Köldustu aprílmánuðir

1859 (-6,3) Langkaldasti aprílmánuður síðustu 200 árin og er ekki hægt að ganga hér framhjá honum þó helsta viðmiðunarárið í þessum pistlum sé 1866. Meðalhiti aprílmánaða 1961-1990 á stöðvunum níu sem hér er miðað við er 2,0 stig. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -5,9 stig og kom í kjölfars einhvers kaldasta vetrar í heild sem um getur þar og í beinu framhaldi af miklum hörkum frá því um það bil er vika var af mars. Norðan og norðaustanáttir voru linnulausar í Stykkishólmi. stkhl-norska.jpg Myndin, sem er af vef Stykkishólsmbæjar, er af húsinu  þar sem Árni Thorlacius gerði veðurathuganir sínar. Fyrstu þrjá dagana var hörkufrost, 11-20 stig en þ. 4. mildaðist mikið og næsta dag var frostlaust fram á kvöld. Að sögn Þjóðólfs gerði bloti þessi illt verra í sunnlenskum sveitum því hann  varð þar að ísing einni og hleypti snjókynginu er fyrir var í enn harðari jökul. Síðan tók við feiknarlegt kuldakast alveg til 24. og hlánaði þá aldrei í Stykkishólmi en frost voru oftast 16-20 stig á næturnar og oft undir tíu stigum allan sólarhringinn. Illviðri og fannkoma hin mesta, segir Þjóðólfur, að hafi verið stöðug og óslítandi frá góukomu til páska (24. apríl) og menn hafi ekki munað eins langan og harðan illviðrabálk. Loks hlýnaði þ. 25. Eftir það var frostlaust að deginum í Stykkishólmi, hlýjast 4,3 stig þ. 25. en næturfrost hverja nótt en alveg þurrt. Fyrir norðan var samt miklu kaldara en í Stykkishólmi. Mælingar á Siglufirði benda til að þar hafi meðalhitinn verið undir 11 stiga frosti (og undir 12 stiga frosti í mars). Norðri á Akureyri skrifar síðasta dag mánaðarins að alls staðar hafi haldist fannfergi og jarðbönn norðanlands með grimmdarfrostum fram yfir páska. Víða voru menn heylausir og búnir að skera fjölda fjár, kýr og hesta. Blaðið segir líka að þó sálbráð hafi verið eftir páska með næturfrostum hafi lítil jörð komið upp.  Bætir síðan blaðið við að í Danmörku hafi veturinn verið blíður með þurrviðri og hafi verið eins og heldur svalt sumar hér! Í lok maí segir blaðið að eftir páska hafi komið góðviðri og hægar sólbráðir en í fyrstu með miklum næturfrostum. Var enn gróðurlaust í maílok. (Maí var að vísu kaldur en langt í frá einn af þeim köldustu).

Þorvaldur Thoroddsen segir í Árferði á Íslandi í 1000 ár um vorið 1859: „Ár þetta kom yfirleitt mikill ís til Íslands og í aprílmánuði var ís fyrir öllum Vestfjörðum suður undir Breiðafjörð og fyrir öllu Norður-og Austurlandi suður  fyrir Papós; í ísnum urðu hvalir víða fastir, en fáir urðu að notum. Skip, sem fór til Austurlands um vorið, mætti hafís miðleiðis milli Færeyja og Íslands og íshroða rak fram hjá Dyrhólaey og suður með Reykjanesi; 17 mílur lá ísinn sem samfrosta hella, vakalaus á haf út austur af Langanesi, en skör þessi mjókkaði eftir því sem suður eftir dró. Það var haldið, að frá Norðurlandi hefði í apríl verið gengt til Grænlands (!)." Lagnaðarísar voru miklir á Breiðafirði. Breiðasund milli Hrappseyjar og Yxneyjar leysti ekki fyrr en 8. maí. Fyrir sunnan var miklu mildara en fyrir norðan og vestan. Meðalhitinn talinn vera -1,9 stig í Reykjavík eftir mælingum sem þá voru gerðar. Hann er samt kaldasti apríl sem þar hefur mælst.   

1876 (-3,1) Þennan mánuð var einungis athugað í Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni og Papey. Hitinn er sagður hafa komist mest í 11,1 stig einhvern tíma í Reykjavík og varð ekki hærri á landinu á þessum fimm stöðum þar sem mælt var. Það var einstaklega þurrt. Úrkomudagar voru aðeins 6 í Stykkishólmi og hafa sjaldan verið færri og að úrkomumagni er þetta ellefti þurrasti apríl þar. r_1876_1076238.jpgJónas Jónassen segir um þennan mánuð í Ísafold 27. apríl 1887 og á lýsing hans við Reykjavík: „Norðanbál með hörkugaddi svo að segja allan aprílmánuð; 25. apríl var 1° hiti á nóttu; annars var meiri og minni  gaddur á nóttu allan mánuðinn frá 1. (2-10° frost)." Frostnætur í bænum voru hvorki meira né minna en 23. En í Grímsey mældist frost alla daga, mest -18,8 stig þ. 20. og var ekki mælt meira annars staðar á landinu. Enginn dagur var heldur frostlaus í Stykkishólmi. Fréttabréf úr Dalasýslu í Norðanfara segir að þar í sveit hafi verið einhverjar þær grimmustu norðanhríðar og gaddhörkur frá því á öðrum í páskum (sem var 17. apríl) og fram að sumardeginum fyrsta. Ísafold segir að í kringum pálmasunnudag (þ. 9.) hafi staðið sex daga norðangarður í Reykjavík með 10-12 stiga frosti á celsíus. Hafís lagðist fyrir öllu norðurlandi og rak suður eftir austurlandi fram í maí og var sagður hafa komist allt að Ingólfshöfða. Inn á Eyjafjörð kom ísinn þ. 7. og  var þar að flækjast fram eftir mánuðinum. Reykjavík var aðeins lítið þorp á þessum tíma eins og sjá má á kortinu sem stækkar svo mikið þegar smellt er nokkrum sinnum á það að vel er hægt að lesa merkingar og skoða einstök hús.  

1917 (-2,2) Apríl þessi var mjög stormasamur. Afar kalt var í byrjun mánaðar en mildaðist svo um tíma. En þann 7., laugardagskvöldið fyrir páska, skall fyrirvaralaut á eitthvert illræmdasta pásahret tuttugustu aldar með aftaka norðanátt og grimmdarfrosti. Fór það niður í -19,0 stig á öðrum páskadegi á Grímsstöðum. Á Vífilsstöðum var það -15,8 stig. 1917_4_850.pngEkki voru lágmarksmælingar í Reykjavík en að morgni hins 9. var þar ellefu stiga frost og níu stig um miðjan dag. Um allt norðurland var stórhríð. Símabilanir urðu víða og bátar skemmdust í höfnum og útihús fuku. Á Seyðisfirði töldu menn að annað eins veður hafi ekki komið þar í mörg ár. Á miðvikudeginum var veðrið gengið niður og komið stillt veður. Kuldatíð hélst samt lengi frameftir. Talsvert hlýnaði þó síðustu tíu dagana og komst hitinn mest í 11,1 stig á Seyðisfirði þ. 20. Hafís var skammt undan landi fyrir norðan. Þurrviðrasamt var sunnanlands og snjólétt en snjóasamt fyrir norðan. Á Vífilsstöðum voru sólarstundir 107.Kortið sýnir meðalhæðina í 850 hPa fletinum í mánuðinum í um 1400 m hæð.

Í byrjun mánaðarins lést Magnús Stephensen landshöfðingi en seint í mánuðinum var Jón Helgason vígður biskup. Hann skrifaði margt merkilegt um sögu Reykjavíkur og gaf úr Árbækur Reykjavíkur þar sem ýmislegt er sagt frá veðurfari í bænum. Hann málaði líka einstkalega skemmtilegar vatnslitamyndir af gömlu Reykjavík.   

1867 (-1,8) Veturinn 1866 til 1867 er í heild þriðji kaldasti vetur á landinu eftir að veðurathuganir hófust í Stykkishólmi. Kaldari voru aðeins veturnir 1881 og 1866. Mars þetta ár  tel ég vera 11. kaldasta mars. Og á eftir honum kom svo þessi kaldi apríl. Harðindin sem voru í mars héldu áfram alveg fram að sumarmálum nema einna helst undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, að sögn Þjóðólfs. Í Stykkishólmi voru frost þó aldrei afskaplega hörð, mest -9 stig þ. 19. Aðeins var alveg frostlaust síðustu tvo dagana og þ. 30. komst hitinn í 5,5 stig í Hólminum. Samfara kuldunum gengu yfir fádæma illviðri allan einmánuð og voru hey víða á þrotum við sumarkomu. Snjór var mikill. Um páskana, sem voru 21. apríl, sást til dæmis hvergi í dökkan díl í Múlasýslum segir Þjóðólfur, frá öræfum til sjávar, og hafi verið mál manna að ekki hafi verið önnur eins vetrarharðindi í þrjátíu ár. Fénaður var jafnvel tekinn að falla sums staðar. Hafíshroða hafði rekið að Langanesi um miðjan mars en í byrjun apríl rak hann að Vestfjörðum. Um miðjan mánuð  kom hann að austfjörðum og fyllti þar alla firði. Þann 19. kom hafíshroði inn á Eyjafjörð en rak úr aftur hinn 27.    

1882 (-1,8) Umhleypingsamt og kalt. Fyrstu dagana var þó fremur hlýtt og blítt veður. Hiti í mánuðinum komst hæst í 12,9 stig og var það á Grímsstöðum á Fjöllum af öllum stöðum en ekki veit ég hvaða dag það var en líklega einhvern tíma á hlýjustu dögunum, 6.-8.  Á páskadag þ. 10., brast á norðanátt með frosti, hríðum og illviðrum sem linntu ekki fyrr en hinn 29. Tók út yfir eftir þ. 20. og næstu tíu daga þar á eftir. Hvergi var þá út komandi nyrðra fyrir stórhríðum og veðurhæð. Fyrir sunnan var frostvægara en veðurhæð síst minni eða jafnvel meiri. Sérstaklega var hvasst dagana 24.-26. Á Snæfellsnesi voru nær linnulausar hríðar frá 10. apríl og fram til 6. maí. Skemmdir urðu á allmörgum jörðum í Rangárvallasýslu af völdum grjótfoks og sandroks. Mesta frost á landinu mældist -20,5 á Skagaströnd. Mánuðurinn var afar þurrviðrasamur. Ekki hefur komið þurrari apríl í Grímsey, 2,8 mm, á grundvelli sæmilega áreiðanlegra mælinga þennan mánuð, en úrkomumælingar eru taldar nokkuð misjafnar að gæðum í eyjunni. Lítill hafís hafði verið um veturinn en í illviðrunum í þessum mánuði rak hann að landi og fyllti allar víkur og firði frá Straumnesi við Aðalvík norður og austur fyrir og allt suður að Breiðamerkisandi og úti fyrir voru hafþök. Við austurland var ísinn nokkuð lausari í sér en fyrir norðan. Nokkur bjarndýr voru skotin. Jónassen segir svo um tíðina i Reykjavík í Þjóðólfi 17. maí:

Þegar borin er saman veðurátta í umliðnum mánuði við veðuráttu í sama mánuði í fyrra, þá er ólíku saman að jafna, því þar sem aprílmán. í fyrra var óvenjulega hlýr og veðurátta hagstæð bæði á sjó og landi hefir hið gagnstæða nú átt sjer stað, því frá 10. þ. m. hefir vindur blásið frá norðri til djúpanna, þótt brugðið hafi fyrir annari átt hjer í bænum og allan síðari hluta mánaðarins hefir mátt heita aftaka norðanrok með miklum kulda og blindbil til sveita (einkum 26. 27. 28.). 1. logn; 2. 3. 4. hægur á austan, 5.-8. s. hægur, dimmur með nokkurri rigningu; 9. logn, þokusuddi; síðari part dags genginn til norðurs með ofanhríð. 10. 11. 12. landnorðangola (norðan til djúpanna); 13. 14. logn (norðan til djúp.); 15. 16. landnorðan, hvass (norðan til djúp.); 17. 18. 19. hægur á austan; 20. 21. logn, útræna (hvass síðari hluta dags h. 21. á norðan); 22.-30. norðan hvass (26.-30. alla dagana norðanrok).

Algengar athugasemdir Jónassens í  dálkum hans um veðrið „til djúpanna" minna skemmtilega á að byggð var lítil í bænum og útsýni út á sjó og í allar áttir var miklu betra en nú er þegar borgarbyggingar skyggja á. Eftir þessum mánuði kom tíundi kaldasti maí á landinu eftir mínu tali. 

1899 (-1,1) Mikið hafði snjóað fyrir norðan á einmánuði og tók ekki upp. Á öllu norður og austurlandi var jarðlaust fram yfir sumarmál en í annari viku sumars fór að koma upp jörð í snjóléttari sveitum fyrir sólbráð en þá var þar hreinviðri dag hvern en frost um nætur. Á norðvesturlandi héldust næðingar til sumarmála og sérlega kalt var Vestfjörðum að tiltölu. Mestur kuldi mældist líka á Holti í Önundarfirði -18,4 stig. Enginn dagur var þar frostlaus og víða annars staðar ekki heldur. Litlu fyrir sumarmál kom mikill bati og mældist mesti hiti í mánuðinum 9,0 stig á Sandfelli í Öræfum. Úrkoman var í tæpu meðallagi. Lítill ís var við landið. Hafís varð þó landfastur við Horn þ. 21. og rak eitthvað suður á firði og ísslæðingur var við Bolungarvík nokkra daga en allur ís var farinn hinn 28. Jónassen segir í nokkrum Ísafoldarblöðum: 

Veðurhægð þessa vikuna; við og við og snjór úr lofti, en bráðnar fljótt; hér er nú alauð jörð. (8. apríl). - Hefir verið við há-átt alla vikuna, oftast bjart sólskin, en kaldur, oft bálhvass úti fyrir á norðan, þótt lygn hafi verið hér. Í dag (14.) bálhvass a norðan. (14. aprí) - Austanátt, hæg, alla vikuna; gengið til norðurs, hægur um stund; óvenjulegur næturkuldi um þetta leyti; síðasta vetrardag í fyrra 10 stiga hiti um hádegið".  í dag (21.) ofanhríð, svo hér gjörði al-hvítt síðari part dags. (22. apríl) - Verið við norðanátt, hægur alla vikuna, mikill kuldi, og við og við ýrt snjór úr lofti. ... (29. 4).

1949 (-0,9) Um miðja tuttugustu öld komu þrír óvenjulega kaldir aprílmánuðir á fáum árum, 1949, 1951 og 1953. Allir voru þeir nokkurn vegin jafnokar venjulegs janúar að kulda. Fádæma snjóþyngsli voru á suður og vesturlandi í apríl 1949 en alls staðar var mikill snjór nema í lágsveitum norðaustanlands. Snjólagstalan er sú næst mesta á landinu í apríl frá 1924, 78%, en mest varð hún í apríl árið 1990, 84%. Fyrstu tvo dagana var sæmilega milt í hægviðri og þ. 2. kom mesti hiti mánaðarins í Reykjavík,  6,6 stig, og hefur mánaðarhámark þar í apríl aldrei mælst lægra. 1949_4_thick_an.png Í  kjölfarið kom austanátt sem var víða hvöss með snjókomu fyrir norðan en þ. 8.-17. var umhleypingasamt og voru lægðir þá yfir landinu eða mjög nærri því með hryssingslegri rigningu, slyddu eða snjókomu og  allra veðra von! Dagarnir 18. til 25. voru aftur á móti sérlega kaldir með hvassri norðanátt og frosthörkum. Víða snjóaði. Mest frost mældist -20,0 stig þ. 18. á Möðrudal. Síðustu fimm dagana var hlýrra en hvasst og úrkomusamt. Hámarkshiti allra stöðva var aðeins 9,9 stig þ. 16. á Teigarhorni. Frá 1880 hefur ekki mælst tíu stiga hiti á landinu í einungis tveimur öðrum aprílmánuðum, 9,0 stig 1899 og 9,2 stig 1920. Meðaltal daglegs hámarkshita á landinu var aðeins 5,4 stig en til samanburðar var það 12,7 stig í hlýjasta apríl 1974. Hafís kom að landi við Horn og Skagatá og úti fyrir norðurlandi var talsverður hafís. Áttir frá suðvestri til norðvesturs voru tíðastar vindáttir í þessum hreggviðrasama mánuði. NATO var formlega stofnað snemma í þessum mánuði en þá voru loftflutningarnir frægu til Berlínar í algleymingi. Kortið sýnir frávik þykktar í mánuðinum og má segja að hann hafi verið alveg skelþunnur! Íslandskortið fyrir neðan sýnir meðalhitann í þessum mánuði en meinhollt er að minnast þess að apríl 1859 var um það bil sex stigum kaldari!

apr_1949.gif

1910 (-0,8) Þessi vetur var alræmdur snjóavetur þegar snjóflóðið mikla varð í Hnífsdal í febrúar þar sem fórust 20 manns. Eftir sæmilega tíð í byrjun mánaðar, þegar hitinn komst mest i 11,5 stig á Fagurhólsmýri, spilltist veður mjög þann 10. með stórhríð fyrir norðan og frosti um land allt. Hélst ótíðin mestallan mánuðinn með frostum sem þó voru aldrei mjög  mikil,  mest -15,0 í Möðrudal. Hæð var oft yfir Grænlandi en lægðir austn við landið. Hámarkshiti í Reykjavík var aðeins 7,0 stig og hefur ekki orðið lægri í apríl nema 1949. Þar var átta þumlunga þykkur snjór að morgni hins 27. að því er Fjallkonan segir. Mjög snjóþungt var á norður og austurlandi en úrkomulítið á suður og suðvesturlandi. Íshroði var þ. 9. norður af Siglufirði en annars var íslaust.

1887 (-0,8) ) Í Vestmanneyjum voru ágæt hlýindi alveg frá 5.-21. og þar rigndi talsvert. Annars staðar var tíðin blandaðri, stundum kalt og stundum hlýtt, en í Grímsey voru kuldar flesta daga.  Mestur hiti varð 12,3 stig á Núpufelli í Eyjafirði einhvern hlýindadaginn. Sérstaklega var kalt upp úr sumardeginum fyrsta og var þá aftaka norðangarður og mestu kuldar mánaðarins. Var þetta veður kallað „Sumarmálakastið". 18874246.gif Frostið í Reykjavík fór í -12,7 stig þ. 24. og hefur aldrei mælst jafn hart svo seint að vori og næstu nótt var það -11,0 stig.  Kortið sýnir loftþrýsting kl. 6 að morgni  hins 24. Um þetta leyti fór frostið í Grímsey í 15 stig og 10 í Vestmannaeyjum en varð mest -20,2 stig í Möðrudal. Ekki hlánaði í Reykjavík dagana 22.-26. Úrkoma var fremur lítil nema í Reykjavík þar sem hún var vel yfir meðallagi. Um sumarmál rak allmikinn ís að norðurlandi og var hann á reki við landið og sums staðar landfastur við og við. Að Grímsey kom  hann þ. 23. og lá fram í ágúst. Eftir miðjan mánuð rak íshroða inn á Eyjafjörð en hinn 18. varð ís landfastur við Raufarhöfn og fór ekki fyrr en í ágúst. Inn á Axarfjörð kom hafís um sumarmál en inn á Húnaflóa kom hann 28. apríl. Jónassen skrifaði í Ísafold um tíðina:     

Mestalla vikuna hefur verið óstilling á veðri og optast verið við útsuður (Sv) með meiri eða minni hroða og jeljagangi; að kveldi h. 3. gekk hann í hávestur og um nóttina til norðurs og var rokhvass með blindbyl efra allan fyrri part dags h. 4.; lygndi um kl. 4. e. m. og gjörði logn. Í dag 5. blæja logn fyrri part dags og glaða sólskin, landnorðan til djúpa og loptþyngdarmælir er nú aptur kominn hátt. (6. apríl) - Eins og undanfarna viku hefur ókyrrð verið á veðri þessa vikuna; 6. var hjer landsynningur (Sa) hvass, með mikilli rigningu, en logn að kveldi og næstu nótt; daginn eptir dimm þoka að morgni allt að hádegi, er birti upp og gekk i hæga vesturátt; daginn eptir hægur landsynningur með regni; svo útsynningur (Sv) hægur þrjá næstu dagana, og nú, aðfaranótt h. 12., genginn til austur-landnorðurs með ofanhríð og vægu frosti; hefur í nótt snjóað svo, að jörð er hjer nú alhvít. Loptþyngdarmælir er nú mjög hátt og fer heldur hækkandi. Í dag 12. austanbylur fram að hádegi. (13. apríl). - Veðurátt hefur þessa vikuna verið með blíðasta móti, optast við suðurátt og hlýindi talsverð, við og við með regni ; klaki mjög lítill hjer í jörðu. Í dag 19. hæg landnorðanátt, bjart og fagurt veður. (20. apríl). - Fyrsta dag vikunnar var hæg landnorðanátt, bjart veður; um kveldið fjell snjór og gjörði alhvíta jörð; daginn eptir (21.) var hæg austanátt snemma að morgni en gekk fljótt til  norðurs og hefir verið bálviðri dag og nótt síðan og lítið útlit fyrir breytingu. Efra hefir verið blindbylur með köflum. Frostharkan hefir verið óvenjulega mikil um þetta leyti; þannig var frostið um kl. 7 um morgunin h. 24 -12,5°C. Hjer er alveg auð jörð. Tjörnin hjer hjá bænum, sem var alauð, er nú aptur mannheld. (27. apríl).

1983 (-0,8) Kaldasti apríl á síðari áratugum og alveg sambærilegur við kuldakóngana þrjá um miðja tuttugustu öldina. Mánuðurinn byrjaði með kulda og snjókomu víða, þar með talið í Reykjavík.  Var mjög kalt næstu níu daga og komst frostið í -23,5 stig  þ. 9. á Möðrudal.  Síðan mildaðist nokkuð en þ. 16. skall á jafnvel enn verra kuldakast sem stóð í tíu daga. 1983_4_500t.pngÞann 25. mældist frostið á Möðrudal -21 stig og er þetta síðasta dagstetning að vori sem tuttugu stiga frost hefur mælst á landinu á mannaðri stöð frá og með 1949. Meðaltal daglegs hámarkshita á landinu var aðeins 5,7 stig. Frostdagar voru 24 í Reykjavík og hafa aldrei verið fleiri í apríl en voru jafn margir 1949. Snjólag á landinu var 75%, þriðja til fjórða mesta ásamt 1953. Fyrir norðan var víða alhvítt eða því sem næst en um helmingur daga á suðurlandi var alauður þar sem allra best lét en sums staðar var þar þó aldrei alautt. Þann 17. var snjódýptin á Siglunesi 123 cm. Minnstur var snjórinn á Keflavíkurflugvelli en þar var 21 dagur auður. Í  Reykjavík voru fjórir alauðir dagar og sjö alhvítir. Þurrviðrasamt var fremur nema á norðausturhorninu þar sem var gríðarleg úrkoma. Á Raufarhöfn var hún 109,7 mm og aldrei verið meiri í apríl (frá 1934). Aldrei varð almennilega hlýtt en þ. 28. komst hitinn í 10,0 stig á Sámsstöðum. Norðan og norðaustanáttir voru ríkjandi. Á sumardaginn fyrsta (21.) var norðaustanstrekkingur og frost um land allt en mikið sólskin á suður og suðvesturlandi. Ekki beint sumarlegt! Þetta var þurr mánuður og fjórði  þurrasti apríl á Teigarhorni. Kortið sýnir kuldagúlp sem lá yfir landinu í kringum 5 km hæð þennan mánuð.

1951 (-0,8) Fram yfir miðjan mánuð var tíðin mjög óhagstæð, miklir kuldar og tíð snjókoma og vindasamt nokkuð á suðurlandi. Einkanlega var kalt um miðjan mánuð  og mikið vetrarríki. Var óslitið frost í heila viku í Reykjavík, dagana 13.-19. og hafa slíkir dagar í apríl þar aldrei komið svo margir saman í röð. 1951-04-15_12.gifOg dagshitamet yfir kaldastan meðalhita í apríl voru sett þar hvern dag 13. til 16. og aftur 18. til 19. (Dæmi um kuldana þessa daga  sést á kortinu). Voru dagshitakuldametin í meðalhita því sex og hefur enginn apríl fleiri kuldamet yfir meðalhita í borginni. Þann 14. fór lágmarkshitinn í -12,0 stig sem er með meiri kuldum sem komið hafa í apríl í Reykjavík. Dagana 13.-15. komu aftur á móti kuldadagshitamet á Akureyri (frá 1949) í meðalhita. Kaldast á landinu varð hins vegar í lok þessa mikla kuldakasts þegar frostið í Möðrudal og Reykjahlíð við Mývatn fór í -23,1 stig þ. 20. Síðustu fjóra dagana hlýnaði vel og mældist mestur hiti nær alls staðar síðasta mánaðardaginn. Var þá 13 stiga hiti í Reykjavík í glampandi sól en 15,5 í Síðumúla í Borgarfirði. Snjólag var 74%. Sums staðar var snjóþungt  með afbrigðum. Þannig var alhvítt víðast hvar á Vestfjörðum, norðurlandi og austurlandi. Í byrjun mánaðarins var snjódýpt 140 cm á Suðureyri við Súgandafjörð og um miðjan mánuð var hún 100 cm á Sandi í Aðaldal og 152 cm á Grímsstöðum á Fjöllum. Hvergi var alautt alla daga en alhvítir dagar voru þó fáir og sums staðar engir á suður og vesturlandi en jörð var flekkótt þar sem ekki var alhvítt. Úrkoma var víðast hvar fremur lítil nema við ströndina á suðaustanverðu landinu. Norðaustanátt var algengust vindátta. Mánuðurinn var því nokkuð ólíkur bróður sínum 1949 þegar vestanátt var ríkjandi. Þessi mánuður er líka úrkomuminnstur kuldaþríburanna 1949, 1951 og 1953. Á austfjörðum var samt mikil úrkoma, 302, 5 mm á Seyðisfirði sem er aprílmet þar. 

1953  (-0,7) Þessi mánuður er reyndar bara tólfti kaldasti apríl en er hér nefndur til að hann verði ekki aðskilinn frá kuldabræðrum sínum 1949 og 1951 sem hann er mjög áþekkur hvað hita varðar. Norðlægar áttir voru algengastar, frá norðvestri til norðausturs. Mánuðurinn var úrkomusamastur þessara þriggja. Sérstaklega var úrkomusælt fyrir norðan. Á Akureyri er þetta næst úrkomumesti apríl, 86,4 mm (mest 87,9 mm 1932). Á Blönduósi  var úrkoman meiri en í nokkrum apríl, 79,9 mm, í nokkuð slitróttri mælingasögu. Í Reykjahlíð við Mývatn hefur heldur ekki mælst meiri úrkoma í apríl,  58,1 mm (frá 1938) og sömu sögu er að segja af Grímsstöðum á Fjöllum, 62,3 mm ( frá 1936).  Mánuðurinn hófst með gríðar miklu og hvössu kuldakasti, einhverju hinu mesta í apríl. Þann 2.  á skírdag, fór frostið í 18,1 stig á Möðrudal. Annars staðar var þá víða 10-14 stiga frost og ekki síður á suðurlandi en annars staðar. Daginn eftir féll snjóflóð á bæinn Auðni í Svarfaðardal og fórust þar tvær manneskjur, nokkrar kýr og næstum því allt sauðféð. Sama dag braut brim skarð í skjólvegg í höfninni á Ólafsfirði. Um miðjan mánuð eyðilagði snjóflóð útihús á Þrastarstöðum á Höfðaströnd. Seinna urðu vatnsflóð af völdum krapastíflu í Laxá og vegna leysinga í Húnavatnssýslu og skriða féll á túnið á Hvammi í Dölum. Hlýtt var meðan leysingarnar voru og komst hitinn í 12,8 stig á Skriðuklaustri þ. 20.

Af aprílmánuðum snemma á nítjándu öld má nefna 1811 en þá var meðalhitinn í Stykkishólmi áætlaður -4,8 stig.

Meðalhita stöðvanna og úrkomu má sjá i fylgikjalinu fyrra. Hið síðara sýnir hita í Stykkishólmi árið 1859 og í Reykajvík 1917. Hitinn í Reykjavík er ekki raunverulegur hámarks-og lágmarkshiti heldur það hæsta og lægsta sem lesið var á mæli þrisvar  á dag.  

Þjóðólfur, 20. apríl, 10. júní 1859; Þjóðólfur 10. maí 1867; Norðri 30. apríl, 30. maí 1859;  Norðanfari 30. apríl 1867;  Norðanfari 18. maí 1876;  Ísafold 10. maí 1876; Fréttir frá Íslandi 1876, 1882; Stefnir 6. maí 1899; Austri 17. apríl 1917;  Fjallkonan 27. apríl 1910.

Skýringar. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er með þann 31. apríl 1867. Ég held reyndar sérstaklega upp á 31. nóvember, sá dagur er fremstur meðal huldudaga í mínum huga, þótt hlaupársdagur mari í valsakafi. Bestu kveðjur og þökk fyrir pistlana.

Trausti Jónsson, 12.4.2011 kl. 00:46

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Æ, já. Þar kom að því að ég geri þess alræmdu villu! En þetta ár var nú ansi afbrigðilegt!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.4.2011 kl. 01:16

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En langskemmtilegastar og dullarfyllstar eru þessar mögnuðu hitabylgjur sem stundum hafa komið 31. júní!

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.4.2011 kl. 01:19

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Mannstu hvað hitametið er þann dag og hvar það var sett?

Trausti Jónsson, 13.4.2011 kl. 22:53

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mig minnir endilega að það hafi verið 50,3 stig á Hornateigi í Berangursfirði.  Og mælt á algöru bersvæði.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.4.2011 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband