Reiður stjórnmálamaður á ekki að setja lög

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, segir farir sínar ekki sléttar varðandi rógburð nafnlausra manna um hann á netinu.

Það er eðlilegt að maður sem verður fyrir slíku sé sár og reiður.

Mér finnst þó mest ástæða til að menn láti ekki framhjá sér fara þessi orð Björgvins:

''Draga þarf þá til ábyrgðar fyrir róginn og nafnlausa níðið á netinu sem halda úti síðunum sem gera fólki kleift að hamast á æru fólks með lygum og rógburði í skjóli nafnleyndar.  Ljóst er að verulega þarf að skýra lög um ærumeiðingar og refsiábyrgð vegna hennar og mun ég beita mér að öllu afli til þess að hún fari fram og gangi hratt.''

Björgvin er alþingismaður og hefur því aðstöðu til að gera það sem hann segir: að  hrinda fram  löggjöf með hraði.

Það er hins vegar full ástæða til að hafa áhyggjur af því að reiður stjórnmálamaður sem á persónulegra harma að hefna og er auk þess hluti af valdakerfinu  vilji setja lög sem varða tjáningarfrelsi. Það er einfaldlega hætt við því að þó lögin eigi að hafa sómasamlegt markmið - að koma í veg fyrir nafnalausar  ærumeiðingar á netinu - verði þau þannig úr garði gerð að þau muni hefta ritfrelsi og tjáningarfrelsi á óeðlilegan hátt. Dæmi eru um það í öðrum löndum að lög sem eiga að tryggja vissa hagsmuni fólks, sem kannski eru góð og gild,  verði valdastéttunum kærkomið skálkaskjól  til að bæla niður gagnrýni og andóf. 

Lagagerð í málum sem eru jafn viðkvæm og flókin sem tjáningarfrelsi á  svo vitaskuld ekki að setja með hraði heldur að vandlega íhuguðu máli. Bálreiður stjórnmálamaður á   heldur alls ekki að setja lög. Hann á að hafa hægt um sig til að skapa ekki vandræði.

Það er full ástæða til að almenningur hafi stjórnmálamenn í strangri gæslu og veiti þeim strangt aðhald þegar þeir ætla sér að setja lög sem snerta tjáningarfrelsi. 

Reyndar er þessi pistill Björgvins afar óskýr. Hann talar til dæmis um að skýra þurfi lögin um ærumeiðingar þegar hann á greinilega við að setja þurfi ný lög. Það er einmitt oft háttur stjórnálamanna að vera óskýrir og gefa ekki almennilega uppi markmið sín. Þess vegna þarf að passa vel upp á þá að þeir fari ekki þjóðinni að voða.

Síðasta hugsun Björgvins í pistlinum er hreinlega út í hött og gengur ekki upp: 

''Verði það niðurstaðan að það sé löglegt og siðlegt að fólk níðist nafnlaust og án ábyrgðar á fólki á netinu skal það allavega liggja fyrir hver ber þá ábyrgðina og hvert skal hana sækja þegar um ærumeiðingar er að ræða''. 

Það liggur í augum uppi að verði  niðurstaðan sú að það sé löglegt að fólk níðist á öðrum nafnlaust og án ábyrgðar á netinu þarf enginn að bera á því ábyrgð  - það er jú löglegt - af því tagi sem Björgvin á við og ábyrgðina þarf því ekki að sækja neitt. 

Það er innri mótsögn í orðum hans. Þau eru því sannarlegt rugl. Eins og svo margt sem frá stjórnmálamönnum kemur og við höfum fengið okkur fullsödd af. 

Ég þarf varla að taka það fram að ég hef andstyggð á þess háttar rógburði og slúðri sem Björgvin segist hafa orðið fyrir.

Það breytir ekki því að ástæða er til að veita honum og öðrum stjórnmálamönnum strangt aðhald í hvers konar hugsanlegri lagasetningu sem þeir stofna til er varða tjáningarfrelsi.

Þjóðin hefur reynslu af því að stjórnmálamönnum er varlega treystandi fyrir mikilvægustu hagsmunum þjóðarinnar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ragnar Guðmundsson

Takk fyrir Sigurður.

Þetta mál er dæmigert fyrir það hvernig stjórnvöld undirbúa jarðvegin fyrir skerðingu á frelsi okkar.

Guðmundur Ragnar Guðmundsson

kt 110756-7049

Guðmundur Ragnar Guðmundsson, 6.9.2009 kl. 22:00

2 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Ég tek heilshugar undir þetta og spyr mig hvernig standi á því að hann lofi ekki að keyra í gegn lög sem geta komið þjóðinni til hjálpar.

Hér má nefna flýtimeðferð á lögum um það hvernig taka skuli á málum hrjáðra fjölskyldna sem ekki geta lengur borgað af sínum skuldum.

Einnig lög sem tryggja að klúðrir mikla verði ekki einungis eitthvað sem við ræðum um yfir kaffibolla heldur verði hægt að sækja menn/konur til saka þegar og ef upp kemst um sekt þeirra.

Lilja Skaftadóttir, 6.9.2009 kl. 22:46

3 Smámynd: Kama Sutra

Stundum verð ég alveg agndofa og orðlaus yfir forgangsröðuninni hjá stjórnmálamönnunum okkar.

Halló, Björgvin!  Hrundólgarnir ganga ennþá lausir - núna tæpu ári eftir hrunið!  Hvað ertu að gera til að bæta úr því?!

Kama Sutra, 6.9.2009 kl. 22:58

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Heyr heyr!

Jón Steinar Ragnarsson, 7.9.2009 kl. 04:37

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir afar vel skrifaðan og vandaðan pistil Sigurður.

Hrannar Baldursson, 7.9.2009 kl. 08:59

6 identicon

Þetta sannar hið fornkveðana: Íslenskir stjórnmálamenn hreyfa ekki á sér rassgatið nema fyrir sjálfa sig.

Þjóðin í rúst... og þetta er mikilvægasta mál í heimi í höfði Bjögga... ,það þarf að taka þennan dreng af þingi.

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 09:21

7 identicon

Það er etv ekki líklegt að hann hafi mikinn áhuga á því að grúska í hruninu.  Mörg stærstu mistakanna áttu sér líklega stað á hans vakt, þó hann hafi sloppið ótrúlega vel við gagnrýni vegna þess.

 T.d. voru Icesave reikningarnir í Hollandi settir af stað EINU ÁRi eftir að hann settist í ráðherrastól viðskipta.

Furðulegt að hann hafi yfirleitt komist á þing aftur, hverjir kusu hann eiginlega ??

Guðjón (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 10:59

8 identicon

Lurkar og steinar brjóta mín bein

en orðin og mannanna mas

fer sem vindur um eyru.

Bárður R. Jónsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 11:51

9 identicon

Bárður... penninn er sterkari en sverðið og steinar + lurkar :)

DoctorE (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 12:02

10 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Hér eru orð í tíma töluð. Takk fyrir þennan pistil Sigurður Þór sem öllum, sérstaklega stjórnmálamönnum, er hollt að lesa.

Jón Baldur Lorange, 7.9.2009 kl. 22:52

11 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Takk fyrir þetta. Þjóðin verður að vera vakandi og fylgjast vel með.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 8.9.2009 kl. 07:59

12 identicon

Reiður stjórnmálamaður á ekki að seja lög - enginn ætti að fara svangur í búðina...

Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband