Mótmælasvelti

Menn mega leggja líf sitt að veði í þágu málstaðar sem þeim finnst þess virði. Það eru viðurkennd mannréttindi.

Þá er gert ráð fyrir því að við séu ábyrg gerða okkar og með fullu viti og gerum okkur þar með grein fyrir afleiðingum gerða okkar. 

Gengið er út frá sjálfræði einstaklinganna.

Þegar hungurverkfall hefur staðið nógu lengi missa menn meðvitund.

En er það svo að menn verði að leggja fram skriflega yfirlýsingu fyrir fram um það að þeir vilji ekki þiggja læknishjálp þegar svo er komið?  Annars fari hún fram sem læknisleg rútína.

Taka læknar sem sagt ekki mark á gerð fullvita fólks sem gera sér grein fyrir afleiðingum verka sinna nema hún sé skrifleg? Er verknaðurinn hungurverkfall ekki nægileg yfirlýsing um skýran vilja og vitund um þær afleiðingar sem af verknaðinum getur hlotist? 

Þegar læknir tekur fram fyrir hendurnar á manni sem missir meðvitund í hungurverkfalli vanvirðir hann sjálfræði mannsins. Það er ekki flóknara en svo. Ekki bætir úr skák ef Landlæknisembætti á  hlut að máli því það er  á ábyrgð ríkisins sem stofnunar. Ríkið má ekki kúga samvisku manna.  Almenn rök um það að læknum beri að bjarga mannslífum eiga ekki við gagnvart einbeittum vilja  einstaklings til að leggja líf sitt að veði fyrir málstað.

Það er ekki hlutverk lækna að hafa vit fyrir mönnum í samviskuspursmálum og það má alls ekki vera liðið að þeir hafi sjálfgefin rétt til þess að grípa fram fyrir hendur manna í hungurverkfalli af samviskuástæðum. 

Í þau fáu skipti sem líf manna hefur orðið krítiskt í svona kringumstæðum á Íslandi hefur Landlæknisembættið samt sem áður farið að skipta sér af málunum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta hefur verið mikið diskuterað og víða. Einkum í sambandi við Bobby Sands málið á Írlandi árið 1981. Það tíðkast samt víða um lönd að læknar og opinberir aðilar séu að skipta sér af þessu. Eflaust á þeim forsendum að menn hljóti að vera geðveikir ef þeir gera svona. Er það ekki yfirleitt viðkvæðið ef menn fara eitthvað útfyrir rammann?

Sæmundur Bjarnason, 1.5.2009 kl. 10:28

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Menn geta ekki ákvarðað, allra síst læknisyfirvöd, að einhver verknaður beri merki um geðveiki nema hafa til þess örugg læknisfræðileg gögn. Slík gögn eru yfirleitt ekki fyrir hendi í svona tilfellum enda yfirleitt ekki um neina geðveki að ræða.  Að ákvarða geðveiki væri því bara ofbeldi, vel að merkja ofbeldi valdsins og þegar það gerist er læknisfræðin farin að þjóna ofbeldi valdsins. En í raun eru menn ekki neitt úrskurðaðir geðveikir í svona tilfellum heldur er mönnum bara gefin næring á þeim forsendum að læknar telji lífi mannsins ógnað. Það er þarna sem skylda lækna til að bjarga mannslífi er átómatískt talin æðri rétti manns til að fórna lífi sínu vegna málstaðar sem þeim finnst meira virði en lífið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.5.2009 kl. 10:40

3 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ægilega erfið klemma 1. maí en tengist deginum vel. Ég segi pass í bili.

Hólmfríður Pétursdóttir, 1.5.2009 kl. 11:02

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

þetta er engin klemma. Það á bara að virða vilja viðkomandi mótmælenda. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.5.2009 kl. 11:37

5 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Fyrir mér er þetta klemma eins og alltaf þegar fólk tekur sér það vald að ljúka lífi.

Ég get haft gildi sem ég reyni að fara eftir sjálf, en mér er ómögulegt að segja öðrum hvað þeir eiga að gera eða gera ekki. 

 Svo er spurning fyrir mér hvort virðingin fyrir lífi fólks er meiri en fyrir sjálfsákvörðunarrétti þess.

Hvar endar þessi réttur sem fólk tekur sér?

Hólmfríður Pétursdóttir, 1.5.2009 kl. 11:50

6 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Það er vissulega slæmt að svo illa sé komið fram við flóttamenn hér á landi að þeir sjá sér ekki annað fært en að fara í hungurverkfall.

Full þörf er því til að bæta móttöku hælisleitenda hér á landi.

Hilmar Gunnlaugsson, 1.5.2009 kl. 15:51

7 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Hér eru alþjóðlegar leiðbeiningar World Medical Association, WMA, um þá, sem svelta sig í mótmælaskyni.

Sigurbjörn Sveinsson, 1.5.2009 kl. 16:45

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mjög skynsamlegar og sanngjarnar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.5.2009 kl. 19:22

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hólmfríður: Menn taka sér ekki mannréttindi heldur er litið svo á að þau séu meðfæddur réttur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.5.2009 kl. 19:48

10 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ég geri mér grein fyrir því. Aftur á móti á ég oft í vandræðum vegna þess að sumt af því sem núna þykja sjálfsögð mannréttindi rekst á þau gildi sem mér finnst ég hafa gengist við sem afleiðingu af trú minni.

Ég las alþjóðlegu leiðbeiningarnar og skil alveg hvernig þær eru tilkomnar og mundi aldrei fetta fingur út í að þeim væri fylgt, það er það sem ég átti við með klemmu.

Ég er ekki einu sinni viss um að ég mundi geta staðið við sannfæringu mína ef verulega reyndi á hana.

Klemma, já fyrir mig

Hólmfríður Pétursdóttir, 1.5.2009 kl. 20:15

11 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ég er sammála Hilmari. Okkur væri nær að taka betur á móti fólki sem leitar hér hælis svo það þurfi ekki að grípa til örþrifaráða.

Hólmfríður Pétursdóttir, 1.5.2009 kl. 22:02

12 identicon

Hafni menn læknisaðstoð, þá ætti að virða þann vilja. Annars ætti læknisaðstoð að vera sjálfsögð. Sem sagt: Læknisaðstoð ætti að veita nema annað sé tekið fram.

En óháð þessu, er það ekki verra þegar þriðji aðilli, sérstaklega þá aðillinn sem viðkomandi er að mótmæla gegn, sérsníður yfirlýsingu fyrir mótmælandann? Ég meina, hans hlutverk ætti að vera að verða, eða verða ekki við kröfum mótmælanda, en ekki að hafa áhrif á aðferðarfræðina. Ekki satt?

Rúnar Berg Baugsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband