Ekki mjög kaldur september en úrkomusamur

Þrátt fyrir óveðrið   mikla sem kom í þessum mánuði ætlar hann ekki að koma sérlega illa út hvað hitann snertir. Æði margir septembermánuðir hafa þar slegið honum við. Meðalhitinn í Reykjavík er nú næstum því kominn upp í meðallagið 1961-1990. Ekki mun þó hlýna á lokasprettinum en fremur kólna og verður meðalhitinn lítið eitt undir meðalhita þessa tímabils en langt undir meðallagi áranna 1931-1960 og sömuleiðis meðalhita september það sem af er þessari öld.

Á Akureyri er hitinn nú hálft stig undir meðallaginu 1961-1990. Þar er mánuðurinn þegar orðinn næst úrkomsamasti september sem þar hefur mælst. Gaman væri nú að hann slægi metið sem er 166 mm frá árinu 1946. Víðast hvar er úrkoman þegar komin yfir meðallag, þar með talið í Reykjavík en hvergi þó jafn tryllingslega sem á Akureyri þar sem hún er orðin talsvert meira en þreföld.  

Snjóalög í þessum september verða eflaust með því meira eða mesta á norðurlandi eftir árstíma.

Nú er komin sjálfvirk veðurstöð á Grímsstöðum á Fjöllum á vegum Veðurstofunnar en þar hafa verið mannaðar athuganir samfellt frá því 1907. Ætli sé ekki tímaspursmál hve nær mannaðar athuganir leggjast þarna af. Ekki  hvarflar víst að landleigurum að fá þennan Nubo til að fjármagna mannaða veðurstöð sem athugaði allan sólarhringinn. Hvað þá gera það að skilyrði fyrir leigu jarðarinnar til hans. Hann mundi ekki finna fyrir þessu fjárhagslega.

En það er auðvitað til of mikil mælst að þeir sem sjá um þetta hafi minnsta skilning eða áhuga á veðurathugunum eða veðurfarslegum rannsóknum. 

 

   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband