Sólríkir maímánuðir

Maí er  sólríkasti mánuður ársins í Reykjavík ef tekið er meðaltal allra mánaða frá 1923 þegar sólskinsmælingar hófust þar, en reyndar var fyrst mælt á Vífilsstöðum frá 1911. Meðaltalið er 191 klukkustund eða til jafnaðar 6,1 stund á dag. Á tímabilinu 1961-1990 var maí einnig sólríkasti mánuðurinn en 1931-1960 var það júní eins og manni finnst nú eiginlega eðlilegast. En kannski er þetta ekki svo einkennilegt því þó  sólin hafi mestan tíma til að láta ljós sitt skína í júní hefur maí mestan loftþrýsting allra mánaða á Íslandi að meðaltali. Hann var 1012,4 hPa árin 1961-1990 í Reykjavík. Af tíu sólríkustu maímánuðum þar var meðalþrýstingur þeirra allra hærri en þetta í öllum nema tveimur, 2003  og 2009.    

Sólríkasti maí í höfuðborgini var 1958 en þá skein sólin í 330 klukkustundir. Þetta var þó kaldur mánuður. Tuttugu daga náði sólin að skína í 10 stundir eða meira og enginn mánuður ársins hefur náð því nema júní 1928. Og aðeins sá mánuður hefur verið sólríkari (338 klst). Úrkoman 1958 var einungis 9,2 mm í Reykjavík og féll á þremur dögum. Mun þetta vera annar af tveimur þurrustu maímánuðum á landinu. Snjóhula á landinu var 18% en var13% að jafnaði árin 1961-1990.

Næst sólríkastur maí í höfuðstaðnum er maí 2005 með 318 stundir. Hann var líka fremur kaldur og mjög þurr. Á Hólum í Hornafirði er þetta ekki aðeins sólríkasti maí sem þar hefur mælst heldur sólarmesti mánuður ársins frá því mælingar hóust (1958) og sá eini sem náð hefur 300 klukkustundum en nær voru 323. Sólríkt var líka á Akureyri þar sem þetta er fjórði sólríkasti maí með 246 sólarstundir. Erfitt er að átta sig á því eða ómögulegt í hvaða mánuðum mest sól hefur skinið á landinu öllu vegna þess að sólskin hefur verið mælt á svo fáum stöðum og ekki samfellt allan tímann á þeim stöðvum sem einhvern tíma hafa mælt. En ef ég ætti til gamans að velja einn maí sem sólkonung landsins yrði það þessi mánuður. Hann er líka einn af allra þurrustu maímánuðum á landinu, er einhvers staðar á miðjum topp tíu listanum yfir þurrustu maimánuði. Hitinn á landinu var 0,4 stig undir meðaltalinu 1961-1990.

Þriðji sólríkasti maí í Reykjavík er svo 1967 en þá voru sólarstundirnar 317. Uppi á Hveravöllum (1966-2004) mældist aldrei jafn sólríkur maí, 293 stundir. Þetta var ískaldur mánuður, 1,3 stig undir meðallagi en snjólagið var þó ekki meira en 15%. Úrkoman á þeim fáu stöðvum sem allra lengst hafa argugað var rúmlega helmingur af meðallúrkomunni  1931-2000. Næsti maí, 1968, var alveg sá sami að hita en er sá áttundi sólríkasti í borginni. Þetta var á hafísárunum. Framan af mánuðinum var mikið bjartviðri víðast hvar en ótrúlega kalt. Á Raufarhöfn fór hitinn ekki yfir frostmarkið fyrr en þann 12., oftast í glaðasólskini, og á Akureyri mældist mesta frost þar í maí, -10,4 stig. Þar var þessi andstyggilegi mánuður þó ekki aðeins sólríkasti maí sem hefur mælst frá 1928, 291 klukkustund, heldur sólríkasti mánuður árins sem hefur mælst á Akureyri og ekki hafa mælst sólríkari maímánuðir á Melrakkasléttu (1958-1999), 248 studnir, og á Hallormsstað. Þar voru sólarstundirnar 312 og er þetta eini mánuður ársins þar þegar sólskinsstundir fóru í 300 stundir eða meira (1953-1989). Loftþrýstingur var þennan mánuð sá mesti af öllum tíu sólríkustu maímánuðinum, 1020,3 hPa í Reykjavík. Hann hefur ekki verið meiri í maí frá stofnun Veðurstofunnar, 1920, nema í allra hlýjasta maí á landinu, 1935, en þá var hann 1022,4 hPa í Reykjavík, 1928 og 1975, en síðast taldi mánuðurinn er þriðji ólríkasti maí á Akureyri og ekki bara sólríkasti maí sem mælst hefur á Sámsstöðum í Fljótshlíð (frá 1963), 294 klst, heldur sólríkasti mánuður ársins sem þar hefur mælst. Snjólagið var alsvert meira en 1967, 22% en úrkoman var örlítið meiri en 1967. Maí 1969 var líka vel sólríkur mánuður um land allt og kom virkilega á óvart með að ná 306,5 klst á Reykhólum og var eini mánuðurinn í árinu öllu sem þar rauf 300 stunda múrinn meðan mælt var (1958-1987). 

Maí 1924 er sjötti sólríkasti maí í Reykjavík með, 285 klukkustundir en var afar kaldur, 1,9 stig undir meðallagi.  Hámarkshiti í höfuðstaðnum var einhver sá lægsti sem um getur í maí, 12,2 stig. Þetta ár var í heild afskaplega sólríkt, reyndar það sólarmesta sem mælst hefur í Reykjavík, en ekki hlýtt að sama skapi. Einnig var vorið það sólríkasta í borginni. Snjóhula var mikil,30% og hefur í maí aðeins verið meiri 1949 og 1979.  Úrkoman var aðeins um 80% af meðallaginu.

Maí 1979, er tíundi í röðinni hvað sólskin varðar í höfuðborginni með 277 klst. Varla á hann þó hrós skilið því hann er kaldasti maí sem nokkru sinni hefur mælst á landinu, fyrir utan kannski maí 1866,meira en fjpur stig undir meðallagi. Það er óneitanlega nokkuð öfugsnúið að kaldasti eða næst kaldasti maí á landinu skuli komast inn á lista yfir tíu sólarmestu maímánuði í Reykjavík. Snjóhulan var sú næst mesta í maí, 36% en úrkoman náði ekki helmingi af meðallaginu. 

Maí 1955, þegar kom eitthvert mesta kuldakast í miðjum maí sem um getur og mesta frost á láglendi í maí, -16,6 stig í Miðfirði, er ellefti sólríkasti maí í Reykjavík. Það má kalla eins konar sárabót fyrir það að sumarið reyndist eitthvert alræmdasta rigningarsumar sem komið hefur sunnanlands og sólarlitið eftir því. Fyrir norðan var þá einstök gæðatíð.  

Allir þeir mánuðir sem hér hafa verið nefndir voru taldir veðurfarslega óhagstæðir vegna kulda og þurrka.

Já, því miður eru sólríkir maímánuðir oftast nær kaldir í Reykjavík og annars staðar. Þar eru norðlægar áttir sólríkustu veðuráttirnar og  í maí eru þær oftast nær kaldar og ekki búnar að fá þann sumarblæ sem þó getur stundum einkennt þær á suðurlandi um hásumarið í sólríkum mánuðum.   

En það er sem betur fer ekki einhlítt að mjög sólríkir maímánuðir séu kaldir í Reykjavík.

Maí 2009 er þar í áttunda sæti yfir sólríkustu maímánuði með 282 stundir. Hann var vel hlýr, 7,3 stig á landinu og er hlýjasti mánuðurinn meðal hinna tíu sólríkustu maímánaða í Reykjavík. Það merkilega er að hann var einnig mjög úrkomusamur víða og óvenjulega vindasamur í Reykjavík. 165% 

Árið 2003 skein sólin á borgarbúa í 283 klst, og meðalhitinn náði núgildandi meðallagi. Hann er í sjöunda sæti yfir sólríkustu maímánuði í Reykjavík, um 65% fram yfir meðallag. Hitinn á landinu var 0,2 stig yfir meðallagi.

Maí árið 2012 skaust upp í fimmta sæti yfir sólríkustu maímánuði í Reykjavík með 296 sólskinsstundir. Hitinn var um 0,1 stig meiri á landinu en 2003. Á Akureyri er þetta næst sólríkasti maí með 287,4 sólskinsstundir. Hitinn var 0,3 stig yfir meðallagi á landinu, í meðallagi í Reykajvík en tiltölulega hlýjast á vesturland og á hálendinu. Hlýtt var í blábyrjun mánaðarins og svo síðustu vikuna en annars var kuldatíð. Úrkoman var 60% af meðallaginu.     

Maí 1931 er sá þurrasti sem mælst hefur í borginni, 0,3 mm en úrkomudagarnir voru aðeins tveir og hafa aldrei verið færri. Þetta er jafnframt þurrasti maí á landinu í heild. Á þremur veðurstöðvum mældist alls engin úrkoma, Hanneyri, Akureyri og í Grímsey. Í Reykjavik er þetta fjórði sólríkasti maí, 298 stundir, og meðalhitinn var þar alveg sósamasamlegur, 7,0 stig, 0,7 stig yfir núverandi meðallagi. En auðvitað voru þurrkarnir til baga. Snjóhula var 10%.

Á Akureyri er 2005 sjá fjórði sólríkasti með 246,4 sólarstundir. Þetta er einn af allra þurrustu maímánuðum. Fremur kalt var og hitinn um hálf stig undir meðallagi. Snjóhula var  6%

Fimmti er maí 1928  með 244,6 sólskinsstundir. Sjnór var mjög lítil, snjóhula aðeins 2% og hefur aðeins verið minni í maí árin 1974, 1935 og 1941. Það var afskaplega þurrt en líklega nær mánuðurinn ekki alveg inn á topp tíu listann. Mánuðurinn var mjög hlýr og var meðalhitinn yfir átta stigum bæði í Reykjavik og á Akureyri og nær tvö og hálft stig yfir meðallagi á landinu og er þetta fjórði hlýjasti maí. 

Maí 1933  var þó enn hlýrri. Í Reykajvík var hitinn svipaður og 1928 en á Akureyri er þetta hlýjasti maí sem mælst hefur 9,5 stig sem er ágætis júníhiti en á landinu er þetta fimmti hlýjasti maí. Og þetta er sjötti sólríkasti maí á Akureyri með 240,8 sólskinsstundir. Varla er þó hægt að segja að þetta hafi verið mikill gróðrarmánuðir á Akureyri því úrkoman var ekki mælanleg en tvo daga varð úrkomu samt vart þó ekki hafi hún næst. Úrkoman var þó í meira lagi á landinu og mest á suðasturlandi en suðaustlæg átt var algengust vindátta. Snjólag var einungs 5%

Tveir sólríkir maímánuðir komu í röð á Akureyri árin 1987 og 1988.  

Maí 1987  er sá sjöundi með 232  sólastundir. Alls staðar var sólríkt og sérstaklega  síðasta hluta mánaðarins. Mánuðurinn byrjaði vægast sagt illa í höfuðborginni og að morgni þess fyrsta mældist mesta snjódýpt sem þar hefur mælst í maí, 17 cm. en mikið hafði snjóað um nóttina. Hitinn í mánuðinum á landinu varð þó heilt stig fyrir meðallagi, hlýtt á norðausturlandi en kringum meðallag á suðvesturklandi. Úrkoman var aðens um 65% af meðallaginu og snjóhulan 7%.

Mái 1988 er sá níundi sólríkasti á Akureyri með 220,5, stundir. Að þessu sinni var hlýrra á vestanverðu landinu en fyrir norðan og um miðjan mánuð komu einhverjir hlýjustu dagar sem komið hana í maí á Reykjvíkursvæðinu. Á landinu var hitinn um 1,7 stig yfir meðallagi. Úrkoman var miklu mieir en 1987, um 50% fram yfir meðallag en snjólag var líka meira, 12% sem er nákvæmlega í meðallagi.    

Áttundi sólríkasti maí á Akureyri er 1946 með 231 sólskinsstund. Þetta er einn af þurrustu maímánuðum, svipaður 1928 að því leyti en þó ívið þurrari. Á Húsavík mældist alls enginn úroma. Snjólag var eitt af því minnsta í nokkrum maí, 2% eins og 1928. Og þetta er að mínu tali þriðji hlýjasti maí á landinu.

Tíundi sólríkasti maí á Akureyri er svo 1980 með 219,5 sólskinsstundir.Tólf daga voru með fleiri sólskinsstundir en tíu. Þann 22. skein sólin 12,7 stundir og þá mældist mesti hiti sem mælst hefur á Akureyri í maí,24,6 stig. Góður dagur það! Sólarlítið var syðra í mánuðinum og hiti kringum meðallag en vel hlýtt fyrir norðan en hitinn á landinu var um 1,3 stig yfir meðallagi. Snjólag var mjög lítið, 4% en þó meira en venjulega á suðurlandsundirlendi.   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband