Góð hugmynd

Í fjölmiðladálki Morgunblaðsins í dag, Ljósvakanum, kemur Sveinn Sigurðsson með þá hugmynd að  sjónvarpið geri veðrinu meiri og betri skil öðru hverju, til dæmis mánaðarlega, umfram veðurfréttirnar. ''Þá mætti til dæmis fjalla um veðráttu síðustu vikna eða mánaða og bera hana saman við sama tíma fyrir ári eða á fyrri árum. Öll saga lands og þjóðar er öðrum þræði veðurfarssaga. Það mætti alveg velta því upp hvernig hafi viðrað á ýmsum örlagatímum. Hvernig blésu vindar í móðuharðindunum, hvaða veðrakerfi olli kuldunum miklu 1918?''

Svona skýringarþættir myndu auðvitað kosta peninga og ekki er líklegt að sjónvarpið hafi áhuga á að fjármagna þá. Fremur að það setji peninga í íþróttir eða poppþætti. Sjónvarpsfræðsla um veðrið held ég því að sé ekki sérlega raunsæ hugmynd.

Hins vegar virðist netið vera kjörið fyrir þetta. Það væri mjög gaman ef til dæmis á vef Veðurstofunnar væru fastir dálkar þar sem veðuratburðir væru skýrðir.  Ekki hefur verið hörgull af merkilegum veðuratburðum síðustu árin, hitabylgjur, þurrkar, votviðri, kuldaköst, svo sem það einkennilega kast sem kom allt í einu seint í síðasta júlímánuði ofan í mikil hlýindi, og þar fram eftir götunum. 

Það væri engin hörgull á viðfangsefnum fyrir svona síðu.

Á vef Veðurstofunnar má reyndar finna ýmsar fróðleiksgreinar en þær virðast koma nokkuð tilviljanakennt og eru langflestar skrifaðar af einum manni. Það vantar fastan dálk.     

Aðeins einn veðurfræðingur heldur úti föstu veðurbloggi, Einar Sveinbjörnsson. Blogg hans hefur  stöðugan og nokkuð fjölmennan lesendahóp að því er virðist. Áreiðanlega væri grundvöllur fyrir fleiri veðurbloggum.

Fyrir nokkrum áratugum gáfu íslenskir veðurfræðingar út tímaritið Veðrið, alþýðlegt rit um veður, sem kom út í ein tuttugu ár. Þá höfðu veðurfræðingar yndi af því að fræða almenning.

En núna? Nú gerist lítið sem ekkert í þeim efnum.

Hitt er annað mál að talsverð vinna fer í að taka saman veðurlegt efni og veðurfræðingar eru  væntanlega önnum kafnir.

Mig langar samt til að halda að fíknin til að fræða sé ekki alveg horfin meðal veðurfræðinga. 

Hugmynd Sveins Sigurðssonar ættu þeir endilega að gera að veruleika - á netinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég held að svona veðurskýringaþættir gætu alveg gert sig í sjónvarpi og mín vegna mættu þeir alveg vera í fullri bíómyndalengd.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.9.2009 kl. 21:37

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Auðvitað gætu þeur gert sig í sjónvarpi og því lengri því betra en ég held að það verði aldrei!

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.9.2009 kl. 23:14

3 Smámynd: Jón Arvid Tynes

Ég myndi gjarnan vilja, auk þess er þú tilgreinir, sjá tengingu veðurs og annarra náttúrufyrirbrigða. Eins og t.d. veður - landmótun, veður - skógrækt o.sv.frv. Þegar ég var ungur einkaflugmaður. Þá leit maður við á Veðurstofunni til að spjalla við veðurfræðing áður en lagt var í langflug. Eftir heimkomu kom maður aftur við til að segja frá veðrinu í fluginu. Þannig varð til gagnkvæm þekking og reynsla fræðings og "notanda". 

Jón Arvid Tynes, 6.9.2009 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband