Býsna vor

Þetta hefur verið undarlegur apríl. Hitinn er vel yfir meðallagi, um tvö stig  í Reykjavík. Fyrir norðan og austan er hitinn 4-5 stigum yfir meðallagi. Í Hornafirði stefnir mánuðurinn á  verðlaunapallinn í hitanum. Samt er fólk að tala um að vorið hafi stöðvast eða að ekkert vori yfirleitt.  Hvergi hefur þó verið neinn harðindabragur á veðráttunni miðað við það sem oft gerist í apríl. Enginn dagur hefur enn verið undir frostmarki að meðaltali í Reykjavík og ekki heldur á Akureyri. Það er nú  bara ansi gott. 

Alhvítir dagar í Reykjavík eru að meðaltali  fjórir í apríl. Nú hefur einn dagur verið talinn alhvítur en það var aðeins grátt í rót. Þrír aðrir morgnar hafa verið flekkóttir af snjó. Fyrir norðan er svipaða eða betri sögu að segja. Fyrir vestan hefur nokkur snjór verið allra síðustu daga. En jafnvel í  alræmdustu snjóasveitum fyrir norðan hefur verið og er enn lítill sem enginn snjór í þessum mánuði.

Brum á runnum er farið að opna sig í Reykjavík og túnið við Stjórnarráðið er að verða algrænt.

Hvað sem hver segir er vorið í fullum gangi! 

En það er samt nokkuð hryssingslegt á suðvesturlandi og  það finnur fólk. Hitinn  í bænum síðustu daga hefur líka verð einhvers staðar þar sem alveg eins getur snjóað eins og rignt. En þetta eru engir kuldar og snjór nær ekki að festast neitt. 

Sólskin hefur líka verið alveg eðlilega mikið hingað til í Reykjavík, mjög um meðallag. En Ísland er svo sem ekkert sólskinsland.

Úrkoman er hins vegar æði mikil. Aðeins einn dagur hefur hingað til verið þurr í Reykjavík. Og úrkoman þar er nú þegar komin 33 % fram yfir meðalúrkomu alls aprílmánaðar. Á Hjarðarlandi í Biskupstungum er úrkoman hins vegar orðin um það bil tvöföld miðað við meðallag þar síðustu 20 árin eða svo. 

Ekki er útlit fyrir neitt fjandans páskahret. Eftir morgundaginn fer aftur að hlýna. En það rignir vísast áfram eins og veðurguðirnir eigi lífið að leysa. 

En þegar svo um hægist og þessum umhleypingum linnir og sólin lætur sjá sig í kyrru og sæmilega hlýju veðri kemur vorið ansi vel undirbúið til leiks. 

Í annálum framtíðarinnar mun sagt verða um 2011: Voraði vel það árið en kenjar allmiklar í veðuráttu og krankleiki ýmisligur var í mönnum og fénaði. Var það vor því býsnavor kallað. Og hrukku þá sumir upp af standinum en aðrir ruku úr landi.    

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband