Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Undarlegt veður

Eftir að umskiptin urðu í veðrinu þann sjöunda hafa allir dagar á Akureyri verið fyrir neðan meðallag í hita.

Fyrstu dagarnir voru það líka í Reykajvík en þeir tveir síðustu hafa verið vel yfir meðallagi. Þeir hafa líka verið sólríkir með svölum nóttum, en þó frostlausum, en furðu miklum síðdegishita, 15,5 stig í gær. 

Loftið yfir suðvesturlandi er mjög þurrt eins og veðurfræðingar vorir hafa tíundað í bloggum sínum og þetta mistur er einkennilegt til að sjá.

Mér finnst vera einhver hamfarablær á þessu öllu saman og ég veit um fleiri sem finnst það. En ég er reyndar mjög útsettur fyrir katastrófupælingar!

Tilveran er ein allsherjar katastrófa! 

Ætli Katla sé annars ekki að undirbúa sig á fullu!

Hvað um það þá hangir meðalhitinn enn yfir meðallagi á Akureyri og er vel yfir því í Reykjavík. Og nú er von á veðurbreytingu með skýjaðra veðri og úrkomu. Þá hækkar næturhitinn og eflaust meðalhitinn líka víðast hvar.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þöggun og sjálfsvíg

Það er oft talað um það að opna eigi umræðuna um sjálfsvíg.

Nú hefur verið opnaður vefur um sjálfsvíg

Á þeim vef eru engar umræður leyfðar eða skoðanaskipti og athugasemdir um eitt né neitt. 

Alt kemur að ofan. Allt er tilreitt ofan í fólk.

Ég hef alloft bloggað og jafnvel skrifað um það blaðagreinar að umræða á Íslandi um sjálfsvíg sé mörkuð undanbrögðum og óhreinlyndi. Horft sé framhjá mörgu sem viðkomi málinu og litið sé á sjálfsvíg nær eingöngu frá sjónarhóli geðlæknisfræðinnar.

Vefurinn um sjálfsvíg er einn af vitnisburðunum um þetta.

það er eins og liggi í loftinu að allar aðrar hugsanalínur en þar koma fram séu óviðeigandi.

Óttar Guðmundsson vakti þó athygli á því í Kastljósi í gær að áfengisneysla komi við sögu í meira en helmingi sjálfsvígstillfella. Samt hefur sjálfsvígsumræðan, sem er vandlega stýrð af heilbrigðisstéttum, aldrei lagt á það neina áherslu að vara fólk við áfengi.

Það er eins og það sé algerlega óviðeigandi. Bara hallærislegt. 

Eftir þessu er flest umræða um sjálfsvíg. Hún er full af þöggun og réttrúnaði ýmis konar sem ekki má við blaka.

Ekki skal ég þó fara lengra út í þessa sálma enda oft gert það áður.


 


Það er engin leið að hætta ...

Nú hefur heldur betur kólnað. Stökkbreyting frá góðu sumri yfir í ósvikið haustveður.

Fyrstu sex dagana í september var meðalhitinn 12, 2 stig í Reykjavík eða 3,5 stig yfir meðallagi. Eftir daginn í gær var  hann kominn niður í 11,5 stig. Það er kólnun um 0,7 stig á einum degi en meðalhitinn í gær var aðeins 7,0 stig. Enn kólnar svo í dag. Hitinn í gær í höfuðborginni komst ekki í tíu stig í fyrsta sinn síðan 10. júní.

Í morgun var alhvít jörð á Ólafsfirði og snjódýpt 5cm og í Svartárkoti þar sem snjódýpt var 4 cm. Jörð var flekkótt á Grímsstöðum, þar sem golfvöllurinn á að rísa, við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og á Tjörn í Svarfaðardal.

Það er aldrei gæfulegt þegar september stekkur snemma beint inn í miðjan október. En það er þó einmitt það sem nú hefur gerst. Að vísu gæti ástandið verið verra en líka miklu betra. 

Fylgiskjalið njósnar um veðrið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sögulok mánaðarvökunarinnar

Nú er ekki lengur hægt að sjá athuganir mannaðra veðurstöðva á þriggja tíma fresti á gamla vef Veðurstofunnar, ásamt  hámarki og lágmarki hitans og úrkomu, eins og lengi hefur verið hægt. 

Mér finnst það satt að segja fyrir neðan allar hellur að loka á þetta fyrirvaralaust án þess að aðgangur að þessum upplýsingum sé mögulegur annars staðar á vef Veðurstofunnar.

Það er skömm frá því að segja að hægt er að sjá þetta eitthvað svipað á rússneska vefnum góða fyrir nokkrar stöðvar en alls ekki allar, og reyndar á fleiri stöðum, en ekki á opinberum vef Veðurstofu Íslands!

Ég hef í um það bil ár birt hér á blogginu daglegt yfirlit yfir veður í Reykjavík og Akureyri og fyrir suma veðurþætti yfir allt landið, einn mánuð í senn meðan honum vindur fram. Slíkt yfirlit er hvergi annars staðar aðgengilegt með líkum hætti.  Þetta hefur verið þó nokkuð maus og fyrirhöfn. Og þessi lokun á gamla vefnum með upplýsingum frá mönnuðu stöðvunum minnkar hana nú ekki.

Og nú nenni ég þessu bara ekki lengur.

Örlög þessa veðurbloggs að öðru leyti er enn óráðin. 

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband