Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Meðalhiti júlí kominn upp í meðallag í Reykjavík

Meðalhitinn í Reykjavík er nú kominn upp í meðaltalið 1961-1990 sem oftast er miðað við. Ekki blés byrlega fyrir honum frameftir en í hlýindunum síðustu viku hefur hann braggast mjög. Annars hefur verið hálf ergilegt fyrir borgarbúa að vera í sjávarloftinu þegar hitinn í sveitunum hefur verið yfir tuttugu stigum dag eftir dag. Reyndar nældi höfuðborgin í 20,2 stig á laugardaginn. En grundvöllur hefur verið í háloftunum fyrir meira en 20 stigum þar dag hvern allan hlýindatímann ef vindur hefði  staðið almennilega af landi. 

Hitasyrpan þar sem sjávarloft nær ekki til er að verða nokkuð merkileg fyrir hvað hún hefur staðið lengi, ekki síst á hálendinu. Á Brú á Jökuldal hefur hámkarkshiti náð tuttugu stigum eða meira samfellt í níu daga. Það er sjaldgæft að veðurstöð nái því þó engan veginn sé það dæmalaust. Ýmsar aðrar stöðvar hafa haft um eða yfir 20 stiga hiti í vikutíma eða meira. 

Hér fyrir neðan er til gamans mynd af gangi hitanns á sjálfvirku stöðinni á Grímsstöðum dagana 21.-27. Í dag fór hitinn þar enn yfir 20 stig. Svipað hefur þetta verið á mönnuðu stöðinni.  

Meðalhitinn á Akureyri er 0,9 stig yfir meðallagi og er 0.8 stigum hærri en í Reykjavík. En nú er það austurland sem gerir það best í mánuðinm og svo hálendissveitirnar á norðausturlandi. Þar uppi er hitinn meira en tvö stig yfir meðallagi.  En hiti er vel yfir meðallagi víðast hvar frá Vestfjörðum ti suður austfjarða.  

En nú er þessum hlýindum sem staðið hafa síðustu daga að ljúka og kannski verður bara vandræðaveður um verslunarmanahelgina og verst þar sem best hefur verið síðustu daga! 

Í tilefni skruggulátanna í gær á hálendinu vísa ég á þrumupistil sem ég skrifaði í fyrrasumar eftir smá  þrumuveður sem þá gerði en jafnaðist ekki á við það í gær. Í pistlinum eru rakinn helstu sumarþrumuveður síðustu áratuga.

t_1v_1209501.gif


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlí hálfnaður

Nú er júlímánuður rúmlega hálfnaður. Meðalhitinn í Reykjavík er þá 9,5 stig eða 0,8 stig undir meðaltali sömu daga 1961-1990 en 2,2 stig undir meðaltali þessara daga á 21. öld. En eins og ég og fleiri höfum margbent á er ekki raunhæft að miða við það mjög svo afbrigðilega tímabil þegar við metum hitafar mánaða. 

Eigi að síður hlýtur það sem af er mánaðarins að teljast kalt í Reykjavík og þó bara sé miðað við meðaltalið 1961-1990. Ekki hefur verið kaldara þegar júlí er rúmlega hálfnaður síðan 1993 og aftur 1992. Það var áður en uppsveiflan mikla hófst í sumarhita. En þetta gerðist líka 1989, 1983, 1979 og 1970 en hitinn var jafn og núna fyrri hluta júlí 1973 og 1949. 

Maður er farinn að búast við því að mánuðurinn allur endi jafnvel undir  tíu stigum í Reykjavík sem ekki hefur gerst síðan 1992, 1989, 1985, 1983, 1979, 1975 og 1970. En árið 1970 hafði það ekki gerst síðan í júlí 1922. Þá ríkti hlýindatímabilið hið fyrra á 20. öld. Hið síðara hófst nálægt aldarlokum og stendur enn - eða hvað? 

Á Akureyri er meðalhitinn 10,1 eða 0,2 stig undir meðallaginu 1961-1990. Á Fljótsdalshéraði og inni á fjörðunum á austurlandi og jafnvel líka við ströndina hefur þetta verið vel hlýr júlí. Og þar og annars staðar fyrir austan og norðan var júní í hlýjasta lagi. Gleymum því ekki í núveandi hamförum! 

Úrkoman í morgun í Reykjavík, 53 mm,  er hreinlega orðinn aðeins meiri heldur en meðallag alls júlímánaðar 1961-1990!  Eftir að Veðurstofan var stofnuð 1920 var hún meiri 1998, 1997, 1984, 1971 (já, þann góða mánuð), 1954, 1926, 1925 og 1926. 

Úrkoman samanlögð síðan i byrjun júní er svipuð og 2003 en var meiri 1984, 1977, 1969 og 1925 en ekki rigningarsumarið alræmda 1955. Aðalrigningarnar voru þá eftir og einnig í ýmsum öðrum frægum rigningarsumrum. Kannski eigum við það líka eftir!

Sólarstundirnar í Reykajvík eru nú 68 en voru færri fyrri hluta júlímánaðar 2005, 2003, 1999, 1997, 1992, 1984, 1983, 1980, 1979,1978, 1977, 1976, 1975 (já, 6 fyrri hluta júlímánuðir í röð), 1973, 1972, 1969, 1959, 1955, 1954, 1953, 1949, 1947, 1945, 1937, 1935, 1934, 1933, 1930, 1926, 1925 og 1923. 

Ísland er ekki beint sólskinsland!  

Ef við tökum júní og fyrri hluta júlí samans  var sólarminna 2003, 1988,1986, 1983, 1979, 1971,1969, 1962, 1934, 1926, 1925 og 1923.

Úrkoman það sem af er júlí er mikil víðast hvar um land en ekki bara í aðallega í einum landshluta og er þetta fremur fátítt. Ótrúlega víða, nema helst á norðaustur og austurlandi, er úrkoman þegar komin upp fyrir meðallag alls júlímánaðar og þar sem hún er það ekki er hún á mörgum stöðvum farin að nálgast meðallagið. Á fáeinum stöðvum, aðallega austanlands, hefur þó verið lítil úrkoma.

Ég var búinn að týna í sarpinn til birtingar nokkrar sannar hryllingssögur um fyrri tíma sólarleysi í fjölda samfelldra daga en verð að láta það bíða að sinni.

Á meðan: Sleikjum nú sólina þegar hún gefst!

Og svo er spáð hlýrra veðri. 

Viðbót 22.7. Meðalhitinn í Reykjavk er nú komin upp í tíu stig og mun líklega ekki fara aftur niður fyrir það til mánaðarloka. En þetta er samt ekki gott.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vonandi þáttaskil í framkomu verktaka við íbúa

Fyrir skemmstu vakti athygli að íbúar á Hampiðjureitnum svokallaða stöðvuðu vinnu við höggbor sem gengið hafði vikum saman frá morgni til kvölds án hvíldar alla daga nema sunnudaga. Hátt upp i þúsund manns hafa líkað fréttina á mbl.is.  

Vonandi markar sá atburður tímamót í því hvað verktakar geta gengið langt og óheftir með að gera fólki ólíft í húsum sínum þegar framkvæmdir standa yfir og veki yfirvöld til vitundar um annars konar hlið á málunum en einungis verktakana en hingað til hafa yfirvöld verið sinnulaus um það sem að íbúunum snýr. Þegar svo einn verktaki lýkur sér af tekur annar við. Höfðatúnsreiturinn er svo nærri Hampiðjusvæðinu að framkvæmdir þar munu einnig valda óþægindum fyrir sömu íbúa og stöðvuðu höggborinn. En auðvitað þó enn þá meiri fyrir þá íbúa sem eru aðeins í fárra metra fjarlægð frá reitnum.

Eftir þessari frétt á eftir að byggja þarna á Höftatúnsreitnum fjögur stórhýsi. Eitthvað mun þá ganga á. Jafnvel árum saman.

Það gekk mikið á þegar þær byggingar voru reistar sem þegar eru á svæðinu. Þá kvörtuðu íbúar í Túnunum sárlega. En forsvarsmenn Eyktar, sem sáu um framkvæmdirnar, svöruðu á þann hátt að íbúarnir tóku það sem ögrun. Um þetta var fjallað í fjölmiðlum á sínum tíma.

Frá þessum reit hefur árum saman verið mikið ónæði með hléum. Jafnvel þegar ekki var verið að byggja voru þar vinnutæki mánuðum saman frá morgni til kvöld með þessu eilífa hátíðnipípi sem smýgur inn um allt og trufluðu jafnvel gesti sem komu í heimsókn til íbúanna stutta stund, hvað þá íbúana sjálfa sem dvelja á heimlum sínum flestum stundum. 

Ekki hefur forstjóri Eyktar, Pétur Guðmundsson, sýnt íbúunum sem búa í fáeinna metra fjarlægð frá framkvæmdunum þá lágmarksvirðingu að kynna þeim nýju framkvæmdirnar á nokkurn hátt eða því sem þeir geta átt von á eða hve lengi það muni standa yfir.

Hins vegar kom fulltrúi undirverktaka Eyktar, sem sjá eiga um sprengingar, í hús að leita leyfis til að setja þar upp jarðskjálftamæla.

Takið eftir ósvífninni.

Ekki er íbúum gerð minnsta grein fyrir því hvað sé á á seyði eða við hverju þeir mega búast en sjálfsagt þykir að þeir greiði götu verktakanna sem munu að öllum líkindum gera líf þeirra óbærilegt í húsum sínum næstu mánuði eða jafnvel ár.

Hverju geta íbúarnir átt von á þegar skjálfarnir byrja? Að allt fari af stað, myndir detti af veggjum og hlutir úr hillum. Skemmdir á munum? Slysahætta?

Að verktakar hafi ekki rænu á að kynna þetta að neinu leyti fyrir íbúunum í næsta nágrenni er hreint út sagt ekki bara tillitslaust heldur einnig ábyrgðarlaust fram út öllu hófi.

Við skulum samt vona að framtak íbúana við Hampiðjureitinn marki einhver þáttaskil um framkomu verktaka við íbúa og ekki sé gengið yfir öll velsæmismörk.

Íbúar við Höfðatúnsreitinn munu vonandi heldur ekki  láta bjóða sér að fram af þeim verði gengið. 

 


mbl.is Byggja stærsta hótel landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumargæðin

Skörin er nú farin að færast upp í bekkinn í sumargæðunum þegar Papey er orðin hlýjasti staður landsins!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Enn hlýrra

Í dag fór hitinn á landinu víða enn hærra en i gær. Hlýjast varð 26,1 stig á Egilstaðaflugvelli.

Aftur fór hitinn eins og í gær yfir 20 á fimm mönnuðum veðurstöðvum: Akureyri og Torfur, 23,7 stig, 22,3 á Grímsstöðum, 21,8 á Bergsstöðum og 20,7 á Sauðanesvita. Litlu munaði svo á Mánárbakka þar sem hitinn fór i 19,9 stig (21,2 stig á sjálfvirku stöðinni kl. 19 og hefur þá hugsanlega komist yfir 20 á þeirri mönnuðu sem kemur í ljós á morgun).

Hér fyrir neðan er list yfir allar stöðvar sem í dag mældu 20 stig eða meira. Athygli vekur að Vopanfjörður er ekki á honum fremur en i gær. En hins vegar Grímsey! Glaðasólskin fylgir hitanum á norðaustur og austurlandi.  Þetta er nokkuð langur listi! Sunnlendingar láta sér kannski fátt um finnast.

Brúsastaðir í Vatnsdal 21,3, Sauðárkróksflugvöllur 23,5, Stafá 22,9, Siglufjörður 21,6, Héðinsfjörður 21,5, Ólafsfjörður 20,5,  Grímsey 20,5, Hámundarstaðaháls 21,0, Möðruvellir í Hörgárdal 23,0, Víkurskarð 21,3, Staðarhóll 24,0 Fljótsheiði 21,5, Végeirsstaðir 23,6, Reykir 22,3, Sóleyjarflatamelar 21,3, Þeistareykir 22,6, Húsavík 25,2, Gerðisbrekka á Tjörnesi 22,7, Ásbyrgi 25,2, Mývatn 21,1, Hólasandur 21,2, Mývatnsheiði 21,1, Mývatnsörfæi 21,3, Svartárkot 20,0, Krafla 21,3, Gæsafjöll 21,2, Rauðinúpur 21,0, Hálsar 20,7, Brú á Jökuldal 23,3, Möðrudalur 23,4,  Möðrudalsöræfi 21,8, Biskupsháls 21,4, Upptyppingr 20,9, Jökuldalur 22,9, Sandvíkurheiði 22,1, Vopnafjarðarheiði 23,0, Egilsstaðir 26,1, Hallormsstaður 26,0, Hallormsstaðaháls 22,3 Eyjabakkaar 20,9 Vatnsskarð eystra 22,2, Brúðardalur 24,5, Fagridalur 22,7, Fjarðarheiði 21,2, Þórdalsheiði 22,5, Seyðisfjörður 23,5, Neskaupstaður 21,6, Eskifjörður 21,4, Kollaleira 21,0,  Breiðdalsheiði 21,8.

Klukkan 21 var hitinn á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði 20,1 stig.  Vopnafjörður er þá kominn í tuttugustigaklúbbinn.

Viðbót11.7. Eftir kl. 18 í gær fór hitinn á mönnuðu stöðvunum á Mánarbakka í 20,0 stig og 20,5 á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Þar með mældist 20 stiga hiti eða meira á 7 mönnuðum veðurstöðvum Dagurinn nær þó ekki 9. ágúst í fyrra sem var talsvert hlýrri austanlands en þessi dagur. 

Þetta er samt vel af sér vikið og veitir ekki af því nú er mjög að kólna. Hitinn núna er aðeins 8 stig í Reykjavík sem verður að teljast í algjörum ruslflokki og hann hefur sigið niður fyrir 10 stig á Akureyri.           


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dregur til tíðinda í hitamálunum

Í dag mældist mesti hiti sem enn hefur komið á landinu í sumar. Hiti komst almennt yfir 20 stig alveg frá innsveitum í Húnsavatnssýlsu og austur til Fljótsdalshéraðs. Svalara var við sjóinn eins og vænta mátti. 

Hiti fór i 20 stig eða meira á fimm mönnuðum, stöðvum, 21,5 á Bergsstöðum í Skagafirði, 21,5 á Akureyri, 23,6 á  Torfum í Eyjafjarðardal, 21,0 á Mýri í Bárðardal og 22,2 á Grímsstöðum. En í dag fór hitinn á landinu mest í 24,0 á sjálfvirku stöðinni á Torfum. 

Mjög hlýtt loft er yfir landinu og eru það viss vonbrigði fyrir hitakærar örverur eins og mig  að hiti skyldi ekki stíga enn hærra.   

Hiti fór að öðru leyti í  20,0 á Húsafelli, 20,9 á Brúsastöðum í Vatnsdal, 20,3 á Blönduósi, 21,6 á Nautabúi í Skagafirði, 22,7 á Sauðárkróksflugvelli, 21,3 á Siglfufirði, 23,0  á Möðruvöllum í Hörgárdal, 21,9 á Staðarhóli i Aðaldal, 22,5 í Ásbyrgi, 23,4 á Végerisstöðum í Fnjóskdal, 22,9 á Reykjum í Fnjóskadal,  20,3 á Fljótsheiði, 21,3 á Þeistareikjum, 20,6 á Gæsafjöllum, 20,3 á Hólasandi, 21,9 á Húsavík, 21,4 við Kröflu, 22,0 við Mývatn, 21,3 á Mývatnsheiði, 21,5 á Mývatnsöræfum, 20,7 í Svartárkoti, 20,9 á Biskupshálsi,  23,7 á Brú á Jökuldal, 22,8 á á annari  ónafngreindri stöð á Jökuldal, 20,5 á Brúaröræfum, 22,0 á Vopnafjarðarheiði, 23,1 á Egilsstöðum, 23,4 á Hallormsstað, 21,9 í Möðrudal, 20,4 á Möðrudalsöræfum, 21,7 við Upptyppinga, og 20,6 í Neskaupstað.

Í Reykjavík komst hitinn á kvikasilfrinu 15,9 stig en suðurlandi varð hlýjast 17,6 stig í Þórsmörk. Á Gagnheiði í 950 m á austurlandi hæð fór hitinn í 15 stig. 

Er sumarið ekki komið?  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlí byrjar illa

Ekki er hægt að segja að júlí byrji annað en illa. Og það alls staðar á landinu. Þetta er stórt skref niður á við í veðurgæðum almennt á landinu frá því í júní. 

Samt hafa verið þrír góðir sólardagar síðustu sex daga i Reykjavík!

Spáð er hlýrra veðri. 

Nú er hásumar og þess vegna getur verið að einhver lausung verði á blogginu og fylgikskjalinu á næstunni eins og verið hefur síðustu viku.

Í fylgiskjalið er kominn enn nýr dálkur, lengst til hægri á blaði 1, er sýnir meðaltal mesta hámarkshita á landinu viðkomandi dag frá 1949.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Heimska

Það er ótrúleg óskammfeilni, þvermóðska og últra heimskuleg afstaða, sem farin er að jaðra við hreina grimmd, að bera það fyrir sig um mann (hver sem hann er) sem kemst hvorki lönd né strönd að ekki sé hægt að veita honum hæli nema hann sé staddur í tilteknu landi.

Sem hann kemst ekki til!

Þarna sést milliríkjapólitík í sínu andstyggilegasta og þverstæðukenndasta ljósi. Þetta ofbýður bæði hversdagslegustu skynsemi og lágmarks sanngirni.  

Og Ísland lætur ekki sinn hlut eftir liggja.


mbl.is Viðbrögð við hælisumsókn misjöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábærum júnímánuði lokið

Nú er lokið alveg fyrirtaks júnímánuði sem þó hefur orðið að þola meiri rógburð og illmælgi í sinn garð en ég man eftir að nokkur sumarmánuður hafi orðið að afbera síðan ég byrjaði að fylgjast með daglegu veðri. Hann lét þó illar tungur ekkert á sig fá og lauk síðasta deginum með sumar og sólskinsstæl hér í höfuðborginni!

Meðalhitinn i Reykjavík er 9,9 stig sem er 0,3 stigum meira en meðaltalið á hlýindaskeiðinu 1931-1960, hvað þá kuldaskeiðinu 1961-1990 sem oftast er miðað við, en reyndar um hálfu stigi  kaldara en meðaltalið á þessari öld sem er svo afbrigðilega hátt að það getur varla enst til margra ára og að mínum dómi er fremur vafasamt að taka mið af meðaltali svo fárra ára. 

Úrkoman var 65,6 mm sem verður að teljast í meira lagi. Eins og hitinn hefur verið óvenjulega mikill í júní í Reykjavík á þessari öld hefur úrkoman einnig verið mjög lítil, aðeins um 36 mm en var 53 mm að jafnaði 1961-1990. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í júní síðan 1992.  Úrkomudagar voru 24 en voru 14 að meðaltali á þessari öld en 18 árin 1961-1990. Þeir voru jafn margir í júní árið 2006 en hafa aðeins verið fleiri í júní árin 1960 (sem reyndist í heild sjaldgæft sólarsumar) og skítasumarið 1983. Það er samt ekki rétt að líkja þessum júni við júní 1983 sem  var miklu kaldari og úrkomumeiri en svipaður að sól. Var hann þó skárstur sumarmánaðanna það árið. 

Það er kannski einmitt sólin sem kom mest á óvart í þessum mánuði! Framan af virtist eins og hann ætlaði að verða sá sólarminnsti en á endasprettinum vippaði hann sér glæsilega upp í 13 sæti frá botninum!

Á Akureyri var úrkoman svo sem ekki neitt neitt, um 9mm mm en meðalhitinn var 11,4 stig og hefur þar ekki orðið jafn hlýtt í júní síðan 1953. Aðeins  fimm júnímánuðir hafa þar verið hlýrri frá 1882. Á Fljótsdalshéraði og á austfjörðum virðist þetta einnig vera einn af fimm hlýjustu júnímánuðum. En merkilegast er að í Grímsey sýnist þetta í fljótu bragði vera allra hlýjasti júní og einnig á Raufarhöfn ásamt þó júní 1953 þar. Eru þetta þó útkjálkar miklir sem eiga oft erfitt uppdráttar frameftir sumri.

Alls staðar er mánuðurinn yfir meðallagi hlyindaáranna 1931-1960, hvað þá kuldatímabilsins 1961-1990. Á landinu öllu virðist hitinn meira að segja vera langt yfir meðallaginu á þessari öld sem er þó enn hærra en 1931-1960.

Þetta verður því að kallast afar góður júní. 

Hann var þó óneitanlega fremur úrkomusamur og sólarlítill á suðurlandi en þar á móti kemur að hann var þar líka hlýr eins og annars staðar. Það er algjörlega út i hött, að mínum dómi, að tala um að ekkert sumar hafi verið í Reykajvík og þar fram eftir götunum. Ég er mjög andvígur því að setja einfalt samasemmerki á milli sólskins og sumars. Að sólin ein sé mælikvarði á það hvað við getum kallað sumarveður.                             

Júní á þessari öld hefur yfirleitt verið í Reykjavík einstaklega hlýr, þurrviðrasamur (jafnvel til baga) og sólríkur. Þetta má reyndar segja um sumarið i heild. Menn verða að átta sig á því að þetta ástand er það afbrigðilega og þess er varla að vænta að það haldi áfram mikið lengur álíka stöðugt og það hefur verið.

Þessi júní  er þó enn mjög ákveðið í þeim hlýindafasa sem einkennt hefur þessa öld eins og ljóst má vera á þeim staðreyndum sem ég var að telja upp. En auðvitað koma hlýir og góðir mánuðir þó misjafnt niður í fjölbreyttu veðurlandi eins og okkar. Nú var það norðurland og austurland sem fengu þykkasta  rjómann. 

Það er vitaskuld fremur bagalegt fyrir sóldýrkendur (en ég er einn af þeim æstustu þeirra á meðal) þegar sólarleysi hrjáir þeirra landshluta. Það ætti þó ekki að vera einrátt í mati nokkurs manns á veðurfari mánaðar almennt. Nú  eru menn ekki bundnir við sína þúfu eins og var fyrr á árum heldur flækjast um og flakka víða. Menn ættu líka að vera sæmilega meðvitaðir um veðurfarsástandið í heild á landinu gegnum þær margháttuðu upplýsingar sem finna má í fjölmiðlum og á netinu. Að emja og orga yfir því í almennri gósentíð sem á fáa sína líka að þeirra landshluti sé í þetta skiptið ekki alveg á fremsta bekk finnst mér bera vitni um ótrúlega veðursjálfhverfu (nýtt orð og gagnlegt!) og heimtufrekju  en jafnframt eindæma sauðshátt í skynjun á umhverfinu, landinu okkkar á einhverju besta veðurskeiði sem þjóðin hefur líklega nokkru sinni upplifað. 

Eins og ég hef sagt hefur 21. öldin verið afburða hlý og veðragóð, jafnt að sumri sem vetri. Ekki er hægt að búast við því áfram alveg von úr viti. 

Og hvað gera menn, úr því þeir hrökkva upp af standinum yfir þessum hlýja og góða júní, ef þeir fá til dæmis fremur blautan og sólarlítinn júlí með meðalhita upp á 10,6 stig í Reykjavík (nákvæmlega í núgildandi meðallagi, 1961-1990) hvað ekki hefur reyndar skeð síðan ég man ekki hvenær en var svo algengt veðurlag fram á þessa öld að menn tóku ekki einu sinni eftir því hvað þá að þeir hafi farið yfrum í sjálfsvorkunn, fussi og sveii.

Og nú er kannski einmitt komið að þessu! Júlí heilsar vægast sagt kuldalega, nú þegar þessi orð í tíma töluð eru töluð er hitinn 7,6 í vorri ástkæru og veðursælu höfuðborg! Og stórt skref niður á við frá flestum dögum í júní.

Já, svei mér ef sumarið 1983 er ekki snúið aftur!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband