Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Borgarahreyfingin

Borgarahreyfingin nær fjórum mönnum á þing samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Capacent-Gallups. Ekki er ólíklegtt eins og Þráinn Bertelsson, oddviti hreyfingarinnar í Reykjavík norður, bendir á að fylgið eigi eftir að aukast enn þá frekar.

Borgarahreyfingin er því raunverulegur valkostur.

Þrátt fyrir talsverðan fyrirlitningablástur úr ýmsum áttum í garð frambjóðenda Borgarahreyfingarinnar hafa þeir komið ágætlega fyrir í kosningarbaráttunni með heiðarlegum og skýrum málflutningi.

Á móti skorti á reynslu vegur grandvarleikinn. 

Borgarahreyfingin er auðvitað afsprengi þess vantrausts sem margir bera til gömlu stjórnmálaflokkanna. Það vantraust er fyllilega verðskuldað. Hvað hefði ekki getað gerst ef ný framboð hefðu fengið tíma og ráðrúm til almennilegs undirbúnings? '

Þess er að vænta að fylgi Borgarahreyfingarinnar muni aukast alveg fram að kosningum.

 


Ofsi og óeirð um Evrópusambandið

Ég get ekki séð að nokkrar rökræður að heiti geti hafi farið fram um það hvort Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Menn skiptast bara í andstæðar fylkingar, sem skeyta ekkert um mótrök gegn sinni eigin skoðun sem þeir setja oftast fram með látum og offorsi.

Stóryrði og brigslanir á báða bóga. 

Litið vit og lítið jafnaðargerð.

Bara þessi klassíski ofsi og óeirð sem einkennir Íslendinga sem yfirleitt geta aldrei haldið uppi rökræðu um nokkurt mál. 

Þessari þjóð er ekki viðbjargandi.

 

 


Kjáni stjórnar Sjálfstæðisflokknum

Í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í dag telur formaður Sjálfstæðisflokksins að Íslendingar eigi að leita liðsinnis Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að taka upp einhliða evru í sátt og samvinnu við Evrópusambandið.

Í Speglinum í Ríkisútvarpinu í kvöld sagði sendiherra Evrópusambandsins fyrir Ísland að það sé alger misskilningur að gjaldeyrissjóðurinn geti haft milligöngu um slíkt. Það sé ekki i hans verkahring.

Það er beinlínis pínlegt að lesa svona bjánalegan misskilning hjá formanni fyrrum stærsta stjórnmálaflokks landsins.

Hann hagar sér ekki eins og fagmaður í stjórnmálum heldur eins og hver annar kjáni sem veit ekkert hvað hann er að tala um. 

Ef svona er vitleysan í höfði flokksins hvernig er þá ástandið á þeim  limum sem á honum dingla?  

 


Fordæmanlegt

Það er flott að þessi vímuefni komust ekki á markað. Húrra fyrir lögreglunni!

Þetta breytir því þó ekki að áfengi verður áfram það vímuefni sem mestum skaða veldur hvað slys og ofbeldi varðar og hvers kyns óhamingju í mannlegum samskiptum yfirleitt. 

Áfengisdýrkun og meðvirkni ríkir hins vegar í landinu. Og  hún er svo stæk að það er talið sérstaklega fordæmanlegt að áhrifamiklum hópum ef fólk er hvatt til þess að drekka ekki frá sér ráð og rænu.


 


mbl.is Fíkniefni af ýmsu tagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimska og klunnaskapur

Þessi orð forstöðumanns Húsafriðunarnefndar segja allt sem segja þarf um aðgerðir lögreglunnar. Þær voru ónauðsynlegt og óafsakanlegt skemmdarverk á menningarverðmætum.

Í útvarpinu um daginn sagði Helgi Guðlaugsson prófessor í félagsfræði að hústakan  hafi verið pólitísk aðgerð.

Það liggur í augum uppi. Hún  er andóf gegn þeirri grotnunarniður-pólitík sem auðöfl hafa látið viðgangast með hús í miðbænum. Með velþóknun eða sinnuleysi borgaryfirvalda. Meira að segja Morgunblaðið hneykslast á þeirri niðurníðslu og því virðingarleysi sem öllum borgarbúum er sýnd með henni.

Niðurrif lögreglunnar er skammarlegt athæfi og verður ekki réttlætt með því einu að hústakan hafi farið fram.

Fyrst og fremst ber hún þó vitni um heimsku og klunnaskap. Og það að lögreglan gengur í rauninni í lið með niðurníðslupólitík verktakanna. 

Sem yfiröld leggja svo blessun sína yfir.

Og enginn frambjóðandi í fremstu röð þorir að gagnrýna.


mbl.is Fékk hland fyrir hjartað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers konar ábyrgð ríkir í þessum flokki?

Geir Haarde segist einn bera ábyrgð á báðum risastyrkjunum. Hann er horfinn úr pólitík og þvælist því ekki fyrir í kosningunum. Nú er hins vegar komið í ljós að Guðlaugur Þór Þórðarson hafði forgöngu um að fá þessa styrki haustið 2006 og hann er enn virkur á vegum flokksins í kosningunum. Samkvæmt allri lágmarks rökfræði varðandi orsakasamband ábyrgðar í verkum manna í  lífinu hýtur hann (og auðvitað hugsanlega einhverjir fleiri með honum) að bera ábyrgð á málinu. Ekki Geir Haarde nema þá að hluta til. Að halda öðru fram er ekki bara rökleysa heldur blaut tuska framan í fullvita þjóð.

En ætla menn samt að halda því fram fyrir allra augum að núverandi flokksmenn beri enga ábyrgð  á styrkjunum vegna þess að útlaginn Geir Haarde hafi tekið hana á sig?

Hvers konar ábyrgðarkennd ríkir í þessum flokki? 

Og er heimska orðin aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins?  

Hvað er að gerast með Sjálfstsæðisflokkinn og hvað er að gerast með  þjóðina ef annað eins verður borið á borð fyrir hana og hún kyngir því ?


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er orðið ferlega spennó

Ég býð með eftirvæntingu eftir því að víkingasveitin með alvæpni ráðist inn í Seðlabankann.

Það gefur augaleið að það verður að rýma svæði sem óbilgjarnir mótmælendur hafa á valdi sínu og neita að yfirgefa  þrátt fyrir fjölda áskorana, þar með talið einnar ríkisstjórnar. 

Ekki þori ég þó fyrir mitt litla líf, bloggandi undir nafni og allt hvað þetta hefur, að taka afstöðu til þessa þrákelknilegasta máls allra tíma en er bara að lýsa spennufíkn minni. 

Hvaða gas verður notað? 

Taugagas myndi henta einkar vel til að taka andófsmennina í bankanum algjörlega á taugum. Og svo væri bráðnauðsynlegt að nota líka rokna skammta af hláturgasi til að létta þjóðinni lundina. Ekki veitir af á alvörustundum. 

Helvíti er þetta annars orðinn mikill hasar og alveg ferlega spennó.

Ég get bara ekki beðið!


Stóísk ró

Nú er eins gott að allir haldi stóískri ró en haldi samt vöku sinni svo allt endi ekki í tómri vitleysu!

Lærum af hinum göfugu fyrirmyndum!

afrit_af_pict3196.jpg

 

 


Prófkjörsslagurinn er hafinn

Þetta er klókur leikur hjá viðskiptaráðherra. Að segja bara af sér og það af eigin hvötum og reka Fjármálaeftirlitið og allt hvað þetta hefur.  Nú kemur hann fram sem hinn ábyrgi stjórnmálamaður sem axlar þessa frægu ábyrgð.

En þó ekki fyrr en eftir að allt logar í mótmælum og búið er að ákveða að efna til kosninga.

Ráðherrann býður sig nú fram í kosningaslaginn -  og þykist heiðarlegur, ábyrgðarfullur og saklaus eins og lamb í haga.Við sjáum þó við honum. Hann er fyrst og  fremst refur í haga sem er að hugsa um eigin pólitísku framtíð en ekki almannahag.

Það er Steingrímur J. líka að gera. Hann fór geyst með að skila aftur gjaldeyrissjóðsláninu. Það gerir hann óhæfan í stjórn að flestra áliti. Nú er hann að draga í land með gasprið.

Hvers vegna? Jú, til að koma til greina í stjórn. Hann er líka fyrst og fremst að hugsa um eigin hag en ekki almannahag.

Oj bara! Burtu með þess menn af vettvangi íslenskra stjórnmála. 

Það er svo eftir öðru, og speglar vel íslenska pólitík,  að Gunnar Helgi stjórnmálafræðingur sagði áðan í aukafréttum RUV að varaformaður Samfylkingarinnar nyti greinlega ekki mikils trausts í flokknum og þess vegna gæti hann komið til greina sem eftirmaður viðskiptaráðherra til að setja plástur á sár varaformannsins, eins og Gunnar Helgi komst að orði. Þetta er eflaust rétt athugað hjá honum að innan Samfylkingarinnar hugsi þannig. Þar skipti það einhverju máli  að setja plástur á orðstír fullkomlega getulauss stjórnmálamanns. Eins og það komi almannahag eitthvað við. 

Þetta er hefbundin íslensk pólitík. Það sem við erum búin að fá algjört ógeð á. Og nú er kosningabaráttan og profkjörsslagurinn hafinn innan flokkana. Það verður geðslegur leikur þar sem hver otar fram sínum framavonum.

Almannahagur! Biðjið guð fyrir ykkur! Bara framhald af gömlu íslensku refskákspólitíkinni.  

En - í uppsiglingu er stofnun nýrra samtaka sem stefna að því að bjóða fram í öllum kjördæmum fyrir kosningarnar. 

Kannski er enn einhver von fyrir þessa þjóð.

Gömlu andlitin í öllum stjórnmálaflokkum eru hins vegar gjörsamlega vonlaus!

Fólk verður að koma öllum flokkum í skilning um það.

 

 


Óeirðir og mótmæli

Eftir skrifum manna á bloggi og í blöðum og málflutningi í öðrum miðlum virðast flestir vera sammála um eftirfarandi:

Að mótmælin njóti yfirgnæfandi stuðnings þjóðarinnar. Það kemur líka fram í skoðanakönnun.

Að ofbeldisgjörðirnar hafi verið drykkjulæti lítils hóps manna sem ekki tengjast hinum raunverulegu mótmælum. 

Að ofbeldi beri að forðast.

En hvernig stendur þá á þeirri tilhneigingu að furðu margir, sem efast þó jafnvel ekki um þessi fyrrtöldu atriði, spyrða samt ótæpilega saman á einhvern hátt hin almennu mótmæli og læti óeirðaseggjanna? Það kemur jafnvel fram í sumum leiðaraskrifum.

Fyrst og fremst gera það þó ýmsir bloggarar og nokkrir miklir öfgahægrimenn sem virðast standa í þeirri trú að mótmælin séu fyrst og fremst verk vinstrimanna. Það er ekki rétt. Andstaðan við núverandi valdhafa og verk þeirra er sem betur fer víðtækari en það.

Hvernig sem menn líta á málin eru samt líklega fleirum en mér órótt innanbrjósts. Það ríkir hálfgert stjórnleysi, ekki aðeins í stjórn landsins, heldur líka innan stjórnmálaflokkana. Við blasa gríðarlega erfið úrlausnarefni í stjórn landsins. Og framundan er harðvítug valdabarátta.

Þetta er ekki gæfuleg staða. Hún er samt staðreynd. Og það er vonlaust að núverandi stjórn haldi áfram þegar hún nýtur næstum því einskins stuðnings.

En hvað tekur eiginlega við? Það verður að stokka upp í öllum stjórnmálaflokkum. Fólk er búið að fá ógeð á öllu þessu gamla þreytta liði, líka forsvarsmönnum Vinstri grænna.

Að Steingrímur J. fari að stjórna landinu. Kemur ekki til mála! Ríki verður ekki stjórnað með gaspri!

Nýja menn á öllum vígstöðvum!

En þá blasir líka við að landinu verður á endanum stjórnað af fólki með litla reynslu. Það er kannski allt í lagi því þeir reynsluboltar sem ráðið hafa sigldu hvort eð er öllu í strand. Reynsla þeirra var ekki leidd af visku og umhyggju fyrir almannahag heldur eiginhagsmunum.

Annars er eins og innviðir þjóðfélagsins séu að hrynja. Það er sannarlega óhugnanlegt.

Við þær kringumstæður er hætt við því að ýmis óheillaöfl munu reyna að ná völdum og áhrifum. Eins og gerðist sums staðar í löndum Austur-Evrópu þegar þjóðfélagskerfið hrundi.

Nú er Íslandið orðið Austur-Evrópuland.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband