Hitabylgjan í maí 1992

Hitabylgjan í maí 1992 má teljast frænka fremur en systir maíhitabylgjunnar 1987. Hlýjasta daginn í þeim báðum mældu 25 af hundraði allra veðurstöðva tuttugu stiga hita sem er met fyrir maídag.(Um hásumarið getur þetta hlutfall orðið hærra og vel það). En bylgjan 1987 stóð lengur, 8 daga í röð mældist einhvers staðar 20 stiga hiti á landinu, en fjóra daga í röð 1992 og 1987 mældu alls  37 stöðvar 20 stiga hita eða meira en  20 stöðvar  árið 1992.  

era-i_nat_gh500_gh500-1000_1992052612_06

Kortið, frá Brunni Veðurstofunnar, sýnir þykkt og hæð 500 hPa flatarins yfir landinu 26. maí en þykktin, sem sýnd er í litum,  er mælikvarði á hita loftsins. Því gulari og brúnni litur því hlýrra. Hlý háloftahæð er yfir Norðurlöndum og teygja hlýindin sig til austurlands en lægðarsvæði er við Grænland og lægð suður í höfum. Kortið stækkar ef smellt er á það. Þessi bylgja, hvað yfir 20 stiga hita varðar, var bundin við norðaustanvert landið en tuttugu stiga hiti mældist aðeins á svæðinu frá Hrauni á Skaga  og Dalsmynni í Viðvíkujrsveit austur og suður um til Neskaupstaðar.  Á Hrauni kom reyndar maímet, 20,6 stig þ. 26. Bylgjan var ekki þurr eins og 1987 heldur mældist umtalsverð rigning sum staðar á suður og vesturlandi þá daga sem hún stóð yfir en  þurrt var yfirleitt fyrir norðan og austan. Mikill munur var á sólskini 1992 og 1987. Í bylgjunni 1987 var einstaklega sólríkt um mest allt land en 1992 var sólarlítið eða sólarlaust á suður og vesturlandi en nokkuð sólfar suma dagana norðanlands og austan en aldrei þó verulega mikið.

Stóra tromp hitabylgjunnar  1992 er  mesti hiti í sem mælst hefur á Íslandi í maí, 25,6 stig í Vopnafjarðarkauptúni. Það var fyrsta daginn, 26.  maí. Þann dag var víðast hvar úrkomulítið en skýjað en nokkuð sólfar á norðausturlandi inn til landsins. (Þess má geta að þ.25. var víðast hvar sólskin á landinu en engin sérstök hlýindi). Eins og áður segir mældu þá 25 af hundraði veðurstöðva tuttugu stiga  hita eða meira. Dagurinn er seinna í almanakinu en sá 21. sem var hámark  hitabylgjunnar 1987 og að meðaltali hlýnar um hálft stig á landinu milli 21. og 26. maí. 1992-05-26_12Þennan fyrsta og mesta dag hitabylgjunnar mældist hitinn 25,0 á Raufarhöfn sem er maímet þar og þar skammt frá mældist mesta sólskin á landinu þennan dag, 9,3 klukkustundir. Á Mánárbakka mældist hitinn 23,7 stig, 24,0 á  Garði í Kelduhverfi, sem er maímet,  24,0 stig á Sandi í Aðaldal og 22,9 stig á Sauðanesi sem er maímet þau ár sem athugað var. Meðalhitinn á Akureyri var 16,1 stig sem er dægurmet. Landsmeðalhitinn var  11,56 stig, um fimm stig yfir langtíma meðalhita dagsins, en daginn eftir var hann 11,64 stig sem er næst hlýjasti maídagur á landinu frá a.m.k. 1949 en hlýjastur er 3. maí 2017, 12 stig. Hámarkshiti var lægri þann 27. en 26. þó meðaltal sólarhringshita væri hærra  og munaði  þar mest um mikinn næturhita. Þann 27. mældist enn minna sólskin en daginn áður en Bakkafjörður, þar sem lengi hefur verið mælt, krækti þó í methita í maí, 21,8 stig. Mikil rigning var sums staðar á vesturlandi. Í Húnavatnssýslum kom ekki 20 stiga hiti í þessari hitabylgju en þann 26. Mældust 19,8 stig á Blönduósi, 19,5 í Miðfirði og 18,5 stig í Hrútafirði. Þennan dag var hellirigning á suðausturlandi og hitinn á Kirkjubæjarklaustri komst ekki hærra en í 9,6 stig. Kortið sýnir veðrið á hádegi á landinu 26. maí og er úr safni Veðurstofunnar. Það stækkar við smell.      

Næstu tvo daga mældu 15 af hundraði veðurstöðva 20 stiga hita eða meira. Þann 27. var talsverð rigning með köflum sunnanlands og vestan en yfirleitt þurrt norðaustanlands. Hitinn fór í Vopnafirði í 22,7 stig en var annars víða 21-22 stig norðaustanlands.  Þann 28. skein loks talsverð sól á norðaustanverðu landinu og var það eini umtalsverði sólardagurinn í hitabylgjunni en þó aðeins sums staðar á landinu. Hiti komst þá í í 23,5 stig í Vopnafirði og 22,1  á Dratthalastöðum á Úthéraði en var víða um 21 stig á hlýjasta svæðinu. Þetta var reyndar hlýjasti  dagurinn á sunnanlands og fór  hitinn á suðurlandsundirlendi allvíða í 18-19 stig í skýjuðu veðri. 

Síðasti dagurinn í þessari syrpu sem 20 stiga hiti eða meira mældist á landinu var  sá 29. þegar þrjár veðurstöðvar á Fljótsdalshéraði mældu hann en allmjög var þá tekið að kólna yfirleitt á landinu. Þá náði hitinn sér einnig best á strik í Skaftafellssýslum þegar 18,0 stig mældust í Álftaveri og 16,4° á Kirkjubæjarklaustri. 

Engar hálendar stöðvar í byggð náðu 20 stigum í þessari bylgju nema einn dagur við Mývatn (20,2° þ, 26.), ólíkt því sem var i hitabylgjunni 1987 þegar þar mældust 20 stiga hiti 7 daga í röð. Hitinn fór aldrei hærra en í 8,7 stig á Hveravöllum, þann 29. þegar mesta hitabylgjan var reyndar um garð genginn. 

Ráðhúsið í Reykjvik var nýlega vígt og stríðið á Balkanskaga var að brjótast út.

Í fylgiskjalinu er yfirlit yfir tuttugustiga hitamælingar í þessari hitabylgju.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband