Sólarlítið skammdegi

Skammdegið ríkir að mínum skilningi frá því snemma í nóvember og út janúar. Miðað er við að þá sé sól á lofti minna en einn þriðja af sólarhringnum, sem sé minna en 8 klukkustundir. Af þessum mánuðum er sólskin vitaskuld minnst að jafnaði í desember en síðan janúar en nóvember er sólríkastur þessara mánaða.

Vegna þess hve sólin er lítil í skammdeginu eru allir þessir mánuðir teknir hér saman í bloggpistlaröðinni um sólríka og sólarlitla mánuði og efnið allt ágripskenndara en í fyrri pistlum.

Og við byrjum á sólarminnsta mánuðinum. Sólarminnsti desember í höfuðstaðnum er 1943 þegar sólin skein í 0,7 stundir eða um það bil 40 mínútur. Meðaltal sólskinsstunda í Reykjavík í desember 1961-1990 eru 12,1 klukkustund. Næstur er desember 1945 þegar sólarstundirnar voru 0,1 fleiri. Báðir voru mánuðirnir vel hlýir og snjóléttir  en sá fyrrnefndi þó heilu stigi hlýrri en sá síðarnefndi, um það bil tvö og hálft stig yfir meðallaginu 1961-1900. Árið 1943 var úrkoman nærri því helmingi meiri en meðaltalið 1931-2000 en árið 1945 aftur á móti rúmlega helmingur af henni á þeim fáu veðurstöðvum sem allra lengst hafa athugað.

Næstir koma desember 1974 og 1991 sem báðir mældu slétta eina klukkustund af sólskini. Hitinn í þeim síðarnefnda var sá sami og 1945 en sá fyrrnefndi var ískaldur, tveimur stigum undir meðallagi á landinu. Hann er einn af allra snjóþyngstu desembermánuðum og er reyndar minnisstæðastur fyrir snjóflóðið mikla þ. 20. á Neskaupstað þegar tólf fórust.  Snjólagið var 86% (mest 87% í desember 2012). Jafnir í fimma og sjötta sæti eru desember 2004 og 1956 með 1,3 stundir. Desember 1956 er tíundi hlýjasti desember á landinu eftir mínum kokkabókum. Enn hlýrri var þó jólamánuðurinn 1987 þegar sólarstundir mældust í eina og hálfa klukkustund og er hann fimmti hlýjasti desember á landinu í sögu mælinga en sá sjöundi  sólarminnsti í höfuðborginni. Þennan mánuð mældist minnsta desembersól nokkru sinni á Sámsstöðum í Fljótshlíð þegar sólin skein í 2,1 klukkustund.   

Desember 1947, 1930 og 1914 eru svo í sætum nr. 8-10 að sólskinsleysi í Reykjavík. 

Það ber að hafa í huga að þegar sólskin er svona takmarkað, næstum því ekkert, í svartasta skammdeginu og mælitæki hafa verið flutt til á mælitímabilinu er svo sem ekki hægt að leggja mikið upp úr innbyrðis röð þessara mánaða en ljóst er að sólinni hefur ekki verið fyrir að fara. 

Sólarlitlir jólamánuðir á Akureyri eru fljótt afgreiddir því þar hefur ekki mælst nein sól í 53 mánuðum af þeim 88 sem sólskin hefur verið mælt en meðaltalið 1961-1990 er talið vera 0,1 sólskinsstund en 0,4 árin 1931-1960. Á Hallormsstað og Melrakkasléttu, þar sem lengi var mælt sólskin, er einnig oftast alveg sólarlaust í desember. Á Hólum í Hornafirði (frá 1957) og Hveravöllum (1966-2003) er desember 1992 sá eini þegar þar mældist ekkert sólskin.  

Það er ekki desembermánuður sem er allra sólarminnsti mánuður sem nokkru sinni hefur mælst í Reykjavík heldur er það janúar 1992 en þá mældust sólskinsstundirnar 0,3 eða um 20 mínútur. Meðaltalið 1961-1990 er 21 klukkustund. Ekki hefur mælst minni sól á Sámsstöðum í janúar, 2,5 stundir, en á Reykjum við Hveragerði  voru sólskinsstundirnar aðeins 0,7.  Þetta er einnig sólarminnsti janúar á Hveravöllum (1967-2004), 0,3 klukkustundir. Engin sól mældist við Mývatn. Á Akureyri voru sólarstundirnar þrjár í þessum mánuði sem er raunar ekki síst merkilegur fyrir það að þá mældist mesti hiti sem mælst hefur á landinu í janúar en hitinn komst í 18,8 stig á Dalatanga þann 15. og sama dag mældist mesti janúarhitinn á Akureyri, 17,5 stig. Einnig mældist mesta sólarhringsúrkoma sem þá hafði mælst á landinu 141,2 mm á Skógum undir Eyjafjöllum þann 13. en það met hefur síðan verið slegið. Þá var þetta níundi hlýjasti janúar á landinu eftir mínum skilningi.

Engin sól mældist á Akureyri í janúar 1993 og heldur ekki á Melrakkasléttu. Meðaltalið á Akureyri 1961-1990 er 7 klukkustundir. Á Hólum í Hornfirði er þetta einnig sólarminnsti janúar, 2,3 klukkustundir og á Sámsstöðum, 2,6 stundir. Á þeim stöðum þar sem sólskin hefur verið mælt hefur það að meðaltali verð mest á Sámsstöðum í janúar og desember. Mánuðurinn var hlýr og er einn af þremur úrkomumestu janúarmánuðum á landinu og þá mældist minnsti loftþrýstingur nokkru sinni í þeim mánuði, 923,9 hPa í Vestmannaeyjum þann þriðja Þetta er reyndar 6. sólarminnsti janúar í höfuðborginni, 2,9 stundir. Næstir koma á Akureyri  janúar  1943 og 1993 með 0,2 sólskinsstundir og voru þeir báðir kaldir.

Árið 1921 kom annar sólarminnsti janúar í höfuðstaðnum en þá skein sólin í hálftíma. Þá var kalt og umhleypingasamt og snjóþungt á suðvesturlandi. Í Reykjavík skein sólin í tvær stundir í janúar 1916 og 1989. Báðir voru þessir mánuðir í hlýrra lagi en mjög úrkomusamir, einkum 1989 sem ég tel næst úrkomusamasta janúar. Mög kaldur  janúar árið 1983 er sá sjötti sólarminnsti í Reykjavík með 2,6 stundir.

Sæti númer 7-10 í sólarleysi eru skipaðir 1923, 1914, 1925 og 1993. Í þeim síðasttalda, tíunda sólarminnsta janúar í Reykjavík, skein sólin þar í fimm stundir en eins og áður hefur komið fram er þetta næst sólarminnsti janúar á Akureyri. Þetta voru illviðrasamir mánuður. Mjög kalt var 1923 en hinir voru hlýir.

Árið 1932 mældist sólin á Akureyri í hálftíma og er það fjórði sólarminnsti janúar en 0,8 stundir mældust árin 1952 og 1977. Í þeim fyrra kom eitthvert mesta útsynningsveður sem vitað er um hér á landi, dagana 5.-7. Sá hlýi janúar 1929, hluti af hlýjasta vetri á landinu, er svo sjöundi sólarminnsti á Akureyri með 0,9 sólarstundir en janúar 1990, 2007, 1986 og 2003 koma þar í 8.-11. sæti. Svo minnst sé á öfgar má geta þess að febrúar 1986 er sá sólríkasti sem mælst hefur á Akureyri.

Nóvember er að jafnaði sólríkasti skammdegismánuðurinn og reyndar fellur fyrsti þriðjungur hans utan við skammdegið eins og ég skilgreini það. Meðaltal sólskinsstunda í þeim mánuði 1961-1990 eru 38,6 klukkustundir í Reykjavík en 12,6  á Akureyri.   

Sólarminnsti nóvember í Reykjavík er 1956 en þá voru sólarstundirnar 4,7. Þetta er þriðji hlýjasti nóvember á landinu og sá allra hlýjasti á Akureyri. Þessi drungalegi mánuður, einn af fimm úrkomusömustu nóvembermánuðum á landinu og sá þriðji úrkomusamasti í Reykjavík, er annars mörgum minnisstæður fyrir það að þá stóð yfir uppreisnin í Ungverjalandi og Súezstríðið og síðast en ekki síst krækti Vilhjálmur Einarsson í silfrið á ólympíuleikunum i Melbourne. Nóvember árið áður, 1955, var einnig mildur og hann er sá fimmti  sólarminnsti í Reykjavík  með 12 stundir en þriðji sólarminnsti á Akureyri með 4 klukkustundir. Næst sólarminnsti nóvember í höfuðborginni er 1993 með 5,7 stundir og sá þriðji er  1942 með 6,4  stundir. Síðartaldi mánuðurinn var illviðrasamur suðvestanáttamánuður  en var mjög þurr á norðausturlandi. Á Bjarnarstöðum í Bárðardal mældist alls engin úrkoma sem er einsdæmi á íslenskri veðurstöð í nóvember.   

Sá veðurfarslega sögufrægi nóvember 1945 er sá fjórði sólarminnsti  í höfuðstaðnum með 11 sólskinsstundir. En þetta er hlýjasti nóvember sem mælst hefur á landinu í heild og fjölmörgum einstökum veðurstöðum, þeirra á meðal Reykjavík, Stykkishólmi,og Vestmannaeyjum. 

Sólarminnsti nóvember á Akureyri er aftur á móti sá kaldi nóvember 1963 en þá voru sólskinsstundirnar 3,2. Um miðjan mánuð hófst gosið í Surtsey. Næstur kemur hlýr nóvember 1997 með 3 stundir,  fjórði er 1991 með 4 stundir (sólarminnsti á Melrakkasléttu, 0,5 klst) en þá var hitinn í kringum meðallag og sá fimmti er hlýr nóvember 1976 og komst hitinn þá  í 17,7 stig á Reyðará þann 19.

Sjötti sólarminnsti nóvember í Reykjavík er 1992 með 16 stunda sólskin en sá sjöundi er 1953 með 16 klukkustundir af sól. Áttundi er svo  nóvember 1964 með 17 stundir. Hitinn  í þeim mánuði komst þann annan  í 18,6 stig á Dalatanga og daginn eftir í 17,6 á Akureyri sem mun vera mesti hiti þar í nóvember sem mælst hefur en einhver vafi er víst um áreiðanleikann. Nóvember 1943 er svo í níunda sæti í sólarleysi í Reykjavík  með 16,9 sólskinsstundir.

Svo vill til að sólríkasti nóvember á Akureyri, 1937 (31 klst), er jafnframt sá tíundi sólarminnsti í Reykjavík með 17,3 sólskinsstundir. Veður voru hagstæð og hlý. Fjallað verður um sólríka skammdegismánuði hér á síðunni bráðlega. 

Á Akureyri er sjötti sólarminnsti nóvember 2008 með 6,6 stundir en nóvember 1947 sá sjöundi með 6,7 klukkustundir. Nóvember 1931,  sem er sá 8. sólarminnsti á Akureyri, er vel inni á topp tíu listanum fyrir mikla úrkomu á landinu og hann skartar lægsta mánaðarþrýstingi allra nóvembermánaða. Á veðurstöð var hann lægstur í Grindavík 985,1 hPa en hæstur 990,9  hPa á Teigarhorni en í Reykjavík var hann 985, 8 hPa.

Nóvember 1973 sem er sá 9. sólarminnsti á Akureyri með 7,3 stundir, er annar af tveimur köldustu nóvembermánuðum á landinu frá 1866 (ásamt 1869). Þá mældist og mesta frost sem mælst hefur á láglendi í nóvember, -27,1  stig, þann 24. á Staðarhóli en þar var meðalhiti mánaðarins -7,0 stig.  Tíundi sólarminnsti nóvember á Akureyri er loks 1959 en þá mældist sólskin í 7,6 klukkustundir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki undarlegt að íslendingar bryðji róandi,svefnlyf, örvandi, deyfandi og allt sem nöfnum tjáir að nefna til að halda sér frá raunveruleikanum sem þú skrifar hér í pistli þínum. Pisill þinn er mjög fræðandi og sýnir að íslendingar eru á mörkum hins byggilega heims, sem reyndar margir hafa bent á. T.d. veðurhæð í mannabyggð þekkist víst hvergi í því magni sem hún er hér á Íslandi. Svo bætist ofaná þetta sú óáran sem þjakar þjóðina ekki minna. Það er eignaupptaka síðari ára. Guð átti að blessa Ísland, en ég held að það sé land sem guð gleymdi. því miður. Kveðja.

jóhanna (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband