Veturinn er búinn

Þá er vetri lokið samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu Veðurstofunnar. Hann er talinn frá desember til mars.

Ekki er hægt að segja annað en veturinn hafi kvatt fremur hlýlega í höfuðborginni. Þar komst hitinn í 10,6 stig í gær og er það enn sem komið er mesti hiti ársins þar á bæ. Meðalhitinn var 2,1 stig eða 1,6 stig yfir meðallaginu 1961-1990 en 0,3 stig yfir meðallaginu það sem af er þessarar aldar. Á Akureyri var meðalhitinn 0,9 stig sem er 2,1 stig yfir meðallaginu 1961-1990 en 0,5 yfir meðallagi  aldarinnar. Á landinu er hitinn alls staðar hátt yfir meðallaginu 1961-1990 og vel yfir meðallagi okkar aldar. 

Hið sama er að segja um veturinn í heild. Allir vetrarmánuðirnir voru hlýrri  en meðaltal þessarar aldar nema desember sem var ansi kaldur. Janúar var hins vegar sá tíundi hlýjasti sem mælst hefur en janúar í fyrra var reyndar sá 8. hlýjasti. 

Veturinn í ár var talsvert kaldari en í fyrra en mun samt vera sá fjórði hlýjasti á þessari óvenjulega hlýju öld. Hlýrra var 2003, 2006 og 2013. Þó fullkomið uppgjör fyrir þennan vetur sé ekki komið fram er hægt að átta sig á þessu. 

Þetta var því engan veginn kaldur vetur.  En þegar að úrkomunni kemur birtist nokkuð óvenjulegt. 

Viðast hvar var mikil úrkoma í mars á landinu. Í Reykjavík var hún 115 mm (meðallagið er 82 mm) en til samanburðar náði hún ekki 13 mm í febrúar. Öfgar?? Úrkoman var undir meðallaginu 1961-1990 yfir allan veturinn í Reykjavík og munar þar mest um febrúar. Á Akureyri var úrkoman 104 mm í mars sem er vel yfir tvöfaldri meðalúrkomu en í febrúar var úrkoman þar einnig tvöföld. Í janúar var úrkoman þar enn fremur vel fyir meðallagi og næstum því tvöföld úrkoma var þar í desember. Á Akureyri er veturinn í heild sá næst úrkomumesti síðan mælingar hófust 1928. Aðeins veturinn 1989 var lítillega meiri úrkoma.

Það eru þó smámunir miðað við úrkomuna á austurlandi.  Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, þar sem mælingar hófust 1994, er þetta lang úrkomusamasti veturinn með heildarúrkomu upp á tæpa 1030 mm! Á Dalatanga, þar sem mælt hefur verið frá 1938 er þetta þriðji úrkomusamasti veturinn, á eftir 1974 og 1990. Ekki var mikill snjór á þessum stöðum því vegna hlýindanna féll mikið af úrkomunni sem regn.

Sjór var talsverður víða á landinu i desember en snjólítið miðað við venju var víðast hvar í byggðum eftir áramót þar til seint í mars. Jafnvel í sjóasveitum eins og á Ólafsfirði var svo til snjólaust lengi vel. En frá þessu voru undantekningar. Vegna hinnar miklu úrkomu austanlands og sums staðar annars staðar var mikill snjór á fjallvegum og einstaka veðurathugunarstöð í byggð. Þeirra á meðal er Akureyri. Þar var fyrst alhvítt 31. október og í nóvember voru alhvítir dagar þar 23 og aftur í desember, alhvítt alla daga í janúar og febrúar og í mars sýnist mér alhvítir dagar hafa verið 29. Ekki veit ég í fljótu bragði hvernig þetta kemur út með tilliti til annarra vetra en örugglega er þetta með mestu snjóavetrum á Akureyri. 

Ekki var snjó fyrir að fara í höfuðborginni,  22 alhvítir dagar voru í desember, 4 í janúar, enginn í febrúar og  7 virðist mér í mars.

Furðu sólarlítið var í Reykjavík í mars, aðeins um 73 klukkustundir og meir en 20 stundum færri en í febrúar en sólarstundir í mars eru að meðalatali  111.

Þær tölur sem hér hafa verið nefndar geta breyst lítillega þegar öll kurl koma til grafar. 

Fróðlegt verður að sjá uppgjör Veðurstofunnar um þennan hlýja vetur sem óneitanlega var þó nokkuð einkennilegur í hátt og sums staðar æði vetrarlegur . Og gaman verður að sjá hvernig Emil okkar H. Valgeirsson metur þennan mars.

Fylgiskjlalið fyrir april er í gangi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Allt ágætt um þennan mars að segja en ég efast um að ég spanderi bloggfærslu á hann sérstaklega en býð í staðinn upp á vetrarhitasúlur. Í gæðamati mínu er nýliðinn mars meðalgóður (einkunn 4,4) þar sem ágæt hlýindi bættu upp sólarleysi og umhleypingasemi. En við höfum séð það miklu verra og miklu betra. Mars í fyrra náði til dæmis mjög góðri einkunn hjá mér (einkunn 5,1) en mars 2011 var öllu verri (einkunn 3,7).

Emil Hannes Valgeirsson, 1.4.2014 kl. 20:32

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

... og heimshitnunin er opinberlaga farin í gang.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 2.4.2014 kl. 09:44

3 identicon

Þú ættir að endurskoða þessa einkunnargjöf Emil og ekki bara miðað við sól og háþrýsting. Mars í fyrra var nefnilega leiðinlegur og ætti því að fá lága einkunn.

Þá var frekar kalt og mjög þurrt. Úrkoman í mars í ár hefur hins vegar verið alveg þokkaleg upp á gróður að gera, sem skiptir jú öllu máli, og var þannig mun skárri en mars í fyrra.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 8.4.2014 kl. 10:07

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þeir spá snjókomu um helgina......

Þakka góðan pistil, sem endranær. Ávallt gaman að fræðast um veðrið og það svona skilmerkilega. Hafðu þakkir fyrir, Sigurður.

Halldór Egill Guðnason, 10.4.2014 kl. 21:36

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Sennilega réttast að þakka Emil í leiðinni fyrir sitt framlag. Virkilega fr´oðlegt hjá ykkur köppum.

Góðar stundir og gleðilegt vor.

Halldór Egill Guðnason, 10.4.2014 kl. 21:38

6 identicon

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 11.4.2014 kl. 10:36

7 identicon

"Sjór var talsverður víða á landinu i desember en snjólítið miðað við venju var víðast hvar í byggðum eftir áramót þar til seint í mars. Jafnvel í sjóasveitum eins og á Ólafsfirði var svo til snjólaust lengi vel."

„Snjóþykktin er óhugnanleg

Gríðarlegur snjór er í Skjaldfannardal í Ísafjarðardjúpi og segir Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn, að sumstaðar í dalnum sé meiri snjór en snjóflóðaveturinn 1995. „Snjóþykktin er óhugnanleg, jaðrar við náttúruhamfarir í snjóþunga,“ segir Indriði í samtali við Bæjarins besta." (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/04/11/snjothykktin_er_ohugnanleg/

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 11.4.2014 kl. 11:42

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hilmar: Svo bæti ég við það sem þú tilvitnar: "En frá þessu eru undantekningar".

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.4.2014 kl. 13:16

9 identicon

Já, Sigurður Þór. Undantekningarnar eru Vestfirðir, Norðurland, Austurland og hálendi Íslands!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 12.4.2014 kl. 14:29

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nei, nei, bara kannski einhvers staðar á Vestfjörðum (ekki þar sem veðurstövar eru), við Mývatn, í ofanverðum Bárðardal og á hálendinu austan til á landinu. Hins vegar hefur verið snjólétt á þessu ári miðað við venju víðast hvar á Vestfjörðum, a.m.k. sunnan Djúps, á Ströndum, öllu norðurlandi vestan Eyjafjarðar, við vestanverðan Eyjafjörð (snjósveitunum Ólafsfirði og  Svarfaðardal), í Aðaladal og á öllu láglendi við sjó frá Skjálfanda og austur um. Þetta er sannleikur málsins. Ísland er tiltölulega stórt land og fjlbreytt að veðrlagi og stundum er snjór einhvers staðar í meira lagi þó lítill snjór sé annars staðar miðað vi venju. En stundum er mikill snjór víðast hvar en það hefur ekki verið á þessu ári. En það er rétt á sums staðar hefur verið óvenjulega mikill snjór.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.4.2014 kl. 19:43

11 identicon

"Vegna mikilla snjóalaga víða á hálendi Vestfjarða , vill Orkubú Vestfjarða og Landsnet benda á eftirfarandi:

Mikill snjór er víða til fjalla og því ættu allir þeir sem ferðast utan alfaraleiða að sýna sérstaka aðgát." (http://www.ov.is/frettir/Synum_adgaeslu_til_fjalla/)

"Töluverð snjóflóðahætta er nú á utanverðum Tröllaskaga á Norðurlandi og á Austfjörðum. Veðurstofan segir að óvenju mikill snjór sé í fjöllum á Austurlandi og sumstaðar á Norðurlandi." (http://www.visir.is/snjoflodahaetta-fyrir-nordan-og-austan/article/2014140309657)

"Það er búið að vera óvenjuslæmt færi hér fyrir austan og meiri snjór uppi á heiðum en við eigum að venjast síðustu ár,“ segir Agnar." (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/22/ellefta_utkallid_fra_aramotum/)

"Úrkoma vetrarins var mjög öfgakennd og byrjaði með hörku áhlaupi og fannfergi þegar 10. september á Norðurlandi. Skiptust svo á mjög úrkomusamir mánuðir og þurrir. Snjóalög voru því mikil á Norðurlandi og Austurlandi." (http://www2.jorfi.is/wp-content/uploads/2014/02/128_2014-02.pdf)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.4.2014 kl. 08:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband