Allt í gamni

Maður trúir því varla að næstum því sex þúsund manns séu að blogga á Mogganum. Mér líst samt ekkert á þessa stefnu sem Moggabloggið er að taka með því að samtvinna það svona sterkt blaðinu sjálfu og reyna beinlínis að stýra því inn á þær brautir að verða þjóðmálablogg, eins konar absúrd framhald af Staksteinum.

Blogghundurinn er einhver orðfimasti og beittasti bloggarinn á Mogganum. Hann hefur sagt um bloggið: „Blogg er markaðstorg, málfundur, samkvæmi, skæruhernaður og ótal margt fleira - en aldrei kyrrstæð skotgrafastyrjöld þar sem hugmyndir frjósa í hel í leðjunni."      

Það má ekki gerast að pólitísk hugmyndafátækt eins og hún er stunduð á Íslandi traðki þessa blómlegu starfsemi í svaðið með leðjuslag.

Hvaða blogghundur skyldi þetta annars vera ? Mig grunar reyndar hver hann er. Hann hefur lesið mikið af bókum, er ósvífinn og óhræddur og áreiðanlega landsþekktur gjammari á mörgum sviðum. En ég þori ekki að nefna nafnið hans af ótta við að það boði tíu ára ógæfu og líka vil ég endilega virða friðhelgi einkalífsins í hundakofanum. Kannski verður blogghundurinn líka óvinur minn ef ég giska rétt á hann.

Meðal annarra orða: Er ekki hægt að stofna til bloggóvina á blogginu? Eru vondu gæjarnir ekki alltaf miklu skemmtilegri og meira intresannt en góðu gæjarnir? 

Eins og hinn vitri maður sagði: Segðu mér hverjir óvinir þínir eru og ég skal segja þér hvers konar óþokki þú ert.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband