er dagurinn kaldasti dagur mánaðarins. Meðalhiti dagsins er undir einu stigi sem er þó í sjálfu sér ekki slæmt sem kaldasti dagur heils aprílmánaðar. Á Raufarhöfn var þetta hins vegar hlýjasti dagur mánaðarins með meðalhita í kringum ellefu stig sem væri ágætur hásumardagur hvar sem er á landinu. Á Seyðisfirði var 18 stiga hámarkshiti.  

Má þetta allt furðu gegna. 

Hvernig sem menn vilja dæma þennan mánuð á höfuðborgarsvæðinu er hann eigi að síður í röð með allra hlýjustu aprílmánuðum á landinu. Og alls staðar vel yfir meðallagi. Að mínu bráðbirgðatali er hann svipaður að hita og 1955. Hann er sem sagt eitthvað í kringum sjöundi eða áttundi hlýjasti apríl. En þarna í röðinni munar litlu á mánuðum og talan fyrir þennan apríl er ekki viss. Ekki má því taka þetta of hátíðlega. Samt alltaf gaman að spá í sögulega viðburði og ég þori reyndar næstum því að hengja mig upp á það að mánuðurinn er í það minnsta meðal tíu hlýjustu aprílmánaða á landinu sem hér má lesa um.

Hann er fyrst og fremst hlýr austan og norðan til á landinu, líklega yfir 6 stig í Hornafirði og um 5,6 stig á Akureyri. Þetta virðist jafnvel vera næst hlýjasti apríl bæði á Teigarhorni og í Grímsey.

Úrkoman í Reykjavík er sú næst mesta sem mæld hefur verið í apríl en metið er 149,9 mm árið 1921. Í dag hefur verið mikil úrkoma en hún telst til 1. maí. Annars væri komið nýtt úrkomumet.

Loftþrýstingur er líklega með því allra lægsta sem mælst hefur í apríl. 

Já og var svo ekki helvítis rok alla daga?

Gaman verður að sjá lokauppgjörið fyrir þennan furðulega mánuð.  

Í fyrrmálið verður líklega alhvít jörð í Reykjavík. Það hefur ekki gerst í maí síðan árið 1993. Mest snjódýpt í borginni í maí er 17 cm frá þeim fyrsta 1987. Það væri óskemmtilegt ef það met verður slegið.  Og hvað verður þá um blessuð blómin og börnin?
 
En er annars ekki hitabylgja handað við hornið - eins og hamingjan!
 
Fylgiskjalið sýnir örfáa af leyndardómum þessa mánaðar! 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband