Fyrstu tuttugu stigin

Í dag mældist í fyrsta sinn á þessu ári 20 stiga hiti eða meira á landinu.

Hlýjast varð 22,0 stig á Raufarhöfn. 

Í Ásbyrgi varð hitinn 21,0 stig, 20,3 á Húsavík og 20,0 á Möðruvöllum í Hörgárdal.

Mestur hiti á mannaðri stöð voru slétt 20,0 stig á Mánárbakka (20,7 á sjálfvirku stöðinni) en það er satt að segja ekkert vit í því lengur að greina mönnuðu stöðvarnar frá þeim sjálfvirku. 

Ekki er útilokað að hiti eigi enn eftir að komast í 20 stig á stöku stað á norðausturlandi og austfjörðum. 

Meðaltal mesta hita á landinu þennan dag er um sextán stig, mestur varð hann 1941, 25,7 stig en minnstur 1975, 9,5 stig. Þessar tölur fyrir dag hvern má  sjá í hinu óbifanlega fylgiskjali, fylgnasta sér skjali landsins! 

Maí sem var að líða var svo engan vegin jafn galinn og af er látið! 

Svo er bara að sjá til hvernig júní og sumarið í heild spjarar sig. 

Viðbót: Ekki náðust fleiri tuttugu stig en Eskifjörður komst nærri því með 19,5 stig um sjö leytið.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólríkur maí í Reykjavík en fremur hlýr á Akureyri

Í gær mældist í Reykjavík mesti hiti þar sem af er ársins, 14,5 stig. Sólarhringsmeðaltalið var 9,1 stig eða 1,3 stig yfir meðallagi.

Meðalhiti mánaðarins í borginni er nú 5,6 stig sem er 0,6 stig undir meðallagi.

Á Akureyri er meðalhitinn 5,3 stig sem er 0,2  stig YFIR meðallagi. 

Ef við skiljum frá fyrstu tvo daga mánaðarins, sem voru afar kaldir, er meðalhiti allra hinna daganna í Reykjavík 0,2 stig undir meðallagi en 0,4 stig YFIR því á Akureyri.

Landshitinn í öllum mánuðinum er líklega alveg við meðallagið. Þetta hefur ekki verið kaldur maí í heild. Hitastaðan breytist líklega ekki mikið þá daga sem eftir er af mánuðinum.   
 
Hvergi er nú talinn alhvít jörð á veðurstöðvum en skaflar eru enn þar sem mestur var snjórinn. 

Sólskin er þegar komið vel yfir meðallag í þessum maí í Reykjavík þó enn séu þrír dagar eftir af mánuðinum. Úrkoman er í kringum meðallag og er víða svipaða sögu að segja. Þetta er sem sagt engan veginn kaldur og þurr maímánuður eins og vilja koma æði oft.

Allmargir góðir sólardagar með hámarkshita yfir 10 stig komu í Reykjavík fyrir og um miðjan mánuð. Slíkt er nú bara alls ekki algengt.

Hvort sem við tökum nú allan mánuðinn eða skiljum frá fyrstu tvo dagana er með engu móti hægt að tala um sérstaka kulda í maí. Þetta er svona í heildina nokkurn veginn eins og við erum vön gegnum árin. Þegar á allt er litið er þessi maí alveg sæmilegur og engin ástæða til að láta eins og hann sé algjör hörmung. Ég veit bara ekki hvað veldur þeim söng sem þó er mjög hávær á fasbókarsíðum. 

Hins vegar hafa komið ljúfari maímánuðir. Því er ekki að neita. En það hafa líka komið margir miklu verri án þess þó að þeir hafi vakið sérstaka athygli fyrir hörmungar. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óþokkabragð

Er þetta síðasta óþokkabragð Ögmundar eða fyrsta óþokkabragð Hönnu Birnu?

,,Ríkislögreglustjóri mun leigja farþegaflugvél til að flytja fimmtíu manna hóp Króata sem leituðu hælis hér á landi. Fólkinu var synjað um hæli og er verið að birta þeim þá niðurstöðu þessa daganna.''

Hvaða flugfélag leigir annars flugvélar til svona nauðungarflutninga?  

Viðbót: Króatísku fjölskyldurnar voru ekki aðeins fluttir nauðugar brott með fjölmennu lögreglu liði (vopnuðu?) eins og glæpamenn heldur var kostnaðurinn tekinn úr sjóði sem stjónrvnöld settu á fót til að reyna að stytta biðtima hælisleitenda  eftir afgreiðslu um hælisvist. Ef þetta er ekki óþokkaskapur þá veit ég ekki hvað er óþokkasakpur. Hér líka ágæt grein um þetta mál.

 


mbl.is Leigja flugvél undir flóttafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég og Wagnerfélagið

Í dag eru liðin 200 ár frá fæðingu tónskáldsins Richard Wagners.

Að kvöldi 12. desember árið 1995 var ég viðstaddur þegar Wagnerfélagið var stofnað á Hótel Holti. Þegar ég las lög félagsins sem kynnt voru til umfjöllunar vakti ég athygli á einu atriði þar sem mér fannst gæta mótsagna. Ég fylgdi þessu þó ekki eftir og kom ekki með neina tillögu um breytingar. Vakti bara athygli á þessu. En aðrir tóku þetta upp og komu með breytingartillögu sem var rædd og síðan samþykkt með meirihluta atkvæða. 

Nokkru síðar hringdi í mig einn af stjórnarmönnum félagsins. Hann ásakaði mig fyrir að hafa eyðilagt félagið með þessu. Það var hans orðalag, að ég hafi ''eyðilagt félagið''. 

Ég vissi hreinlega ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Ég vakti athygli á því sem mér fannst vera mótsögn í lögunum. Aðrir tóku það upp, komu með tillögu sem var samþykkt af meirihluta félagsmanna eftir nokkrar umræður. Svo var ég allt í einu sakaður si svona um að hafa eyðilagt félagið. Ég vissi þó aldrei hvernig í ósköpunum það hafi mátt vera. 

En það er ekkert grín að vera sakaður um að hafa eyðilagt nýstofnað menningarfélag af einum félaga í stjórn þess.  

Mér datt í hug að kvarta yfir þessu við stjórn félagsins. En mér varð hreinlaga svo brugðið að ég kom mér ekki til þess. Ég óttaðist jafnvel að ég þyrfti þá enn frekar að verja mig fyrir einhverju. 

Kannski var sá ótti ástæðulaus. Kannski hefði mér bara verið vel tekið.

En það sýnir hve mér varð mikið um þetta að ég fór aðra leið. Ég dró mig bara í hlé. Lét mig hverfa þegjandi og hljóðalaust og hef aldrei komið nálægt þessu félagi síðan.

Satt að segja er þessi minning sú óþægilegasta sem ég hef úr nokkru félagsstarfi um ævina en reyndar hef ég aldrei verið sérlega virkur í félagsstarfi. 

Allir sem þekkja mig vita um ástríðu mína fyrir tónlist. Ég hefði nú alveg getað þegið það, ef þetta hefði ekki komið upp á, að fara til Bayreuth til að hlusta á Wagneróperur en það er eitt af markmiðum Wagnerfélagsins að auðvelda fólki það.

Mér finnst allt í lagi að láta þess getið að ég þekki verk Wagners ágætlega, sum jafnvel á nótum, og þekki nokkuð vel frægustu hljóðritanir á verkum hans. 

En þessu Wagnerfélagi vil ég helst gleyma. Það er svo annað mál að félagið hefur starfað í 18 ár svo varla hefur það verið gereyðilagt af mínum völdum!

Þessi saga finnst mér svo verðskulda að hverfa ekki alveg í gleymskunnar djúp. Henni er því hér með komið á framfæri.


Vor eða ekki vor

Þegar tveir þriðju af maí er liðinn er meðalhitinn í Reykjavík 0,4 stig undir meðallagi. Það er nú varla neitt til að tala um í mæðutón. Þó eru menn í Reykjavík einmitt með hann sums staðar á netinu. Í fyrra var  kaldara en núna þegar 20 dagar voru liðnir af maí. 

Á Akureyri er meðalahitinn 0,3 stig YFIR meðallagi. Hitinn er líklega yfir meðallagi eða nálægt því víðast hvar á norður og austurlandi, jafnvel í Grímsey og á Raufarhöfn, en tiltölulega kaldara í sumum sveitum langt frá sjó.  

Þetta er meðallagið 1961-1990 sem er hin opinbera og alþjóðlega viðmiðun. Ef hins vegar er tekin aðeins þessi öld er meðalahitinn á landinu all nokkuð undir meðallagi. En það er kannski ekki hægt að miða allt við þessi hlýju ár. 

Snjó er nú að taka upp þar sem hann var fyrir sem var reyndar ekki víða á láglendi. Aðeins er nú talið alhvítt á einni stöð, Skeiðsfossi í Fljótum,  þar sem mestur snjór hefur einmitt verið. Í morgun var snjódýptin þar 50 cm og hefur minnkað um hálfan metra á einni viku.

Í ágætu samtali við bónda í Fljótunum í Landanum nýverið sagði bóndinn að miklu meiri snjór hafi til dæmis verið 1995 og 1989. Bæði þau ár var mars miklu kaldari en nú en apríl var svipaður.

Ekki er þetta samt gott ástand núna þar sem snjórinn hefur verið mestur. En mér finnst samt almennt allt of mikið gert úr því að nú séu einhver sérstök vorharðindi á landinu. Jafnvel einhverjar hamfarir.

Það sem veldur þessari tilfinnningu held ég að sé fyrst og fremst fréttir fjölmiðla sem eru ekki í jafnvægi en einblína á verstu svæðin og gera þar jafnvel meira úr en efni standa til. Það er til dæmis sláandi að snjóruðningar eru myndaðir grimmt til að sýna fram á fannfergið en einstaka sinnum sjást yfirlitsmyndir þar sem glögglega má sjá að snjórinn almennt er auðvitað ekki jafn mikill og snjóruðningarnir, meira og minna búnir til af mannavöldum, gefa tilefni til að halda. 

Ef ekki væri þessi snjór á hluta landsins myndi engum detta í hug að tala um að vorið léti á sér standa svo nokkru verulegu næmi. Mönnum fyndist allt i lagi með þessa vorkomu.Og  snjóalögin sem slík á sumum svæðum er sérstakur kapítuli sem hér verður ekki farið út í. En þau eru ekki teikn um raunveruleg harðindi eins og hafa stundum komið að vetri og vorlagi á Íslandi. Það var reyndar alhvít jörð ansi lengi fyrir norðan, alveg frá nóvember, en sá snjór er einfaldlega horfinn á flestum stöðum, til dæmis á Akureyri.

Annað sem gæti valdið tilfinningu manna fyrir löngum og hörðum vetri og seinkuðu vori er það að háveturinn var einstaklega mildur, mars svo aftur kaldari en samt yfir meðallagi, en apríl tiltölulega fremur kaldur, en ekki neitt meira en það, bara fremur kaldur,  en alls ekki afar kaldur. 

Og svo er eitt í viðbót. Þó allt lulli þetta allra síðustu vikur kringum meðallagið þá vantar afgerandi hlýja daga, ekki síst syðra, svo sem 13-15 stiga hita eða meira í sól. En fyrir norðan hafa slíkir dagar verið að koma undanfarið. Það er einmitt þegar slíkir dagar fara að koma í maí sem manni finnst að vorið sé nú komið. Æði oft er þó skortur á slíkum dögum í maí. 

En við erum lánsöm að búa ekki við fellibylji og skýstrokka!

Og mikið var gaman að heyra í Elínu Björk Jónasdóttur í Speglinum að tala um skýstrokka. Afhverju er ekki oftar talað við hana?

   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband