26.2.2013 | 18:56
Mest sólskin í febrúar
Febrúar er ekki skammdegismánuður eftir mínum skilningi en þá miða ég við að sólin sé á lofti minna en einn þriðja af sólarhringnum. Febrúar er aftur á móti að meðaltali sólarminnsti mánuður ársins sem ekki er skammdegismánuður og hann er vitaskuld hávetrarmánuður.
Meðaltal sólskinsstunda í febrúar voru 52 í Reykjavík árin 1961-1990.
Sólríkasti febrúar í höfuðborginni er 1947 en þá skein sólin í 159 stundir og er þetta jafnframt sólríkasti febrúar sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð. Hann kom í kjölfar hlýjasta janúar á landinu á tuttugustu öld en bæði febrúar og mars voru síðan mjög kaldir en afar sólríkir. Settu þeir báðir sólskinsmet í Reykjavík. Loftþrýstingur á landinu var sá þriðji hæsti í febrúar. Þessi mánuður var einhver sá kaldasti og snjóþyngsti sem um getur í Evrópu. Hér var hann reyndar líka í kaldara lagi, um tvö stig undir meðallaginu 1961-1990 þeirra stöðva sem lengst hafa athugað og hér er miðað við og hann var mjög þurr, vel undir helmingi af meðalúrkomunni 1931-2000, sem hér er miðað við með úrkomu á þeim stöðvum er lengst hafa athugað hana. Kemst mánuðurinn vel inn á topp tíu listann yfir þurrustu febrúarmánuði. Í Stykkishólmi er þetta þriðji þurrasti febrúar, 6,1 mm. Í þessum sólskinspistlum er landsúrkoman ekki nákvæmlega útreiknuð en tilgreind svona nokkurn veginn og lauslega metið hver statusinn á henni var miðað við aðra mánuði og aðeins gert til menn hafi einhverja hugmynd um hvernig viðkomandi mánuður var hvað úrkomuna snertir. En sólskinið er hér aðal atriðið. Þann þriðja mældist mesta frost sem mælst hefur í Ameríku, -63 stig í Snag í Yukonhéraði í Kanada. Þann 17. kom fyrsti nýsköpunartogarinn til landsins, Ingólfur Arnarson.
Febrúar 1936 var svipaður að hita og 1947 en hann er sá annar sólríkasti í Reykjavík með 130 sólarstundir. Úrkoman var um þrír fjórðu af meðallaginu. Báðir voru þessir mánuðir norðaustanáttalegir en hægviðrasamt og snjólétt var sunnan lands. Nasisminn stóð sem hæst í Þýskalandi en þ. 26. hófst þar framleiðsla Volkswagenbílanna. Þriðji er 2007 með 126 sólskinsstundir. Bæði úrkoma og hiti á landinu var í kringum meðallag. Mjög snjólétt var víðast hvar.
Árið 1966 var febrúar erfiður og þó einkum norðanlands þar sem var mjög snjóþungt. Afar þurrt var hins vegar víða sunnan lands og vestan. En í Reykjavík er hann sá fjórði sólarmesti með 118 sólarstundir. Þar hefur heldur ekki mælst þurrari febrúar, aðeins 4,9 mm. Sömu sögu er að segja um ýmsar stöðvar á suður og vesturlandi, svo sem Stóra Botn í Hvalfirði, 0,1 mm, Reykhóla 0,1 mm, Sámsstaði í Fljótshlíð 11,0 mm en þar er þetta sólríkasti febrúar sem mælst hefur, 98,2 klukkustundir, Vestmannaeyjar, 26 mm, Kirkjubæjarklaustur, 3,9 mm, Kvígindisdal 3,9 mm, Lambavatn 4,3 mm, Kvísker 45,7 mm og Vík 24,2 mm. Óvenjulega þurrt var einnig í Strandasýslu, aðeins 9,8 mm á Kjörvogi. Hitinn á landinu var svipaður og 1947 og 1936.
Úrkoman í febrúar 1955 var álíka og 1947 en hann var lítið eitt kaldari en er fimmti sólríkasti febrúar í Reykjavík með 110 sólskinsstundir. Hann var víða bjartur og á Akureyri er hann næst sólríkasti febrúar með 77 klukkustundir af sól og var þar sólríkasti febrúar þegar hann kom. Á svæðinu nyrst á Tröllaskaga hefur ekki mælst þurrari febrúar. Snjólétt var á suðvesturlandi.Það var í þessum mánuði sem fríkaði 15 stiga hitinn mældist í Vík í Mýrdal. Í lok mánaðarins hófst jarðskjálftahrina í Axarfirði.
Árið 2002 var febrúar með 108 sólskinsstundir og er sá sjötti sólríkasti. Hitinn á landinu var næstum því þrjú stig undir meðallagi og er þetta kaldasti febrúarmánuðurinn meðal hinna tíu sólríkustu í Reykjavík. Þurrt var sunnalands en úrkomusamt fyrir norðan.
Febrúar 1941 er sá sjöundi sólríkasti í Reykjavík með 104 stundir. Hitinn var rúm tvö stig undir meðallagi en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu. Lítil úrkoma var sunnan lands og vestan en meiri norðanlands og austan og þar voru fannkomur miklar í seinni helmingi mánaðarins. Snjóflóð féllu og fórst einn maður í Mjóafirði þegar snjóhengja brast. Síðasta daginn gerði suðaustan ofviðri og fórst þá togarinn Gullfoss með 19 mönnum og vélbáturinn Hjörtur Pjetursson frá Hafnarfirði með sex mönnum. Nokkur erlend skip rak á land hér og hvar, þar af tvö í Reykjavík, og marga vélbáta en enginn fórst.
Í febrúar 1971 voru 101 sólskinsstund í Reykjavík og er hann þar með sá 8. sólarmesti en janúar á undan honum er sólríkasti janúar í Reykjavík. Febrúar þessi var mildur en umhleypingasamur og er hlýjasti febrúarmánuðurinn af þeim tíu sólríkustu í Reykjavík. Meðalhiti þeirra stöðva sem lengst hafa athugað var þó ekki meira en nákvæmlega 0 stig og er það rétt yfir meðallagi. Úrkoman var hins vegar vel yfir meðallagi. Allmikill hafís var við landið og sást ísbjörn á ísnum við Skaga. Síðasta daginn gerði suðaustan fárviðri eins og 1941 og fengu þrír Eyjabátar á sig brotsjói en enginn mannskaði varð.
Níundi sólríkasti febrúar í Reykjavík er 1977 en þá skein sólin í hundrað klukkustundir. Tíðarfarið var talið með eindæmum gott fyrir hægviðri nema í innsveitum á norðausturlandi. Ekki mældist sólríkari febrúar á Reykhólum 105,5 stundir þau árin sem mælt var, 1958-1989, né á Reykjum við Hveragerði 1973-2000, 100,8 stundir og ekki heldur á Hveravöllum 1966-2004, 105,3 klukkustundir. Sólríkt var því alls staðar og svo þurrt var að mánuðurinn er líklega á miðjum topp tíu listanum yfir þurrustu febrúarmánuði á landinu. Aldrei hefur mælst eins lítil úrkoma í Stykkishólmi, 1,0 mm, frá upphafi mælinga 1857. Á Barkarstöðum í Miðfirði og Forsæludal varð úrkomu vart en hún var þó ekki mælanleg og hafa engar veðurstöðvar skráð eins litla úrkomu í nokkrum febrúarmánuði. Á virkjunni við Andakíl mældist úrkoma minni en í öðrum febrúarmánuðum, 2,2 mm og aðeins 0,2 mm í Síðumúla í Borgarfirði og 0,1 í Brekku i Norðuráral. Á suður og vesturlandi voru úrkomudagar nær alls staðar færri en fimm og allvíða aðeins einn til tveir.
Tíundi sólarmesti febrúar í Reykjavík er 1957 með 98 stundir. Sólinni var þá æði misskipt því mánuðurinn er sólarminnsti febrúar á Akureyri þar sem sólin skein í 10,5 stundir. Hitinn var um hálft stig undir meðallagi á landinu og úrkoman var um helmingur af því. Þetta er sá febrúar sem mest hefur snjólag í Reykjavík en þar var alhvítt allan mánuðinn. Og er það eini mánuður ársins sem þar hefur verið talinn alhvítur. Í febrúar árið 2000 voru einnig 28 alhvítir dagar en þá var hlaupár og einn dagur var ekki alhvítur. Snjólag á landinu var hið fjórða mesta í febrúar, 90%. Mesti hiti á landinu varð aðeins 6 stig og hefur aðeins einu sinni mælst lægri í febrúar árið 1885, 4,6 stig. Í Möðrudal og við Mývatn hlánaði ekki allan mánuðinn.
Á Akureyri er febrúar 1986 sólríkastur með 88 klukkustundir af sólskini en meðaltalið 1961-1990 er 36 stundir. Mánuðurinn var einstaklega þurr á norðausturlandi. Úrkoman var innan við 1 mm á ellefu veðurstöðvum og voru þurrkamet fyrir febrúar sett svo að segja þar á öllum stöðvum þar um slóðir. Á Akureyri var hún 1,0 mm, á Grímsstöðum, 0,5 mm, 0,2 á Mýri í Bárðardal og Staðarhóli og 0,1 í Reykjahlíð við Mývatn. Mánuðurinn var hlýr, eitt stig yfir meðallagi. Snjóhula á landinu var aeins 35%.
Næst sólarmesti febrúar á Akureyri og sá þriðji voru 1955 og 1977 með 77 og 71,5 sólskinsstundir en þessara mánaða hefur áður verið getið hér að framan.
Fjórði sólarmesti febrúar á Akureyri er 1940. Fyrri hluti sá mánaðar var mildur og hagstæður en seinni hlutann brá til norðaustanáttar með talsverðri snjókomu norðan lands og austan og kuldatíð sem endaði með 25 stiga frosti á Grímsstöðum næst síðasta dag mánaðarins en þetta var á hlaupári. Hitinn var um hálft stig yfir meðallagi í mánuðinum en úrkoman var um þrír fjórðu af meðaltali en snjóhulan var 46%. Á Akureyri varð það sjaldgæfa slys þ.22. að klakaskriða féll af húsþaki á höfuð vegfaranda sem beið bana af. Þremur dögum áður urðu tveir menn úti á suðurlandi. Það var í þessum mánuði sem vélbáturinn Kristján úr Keflavík var talinn af en náði landi í Höfnum eftir 11 sólarhringa hrakninga með bilaða vél.
Hlýjasti febrúarmánuður allra tíma, undramánuðurinn 1932, er sá fimmti sólríkasti í höfuðstað norðurlands með 64,5 sólarstundir. Hitinn var 4,4 stig yfir meðallagi þeirra stöðva sem lengst hafa athugað og úrkoman aðeins um helmingur af meðallaginu en snjóhulan 15%, sú minnsta í nokkrum febrúar. Loftþrýstingur mánaðarins er einn sá mesti sem komið hefur í febrúar.
Næstur kemur febrúar 1994 með 58,4 sólskinsstundir. Hann var samt enn sólríkari í Reykjavík með 72 stundir en nær þar ekki inn á topp tíu listann. Hitinn var um eitt stig fyrir meðallagi á landinu en tiltölulega hlýjast var á norðausturlandi þar sem var líka mjög þurrt en úrkoman var um 50% yfir meðallagi á landinu. Hún var mikil á öllu suðurlandi en þó einkanlega á suðausturlandi, mest 415 mm á Snæbýli í Skaftártungu. Snjóhula var 64%.
Sjöundi mesti sólarmánuður í febrúar á Akureyri er 1938 með sléttar 50 stundir. Hitinn var lítið eitt meiri en 1994 en úrkoman var í tæpu meðallagi. Úrkoman í Fagradal í Vopnafirði mældist aðeins 0,4 mm og hefur aldrei mælst eins lítil febrúarúrkoma á veðurstöð í Vopnafirði. Snjóhula á landinu var 64%. Þessi mánuður er reyndar tíundi sólarminnsti febrúar í Reykjavík þar sem sólin skein í 22 stundir.
Febrúar 1969 er sá 8. sólarmesti á Akureyri með 55 sólskinsstundir. Þetta var þó enginn gæðamánuður. Hann er á landinu kaldastur þeirra mánaða sem hér eru gerðir að umtalsefni, þrjú og hálft stig undir meðallagi. Þá skartar hann kaldasta febrúardegi á landinu frá 1949 og líklega miklu lengur og mörgum stöðvametum í febrúarkulda. Úrkoman náði ekki þremur fjórðu af meallaig en snnjóhula, var 69%. Þetta var á hámarki hafísáranna. Níundi sólarmesti febrúar á Akureyri er 2005 með 53,5 stundir. Hitinn á landinu í þeim snjólétta mánuði, 49% snjóhula, var þá svipaður og 1938 en úrkoman um þrír fjórðu af meðallaginu.
Loks er febrúar 1964 sá tíundi sólarmesti á Akureyri með 53,4 sólskinsstundir. Úrkoman var þá svipuð og 2005 en hitinn var 2,7 stig yfir meðallagi og er þetta 5. hlýjasti febrúar á landinu. Veturinn í heild var sá næst hlýjasti á landinu sem mælst hefur, á eftir 1929.
Sólríkasti febrúar á Melrakkasléttu er 1981, 71,3 klukkustundir.
Auk þessa má geta að í febrúar 1965, þeim næst hlýjasti sem mælst hefur á landinu, voru 63 sólskinsstundir á Hallormsstað og það mesta sem þar mældist 1953-1989 og reyndar var marsmetið þar þetta sama ár. Á Hólum í Hornafirði frá 1958 er febrúar 1965 einnig sá sólríkasti, 117, 1 klukkustund og sá þurrasti frá 1931, 4,1 mm. Þá er mánuðurinn sá næst þurrasti febrúar á Teigarhorni frá 1873, 10,4 mm, en þurrasti á Dalatanga frá 1939, 15,3 mm, og einnig á Fagurhólsmýri frá 1922, 19,8 mm.
Meginflokkur: Veðurfar | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 23.4.2013 kl. 16:33 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.