25.3.2013 | 17:50
Sólarminnstu marsmánuðir
Mars 1929 er sólarminnsti mars Reykjavík síðan mælingar hófust þar á sólskini fyrir hundrað árum. Skein sólin í 38,9 stundir en meðaltalið 1961-1990 er 111 klukkustundir. Það er nánast hlálegt að þetta er einnig hlýjasti mars sem mælst hefur á landinu og einnig á öllum einstökum veðurstöðvum. Hitinn var 5,7 stig yfir meðallaginu 1961-1990 sem hér verður miðað við um hitann. Um allt land var talin öndvegistíð, tún væru græn og gróðurnál í úthaga og sóleyjar sprungu út. Minnsti hiti á landinu var -8,0 stig á Eiðum og er það hæsta mánaðarlágmark yfir allt landið í nokkrum marsmánuði. Alveg frostlaust var í Vík í Mýrdal og á Hólum í Hornafirði. Á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað var úrkoman í rúmu meðallagi áranna 1931-2000 sem hér er við miðað varðandi úrkomu. Fyrir norðan var lítil úrkoma en mest á suðausturlandi. Á Fagurhólsmýri hefur ekki mælst meiri úrkoma frá 1931, 341,2 mm. Þetta er snjóléttasti mars sem mælst hefur á landinu frá og með 1924, 4% en meðaltalið 1961-1990 er 61%.
Næst sólarminnsti mars í Reykjavík er 1923 þegar sólin skein í 48 stundir. Á landinu er þetta fjórði hlýjasti mars og var hitinn 4,2 stig yfir meðallagi. Úrkoman var hins vegar meira en 50% yfir meðallagi. Aldrei hefur mælst meiri úrkoma í mars í höfuðstaðnum, 183,2 mm.
Árið 1945 er þriðji sólarminnsti mars með 49 sólskinsstundir. Hitinn á landinu var þrjú og hálft stig yfir meðallagi og er þetta níundi hlýjasti mars eftir mínum kokkabókum. Og þetta er einn af fimm úrkomusömustu marsmánuðum eftir sömu bókum. Einkum var úrkomusamt syðst á landinu en fyrir norðan var úrkomulítið. Í Vestmannaeyjum hefur ekki mælst meiri úrkoma í mars 319,6 mm og ekki á Loftssölum í Dyrhólahreppi árin 1940-1978, 235,0 mm. Miklir vatnavextir ollu tjóni um miðjan mánuðinn. Snjólag var 44%. Lokahnykkur stríðsins var i gangi með miklum loftárásum á Þýskaland og Japan og bandamenn hófu að hernema Þýskaland.
Mars 1938 var óstöðugur og úrkomusamur og er sá fjórði sólarminnsti í Reykjavík með 57,8 sólskinsstundir. Úrkoman var mjög mikil nema á norðausturlandi en annars meiri norðanlands en 1945 en úrkoman á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað var 43% umfram meðallag en 67% árið 1945. Snjólag 1938 var 59%. Hlýtt var í veðri, 0,9 stig fyrir meðallagi og reyndar mældist ekki frost í Vík í Mýrdal og Vestmannaeyjum.
Þann 12. á fimmtugs afmælisdegi Þórbergs innlimuðu Þjóðverjar Austurríki. Hætt er við að meistaranum hafi lítt líkað sú ósvífna afmælisgjöf en hann hafði reyndar verið dæmdur fyrir meiðyrði gegn foringjanum. Stendur sá hæstaréttardómur enn óhaggaður!
Í mars 1922 var góð tíð og þurrviðrasöm en sólskinsstundir í Reykjavík voru aðeins 58 sem gerir mánuðinn fimmta sólarminnsta mars. Úrkoman var tæplega þrír fjórðu af meðallagi en hitinn 1,2 stig yfir meðallagi. Tólf fórust þegar þilskipið Talismann frá Akueyri strandaði í afspynru norðanveðri við Súgandafjörð þann 25.
Umhleypingasamt var í mars 1993 sem er sá fimmti sólarminnsti í Reykjavík með 58,1 sólarstund en úrkoman var um 50% fram yfir meðallag. Hún var sérlega mikil á suðausturlandi. Á Kvískerjum var hún 483,3 mm. Hitinn var alveg sá sami og 1922 og snjólagið það sama og 1938.
Árið 1936 var norðaustanátt ríkjandi í mars en þrátt fyrir það voru sólskinsstundir í Reykjavík aðeins 59,5 og er þetta þar sjöundi sólarminnsti mars. Fyrir norðan var ekki mikið minni sól (56 klst á Akureyri) en þar voru mikil snjóalög. Var þar víðast hvar alhvítt og á Grímsstöðum á Fjöllum var snjódýptin 160 cm kringum vorjafndægur. Snjólag var 69% á öllu landinu. Á Vestfjörðum og víðar féllu snjóflóð en ekki ollu þau manntjóni. Úrkoman var í rösku meðallagi og hitinn sömuleiðis.
Sá hlýi og úrkomusami mars, 1974, er sá áttundi sólarminnsti með 65 sólskinsstundir í Reykjavík en aftur á móti 106 á Akureyri þar sem þetta er tíundi sólríkasti mars. Hitinn um 3,8 stig yfir meðallagi sem gerir hann að sjöunda hlýjasta mars á landinu en fimmta hlýjasta á Akureyri. Úrkoman var mikil, 69% fram yfir meðallag á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað hana. Sums staðar voru þó sett þurrkamet í mars en annars staðar úrkomumet. Sjá pistilinn um sólríkustu marsmánuði, þann tíunda sólríkasta á Akureyri. Snjólag var 33% á landinu.
Níundi sólarminnsti mars í Reykjavík er árið 2000 með 70 sólskinsstundir. Hann var afar úrkomusamur en nær þó ekki alveg inn á topp tíu listann yfir úrkomusömustu marsmánuði á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað. Hann er hins vegar úrkomusamasti mars í Vík í Mýrdal, 417,4 mm (frá 1926), Stafholtsey í Borgarfirði, 154,5 mm, Brekku í Norðurárdal, 307,7, mm, Lambavatni á Rauðasandi, 237,1 mm, Kvígindisdal við Patreksfjörð, 457,3 mm, Hlaðhamri í Hrútafirði, 174,8 mm, Barkarstöðum í Miðfirði, 117,0 mm, Norðurhjáleigu í Álftaveri, 339,4 mm og Snæbýli í Skaftártungu 343,1 mm. Í Kerlingardal við Mýrdal mældist úrkoman þó mest á landinu, hvorki meiri né minni en 500,8 mm sem er með því mesta sem mælst hefur á landinu í marsmánuði. Snjólag var það mesta í þeim árum sem hér er vikið að, 80%. Mikið tjón varð norðaustanlands í norðvestanveðri dagana 5.-6.
Þriðji hlýjasti mars á landinu, 1964, er sá tíundi sólarminnsti í Reykjavík með 71 sólarstund en aftur á móti sá sólríkasti á Melrakkasléttu 1958-1999, 123 lukkustundir. Í mánuði þessum, þegar talin var einmuna tíð, mældist mesta úrkoma á veðurstöð sem þá hafði mælst í mars í mars, 509,0 mm á Kvískerjum (núgildandi met, á sama stað, er 566,8 mm, 2003). Snjólag var aðeins 11%, það annað minnsta, eftir 1929. Einhver mesti jarðskjálfti sem mældur hefur verið á jörðunni kom í Alaska þ. 27. upp á 8,3 stig á Richter.
Þessi mánuður var reyndar æði viðburðaríkur. Þjóðskáldið Davíð Stefánsson lést þann fyrsta. Bítlaæði mikið var á tónleikum í Háskólabíói þ. 4. og tveimur dögum síðar kom kvikmyndaleikarinn Gregory Peck til landsins. Undanþágur Breta til veiða í landhelginni runnu út þann 11. sama dag og áskorun sextíumenninganna svokölluðu kom fram um að útsendingar kanasjónvarpsins yrðu bundnar við Keflavíkurflugvöllinn en þær náðu þá um allt Reykjavíkursvæðið og loks var Tívoli í Vatnsmýrinni lagt niður þennan sama dag. Þann 18. hófust magnaður reimleikar á Saurum á Skaga og voru þeir nefndir Sauraundrin. Þórbergur fullyrti ofvitalega og kennivaldslega að þetta væri alveg dæmigerður draugagangur og ekkert annað en síðar kom í ljós að þetta voru bara brellur af mannavöldum!
Á Akureyri er mars 1935 sá sólarminnsti með 26,4 klukkustundir en meðallagið 1961-1990 er 76,7 stundir. Tíðin var óstöðug og vindasöm og hitinn hálft stig undir meðallagi en úrkoman var mikil, um 44% fram yfir meðallagið á þeim stöðvum sem allra lengst hafa athugað. Á Hvanneyri var úrkoman 205,8 mm og hefur þar aldrei mælst meiri í mars í nokkuð langri en sundurslitinni mælingasögu. Laust fyrir miðjan mánuð urðu miklir vatnavextir í Vestur- Skaftafellssýslu. Snjólag var 57%. Í Þýskalandi var tekin upp herskylda og tilkynnt að landið hefði komið sér upp flugher.
Mars 1981 var kaldur og snjóþungur. Og hann er sá næst sólarminnsti á Akureyri með 30 sólskinsstundir. Úrkoman var mikil á norðausturlandi en í heild um þrír fjórðu af meðalúrkomu. Snjólag var 77%. Á Raufarhöfn komst snjódýptin í 150 cm. Kvikmyndin Punktur, punktur, komma strik var frumsýnd í þessum mánuði, skotið var á Reagan forseta Bandaríkjanna en Mitterand varð forseti Frakklands.
Þriðji sólarminnsti mars á Akureyri var 1970 með 32,5 sólarstundir. Þetta er kaldasti marsmánuðurinn meðal hinna tíu sólarminnstu á Akureyri og var hitinn tæpt tvö og hálft stig undir meðallagi á landinu. Hafís var nið norðausturströndina og á Húnaflóa. Úrkoman var í meðallagi en snjólag var 78%.
Þrír tiltölulega nýliðnir marsmánuðir í röð eru á topp tíu listanum fyrir lítið sólskin í höfuðstað norðurlands.
Mars 2007 er sá áttundi með með 50 sólskinsstundir Hann er vel inni á topp tíu listanum fyrir úrkomusömustu marsmánuði og hitinn var rúm tvö stig yfir meðallagi en snjólagið 48%. Síðasta daginn fór hitinn á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga í 18,4 stig og 16,9 á Sauðanesvita. Mars 2008 er sá fjórði sólarminnsti með 38 sólskinsstundir. Bæði hiti og úrkoma máttu heita í meðallagi en snjólagið var 76%. Óvenjulega mikið snjóaði í Vestmannaeyjum þ. 2. og mældist snjódýptin á Stórhöfða 65 cm næsta morgunn sem þykir mikið á þeim bæ. Mars 2009 er sá níundi með sólarminnsti á Akureyri með 51 sólskinsstund og hita og úrkomu mjög nærri meðallagi en snjólagið var 72%.
Fimmti sólarminnsti mars á Akureyri er 1991 með 43 sólskinsstundir. Hitinn var rúm tvö stig yfir meðallagi en úrkoman var rétt yfir meðallagi en mjög mikil á norðaustur og austurlandi, allt að áttföld meðalúrkoma á Húsavík þar sem mældist meiri úrkoma en í nokkrum mars, 204,3 mm. Sólarhringsúrkoman á Eskifirði mældist 139,9 mm þ. 17. sem þá var marsmet á veðurstöð (metið var slegið þ. 22. 1995 í Stíflisdal, 142 mm). Snjólétt var í mánuðinum, snjólagið 47%.
Eldgos var í Heklu sem lauk þ. 11. Hinn fræga upptaka af lögreglumönnum að lúberja Rodney King var hinn þriðja. Davíð Oddsson varð formaður Sjálfstæðisflokksins þann 10. en þann 14. var sex föngum í Birmingham sleppt úr fangelsi eftir að hafa setið saklausir inni í 17 ár dæmdir fyrir sprengjutilræði.
Mars árið 1933 er sá sjötti sólarminnsti á Akureyri en sólin skein þá í 44 stundir. Hitinn var rúmlega hálft annað stig yfir meðallagi á landinu en úrkoman var 21% fram yfir. Ekki hefur mælst meiri úrkoma á Hólum í Hornafirði í mars (frá 1931), 357 mm. Snjólag var 52%. Þann 27. mældist hitinn 15,2 stig á Hraunum í Fljótum sem þá var jöfnun á landsmeti fyrir mars en hefur síðan margsinnið verið slegið. Stefán skáld frá Hvítadal andaðist þann 7. Í Þýskalandi gekk mikið á, Hitler var formlega veitt alræðisvald, Göbbels varð ráðherra og fangabúðirnar í Dachau voru settar á fót.
Sjöundi sólarminnsti mars er 1953 á Akureyri með 50 sólskinsstundir. Þetta er einn af allra úrkomumestu marsmánuðum með mörgum mánaðarmetum: Andakílsárvirkjun 437 mm, Síðumúli 271,9 mm, Blönduós, 149,5 mm, Nautabú 156,7 mm, Akureyri 142,8 mm, Sandur í Aðaldal 88,7 mm, Sámsstaður 382,2, mm og Hæll í Hreppum 301,1 mm. Hlýtt var í veðri, hátt upp í þrjú stig yfir meðallagi og er þetta hlýjasti mars af þeim tíu sólarminnstu á Akureyri. Fremur var snjólett, 50% snjóhula.
Þann 5. dó illmennið Jósef Stalin og eðal tónskáldið Sergei Prókóféff. Um miðjan mánuðinn kom hingað sænski söngvarinn Snoddas og gerði allt vitlaust úr hlátri fremur en hrifningu.
Tíundi sólarminnsti mars á Akureyri er svo árið 1962 þegar sólin skein í 52 klukkustundir. En þetta er næst sólríkasti mars í Reykjavík. Eins og greint er frá í pistlinum um sólríkustu marsmánuði er þetta þurrasti mars sem mælst hefur í Síðumúla í Borgarfirði, Hellissandi, Lambavatni, Kvígindisdal, Hlaðhamri, Barkarstöðum í Miðfirði, Forsæludal, Nautabúi, Dalatanga, Hólum í Hornafirði, Sámsstöðum, Hellu, Jaðri, Ljósafossi og Þingvöllum. Þetta er snjóléttasti mars í Reykjavík en þar og víða á Reykjanesskaga var alautt allan mánuðinn.
Meðalhiti tíu sólarminnstu marsmánaða í Reykjavík er 2,95 stig eða 2 stig yfir meðallaginu 1961-1990 og 1,6 yfir meðallaginu 1931-1960 en 4,2 stig yfir meðallagi tíu sólríkustu marsmánaðanna! Á Akureyri er meðalhiti samsvarandi mánaða -0,7 stig eða hálft stig yfir meðallaginu 1961-1990 en 0,4 stig undir meðallaginu 1931-1960 og hálft stig undir meðallagi tíu sólríkustu mánaðanna þar.
Meginflokkur: Veðurfar | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:05 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.