Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Marktækir og ómarktækir vitnisburðir

Tveir fyrrum ráðherrar, Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason, hafa bloggað um það atvik þegar þingmaður Framsóknarflokksins ældi yfir fólk í flugvél. 

Báðir fullyrða að þingmaðurinn hafi ekki ekki verið ölvaður heldur fremur verið með innanmein. 

Og báðir ganga algjörlega framhjá vitnisburði nafngreinds sjónvarvotts sem varð fyrir ælunni og  fullyrt hefur á netmiðlum að þingmaðurinn hafi varla staðið á löppunum vegna ölvunar. En þessi sjónvarvottur er óþekkt persóna og fullkomlega áhrifa og valdalaus. Og hefur líkast til aldrei tekið þátt í opinberri umræðu en var svo óhepinn að vera í umræddu flugi.

En ég spyr nú samt:

Hvers vegna ætti að taka fremur mark á vitnisburði þessara fyrrum ráherra, sem ekki voru á staðnum, fremur en sjónarvotts sem ekki aðeins var á staðnum heldur varð fyrir innvolsi þingmannsins?

Afhverju láta báðir þessir virðulegu stjórmálamenn sem vitnisburður sjónvarvottsins sé ekki til? Það þarf ekki að segja manni að þeir viti ekki af honum.

Afsakið, en ég get ómögulega tekið sjálfkrafa minna mark á vitnisburði hans heldur en orðum ráðherranna sem eru að verja vin sinn og félaga á alþingi Íslendinga. En auðvitað veit ég ekki hvernig málið var vaxið. Vitnisburðir eru misvísaandi. Ekki samhljóða.

Varla vissi ég að þingmaðurinn væri til áður en þetta atvik gerðist eða í hvaða flokki hann væri eða hverjar eru hans stjórmálahugsjónir. Hvað þá hvernig heilsufari hans er háttað. Þessir þættir koma mér bara ekki rassgat við, svo ég noti sjóðheitt orðfæri beint úr evrópsku söngvakeppninni. Það eina sem hreyfir við mér í öllu þessu uppsöluveseni er sú staðreynd að tveir áhrifamiklir stjórnmálamenn og fyrrum ráðherrar skuli alveg hiklaust með orðum sínum stimpla nafngreindan sjónvarvott ómarktækan. Láta bara ens og hann sé ekki til en gefa samt illgirni í skyn.

Það finnst mér ekki sérlega traustvekjandi. Og segja ýmislegt um hug valdafólks til alþýðunnar. Ef ekki væri þessi nafngreindi vitnisburður og ráðherrarnir hafi á sinn hátt gert lítið úr honum, strikað bara algerlega yfir hann, hefði maður ekki sagt eitt einasta orð um þetta leiðinda mál. En ekki er hægt að taka því ranglæti alveg þegjandi að áhrifamiklir stjórnmálamenn valti í ráðherraritstíl yfir fólk þó það sé óþekkt og ekki í þeirra röðum. 

Hvorugur þessara heiðursmanna leyfir athugasemdir við bloggfærslur sínar. Ég fylgi þá í þeirra göfugu fótspor og set lok lok og læs fyrir þær líka.  

 

 

 


Vorkuldi og forlagatrú

Það er synd að segja að vori vel. Meðalhitinn í Reykjavík er nú 3,8 stig eða 1,9 stig undir meðallaginu 1961-1990 en 2,6 stig undir meðallagi þessarar gósenaldar. Á Akureyri er meðalhitinn 2,0 stig eða 1,2 stig undir meðallaginu 1961-1990.

Ekki hefur verið kaldara fyrstu 22 tvo dagana í maí síðan 1979 sem á kuldametið fyrir þá daga síðan Veðurstofan var stofnuð 1920, 0,7 stig. Kaldara var líka í hafísamaímánuðinum mikla 1968, 3,6 stig og sama í maí 1949, en 1943 var hitinn þessa daga um 2,9 stig. Líklega var einnig kaldara 1920 þegar hitinn var eitthvað i kringum 3,3, stig þessa daga en svipað 1924 en dagshitinn fyrir þessi síðast töldu ár er ekki eins öruggur og hin árin. 

Þetta eru sem sagt einhverjir köldustu maídagar það sem af er síðan 1920. Ástand gróðurs er að minnsta kosti hálfum mánuði á eftir meðallagi syðra, hvað þá annars staðar. 

Sólskinsstndir eru nú orðnar 232,2 í Reykjavík og hafa fyrstu 22 dagana í maí aðeins orðið fleiri árið 1967, 238,2 klst, og 1958, 250,5 stundir. Maí 1958 var þegar upp var staðið sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavik og 1967 sá þriðji sólríkasti en voru að öðru leyti hinir ógæfulegustu. Næst sólríkasti maí í sögunni í Reykjavík var 2005 og var hann sá kaldasti á okkar öld!         

Þó nú virðist mikil tíska á netmiðlum að gera ráð fyrir því að það veður sem ríkt hefur í maí  haldi bara út allt sumarið nokkurn veginn í sama stíl er það í hæsta máta ólíklegt og er sú forlagatrú öll hin undarlegasta. 

En ef það gerist nú eigi að síður mætti kalla síðasta sumar hreina sælutíð í samanburði. Búast má samt við því að forlagatrúarmennirnir skynji svo sem engan mun enda er nú sagt á æðstu stöðum að þjóðin skynji ekki lengur veruleikann eins og hann er heldur lifi í einhverri dularfullri fantasíu!

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu tíu stigin í Reykjavík

Í dag fór hitinn í 10,0 stig í Reykjavík. Þar eru það fyrstu tíu stigin á árinu og reyndar frá 21. nóvember í fyrra. Mesti hiti á landinu varð 12.2 stig á Staðarhóli i Aðaldal og mesti hitinn í gær á landinu var líka 12,2, stig.

Þetta er góð breyting frá þeim kulda sem ríkt hefur en eru í sjálfu sér varla nein hlýindi miðað við árstíma. Það er nú einu sinni kominn 14. maí. Sá dagur er eini dagurinn sem Reykjavík er með  dagshitametið yfir allt landið, 20,6 stig og þetta er líka að meðalhita hlýjasti maídagur þar í sögu mælinga.

Um þessa alvöru hitabylgju má lesa um hér í gamalli bloggfærslu. 

En nú eru líka 60 ár frá einhverju mesta kuldakasti sem komið hefur um miðjan maí, 1955. Þann dag var meðalhitnn í Reykjavík -1,3 stig og hefur þar ekki orðið lægri þennan dag á síðari áratugum.

Veðráttan getur verið býsna breytileg.

En sumarið er sem sagt að sækja nokkuð í sig veðrið þessa dagana þó maður finnist að það mætti vel gera betur. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Loksins tíu stiga hiti á landinu

Í dag mældist hitinn mestur á landinu 10,9 stig á Árnesi, 10,5 á Þingvöllum, 10,1 á Húsafelli og Kálfhóli og 10,0 stig í Stafholtsey. Síðasttalda mælingin er á kvikasilfursmæli á mannaðri stöð en allar hinar eru frá sjálfvirkum veðurstöðvum. Þetta er í fyrsta sinn í mánuðinum sem hiti fer einhvers staðar í tíu stig eða meira.

Og var kominn tími til. 

Þrátt fyrir sólina var ekki hægt að hrópa húrra fyrir hitanum í Reykjavík sem þar varð mestur í dag aðeins 5,8  stig. Meðalhitinn í borginni eftir gærdaginn er einungis 1,8 stig og frá stofnun Veðurstofunnar 1920 hefur ekki verið kaldara fyrstu ellefu dagana í maí nema 1982 (1,6°), 1979 (-0,7°!) og 1943 (um 0,4 stig). Eftir fyrstu 11 dagana í maí 1924 var hitinn líklega svipaður og núna en dagameðaltöl liggja ekki á lausu. 

Sólin hefur skinið í 144,2 stundir í höfuðborginni og aldrei meira fyrstu ellefu maídagana frá því mælingar hófust. Í 19 maímánuðum hefur mælst minna sólskin allan mánuðinn í Reykjavík en það sem af er þessum, síðast í maí 2008!

Á Akureyri er meðalhitinn enn undir frostmarki,-0,3 stig, og sömu sögu er að segja af flestum stöðvum á norður og austurlandi. Þar er hitinn einfaldlega enn undir frostmarki. 

Reyndar er meðalhitinn í uppsveitum suðurlands og vesturlands, þrátt fyrir sólskinið litlu skárri, aðeins um frostmark. 

Þar er þó enginn snjór en það er samt ekki hægt að segja að nokkuð vor sé þar í lofti, hingað til, eins og fjölmiðlar tala þó um dag eftir dag, samkvæmt því furðulega veðurskyni að sólskin sé eini mælikvarðinn á veður. Það sé bara sumar og sól ef sólin skín glatt um hádaginn þrátt fyrir mikilð næturfrost og sólahringsmeðaltöl sem rétt merja að vera yfir frotmarki. 

Það sem af er maí er sem sagt með kaldasta móti alls staðar. Það er ekki hægt að segja að vor sé syðra en vetur fyrir norðan og austan.

Það hefur bara alls staðar verið vetur, marslegt  hitafar, en í norðanátt snjóar ekki á suðurlandi.

En nú fer þetta víst að lagast.        

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Metsólskin í Reykjavík í kuldanum

Þessi maí byrjar að vísu ekki með látum en meira sólskini í Reykjavík en dæmi eru um áður fyrstu dagana í maímánuði síðan sólskinsmælingar hófust þar fyrir um 90 árum. Sólarstundirnar eru nú orðnar næst flestar sem mælst hafa fyrstu fimm dagana, 74,3 en voru 76, árið 1931. Eftir daginn í dag munu sólskinsstundirnar liklega slá út fyrstu fimm maídagana 1931, ef við reiknum með 15 stundum, og munu þá slá út fyrstu sex dagana í maí 1924 og 1931 sem sólríkustu fyrstu sex dagarnir í maí í Reykjavík í sögu mælinga.

Í fyrradag mældist meira sólskin í höfuðborginni en nokkru sinni hefur mælst þennan dag, 16,0 stundir og þann þriðja var metjöfnun fyrir þann dag, líka 16,0 klukkustundir af sólskini. 

Hitanum er þó ekki fyrir að fara. Meðalhitinn í Reykjavík er 2,3 stig undir meðallaginu úrelta 1961-1990 en 3,0 stig undir meðallagi þessarar aldar. Það er alls ekki einsdæmi en vel samt í sjaldgæfara lagi

Á Akureyri er meðalhitinn -0,1 stig, þrjú stig undir meðallaginu 1961-1990. Meðalhitinn er undir frostmarki alveg frá Skagafirði austur og suður um til sunnanverða austfjarða. 

Viðbót 7.maí kl. 19. Sólarstundir í gær, þ. 6., í Reykjavík voru 16,1 klst og hafa aldrei mælst fleiri 6. maí. Og þar með er það staðfest að fyrstu sex dagarnir í maí eru þeir sólríkustu í mælingasögunni, 90,4 stundir en gamla metið var 85,2 í maí 1924. Í dag, þ. 7. má gera ráð fyrir að sólskinsstundirnar verði 15-16 og á morgun verður þá komið sólskinsmet fyrir fyrstu 7 dagana í maí. Þetta er því óneitanlega einstök sólskinstíð. En meðalhitinn það sem af er mánaðarins hefur enn lækkað, bæði í Reykjavík og á Akureyri enda var gærdagurinn sá næst kaldasti á landinu sem komið hefur í þessum maí. Ekki bætir svo dagurinn í dag úr skák. Þó dagurinn sé ekki búinn er hann með minnsta hámarkshita þessa daga í maí bæði á landinu og í Reykjavík og meðalhitinn verður ekki til að hrópa húrra fyrir. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband