Á að banna nafnlaus blogg

Það er uppi nokkuð hörð krafa um það að banna nafnlaus blogg og jafnvel önnur nafnlaus skrif á netinu. Ástæðan er sögð vera svívirðingar og ærumeiðingar nafnlausra bloggara.

Fullyrt er að nafnlausir bloggar geri ''lítt annað en að níðast á öðrum''. Þetta er djörf fullyrðing og hæpin. Hefur nokkur könnun, formleg eða óformleg, verið gerð á þessu? Meirihluti þeirra nafnlausu blogga sem ég hef lesið eru í lagi. Nafnlaus blogg geta meira að segja verið alveg stórmerkileg.

Það er hægt að bregðast við einstökum bloggurum sem haga sér ósæmilega, hvort sem þeir blogga undir nafni eða ekki.

En að krefjast þess taka upp þá lagareglu að nafnlaus blogg  verði bönnuð  sem slík er frumstæð árás á tjáningarfrelsið. Ýmsir góðir menn hafa skýrt út hvers vegna svo er. Það verður ekki endurtekið hér að sinni.  

Hvaðan koma þær raddir sem vilja loka á eða þrengja að nafnlausu bloggi og netskrifum? 

Frá stjórnmálamönnum fyrst og fremst. Til dæmis Björgvin G. Sigurðssyni og Ragnheiði Ríkharðsdóttir.

Við skulum ekki láta þá komast upp með fyrirætlanir sínar. 

Það er svo umhugsunarefni út af fyrir sig hvað þeir stjórnmálamenn sem háværastir eru í að hefta frjálsa umræðu á blogginu undir því yfirskyni að losna við rógburð hugsa mál sitt grunnt og flausturslega. Þeir færa eiginlega engin þjóðfélagsleg rök fyrir máli sínu, einungis reiðiþrungnar reynslusögur.

Að banna nafnlaus blogg eða jafnvel nafnlaus skrif á netinu yfirleitt er ekki hægt að réttlæta með jafn einföldum hætti og því að slíkt sé misnotað af einstaka fólki.

Það er sorglegur vitnisburður um þjóðfélagsástand að fólk sem gegnir ábyrgðastörfum eins og að vera á Alþingi leyfi sér slíkar einfaldanir og þröngsýni þegar um er að ræða jafn mikilvæg og viðkvæm mál sem tjáningarfrelsið er snertir allt þjóðfélagið frá mörgum hliðum. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eigum við að banna þingmönnum að nota tölvupóst... eða eigum við að banna þeim að blogga fullir á nóttunni.... eigum við kannski að banna internetið.

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 12:41

2 Smámynd: Björn Birgisson

Sigurður Þór, þetta er góður pistill. Málið er vandmeðfarið. Frelsinu fylgja alltaf vandamál, því margir kunna ekkert með það að fara. Nafnleysinu fylgja svo fjölmargar hættur, eins og dæmin sanna, þótt meirihluti bæði nefndra og nafnlausra ástundi ekki níðskrif um náungann. Það er endalaust hægt að misnota hlutina, ef viljinn til þess er eindreginn. Aðalatriðið í þessu máli er að hægt sé að rekja allar færslur ef þörf er talinn á því. Þá er hætt við að einhver, málaður út í horn, segi: Hver var í tölvunni minni fyrir viku að níða niður þingmenn?

Björn Birgisson, 7.9.2009 kl. 13:30

3 identicon

Góður pistill.  Mér hefur ekki virst að gælunafnabloggarar séu orðljótari en þeir sem nefna sig hefðbundnari nöfnum.  Það eru líkast til svartir sauðir í báðum hópum.

 Ég átta mig ekki á þessu ákalli um nafnbirtingar t.d. hér á moggabloggi þar sem bak við alla bloggara, nefnda sem nafnlausa, er kennitala og því væntanlega hægt að rekja hvaðan níðið kemur ef það verður slíkt að það þurfi.

Halldóra Traustadóttir (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 14:20

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Góður pistill............ýmsar ástæður kunna að vera fyrir því að fólk bloggi nafnlaust.  Að banna nafnleysi er aðför að tjáningarfrelsinu.

Hólmdís Hjartardóttir, 7.9.2009 kl. 14:47

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Um leið og ég vil þakka fyrir þessa stórgóðu pistla þína um "nafnlausu bloggarana" langar mig að leiðrétta misskilning sem ég hef orðið vör við í umræðunni.

Bloggari er sá sem er með bloggsíðu og skrifar bloggpistla - hvort sem er undir nafni eða ekki. Bloggarar skrifa síðan oft athugasemdir hver hjá öðrum.

Svo er sá hópur fólks sem bloggar ekki sjálfur, heldur skrifar athugasemdir við bloggpistla annarra. Ýmist undir nafni eða ekki.

Að skrifa bloggpistil á eigin bloggsíðu og skrifa athugasemdir á bloggsíður er ekki það sama. Sá sem bloggar ekki en skrifar athugasemdir er ekki bloggari. Hann er athugasemdaskrifari.

Mér virðist sem umræðan um "nafnlausa bloggara" eigi helst við um þessa athugasemdaskrifara, ekki sjálfa bloggarana. Það er því beinlínis rangt að tala um "níð eða róg nafnlausra bloggara", því téð skrif eru oftar en ekki nafnlausar athugasemdir við pistla bloggara sem skrifa í eigin nafni.

Athugasemdaskrif eru ekki blogg þótt margir virðist halda það - meira að segja sumir athugasemdaskrifararnir sjálfir.

Það er því brýnt, þegar fólk setur fram gagnrýni eins og nokkrir stjórnmálamenn nú, að gera skýran greinarmun á þessu tvennu og taka fram hvort verið sé að tala um pistla bloggaranna sjálfra eða nafnlausar athugasemdir.

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.9.2009 kl. 14:53

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er alveg hárrétt athuga hjá Láru Hönnu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.9.2009 kl. 15:06

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Það er annar hver bloggari að blogga um þetta mál þessa dagana. Allir hafa skoðun á þessu, nema þeir sem blogga ekki undir nafni, að DrE kannski undanteknum. Hann kemur víða við og ver sinn málstað sem er gott. 

Ég sé ekki í fljótu bragði hvernig hægt er að stöðva bloggróg, sem mér finnst öllu mikilvægara en að stöðva nafnleysingja.  

Ég sé heldur ekki hvernig hægt er tæknilega að stöðva nafnleysingja frá því að blogga sjálfir.

 Og ég sé ekki hvernig það er hægt á sömu forsendu að banna þeim á gera athugasemdir.

Einstaka bloggsvæði geta jú sett sínar reglur eins og t.d. blog.is, en það eru hundruð ef ekki þúsundir bloggsvæða til í heiminum og til að koma lögum yfir þær þarf að setja alþjóðleg lög og einhver batterí í hverju landi til að fylgjast með að slíkum lögum verði framfylkt.

Jafnvel Kínastjórn með öll sín tugþúsunda net-varðhunda getur ekki komið í veg fyrir aðgang þegna sinna að internetinu.

Fólk hakkar sig alltaf í gegn um kerfin því internetið er í raun og veru óheftur miðill þar sem fólk neyðist til að reiða sig á siðferðisvitund meðbræðra sinna í samskiptum sínum við hvert annað.

Svanur Gísli Þorkelsson, 7.9.2009 kl. 16:31

8 identicon

"Það er því brýnt, þegar fólk setur fram gagnrýni eins og nokkrir stjórnmálamenn nú, að gera skýran greinarmun á þessu tvennu og taka fram hvort verið sé að tala um pistla bloggaranna sjálfra eða nafnlausar athugasemdir."

Björgvin vill að bloggarinn beri ábyrgð á hinni nafnlausu athugasemd. Það er líka brýnt að menn geri sér grein fyrir því.

Arnþór (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 16:59

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eitt atriði: Bloggari getur ekki verið við bloggið sitt öllum stundum. Meiðandi athugasemd getur verið inni á blogginu jafnvel nokkra daga án  þess að hann veiti því athygli og hafi ráðrúm til að eyða henni. Er það sanngjarnt að krefja hann um ábyrgð á því? Blogg er ekki dagblað þar sem menn geta lesið yfir áður en það er sett á prent. Löggjöf um blogg verður að taka mið af ýmsu óvenjulegu af því að netið er ekki eins og hefðbundnir fjölmiðlar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.9.2009 kl. 17:28

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Vek athygli á því að ég er ekki fortakslaust á móti lagasetningu um blogg heldur hvet ég menn til að veita stjórnmálamönnum aðhald við slíka lagasmíð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.9.2009 kl. 17:29

11 identicon

Þetta snýst ekki um nafnleysi, þetta snýst um að hefta mál og tjáningarfrelsi okkar allra.

Ekki láta rugla ykkur með reyk og speglum.

Þarf ég að tala um tölvupósta þingmanna... eða blogg um nætur undir fullu nafni ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 20:16

12 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

Sammála Láru Hönnu hér að ofan, það er mikill munur  á því að vera með bloggsíðu og hins vegar  og að skrifa athugasemdir við pistla þeirra sem eru með bloggsíður,

þakka góðan pistil

Hulda Haraldsdóttir, 7.9.2009 kl. 21:48

14 identicon

Eins og svo oft áður segi ég álit mitt með kisumynd

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 23:13

15 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Málfrelsið er mikilvægt. Það er í raun ein af grundvallarforsendum mannlegs samfélags eins og við þekkjum það og viljum viðhalda. En einhvers staðar eru mörk umræðunnar, skurðpunktur frjálsrar hugsunar og tillitsleysis andlegrar kúgunar og ósanninda, sem erfitt er að hrekja.

Ríkjandi gildi í siðferðilegum efnum hafa m.a. orðið til af hagnýtum ástæðum.  Hegðun, sem hefur þessi gildi fyrir aðfellu, skilar farsælli lausnum fyrir valið samfélag. Ég tel, að margir gestir í bloggheimum fari langt út fyrir þau mörk, sem eðlileg geta talist og eru í þágu árangursríkrar umræðu. 

Nafnleysi losar um eðlilegar hömlur og ýtir undir hvatir, sem jafnvel höfundarnir sjálfir vilja ekki hampa í eigin persónu. Það gefur tilefni til víga úr launsátri.

Hér áður fyrr voru ekki öll víg morð. Það var morð, þegar vígamenn sögðu ekki til sín.  

Sigurbjörn Sveinsson, 7.9.2009 kl. 23:40

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Aðalreglan er sú að sá sem kallar sig DoktorE ber sjálfur ábyrgð á því sem hann skrifar í eigin bloggi og athugasemdum við annarra blogg, og umsjónarmenn Blog.is eru með kennitölu hans.

Skrifi hins vegar kötturinn hans Sigga óhróður hér um menn, annað hvort í sjálfu blogginu eða athugasemdum við bloggið, og Siggi harðneitar að fjarlægja steypuna, væri hægt að höfða mál gegn Sigga, þar sem kötturinn hefur enga kennitölu.

Rétt nöfn DoktorsE og kattarins skipta hér engu máli.

Þannig er það nú í pottinn búið.

Þorsteinn Briem, 7.9.2009 kl. 23:46

17 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hann Mali er vel upp alinn og kurteis köttur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.9.2009 kl. 23:52

18 identicon

Þetta hömluleysi og hvatir Sigurbjörn... kemur þetta yfir þig þegar þú skrifar undir leyninafni, persónulega finn ég ekki fyrir þessu :)

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 23:54

19 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég hef ekki reynt það á sjálfum mér og ætla ekki að gera.

Sigurbjörn Sveinsson, 8.9.2009 kl. 00:00

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 5.500 Íslendingar heita Jón, samkvæmt Hagstofunni, og það segir nú flestum harla lítið ef einhver Jón Jónsson skrifar hér athugasemdir, eða þá John Smith.

Og ég veit ekki til þess að vísindalegar rannsóknir hafi sýnt fram á að þeir sem heita algengum nöfnum séu almennt ósvífnari á Netinu en þeir sem bera óalgengu nöfnin.

Samkvæmt þeirri kenningu ættu að vera óvenju kurteisir hér á Netinu þeir Saxi Melrakki Snæringsson, Jeremías Engill Myrkvason, Aríel Þiðrandi Stormsson, Ljúfur Knörr Gjúkason og Þyrnir Fenrisson.

Þorsteinn Briem, 8.9.2009 kl. 00:10

21 Smámynd: Kama Sutra

Góður pistill tengdur þessari umræðu:

http://www.ak72.blog.is/blog/ak72/entry/944417/

Kama Sutra, 8.9.2009 kl. 00:23

22 identicon

Það er aldrei hægt að banna þetta, minni á að netið er ekkert í íslenskri lögsögu. Það er svo að netverjar hafa fært sig til Bresku jómfrúareyja (Virgin Islands) þar sem m.a. eyjan Tortola. Þetta gera þeir til að "afhjúpa" útrásarvíkinga með opinberum gapastokk eins og Hvítbók. Wikileaks afhjúpunin er einnig dæmi um þetta enda er löggjöfin mjög ströng hér og fjölmiðlar og einstaklingar oftast ofsóttir af peningamönnu. Þeir sem eru með rógburð og dónaskap dæma sjálfan sig enda taka flestir alvöru bloggarar slík "comment" út af sínu athugasemdasvæði.

Eiginlega er það kaldhæðnislegt að maður eins og Björgvin G sem hélt ótal ræður á alþingi til að vernda eignarhald auðmanna á fjölmiðlum, hið svokallaða fjölmiðlafrumvarp á sínum tíma bregst svona við. Þessi viðbrögð hans valda þessum dæmigerðu Streisand áhrifum http://en.wikipedia.org/wiki/Streisand_effect.

Gunnr (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 07:40

23 identicon

Mæli með að foreldrar, sem eru í leit að frumlegum og nýstárlegum nöfnum á afkvæmi sín, snúi sér til Steina Briem. Hann hefur ráð undir rifi hverju! Ég skemmti mér konunglega við lesturinn:)

S.H. (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 08:26

24 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Góð ábending um að það sé búið að skilgreina þetta fenómen, sem Björgvin flokkast nú undir. Raunar hef ég séð þetta margoft í annarri mynd, en það er þegar einhver agfkimabloggari bloggar um eitthvað hneykslanlegt. Þá júka rétthugsunarhænsnin upp til fjaðra og fóta til að sveipa sog réttlætis og samhygðarljóma með að básúna skrif, sem annars enginn hefði tekið eftir.

Ágætt dæmi var 15 ára dregur, sem mærði Hitler og taldi sig nýnasista nú eða Skúli Skúla.  Skúli varð einhver víðlesnasti penni á landinu þarna á tímabili.

Streisand effektinn:

The Streisand effect is an Internet phenomenon where an attempt to censor or remove a piece of information backfires, causing the information to be widely publicized. Examples of such attempts include censoring a photograph, a number, a file, or a website (for example via a cease-and-desist letter). Instead of being suppressed, the information receives extensive publicity, often being widely mirrored across the Internet, or distributed on file-sharing networks.

Svo má nefna hinn alíslenska Lúkasareffekt,þar sem komið var af stað ofsóknarbylgju á hendur saklausum dreng, sem hlautmikla angist og skaða af. Allt var byggt á sögusögnum og ályktunum. Myndir af "ódæðismanninum" voru birtar, símanúmer og heimilisfang gefið upp. Þar voru bloggarar undir nafni á ferð.

Annars tek ég undir með Láru Hönnu hér með aðgreiningu tvennskonar penna.  Ég get annars ekki fallist á að ég beri ábyrgð á athugasemdum.  Það væri einungis hægt að kalla mig til ábyrgðar ef ég sýndi samsekt með því að neita ítrekað að taka út athugasemdir. Það yrði þó að hafa ansi sterkar ástæður og vel rökstuddar.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.9.2009 kl. 09:55

25 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars hefur það komið mér á óvart hve margir nafnabloggarar og forsíðubloggarar hafa sínt mikkla fordóma, skammsni og greindarskort í þessari umfjöllun. Fúkyrðaflaumurinn og hreinlega rógburður um einn hóp penna hér er algerlega taumlaus.

Er þetta sama fólkið og vill senda alla útlendinga úr landi af því að einhver maður "af erlendu bergi" brotinn framdi glæp?

Sem er í raun ágætis vitnisburður um frammistöðu hins opinbera í slíku, þegar lögregla sér sig knúna til að hnýta slíku aftan við fréttatilkynningar, blásaklausu fólki til armæðu og skaða.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.9.2009 kl. 10:01

26 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Í aldanna rás hefur verið slúðrað.

Fyrst munnlegt:

"Ólyginn sagði mér að fyrrverandi eiginkona fyrrverandi ráðherra kvartaði mikið yfir fylleríinu sem fylgdi embættinu."

Svo skriflegt:

Fyrrverandi ráðherra var svo oft fullur í vinnunni að fyrrverandi eiginkona hans fékk nóg og skildi við hann.

Gasprari (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 09:09

Við ættum því að vera fullfær um að skilja hismið frá kjarnanum þó við séum ekki með kennitölu sögumanns við hendina. Mest rótið vegna nafnlausra ummæla virðist reka stoðum undir speki hins fornkveðna, að sannleikanum verður hver sárreiðastur...

Sigurður Ingi Jónsson, 8.9.2009 kl. 10:02

27 identicon

Lagasetningar, boð og bönn sýna oftar en ekki úrræðaleysi og hugmyndaskort þeirra sem eftir þeim kalla. Svokallaðir ytri hvatar gagnast illa og oftar er ekki verður kostnaðurinn af því að koma þeim á og viðhalda þeim meiri en hagnaðurinn sem af hlýst.

Hvort heldur um er að ræða uppeldi gæludýra, barna eða netverja hlýtur forsenda góðs árangurs að vera sú að fá þann brotlega til að finnast eftirsóknarvert að breyta hegðun sinni. Betrun er slíkt kallað. Auk þess er í raun óásættanlegt fyrir okkur sem notum netið, hið stafræna almenningsrými, að hefðir og venjur sem skapast í kringum þá notkun verði mótaðar af öðrum en okkur sjálfum.

Persónulega hef ég ekki nokkurn áhuga á Björgvini Sigurðssyni og hefði að öllum líkindum verið hamingjusamlega óafvitandi um meintan drykkjuskap og kvennafar hefði hann ekki vakið athygli mína á málinu sjálfur. Ef Björgvin og kollegar hans í þinginu telja að réttlætanlegt sé að setja hamlandi regluverk um helstu lýðræðisvörn nútímans sökum þess að þeim er misboðið sýnir það betur en nokkuð annað hversu rækilega þau misskilja hlutverk sitt og hversu illa hæf þau eru til að stjórna. Góður stjórnandi leiðir og fær aðra með sér en setur ekki lög á þá sem hafa aðra sýn á viðeigandi framkomu en hann sjálfur hefur. Eða á viðkvæmt taugakerfi BS að verða viðvarandi viðmið um hvað telst viðeigandi eða ekki í tjáskiptum fólks hér? Væri ekki heppilegra að blessaður maðurinn veldi sér starf sem ekki gustar um og taugakerfið ræður við.

agnúinn (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 10:43

28 identicon

Lög til að banna nafnlaus blogg, eru álíka gáfuleg og lög sem banna rigningu.

Þessi umræða er óþörf, og getur aldrei skilað neinu.

Þarf að halda einhverjar umræður um það hvort það gæti verið sniðugt að banna rigningu um helgar?

Löggjafinn hefur bara nákvæmlega EKKERT um þetta að segja.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 10:59

29 identicon

Við skulum ekki gleyma að mbl hefur gengið mjög langt í að stoppa af "nafnlausa" bloggara.
Sem er mjög fyndið vegna þess að allir eru skráðir með kennitölu og alls... þannig að þetta bann mbl er fyrirsláttur einn...
Hugsanlega vegna áeggjan trúarhópa og ofsatrúarmanna eins og herra  JVJ.
Talandi um JVJ hann hefur fengið óeðlilega fyrirgreiðslu hjá mbl... einu sinni settur í skammarkrók.. og svo beint á forsíðu aftur

DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 11:24

30 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir í athugasemd á bloggsíðu sinni að hún hafi ekki átt við að ætti að banna nafnlaust blogg með lögum heldur að bloggarar bönnuðu það sín á milli, skilst mér. Þetta er æði óskýrt. Þegar menn segja fullum fetum að ætti að banna eitthvað taka menn því eðlilega sem átt sé við löggilt bann. Það er nátturlega ekki gott að gera mönnum upp skoðanir en ég ætla samt að halda því fram að Ragnheiði hafi verið efst í huga lagalegt bann enda var tilefnið sem hún skrifaði út frá þess eðlis, grein Björgvins G. Sigurðssonar í Pressunni um nauðsyn þess að skýra lög um ærumeiðingar sem ekki er hægt að gera hvað varðar blogg nema setja ný lög. Þegar Ragnheiður skynjaði sterka andstöðu við þetta hafi hún tekið það ráð að segja að hún hafi aðeins átt við að bloggarar sín á milli settu nafnleysingja í bann. Svona held ég að þetta hafi verið.

Egill Helgason vísaði á bloggsíðu sinni í pistil minn ''Reiðir stjórnmálamenn eiga ekki að setja lög''.  Björgvin G. Sigurðsson skrifaði honum bréf en það var aðallega um einhver ósannindi sem hann vill meina að Egill hafi viðhaft um sig.

En mikið væri það fróðlegt og áhugavert ef þessir tveir alþingismenn tæku þátt í umræðunni hér hjá okkur. Ég þykist viss um að þeir hafi lesið færslu mína, því Lára Hanna vísaði beint á hana í athugasemd hjá Ragnheiði og Björgvin hefur séð tilvísun á hana á síðu Egils.

Bloggsíða mín er opin fyrir athugasemdir hvort sem þær eru með nafni eða nafnleysi.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.9.2009 kl. 12:34

31 identicon

Mér finnst mjög gaman að fá athugasemdir við pistla... mér er skítsama hvað menn heita sem setja athugasemdir.
Ég var bara stoltur yfir því að hafa aldrei hafnað athugasemd né bloggvináttu við nokkurn mann... reyndar bað mbl mig stöku sinnum að fjarlægja athugasemdir á mínu bloggi... mér er illa við slíkt en gerði alltaf eins og mbl bað um.

Fátt er ömurlegra en blogg sem ritskoðar athugasemdir.. það er eiginlega það ömurlegasta af öllu ömurlegu í bloggheimum

DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 13:04

32 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Undir þeta get ég sannarlega tekið DoktorE.

Sigurbjörn Sveinsson, 8.9.2009 kl. 13:41

33 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Björgvin vill að bloggarinn beri ábyrgð á hinni nafnlausu athugasemd. Það er líka brýnt að menn geri sér grein fyrir því."

Já, en er Björgvin ekki líka að tala um að sá sem á síðuna eða heldur henni úti beri ábyrgð á nafnlausum skrifum ?  Eg skil hann einna helst þannig.

Og þá væri þetta svipað og í prentlögum  frá 1956 sbr. 15 grein:

"Höfundur ber refsi- og fébótaábyrgð á efni ritsins, ef hann hefur nafngreint sig og er auk þess annaðhvort heimilisfastur hér á landi, þegar ritið kemur út, eða undir íslenskri lögsögu, þegar mál er höfðað.


Ef enginn slíkur höfundur hefur nafngreint sig, ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina, því næst sá er hefur ritið til sölu eða dreifingar, og loks sá, sem annast hefur prentun þess eða letrun."

http://www.althingi.is/lagas/135a/1956057.html

Þá sem dæmi ef einhver vildi sækja til saka fyrir nafnlaus skrif á moggabloggi, þá mundi hann annaðhvort sækja Mogga til ábyrgðar eða Höfund viðkomandi bloggs o.s.frv.

(Þ.e. Mogginn væri þá útgefandinn en Bloggeigandinn ritstjórinn yfirfært á prentlögin)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.9.2009 kl. 15:39

34 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Heimildir til að höfða mál vegna ærumeiðinga á bloggi eru fyrir hendi. Það er erfitt að sjá, vegna sérstakra aðstæðna á netinu, hvernig menn ætla að fara að því setja frekari lög um nafnlausa bloggara án þess að þrengja að tjáningar- eða prentfrelsi umfram það sem nú er. Prentlögin og meiðyrðalöggjöfin viðurkenna alveg að tjáningarfrelsi fylgir ábyrgð og er því takmörkunum háð.     

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.9.2009 kl. 16:05

35 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já, í rauninni er þetta fyrir hendi.

En er ekki málið að hvað ef hann er nafnlaus.  Þá er kannski nafnlaust blogg td. á mbl.is ekki gott dæmi þar sem Moggi hefur allar bakupplýsingar um viðkomandi.

Það snýst þá frekar um td. þá sem td. kommenta nafnlaust eða eru undir dulnefni á spjallborðum ýmiskona.    Því, ja allavega eftir því sem mér er sagt, þá er hægt ef vilji er fyrir hendi að  möndla það þannig að nánast ógerningur er að rekja skrifin til ákveðinnar persónu.

Þ.e. að Björgvin virðist vilja gera þá sem halda viðkomandi síðum úti ábyrga.  Það mundi náttúrulega einfalda málið.  Þ.e. þá þyrfti ekki að elltast við að finna persónu á bakvið skrifin.

En þá kemur spurningin, hvað ef eigandi síðu er skráður erlendis o.s.frv.  Það er ógerningur að eltast við þetta held eg.  Ógerningur eða nánast ógerningur.

En það er ekki það,  eg er ekkert sérstaklega á móti bafnleysi og er ekkert að fordæma það.  Eg er bara að velta þessu svona fyrir mér.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.9.2009 kl. 16:20

36 identicon

Bjöggi er að fara fram með þá tillögu að það sé útilokað að halda úti bloggi á íslenskum kerfum... síðan verður settur eldveggur í kringum ísland og stjórnmálamenn... og elítu.

Er Bjöggi ekki heimsspekingur... er hægt að læra að vera heimsspekingur... spurning

DoctorE (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 16:34

37 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Doksi er nú algjör civcil disobience cat!

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.9.2009 kl. 17:07

38 identicon

http://www.baggalutur.is/frettir.php?id=4643

Gullkorn frá Baggalúti varðandi okkur nafnleysurnar. 

"Nafnleysingjarnir Rhino1600 og SlutSluttySlut hafa náð sáttum eftir að hafa fundað stuttlega á heimili þess fyrrnefnda og farið yfir sín mál. Hafa þau átt í harðri ritdeilu á vefsvæði hannyrðakvenna undanfarið þar sem þau hafa rifist hatrammlega hvort þeirra setti fyrst inn uppskrift af rauðröndóttum trefli með krókódílamynstri.

Í sameiginlegri yfirlýsingu segjast þau hafa náð fullum sáttum. Hefur SlutSluttySlut beðist velvirðingar á að hafa kallað Rhino1600 „þröngsýnan innflytjanda og nautheimskan þykkskinnung“ – og hefur hann sömuleiðis beðist afsökunar á að hafa kallað hana „vergjarna uppgjafarmellu“.

Eftir að hafa kynnst viðurkenndu þau að bæði hefðu nokkuð til síns máls, auk þess sem þau komust að því að þau höfðu bæði stolið prjónauppskriftinni af sömu tékknensku vefsíðunni."
 

Gunnr (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 17:35

39 Smámynd: Kama Sutra

Nú er óðum farið að styttast í að Hvítþvottaskýrsla Alþingisnefndarinnar um hrunið fari að opinberast (1. nóvember).

Kannski það sé aðalástæðan fyrir því að sumir Alþingismenn eru nú orðnir kappsfullir við að reyna að koma loki á umræður okkar? - hins stórhættulega almúga...

Kama Sutra, 8.9.2009 kl. 17:40

40 identicon

Egill Skallagrímsson  @ egillskall.omniblog.no
Ek fagna því at taka eigi í lurg nafnleysingja ok slefbera á Internetinu.

Sérstaklega væri ek til í ná í skottið á duglausu rógburðarlyddunni sem skrifaði Eglu!! 

Egill Skallagrímsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 18:03

41 identicon

Já mér þykir að banna eigi nafnlaus blogg  því það verður að vera eitthvað nafn. Einu sinni sagði   enginn að ég væri ljót,  þá varð ég mjög hrygg.

Brúnkolla (IP-tala skráð) 9.9.2009 kl. 22:48

42 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Nú er þessi færsla að brenna út. Ekki á tíma heldur andleysi.

Það er gaman að velta fyrir sér athugasemdafjöld við færslur af ýmsu tagi. Mér sýnist að árásir á trú fólks gefi best af sér. Þær eru svona 160 athugasemda færslur því yfirleitt fara þær út í fjarstæðukenndan farsa um óskyld efni og enda í ærslafullum galsa.

Næst koma færslur um mannréttindi og jafnvel illa meðferð. Þau fara oft nærri hundraðinu og svara þörf samfélagsins fyrir samhygð.

Færslur um bloggið eins og þessi ná oft nokkrum tugum athugasemda því allir eru þar á heimavelli.

Síðast fara færslur um veðrið. Þær fara fyrir öðrum færslum enda taka þær með sér fáar athugasemdir, rjómann, sem oftast eru viturlegar og fræðandi.  

Verði mönnum það á, að yrkja ljóð á blogginu, er farið með það eins og mannsmorð, jafnvel þótt vígamaðurinn hafi sagt til sín.

Sigurbjörn Sveinsson, 9.9.2009 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband