Ár liðið frá methitanum í Reykjavík

Mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík kom í fyrra þennan dag, 25,7 stig. Hann kom um kl. 17:32 en kl. 17 var hitinn 25,1  stig á sjálfvirka hitamælinum. Sama dag mældust 29,7 stig á Þingvöllum sem er mesti hiti sem mælst hefur á sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar. Hitinn  á Þingvöllum var yfir 29 stig í eina þrjá tíma samfleytt. Víða annars staðar var hlýtt, t.d. 28,8 stig á kvikasilfursmæli á Hjarðarlandi. Hitabylgjan frá 26. júlí til 1. ágúst þetta ár er einhver sú mesta sem komið hefur, frá því um miðja síðustu öld, ásamt bylgjunni í ágúst 2004 og júlíbylgjunum 1991 og 1980 og hitabylgjunni í júní 1949. Er þá miðað við hve hlutfallslega margar veðurstöðvar mældu tuttugu stiga hita eða meira. 

Í fyrra gerðist það að hitinn í Reykjavík fór fjórum sinnum í 22,5 stig eða meira á átta dögum; 22,5 stig 25. og 29. júlí, 25,7 þ. 30. og 23,6 stig 1. ágúst. 

Heitasta daginn var ég meðal annars í lystigarðinum í Laugardal, þar sem voru 25,8 stig kl. 16 og gekk heim til mín um Laugarneshverfið einmitt um hálf sexleytið. Á þeirri minnisstæðu göngu mældist mesti hiti dagsins og það mátti eiginlega þreifa á hitanum. Þetta var eins og í útlöndum.

Ég gleymi aldrei þessum degi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband