Páll Baldvin tekur af mér ómakið

Í leiðara Fréttablaðsins segir Páll Baldvin Baldvinsson einmitt það sem ég vildi sagt hafa um ástand mála núna í þjóðfélaginu. Leiðarinn ber yfirskriftina Ryð og mölur.

Hrun í veraldlegum eigum þjóðanna heldur áfram þrátt fyrir innilegar óskir áhugamanna um að gengi taki að hækka: eignirnar halda áfram að vera til staðar en verðmiðarnir breytast ört. Peningaeign er hratt að nálgast vaxtaleysið og þá er ekki tekið tillit til þessa gríðarlega taps sem er orðið á öðrum fjárfestingum: hlutafé, húsnæði, listaverkum, farartækjum, nánast allt það sem áður var verðlagt hátt hefur lækkað. Og framleiðslutækin eru ekki lengur arðbær: birgðir hlaðast upp, ál, stál, bílar, fiskur, mjöl. Í snaggaralegum samdrætti neyslunnar standa stjórnmálamenn og rekstraraðilar gáttaðir og bjargarlausir.

Hrun í hinum andlegu verðmætum þjóðanna fylgir í kjölfarið: nú er viðurkennt að gróðavonin hafi leitt okkur af leið. Óbilgirni og harka í eftirsókn lífsins gæða hafi verið villuljós, en eftir sitja eldri gildi magnlítil á skrauthillu: sanngirni, réttlæti, heiðarleiki og traust. Og enn gera menn sér von um að þeirra vegur verði eins og hann er í bókunum og minningunni.

Í þessu róti öllu hér í okkar litla samfélagi er uppi hávær krafa um að enn skuli gengið á forðann: ekki þykir annað en sjálfsagt að lífeyrisforðinn verði tekinn til handargagns þrátt fyrir harkalegt tap sjóðanna. Þá skal enn rýrður hlutur þeirra sem eiga enn fjármagn geymt í bönkum þótt verðfall krónunnar hafi étið upp stóran hluta eigna þeirra, rétt eins og verðmæti vinnu alls þorra manna hefur verið gengisfellt grimmilega. Og örþrota atvinnulífi í höndum eigenda og stjórnenda sem fóru svo illa að ráði sínu að þeir sóuðu eigin fé fyrirtækja sinna, skal nú almenningur bjarga með skattfé sínu, auknu framlagi í banka til að borga niður afskriftir á hin sömu fyrirtæki.

Sama lið og setti atvinnufyrirtækin á hliðina getur með engu móti hugsað sér að verst stöddu en þó starfhæf fyrirtæki lendi í eignarsýslufélögum utan bankanna sem þegar eru farnir að sýna merki þess að þar er mest hugsað um efnahagsreikninginn og útvalda skjólstæðinga en allan þorra þeirra sem leggja bönkunum til rekstrarfé með innlögnum og ríkisframlagi. Ekki verður með neinum hætti greint að spilling og klíkukerfi þrífist síður í bankarekstrinum en stöku eignaumsýslufélögum. En á það ráðslag reyndra manna erlendis frá skal ekki reynt.

Og svo fer fólk að brotna, heimilin að sundrast, eymdin og miskunnarleysið taka að gera vart við sig. Menn stinga af og hverfa. Og fáum dögum eftir kosningar styrkist sá almannarómur að sami rassinn sé undir því öllu, þingliðinu. Vonleysið magnast og fyrirlitningin eykst.

Þá dugar harla lítið að ráðamenn þingmeirihlutans brosi breitt og tilkynni þjóðinni að þeim líði ljómandi vel þann daginn. Langdregin og óskýr stjórnarmyndun er óþolandi, óskiljanleg og óafsakandi. Kjósendur allir, og þó einkum þeir sem kusu þessa tvo flokka, eiga skýra kröfu á að stjórnarstefna verði lögð fram - ekki seinna en í gær og þjóðin upplýst um framhaldið. Því það er ekki nóg að gert og við erum ekki svo græn að halda að þetta reddist í þetta sinn.

Páll Baldvin segir þetta miklu betur en ég gæti nokkru sinni gert.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Einstaklega góð grein hjá Páli og ég segi það sama og þú. Varla hægt að koma betur orðum að þessu.

Halldór Egill Guðnason, 7.5.2009 kl. 17:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband