Færsluflokkur: Mali

Tilgangur í lífinu

Systur mínar heimsóttu mig í dag. Nei annars, ekki mig, heldur hann Mala minn. Þær dáðust að honum óskaplega og kjössuðu hann smjaðurslega. En mig forsmáðu þær gjörsamliga. Virtu mig ekki viðlits.

Hann Mali minn er nú ekkert smádýr lengur. Hann er orðinn stór og stæðilegur köttur og malar og malar hærra og snjallara með degi hverjum.

Og ég sem aldrei hef greint nokkurn tilgang með lífinu er nú loksins búinn að öðlast göfugan tilgang í því.

Tilgangurinn í lífi mínu er einfaldlega sá að mala nótt sem nýtan dag með honum Mala.  


Dýradagurinn mikli

Í gær fór ég með Mala minn í geldingu og pestarsprautu nr. 2 hjá Dagfinni dýralækni. Ég fór með hann að morgni og skildi hann eftir mjálmandi og vælandi. Ég náði svo í hann síðdegis og var hann þá vægast sagt framlágur og lítill í sér. Hann skjögraði á fótunum og þegar hann ætlaði að stökkva upp á eitthvað dreif hann ekki hálfa leið og  þóttist svo á eftir bara eitthvað vera að huga að feldinum sínum til að draga athyglina frá aumingjaskapnum. Ég þurfti líka að halda á honum allan daginn og hann elti mig volandi um húsið ef ég sleppti hendinni af honum. Tvisvar kastaði hann upp. Og hann var nú ekki meiri bógur en svo að hann var skíthræddur við æluna úr sjálfum sér, setti hreinlega upp fádæma aumkunarverða kryppu.  

Það olli mér þungum áhyggjum að hann, sjálfur Malinn, malaði ekki neitt allan daginn eftir að hann kom heim úr geldingunni. Hann stóð sem sagt engan veginn undir nafni.

Og skyldi kettinum ekki leiðast að láta steingelda sig.  

En í morgun hefur Mali engan bilbug látið á sér finna. Hann er þegar búinn að velta um nokkrum blómapottum og eyðileggja mörg blöð úr prentaranum mínum en það er hans uppáhalds hryðjuverk. Svo er hann að rífa og tæta allt annað líka sem hann nær í. 

Og svo malar hann og malar eins og honum sé borgað fyrir það með rækjum og túnfiski.

Í gær leit ég við hjá kunningja mínum en tíkin hans var að gjóta tveimur hvolpum. Þeir eru blindir og út úr heiminum og ekki sjón að sjá þá. En mamma þeirra var eins og drottning, stolt, vitur og yfirveguð. Hún og Mali eru orðnir ágætir vinir. 

Dagurinn í gær var sem sagt dýradagurinn mikli.


Ég vissi það!

Aldrei geðjaðist mér að þessari Marion Jones sem var alltaf að hlaupa. Menn voru sí og æ  að hrósa henni en mér fannst alltaf eitthvað síkópatískt ógeðfellt við hana. Ég læt mér ekki detta í hug að iðrunarjátning hennar nú yfir því að hafa hlaupið á sterum stafi af öðru en loforðum um mildari refsingu fyrir vikið. 

Kannski hef ég þetta sjötta skilningarvit sem um er talað því ég fæ oft svona hugboð löngu áður en hlutirnir gerast.

En kannski er ég bara hnöttóttur og weird. 

Já, samkvæmt áreiðanlegri skoðanakönnun þessarar síðu segja 88 prósent hysterískra aðdáenda minna já við því að til séu voða ljótir svartálfar sem eru svo kolsvartir og vondir að þeir eru gersamlega ósýnilegir. Aðeins 3 prósent segja nei við spurningunni. Það er athyglisvert að fleiri segja mjá í þessari gagnmerku skoðanakönnun en nei, eða 4,5 prósent og hefur kisusvörunum farið fjölgandi upp á síðkastið eftir því sem skoðanakönnunin berst víðar um kattheima. 

Þess vegna fylgir hér mynd af honum Mala í kaupbæti þegar hann var að spá í skoðanakönnunina æði spekingslegur á svip.     

PICT2387

 


Vitiði hvað!

Hann Mali minn fór í fóstrið í kvöld til systur minnar. Og hvað haldiði? Eru þá ekki mamma hans og Salka systir hans þar líka og verða í nokkra daga í heimsókn. Það var víst fagnaðarfundur þegar fjölskyldan sameinaðist og mikið malað. Nú er ég bara skíthræddur um að Mali vilji ekkert með mig hafa þegar ég kem til baka.

Hvers virði er þessi Schubert miðað við hann Mala? Annars er Mali svo fyrirfeðarmikill að hann skyggir gjörsamlega á mig síðan hann kom í húsið. Eins og sjá má á myndinni.  

PICT2381


Ég og Mali erum alveg á hvolfi

Ég er nú alveg á hvolfi að undirbúa ferðina til útlanda á þriðjudaginn. Það er nú meira. Og hann Mali minn er líka alveg á á hvolfi eins hér má sjá. Við eigum algjört skap saman.

PICT2391


Mali og óþekktarormurinn

Í dag fór ég með Mala minn til Dagfinns dýralæknis. Þar var hann sprautaður gegn öllum heimsins kattaplágum og ormaeyðandi pillu var troðið ofan í gapandi ginið á honum. Síðan hefur hann líka verið eins og ljós heimsins svo óþekktarormuinn hefur klárlega gengið niður af honum.

Þetta var fyrsta ferð Mala út í hinn stóra heim. Hann var líka voða hissa á því hvað heimurinn er stór og margt fólk í honum. Jafnvel líka aðrir kettir sem hann var skíthræddur við.

Í dag kom Ipanama í heimsókn til að sjá Mala kisa en hafði alls engan áhuga fyrir mér, bróður sínum.

Ég segi það líka: Mali er það langmerkilegasta sem hér er að sjá innan fjögurra veggja. Og hann vissi líka af því og endasentist ekki aðeins milli allra veggja í húsinu heldur upp um alla veggi og upp um öll loft.

En nú hefur óþekktarormurinn klárlega gengið niður af honum.

 


Vel valið

PICT2384Nú er ég búinn að velja. Hann eltir mig hvert sem ég fer, kemur hlaupandi til mín þegar ég kalla á hann, fer að mala þegar ég snerti hann og líka þegar ég tala til hans. Og hann lúrir við brjóstið á mér öllum stundum.

Ég hef greinilega valið vel.

Ég er ekki búinn að finna nafn á hann. Það kemur bara af sjálfu sér þegar ég fer að kynnast honum betur. 

Ég ætla að veita honum strangt en kristilegt uppeldi.

Við eigum eftir að verða góðir saman. 

 

 


Hvor á að verða minn annar Míó?

PICT2372Í dag komu systir mín og dóttir hennar til mín með tvo kettlinga, strák og stelpu. Meiningin var að véla mig til að taka annan þeirra að mér og gera hann að mínum öðrum Míó. Þeir léku sér hér í nokkurn tíma og rifu allt og tættu. Og þeir óðu um allt eins og þeir væru heima hjá sér. Annar þeira slóst við hendina á mér í hálftíma og beit og klóraði. Hinn var settlegri og fór eiginlega strax að sofa eftir að hann var búinn að rífa allt og tæta.

Nú get ég bara ekki gert upp við mig hvorn kettlinginn ég að að taka að mér og gera að öðrum Míó mínum. Kannski geta blogglesendur hjálpað mér til þess. Hvort ætti ég nú að taka, fressinn sem situr svona virðulega  eða læðuna sem lúrir svona makindalega? Nei, það var ekki fressinn sem fór að slást. Það var hann sem fór að sofa en læðan fór að slást við hendina á mér og hafði betur.   

Það er sem sé spurningin: Hvorn á ég að velja og gera að mínum öðrum Míó?  

Hægt er að stækka myndina mjög með því að klikka á hana með músinni og svo aftur þegar stækkunarmerkið birtist þá neðst til hægri.


Lokið upp hinum óttalega leyndardómi á Krít

Í fyrradag sagði ég á blogginu að ég hefði dregið mig í hlé síðan ég kom heim frá Krít. Og ég lauk færslunni með þessum orðum.

"Hvað var það á Krít sem snéri mér frá heimsins glaumi inn á innri brautir?

Það er leyndardómur."  

En nú ætla ég að ljóstra upp þessum óttalega leyndardómi.

Það var hann Míó minn. 

Míó var húsköttur sem fylgdi íbúðinni þar sem ég bjó fyrir endanum á langa og dimma ganginum sem lá að íbúðinni hennar Gerðar Rósu asnabónda og lífsspekingi. Þarna hafði hann Mió búið í sæmd sinni lengur en eltsu menn mundu með eiganda sínum þar til það hljóp í ólukkans eigandann að flytja burtu í annað og fullkomlega ómerkilegt húsnæði. En meistari Míó vildi ekki flytja og strauk hvað eftir annað frá nýja staðnum á sínar gömlu og góðu heimaslóðir.   

Þar settist hann að sem húsköttur og verndari íbúðarinnar. Þjónaði hann öllum íbúum, sem þar bjuggu síðan, með spekt sinni og efirlátssemi.  

PICT2303Hann gerði sig heimakominn í rúminu mínu á hverju kvöldi og malaði eins og þotuhreyfill upp við brjóstið á mér. Einu sinni tókst mér með vinstri hendi að að taka mynd af okkur saman.  

Þegar ég fór fram í stofu fylgdi hann mér við hvert fótmál. Ef ég settist við tölvuna til að skrifa malaði hann þar líka  til að auka mér innblástur. Og þegar ég opnaði ísskápinn rak hann upp gleðimjálm eitt hvellt og snjallt og allt hans pavlovska skilyrtamunnrennsli fór í gang alveg skilyrðislaust enda brást honum aldrei spádómsgáfan að opinn ísskápur þýddi svínasteik og aðrar gómsætar krásir.

Míó var alveg sama hvaða skoðanir ég hafði, t.d. á umhverfismálum, dýravernd eða femínisma. Hann kærði sig líka kollóttan um það hvort ég tryði á guð eða ekki.  

Hann skeytti aðeins um það sem leynist að baki allra skoðana og látaláta í hverjum manni. Gegnum hjartað lá hans leið og það er einmitt vegurinn til friðar og fagnaðar segja þeir sem best vita það. 

Þegar ég kom heim var þar enginn Míó. Þess vegna varð ég að draga mig í hlé frá heimsins glaumi til að finna aftur leiðina til hjartans.   

Eftir veginum hans Míó.

Þetta var leyndardómurinn hinn dýri sem ég uppgötvaði á Krít. 

P.S. Hægt er stækka myndina af honum Míó með því að klikka á hana.
 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband