10.11.2011 | 18:42
Hlýjustu nóvembermánuðir
Eins og áður er meðalhiti stöðvanna níu, sem við er miðað, í sviga aftan við árið. Meðaltal þeirra 1961-1990 er 0,8 stig.
1945 (4,9) Hver skyldi trúa því að nóvember gæti orðið hlýrri en gengur og gerist í maí? Það gerðist eigi að síður í Reykjavík árið 1945. Þá var Veðurstofan í Landssímahúsinu við Austurvöll og hitamælaskýlið var á þaki hússins. Mældist þar meðalhiti mánaðarins 6,5 stig. Meðalhitinn í maí 1961-1990 í Reykjavík var 6,4 stig. Þetta er langhlýjasti nóvember sem komið hefur í borginni. Hiti mánaðarins telst vera 6,1 stig ef hann er miðaður við núverandi staðsetningu Veðurstofunnar við Bústaðarveg. Miðað við landið í heild er þetta hlýjasti nóvember sem mælst hefur og auk þess sá hlýjasti á stöðvum frá Austfjörðum vestur og norður um að Ísafjarðardjúpi og einnig sums staðar í Húnavatnssýslum. Á Loftssölum í Dyrhólahreppi var meðalhitinn 6,8 stig en 6,7 í Vík í Mýrdal og er þetta hæsti meðalhiti sem mælst hefur á íslenskum veðursstöðvum í nóvember. Meðaltal lágmarshita var 5,5 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og hefur ekki orðið hærra á íslenskri veðurstöð í nóvember. Þar mældist hámarkshiti 10,4 stig þ. 10. og hefur aldrei orðið hærri í nóvember og sama dag mældist nóvembermetið á Þingvöllum, 11,6 stig. Daginn eftir fór hitinn í Reykjavík í 11,5 stig sem var mánaðarmetið þar áratugum saman. Á Hamraendum í Dölum fór hitinn í 12,7 stig þ. 12. og hefur ekki mælst hærri í héraðinu í nóvember og ekki heldur í Miðfirði þar sem hitinn í Núpsdalstungu fór í 12,5 stig þ. 9. Mesti hiti á landinu mældist hins vegar 15,5 stig á Sandi í Aðaldal þ. 9.
Veðráttan segir svo: Tíðarfarið var einmuna gott, hlýindi svo mikil að blóm sprungu út, og var kúm beitt fram yfir miðjan mánuð." Það var látlaus suðlæg átt fyrstu tæpu þrjár vikurnar. Eftir það gerði skammvinnt kuldakast en hlýnaði svo á ný í lok mánaðarins. Meðalhiti fyrstu 24 dagana var 7,9 stig í höfuðstaðnum. Snjólagsprósentan á landinu allan mánuðinn var 16 en meðaltalið frá 1924 er 42%. Hvergi var alautt allan mánuðinn en á fáeinum stöðvum varð aldrei alhvítt. Síðasta daginn var reyndar mjög víða snjór og frostið komst niður í 17 stig á Grímsstöðum. Úrkoman var um 22% umfram meðallagið 1931-2000 og var mest 344 mm í Kvígyndisdal við Patreksfjörð. Á Blönduósi og nágrenni hefur aldrei mælst meiri úrkoma í nóvember, 181,4 mm. Í Stykkishólmi er þetta sjötti úrkomusamasti nóvember frá 1856. Sólarlítið var syðra en suðaustanátt var yfirgnæfandi og er þetta fjórði sólarminnsti nóvember í Reykjavík. Fremur sólarlítið var einnig fyrir norðan. Á undan þessum mánuði kom reyndar níundi hlýjasti október.
Í þessum mánuði má segja að samfellt hæðasvæði með kuldum hafi ríkt alla leið frá Rússlandi og vestur til Bretlandseyja en yfir gervöllu Norður-Atlandshafi austanverðu voru hlýindi en tiltölulega mest á Íslandi. Hlýtt var einnig í Norður-Skandinavíu nema við sjóinn allra nyrst. Efra kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins yfir landinu en frávikið upp á við var geysimikið nærri landinu og þykktin upp í mitt veðrahvoldið nun hafa verið sú mesta sem þekkist í nóvember þó ekki sé hægt að sýna það hér. Neðra kortið birtir frávik hita í þessum 500 hPa fleti í um 5 km hæð. Bæði kortin eru falleg og glæsileg á að líta! Fyrir neðan sést svo á korti meðalhitinn á landinu í þessum maílega nóvember.
Þetta var sem sagt mánuður kraftaverkanna og þ. 4. varð enda lamaður maður á elliheimilinu Grund skyndilega alheill! Daginn áður var hin vinsæla 9. sinfónía Shjostavítsj frumflutt í Leningrad. Þann 8. efndu Sjálfstæðismenn í Reykjavík til prófkosninga. Lýðveldið Júgóslavía var stofnað þ. 29.
2002 (4,5) Þessi mánuður kemst helst á spjöld veðursögunnar fyrir það að þá mældist mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í nokkrum mánuði, 971, 5 mm á Kollaleiru í Reyðarfirði sem er talsvert meira en ársúrkoma er að meðaltali í Reykjavík! Á Hánefsstöðum í Seyðisfirði mældust 907,7 mm. Skriðuföll urðu á austurlandi. Á Fagurhólsmýri mældist meiri úrkoma en í nokkrum öðrum nóvember frá 1922, 403 mm og á Hólum í Hornafirði frá 1931, 672,4 mm. Aftur á móti mældist úrkoman aðeins 3,1 mm á Stafni í Húnavatnssýslu. Austanátt var vitaskuld tíðasta vindáttin og mun víst hafa verið meiri en í nokkrum öðrum nóvember. Úrkoman var yfirleitt undir meðallagi á vesturhelmingi landsins. Snarpt kuldakast kom um miðjan mánuð og stóð í fjóra daga og fór þá frostið í -18,5 stig í Möðrudal þ. 17. Dró þetta mánaðarmeðalhitann talsvert niður. En þess gætti lítt syðst á landinu þar sem meðalhiti mánaðarins var 6,5 stig í Vík í Mýrdal og 6,3 á Vatnsskarðshólum. Mestur hiti varð á Lambavatni á Rauðasandi 13,6 stig þ. 22. Þetta er nóvembermet á stöðinni og óvenjulegt er að mánaðarhámark landsins í nóvember mælist á þessum slóðum. Á sunnanverðu Snæfellsnesi, á Bláfeldi, fór hitinn þ. 28. í 11,9 stig og hefur aldrei mælst hærri á veðurstöðvum á þessu svæði frá 1955 en að vísu var allmikið hringl þar á stöðvum eftir um 1980. Á vesturlandi var talin einmunatíð í austanáttinni. Alautt var í Reykjavík, á sunnanverðum austfjörðum og víða á suðausturlandi og suðurlandi. Snjólag var 12% og hefur aðeins einu sinni orðið lægra, 1960. Desember sem fór í hönd reyndist einnig vera sá næst hlýjasti sem mælst hefur eins og þessi nóvember var að sínu leyti. Mjög kalt var á Norðulöndum og NA-Evrópu í þessum mánuði en hlýtt á Íslandi og Grænlandi. Háloftahæð var yfir Norðurlöndum og norður í íshaf en lágur þrýstingur suðvestur af Íslandi.
1956 (4,3) Frá Skagafirði og austur á firði er þetta hlýjasti nóvember sem mælst hefur og sá þriðji yfir landið. Á Siglunesi var meðalhitinn 5,1 stig og er það mesti meðalhiti í nóvember á norðlenskri veðurstöð. Afar hlýtt var dagana 6.-8. og komst hitinn á Dalatanga í 17,1 stig þ. 6. Ekki var síður hlýtt næsta dag sem mun vera einn allra hlýjasti nóvemberdagur að meðalhita á landinu síðan a.m.k. 1949. Í Reykjavík er þetta næst hlýjasti nóvember en þrátt fyrir hlýindin var snjór þar á jörð í 8 daga en aldrei þó mikill. Snjólagsprósentan á landinu var nokkuð há miðað við hlýindin, 24%. Mestur var meðalhitinn 5,8 stig á Vatnsskarðshólum en 5,7 í Fagradal í Vopnafirði og er það mesti meðalhiti á veðurstöð í nóvember á norðaustanverðu landinu. Í Fagradal var úrkoman tiltölulega minnst en sunnan og suðvestanáttir voru tíðastar vindátta. Mánuðurinn var auðvitað talinn óvenju hagstæður um austanvert landið en óhagstæður vestan lands vegna storma og mikillar úrkomu. Þann 24. var stórviðri um allt land af suðvestri. Slitnuðu þá fimm vélbátar frá bryggju í Reykjavík. Talsvert kólnaði síðustu dagana og komst frostið í -14 stig þ. 27. og 28. í Möðrudal. Mikið vestanveður var síðasta daginn og barst þá sjávarselta langt inn í landi.
Þetta er með úrkomumestu nóvembermánuðum, líklega einn af þeim fimm votustu. Sérstaklega var úrkoman mikil á suður-og vesturlandi, einkanlega í Borgarfirði og sums staðar á Vestfjörðum og suðurlandsundirlendi. Í Síðumúla í Hvítársíðu mældist mesta nóvemberúrkoma sem þar mældist 1934-1985, en árið 1993 fuku flest úrkomumet nóvembers í héraðinu á öðrum stöðvum. Í Kvígyndisdal við Patreksfjörð mældist meiri úrkoma en þar mældist í nokkrum mánuði 1928-2004, 466,1 mm. Á Þórustöðum í Önundarfirði mældist mesta nóvemberúrkoman á árunum 1955-1996, 348,3 mm. Af Sámsstöðum í Fljótshlíð er sömu sögu að segja 1928-1998, 324,5 mm. Ekki hefur heldur mælst meiri úrkoma í nóvember í Hrútafirði á fáeinum stöðvum sem þar hafa verið. Í Stykkishólmi er þetta þriðji úrkomusamasti nóvember. Æði var mánuðurinn drungalegur syðra og er þetta sólarminnsti nóvember í Reykjavík með aðeins 4,6 sólarstundir. Ekki var aðeins hlýtt á Íslandi þennan mánuð heldur norður um allt íshafið og til heimskautastrandar Rússlands en kuldi mikill í Evrópu og allt til Norðvestur- Afríku. Kortið (sem stækkar vel ef smellt er þrisvar á það) sýnir frávik hæðar 500 hPA flatarins á norðurhverli en það mynstur sem kortið sýnir er nokkuð líkt því mynstri sem kort um hitafrávik sýnir og þekur blái liturinn í stórum dráttum köldu svæðin en sá guli og rauði hlýju svæðin þó hlýjan á Íslandi komi ekki sérlega vel fram á þessu hæðarkorti. Landið var klemmt á milli óvenju mikillar hæðar suðvestur af Bretlandseyjum og venju fremur lágs þrýstings vestan við landið. Áttir milli suðurs og vesturs voru einstaklega tíðar. Næsti mánuður krækti í að vera tíundi hlýjasti desember.
Mikið var um að vera í heimsmálunum. Í fyrstu vikunni gerðu Rússar innrás í Ungverjaland eftir að landsmenn höfðu risið upp gegn stjórnvöldum og átök brutust út vegna þjóðnýtingar Egypta á Súezskurðinum. Síðast en ekki síst fyrir okkur Íslendinga fékk Vilhjálmur Einarsson þ. 27. silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu.
1958 (4,1) Úrkoman var gríðarleg um sunnan og vestavert landið og er þetta næst úrkomusamasti nóvember á landinu að mínu tali. Á Stóra-Botni í Hvalfirði var úrkoman 603,2 mm og var það mesta mánaðarúrkoma sem þá hafði mælst á veðurstöð á Íslandi. Í Reykjavík var þetta blautasti nóvember frá upphafi mælinga og þar til í nóvember 1993. En sums staðar á suður-og vesturlandi standa úrkomumet sem sett voru þennan mánuð enn þá. Má þar fyrst nefna Stykkishólm, 281,3 mm, og er þetta mesta úrkoma þar í nokkrum mánuði allan mælingatímann. Einnig má nefna Elliðaárstöð við Reykjavík (frá 1923), Eyrarbakka 283,1 mm (1880-1911 og frá 1926), Kirkjubæjarklaustur 357,6 mm (1931) og Seyðisfjörð 468,7 mm (1935-1953 og frá 1957). Á Ljósafossi mældist úrkoman 515,4 mm. Víða syðra rigndi alla daga nema einn í mánuðinum. Fádæma úrfelli var á suður- vesturlandi þ. 17.-18. Á Rafstöðinni í Andakíl mældist sólarhringsúrkoman 165,3 mm en 184,6 mm í Stóra-Botni. Metið á Rafstöðinni stendur enn þá en úrkoman í Stóra-Botni er nú næst mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi í nóvember. Urðu af þessu úrfelli víða vegaspjöll vestan lands og skriður féllu á veginn milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Tíðin var þó talin mjög hagstæð, einkum síðari hluti mánaðarins. Veðráttan segir: Grænn litur var á túnum og fíflar og sóleyjar sprungu út. Fé gekk yfirleitt sjálfala, og fjallvegir voru lengst af opnir. Í lok mánaðarins var víða autt upp á efstu fjallabrúnir." Meðalhitinn á Horni í Hornafirði var talinn 6,5 stig og er það mesti meðalhiti veðurstöðvar í öðrum nóvember en 1945 (ásamt Vík í Mýrdal 2002) en satt að segja trúi ég ekki alveg á þessa tölu. Langt bil er í meðalhita nálægra stöðva. Hitinn fór í 11,3 stig á Loftssölum þ. 27. og mældist aldrei meiri nóvemberhiti þar frá 1951 og ekki heldur á Vatnsskarðshólum, skammt frá, síðan 1978. Snjólag á landinu var 19% en hvergi alautt allan mánuðinn. Alhvítir dagar voru hins vegar mjög fáir og víða enginn. Hlýindi voru mikil marga daga og þ. 10. fór hitinn í 16 stig á Siglunesi og 15,2 í Fagradal í Vopnafirði. Í tveggja daga smá kuldakasti fór frostið í -10,5 stig á Hellu þ. 8.
Fyrsta landhelgisstríð Íslendinga og Breta var í fullum gangi en það hófst 1. september þetta ár. Þann 18. kom Andrés Segovia, rómaðasti gítarleikari tuttugustu aldar, til landsins og hélt hér tónleika.
1941 (4,0) Til landsins var þetta mjög hagstæður mánuður. Fé gekk víða sjálfala og unnið var að jarðabótum. Sunnanlands var þó nokkuð vindasamt og tíðar úrkomur. Þetta var hlýjasti nóvembermánuður sem hafði mælst á landinu þegar hann kom. Hann var tiltölulega hlýjastur fyrir norðan og er enn annar hlýjasti nóvember í Grímsey. Þann 10.-11. var stormur víða á suður og austurlandi og um það leyti voru miklar rigningar á austfjörðum með skriðuhlaupum. Sólarhringsúrkoma var 101,3 mm að morgni síðasta dagsins á Hvanneyri í Borgarfirði og víða annars staðar var mæld mikil úrkoma. Snjór var lítill, 15%, og jafnvel á Akureyri var alhvítt í aðeins þrjá daga en einn dag í Reykjavík. Á Sandi í Aðaldal var aldrei mældur þurrari nóvember, 5,5 mm (1937-2004). Þar mældist og mesti hiti mánaðarins, 12,5 stig þ. 30. Á Húsavík var úrkoman aðeins 0,6 mm og féll á einum degi (enn mninni úrkoma var þar 1942, 0,2 mm), Í stillum og hægviðri þ. 8. mældist mesta frostið, -16,3 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Eftir þennan mánuð kom 12. hlýjasti desember á landinu en á Akureyri sá fjórði hlýjasti. Á undan þessum mánuði fór hins vegar áttundi hlýjasti október á landinu.
Þann fyrsta var afhjúpað minnismerkið um forsetana fjóra á Mount Rushmore í Bandaríkjunum. Daginn eftir fórst flugvél með 11 bandaríkjamönnum á Reykjanesi. Og daginn þar á eftir tóku Þjóðverjar borgina Kursk í Rússlandi. Þann 7. voru tólf þúsundir gyðinga myrtir og grafnir i fjöldagröfum við Minsk í Hvítarússlandi. Og næsta dag skutu bandarískir hermenn að hópi Íslendinga og drápu einn. Í mánaðarlok náðu Þjóðverjar lengst fram við Moskvu og Ítalir gáfust upp í Eritreu. Rússa náðu Rostov á sitt vald frá Þjóðverjum þ. 29. og Rommel hershöfðingi Þjóðverja tók að hörfa frá Tobruk í Líbíu.
1968 (4,0) Tíðarfarið var talið hlýtt og hagstætt en úrkoma vel yfir meðallagi í heild. Fyrir norðan var tiltölulega sólríkt. Fyrir austan var hins vegar mjög úrkomusamt. Aldrei mældist meiri úrkoma í nóvember á Hallormsstað (1937-1989), 271,8 mm og aðeins einu sinni (2002) á Grímsárvirkjun frá 1959. Færð var yfirleitt góð á landinu, tún voru mikið til græn og í görðum sprungu út blóm. Mánuðurinn byrjaði þó mjög kuldalega og var frost fyrstu fjóra dagana með því meira sem gerist eftir árstíma og í Reykjavík var síðasti októberdagurinn og sá fyrsti í nóvember þeir köldustu eftir dagsetningum sem þar hafa komið frá a.m.k. 1935. Þann annan fór frostið í -21,2 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Mikinn snjó setti niður í lok kuldakastsins á norðurlandi en hann hvarf fljótlega eftir að hlýnaði. Og eftir þetta voru mikil hlýindi nema fáa daga seint í mánuðinum á norðanverðu landinu. Á Hólum í Hjaltadal fór hitinn í 14,2 stig þ. 18. Sama dag fór hitinn á Hæli í Hreppum i 13,4 stig sem er þar nóvembermet alveg frá 1929. Úrkoma var yfir meðallag á landinu. Í stórrigningum dagana 12.-13. urðu miklar skemmdir austanlands á svæðinu frá Borgarfirði eystra að Hornafirði. Snjólag var 24%, hvergi alveg autt, en snjódagar á suður og vesturlandi voru yfirleitt aðeins einn til fimm og yfirleitt minni en 15 fyrir norðan. Eins og 1941 var hæðasvæði yfir NA-Evrópu og Norðurlöndum en lægðir suður af Grænlandi.
Þann 10. fórst vélskipið Þráinn í austanroki fyrir Mýrdalssandi og með því níu manns.
1987 (3,9) Á Akureyri, Stykkishólmi og Vestfjörðum er þetta þriðji hlýjasti nóvember. Hlýtt var á stóru svæði á Atlantshafi eins og kortið sýnir en það er af fráviki hitans í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð. Úrkoma var í minna lagi og snjór var lítill, snjólagið var 13%. Víða var alauð jörð eða því sem næst frá austfjörðum suður og vestur um til Breiðafjarðar. Mjög hlýtt var fyrstu vikuna og varð hitinn 14,6 stig þ. 5. á Seyðisfirði. Stutt kuldakast kom um miðjan mánuð og í byrjun síðustu vikunnar og varð kaldast -12,6 stig þ. 23. í Möðrudal. Nokkur leiðindaveður gengu yfir og þ. 19. urðu talsverðir skaðar á austurlandi í norðanskoti. Á eftir þessum mánuði kom fimmti hlýjasti desember.
1993 (3,8) Þetta er kannski allra úrkomusamasti nóvembermánuðurinn, a.m.k. ef miðað er við þær stöðvar sem lengst hafa athugað. Og alveg sérstaklega er þetta úrkomusamasti nóvember á vesturandi. Í Reykjavík er þetta ekki aðeins úrkomusamasti nóvember heldur úskomusamasti mánuður ársins sem þar hefur komið. Og þar kom eitthvað úr loftinu alla dagana! Svipaða úrkomusögu er að segja um nokkrar stöðvar á suður-og vesturlandi. Bæði í Stykkishólmi og á Teigarhorni er þetta næst úrkomusamasti nóvember. Mest mánaðarúrkoma var 702,1 mm á Grundarfirði. Um miðbik norðurlands og á norðusturhorninu var hins vegar lítil úrkoma. Loftvægi var með lægra móti, 9,8 hPa undir meðallagi, lægst á veðurstöð 989, 2 hPa á Galtarvita. Veðurfarið var talið mjög hagstætt á norður og norðausturlandi en úrkomu- og umhleypingasamt annars staðar. Þetta er einhver mesti sunnanáttamánuður í nóvember sem dæmi er um. Tiltölulega svalast var vestantil en hlýnaði eftir því sem austar dróg og mest var hitafrávikið inn til landsins á norðausturlandi. Sérlega hlýtt var líka á austfjörðum. Mesti meðalhiti á landinu var 6,4 stig á Seyðisfirði og er þetta hlýjasti nóvember sem þar hefur mælst, frá 1906 og á öllu austurlandi. Á Seyðisfirð var meðaltal hámarkshita 9,4 stig og er það mesta á veðurstöð hérlendis í nóvember. Í Grímsey er þetta einnig hlýjasti nóvember sem þar hefur mælst, 4,1 stig, og næst hlýjasti á Akureyri. Sólskin var eðlilega ekki mikið syðra og er þetta næst sólarminnsti nóvember í Reykjavík en á Akureyri skein sólin tiltöluleg mikið, svipað og 1968. Snjólag var 20% á landinu. Í Reykjavík var þó alhvítt í 9 daga sem var með því meira á landinu en sérlega snjólétt var á norðausturlandi þar sem víða var aldrei alhvítt og Dratthalastöðum á Úthéraði, Strandhöfn í Vopnafirði, Seyðisfirði og Dalatanga var alautt allan mánuðinn. Líkt og 1956 var þessi nóvember óvenju hlýr norður um allt íshafið en kaldur í Evrópu. Eins og þá var lægðagangur á Grænlandshafdi en hæð yfir Norðurlöndum og N-Evrópu en þó enn sterkari og enn kaldara var í Evrópu en 1956. Kortið sýnir frávik loftþrýsings á norðurhveli þennan mánuð í millibörum.
Þann fimmta biðu menn þess í ofvæni að geimverur birtust á Snæfellsnesi eins og mönnum hafði verið lofað af einhverjum speisuðum sjáendum. En verurnar gáfu aðdáendum sínum langt nef og létu ekki sjá sig.
1933 (3,7) Á sínum tíma var þetta hlýjasti nóvember sem komið hafði síðan 1857 en var þó líklega lítið eitt hlýrri en sá mánuður. Veðráttan var nokkuð óstöðug og votviðrasöm, einkum vestanands. En jörð var oftast alauð og klakalaus. Snjólag var aðeins 12% og alautt víðast hvar á suður og vesturlandi. Reyndar byrjaði mánuðurinn með hríðarveðri fyrir norðan og vægu frosti en strax þann þriðja var kominn 14 stiga hiti á Akureyri og á Vestfjörðum. Daginn eftir var mikið mistur á austurlandi og lítið skyggni og varð sums staðar sporrækt af sandfalli. Þá var norðvestan stormur eftir hlýja suðvestanátt og fórst þá vélbátur með fjórum mönnum og ýmsir aðrir skaðar urðu. Mikið suðvestanveður var á Vestfjörðum þann 17. en þá voru rokna hlýindi á norðausturlandi svo hitinn fór í 17,8 stig í Fagradal í Vopnafirði sem þá var nóvembermet á landinu er stóð til 1964. Morguninn eftir mældist sólarhringsúrkonan í Hveradölum 128,2 mm sem þá var nóvembersólarhringsmet á landinu. Mesti kuldi í mánuðinum varð aðeins -9,9 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 22. og er það hæsta skráð landslágmark í nokkrum nóvember. Meðalhiti mánaðarins þarna á Fjöllunum var 1,7 stig og hefur aldrei orðið jafn hár í nóvember en meðaltalið þar 1961-1990 var -3,2 stig. Mjög hlýtt var þrjá síðustu dagana á landinu, hámarkshiti 10-11 stig í Reykjavík og í kjölfarið kom þar næst hlýjasti desember en sá hlýjasti yfir allt landið. Hæðasvæði var yfir A-Evrópu og Norðurlöndum þennan mánuð en lægðasvæði vestur af Grænlandi. Hlýtt loft streymdi þarna á milli yfir landið. Hæð 500 hPa yfir landinu var mjög afbrigðilega há sem og hitinn þar uppi en kortið sýnir frávik hans frá meðallagi.
1960 (3,6) Nóvember þessi er sá snjóléttasti á landinu. Snjólag var aðeins 10%. Yfirleitt var snjólaust í byggð nema síðustu dagana. Á vesturlandi og suðurlandi var þó víðast hvar auð jörð alla daga. Þetta er þurrasti nóvember sem hér hefur verið fjallað um. Vatnsskortur var víða norðanlands og vestan. Aldrei hafa verið færri úrkomudagar í nóvember í Reykjavík, aðeins átta. Á austurlandi voru hins vegar þrálátar rigningar. Þó þessi mánuður teljist aðeins sá tíundi hlýjasti á landinu er hann hlýjasti nóvember sem mælst hefur á Ströndum, bæði á Hornbjargsvita og í Árneshreppi og sá þurrasti einnig á síðarnefnda stapnum. Var hann þar hlýrri í beinum tölum en í Reykjavík og miðað við meðallhita var mánuðurinn tiltölulega hlýjastur norðvestast á landinu. Á Suðureyri við Súgandafjörð var þetta til að mynda hlýjasti nóvember sem þar mældist 1923-1989, 4,8 stig. Þykktin yfir landinu, en hún ræður miklu um hitann, var mest á norðvestanverðu landinu en fór minnkandi til suðausturs. Mesti hiti í mánuðinum mældist á Galtarvita, 12,8 stig þ. 8. Þessi nóvember er einnig sögulegur fyrir það að vera þegar hann kom sólríkasti nóvember sem mælst hafði í Reykjavík en sólríkara varð svo 1996, þegar sólin skein hálfri stundu lengur, en sá mánuður var einn af köldustu nóvembermánuðum svo það er ekki saman að jafna um veðurgæðin. Tiltölulega svalt var í byrjun og enda mánaðarins en hlýindi þar á milli. Þann 28. gerði austan og suðaustan hvassviðri. Næstu dagana þar á undan höfðu verið stillur og hægviðri sem lauk með -16,3 stiga frosti á Sauðárkróki þ. 28. Þessi blíði mánuður var verðugur endir á samfelldum góðviðriskafla sem ríkt hafði víðast hvar á landinu síðan í mars.
Þann 8. var John F. Kennedy kosinn forseti Bandaríkjanna.
Fyrir 1866, sem hér er helsta viðmiðunarárið, eru líklega engir nóvembermánuðir sem ná því að skáka á landsvísu þeim tíu sem hér hafa verið taldir. Árið 1857 var meðalhitinn í Stykkishólmi 3,7 stig en 3,5 stig árið 1846. Seinna árið var meðalhitinn í Reykjavík 2,8 stig. Hlýjasti nóvember í Reykjavík árin 1820-1853 var hins vegar 1835, 2,8 stig og hafa þar einir 15 nóvembermánuðir verið hlýrri frá 1845. Árin 1846 og 1857 var einnig mælt á Akureyri en hitinn þar nálgaðist ekki að vera á borð við þá tíu hlýjustu sem hér hafa verið taldir. Þess má að lokum geta að meðalhitinn í nóvember 1876 var 4,7 stig í Reykjavík og er hann þar því fimmti hlýjasti nóvember allar götur frá 1820, svipaður og 1968, en hlýrri en 1941. Í Stykkishólmi gerði mánuðurinn ekki eins vel og mældist 3,2 stig. Af hita á Teigarhorni og í Grímey má svo ráða að mánuður þessi telst engan veginn til tíu hlýjustu nóvembermánaða á landinu.
Viðbót: Nóvember 2011. Þó öll kurl séu ekki komin til grafar með þann nóvember sem var að líða, sérstaklega eru upplysingar bágbornar frá Teigarhorni, er þó ljóst að hann er einn af hlýjustu nóvembermánuðum á landinu, mun sennilega vera í fimmta til sjötta sæti, svipaður og nóvember 1941. Hér má lesa um nóvember 2011.
Fyrra fylgiskjalið sýnir, eins og venjulega í þessum pistlum, hita og úrkomu öllum níu stöðvunum, en það seinna ýmislgt frá hinum hlýu mánuðum 1945,1956 og 1958.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkar: Bloggar, Veðurfar | Breytt 11.12.2011 kl. 16:50 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Það er merkilegt að í kjölfar fimm af þessum tíu hlýjustu nóvembermánuðum koma desembermánuðir sem eru einnig meðal hinna hlýjustu. Þar er aldeilis fylgni, ólíkt því sem á stundum við um slík mánaðapör!
Birnuson, 17.11.2011 kl. 00:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.