Meira en meðal mánaðarúrkoma þegar fallin í Reykjavík

Þegar aðeins 9 dagar eru liðnir af mánuðinum er úrkoman í Reykjavík 99,3 mm. Það er meira en meðalúrkoma alls októbermánaðar 1961-1990, hið venjubundna viðmiðunartímabil, svo munar 14 mm en 25 mm yfir meðalúrkomu alls mánaðarins á þessari öld. (Einnig hvort tveggja yfir meðaltölunum 1971-2000).

Strax í fyrrdag var úrkoman kominn upp í meðalúrkomu alls októbermánaðar. Og þetta er reyndar mesta úrkoma sem fallið hefur í mælingasögunni þessa fyrstu níu októberdaga í Reykjavík og er hvorki meira né minna en um eða yfir fjórföld meðalúrkoma þessara daga ef miðað er bæði við þessa öld og tímabilin 1961-1990 og 1971-1900.

Úrkoman er þessa fáu daga einnig komin upp fyrir mánaðarmeðallag á nokkrum fleirum stöðvum.

Á Akureyri er úrkoman það sem af er hins vegar aðeins 12,3 mm. Og er lítil um miðbik norðurlands og víðar. 

Snjólaust er á landinu á veðurathugunarstöðvum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsti haustsnjór í byggð á veðurstöðvum

Í morgun var jörð alhvít á Augastöðum í Borgarfirði og snjódýpt var 4 cm. Einnig var alhvítt á Ísafirði. Í Bolungarvík var gefin upp 5 cm snjódýpt þó ekki væri þar talin alhvít jörð. Flekkótt var einnig talið á Korpu, Nesjavöllum, sunnanverðu Snællsnesi og á fáeinum stöðvum á vesturandi og við Ísafjarðardjúp.

Í gærmorgun var Esjan hvít ofan til en i morgun alveg niður í fjallsrætur.

Ekki hefur enn komið næturfrost í Reykjvík.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sjötta martröð fyrir íbúa við Höfðatorg

Íbúum við Höfðatorg hefur verið tilkynnt að sjötti áfangi framkvæmda við torgið sé að hefjast með tilheyrandi sprengingum og borvinnu. Borvinnan er verst en hún stendur oft frá morgni til kvölds og er algjörlega óþolandi en sprengingar eru fáar á dag en eru samt mjög óþægilegar. Ekki er tekið fram i tilkynningu til íbúa hvað þetta tekur langan tima.

Já, þetta er í sjötta sinn sem íbúar verða að lifa þessa martröð sem staðið hefur með nokkrum hléum árum saman. Hægt er að ætlast til að fólk sýni "skilning" á "nauðsynlegum" framkvæmdum sem taka nokkurn tíma og lýkur svo. En það gegnir öðru máli um framkvæmdir sem byrja aftur og aftur og aftur, ár eftir ár, og virðast aldrei ætla að taka enda.

Enginn takmörk virðast fyrir því í hvað langan tíma borgaryfirvöld leyfa mikið rask i fjölmennri íbúðabyggð. Hagsmunir verktaka ráða öllu í borginni. 

Morgunblaðið hefur fylgst með framkvæmdunum á Höfðatorgsreitnum og skrifað um þær reglulegar lofrollur. Hva, ætlar blaðið á ekki að fara að taka við sér með sjötta áfangann?! Á kvartanir íbúa vegna endalauss ónæðis hefur blaðið drepið á í algjöru framhjáhlaupi en hefur aldrei fjallað um það að neinu marki. 

Fréttablaðið gerði það þó einu sinni og það á forsíðu.

Þá var talað við Dofra Eysteinsson verkstjóra  jarðvinnunar sem er á vegum Suðurverks og ósköpunum veldur fyrir íbúana. "Það fylgir sögunni að gera þetta svona og það fer ekki framhjá neinum." Í þessu hranalega orðalagi verksjórans, sem sýndi íbúum nákvæmlega engan skilning þó hann færi fram á skilnig frá þeim, gneistaði af honum fyrirlitningin og pirringurinn í garð íbúa sem voru að kvarta. Og þetta er einmitt mentalitetið hjá þeim sem að framkvæmdum standa og ekki síður hjá þeim sem leyfa þær í heilan áratug innan um þétta íbúðabyggð: Við gerum þetta bara eins og okkur sýnist og þið íbúarnr getið bara étið það sem úti frýs og ættu að halda ykkur saman.

Þetta eru hugarfarslegir ávextir hamfarastefnunar "þétting byggðar" fyrir þá sem búa miðsvæðis í borginni. Höfðatorgsreiturinn er bara einn af mögum hávaðasvæðum í miðborgunni þó framkævmdir þar séu áreiðanlega þær allra langvinnustu.  

Í áróðri og auglýsingum þeirra sem standa að byggingunum á Höfðatorgi er fullyrt að það verði með glæsilegustu hverfum borgarinnar. Um það eru þó verulega skiptar skoðanir. Ítrekað hefur komið fram hér og hvar að mörgum finnst þetta svæði algjörlega misheppnað með sínum andstyggilegu turnum sem hafa til dæmis breytt vindafari til hins verra og varanlega á stóru svæði umhverfis. 

Kemur svo ekki að þvi að verktakar vilji alveg ólmir, með hjálp Reykjavikurborgar, ryðja eldri íbúabyggð í grenndinni í burtu og reisa í staðinn fleiri turnaófreskjur?

Er það ekki bara tímaspursmál?

 


Sumri lokið

Nú er sumri lokið en Veðurstofan hefur alla tíð talið sumarið vera frá júní til september.

Meðalhitinn í september í Reykjavík var 9,14 stig, 1,8 stig yfir meðallaginu 1961-1990,  en á Akureyri 9,55 eða 3,20 stig yfir meðallaginu. Í Reykjavík er hitinn 0,44 stig yfir meðallaginu það sem af er þessarar aldar en 1,49 stig á Akureyri. Þetta er þá eini sumarmánuðurinn sem er fyrir ofan það meðallag og jafnframt eini sumarmánuðurinn sem  er hlýrri á Akureyri en í Reykjavík. 

Meðalhiti sumarsins er þá 10,12 stig í Reykjavík eða 0,48 stig undir meðallagi þessarar aldar. Kaldara var 2013 (9,53) og 2005 (9,75). Meðalhitinn er sjónarmun hærri en hlýja langtímameðallagið 1931-1960 en 0,9 stigum hærra en á kalda meðallaginu 1961-1990.

Á Akureyri er meðalhiti sumarsins 9,18 stig sem er 0,9 stig undir meðallagi þessarar aldar en 0,1 stig YFIR meðallaginu 1961-1990 (munar mest um september) sem reyndar er enn í gildi sem viðmiðunartímabil en 0,4 stig undir hlýja meðaltalinu 1931-1960.

Úrkoman í Reykjavik var um 76% af meðalúrkomu sumranna á þessari öld og allir sumarmánuðrnir nema ágúst voru undir úrkomumeðallaginu. 

Á Akureyri má segja að sumarúrkoman hafi verið nákvæmlega í meðallagi aldararinnar. Úrkomunni var þó mjög misskipt milli mánaða, sú fjórða minnsta í júní en fjórða mesta í ágúst.

Júlí var sérstaklega hraklegur á Akureyri. Hann var sá þriðji sólarminnsti (frá 1926)  og sjöundi kaldasti (frá 1882, kaldasti frá 1993).

Ágúst var hlýjasti sumarmánuðurinn á landinu en september líklega næst hlýjastur, greinilega hlýrri en júní og virðist vera sjónarmun hlýrri en júlí. Þetta er óvenjulegt. Árin 1901, 1941, 1993 og 1996 var september líka næst hlýjasti mánuður ársins. En september 1958 gerði sér lítið fyrir og varð hlýjasti mánuður ársins á landinu!  

Sólskinsstundir í Reykjavík voru 699 eða 8 stundum færri en meðaltal þessarar aldar en fleiri en að meðaltali bæði árin 1931-1960 og 1961-1990.

Reykvíkingar mega sæmilega una við þetta sumar en það verður ekki sagt um flesta aðra landsmenn. Þó var september alls staðar góður og ágúst var líka alveg þokkalegur. 

En það var júlí sem brást illilega og fyrri hluti júnímánaðar.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

September rúmlega hálfnaður

Þegar september er rúmlega hálfnaður er meðalhitinn í Reykjavík 10,0 stig eða 2,0 stig yfir meðaltalinu 1961-1990 en 0,2 stig yfir meðaltali þessarar aldar. Á Akureyri er meðalhitinn 10,8 stig eða 3.8 stig yfir meðaltalinu 1961-1990.

Mikil blíða var sunnanlands í gar, allt frá Hornafirði til Reykjavíkur. Hitinn í Skaftafelli fór í 19,7 stig. Á sjálfvirku stöðinni á Stórhöfða fór hitinn í 16,3 stig en gamla septemberhitametið á mönnuðu stöðinni allt frá 1922 var 15,4 stig frá þeim 30. árið 1958 (þegar hitinn í Reykjavík fór í 16,9 stig). Á sjálfvirku stöðinni í Vestmannaeyjabær fór hitinn í gær í 17,4 stig en meðan mælt var þar á mannaðri stöð 1878-1921 mældist mest 16,4 stig, þann 3. árið 1890. Sólarhringsmeðaltal hitans í gær var 12,2 stig á Stórhöfða en 12,0 í bænum. Já hærra á Stórhöfða!

Þegar september er rúmlega hálfnaður er hann tiltölulega langhlýjastur sumarmánaðanna og alveg í stíl við hitafar þessarar aldar sem hinir sumarmánuðurnir hafa alls ekki verið. Ekki sést til neinna kulda í nánd. Ekki kæmi á óvart þó nú sé lokið þeirri niðurdýfu á hita sem ríkt hefur frá því í vor. En auðvitað veit maður ekkert um það.

Veðurlag eins og var í gær og í dag sunnanlands finnst mér alveg sérsaklega sjarmerandi og sumarlegt á þessum árstíma. Ég var í Hafnarfirði í gær og þar fann maður hvergi vindblæ inni í bænum.

Nú hefði verið gaman ef enn væru mannaðar mælingar á Stórhöfða. Hvað verður svo gert vð vitavarðarhúsið eftir að veðurathuganarstöðin var lögð niður og athugunarmaðurinn  hrakinn burtu? Hörmulegt er til þess að hugsa að húsið verði kannski leikvöllur auðkýfinga sem ekki hafa neitt nef fyrir veðri eða jafnvel enn verri örlög bíði þess.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband